Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2024
31.7.2024 | 00:15
Konur verða að krefjast hærri launa - söngtexti eftir mig, frá 2002.
Söngtextinn:"Konur verða að krefjast hærri launa" frá 14. janúar 2002, væntanlegt lag á endurútgefinni hljómplötunni:"Við viljum jafnrétti" frá 2002, þegar ég fæ fjárhagslegan stuðning og hvatningu.
Maður verður að leyfa verkum sínum að lifa úr fortíðinni hvort sem maður er sammála þeim eða ekki. Maður breytist með tímanum og skiptir um skoðun.
Þegar við tónlistarmenn semjum lög á plötur okkar þá gerum við það með misjöfnum hætti. Sumir gera það á skömmum tíma, aðrir á lengri tíma. Sumum gengur erfiðlega að semja lög og texta en öðrum veitist það auðveldara. Aðeins í seinni tíð hef ég ort lítið og gert fá lög. Þegar ég var yngri fannst mér þetta bæði auðvelt og skemmtilegt. Nú hef ég misst áhugann, finn ekki tilganginn í þessu, nema rétt svo til að viðhalda hæfninni, eins og gleyma ekki að hjóla, ef maður hefur einu sinni lært það.
Þarna var ég í blóma lífsins og vann eins og hestur. Ég tók þetta skipulegum tökum. Ég valdi mér viðfangsefni og skoðaði frá öllum hliðum.
Því miður var dómgreindarbrestur minn svo mikill að gefa út lög á þessum jafnréttisplötum einnig gegn jafnréttinu, og hinum pólitíska rétttrúnaði. Það verður betrumbætt í endurútgáfunni og þá verður þetta ritskoðað (hérumbil alveg) í hel, ekkert nema hreinn rétttrúnaður.
Ég lærði af Einari Benediktssyni, Steini Steinarr, Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi og allskonar þannig þjóðskáldum sem fjölluðu um málin frá mörgum hliðum og oft í fyrstu persónu.
Þannig að þetta er ekki hræsni í mér heldur skáldleg tilþrif. Mínar efasemdir eða skoðanir skipta ekki öllu máli, heldur að búa til söngtexta sem gott er að syngja, eins og meistari Megas sagði oft í viðtölum um sín eigin verk.
Það eru til nokkrar uppteknar útgáfur af þessu lagi frá 2002. Til dæmis ein þar sem textinn er sunginn hratt og viðlaginu sleppt nema á tveimur stöðum. Sú upptaka tekur um 3 mínútur. Svo eru til lengri útgáfur, og upptökur þar sem mörgum erindum er sleppt.
Galdurinn sem í þessu felst er að láta skáldfákinn bera sig á slóðir þeirra skoðana sem til eru í eternum. Að vera sammála því sem maður er kannski ósammála, finna í því sannleika og sátt. Ég er stoltur af þessu ljóði, það virðist passa vel við þennan stöðuga áróður um einmitt þetta í RÚV og víðar.
Eins og ég hef oft fjallað um áður í pistlum þá var ég vinstrisinnaður 1983-1987, þó það sé kannski frekar mikil einföldun, því inn á milli komu önnur sjónarmið í verkum mínum einnig, en bara minna.
Já ég var sannfærður um þetta undir áhrifum frá kennurum og tónlistarmönnum eins og Bubba Morthens, Megasi og Bob Dylan, og sennilega fleirum.
Þegar ég set mig í þennan gír, að vera sammála vinstrimönnum, þá þarf ég bara að rifja upp hvernig mér leið á þessum tíma og hvað réttlætiskenndin sagði mér um þessi mál.
Fyrir þessar plötur var metnaður minn mikill. Ég samdi mjög mikið af lögum af allskonar tagi.
Eins og kom fram á textablaðinu við "Hátinda", sem dr. Gunni gaf út 2009 og var safnplata með mínum lögum, þá var mikið af afgangsefni tekið upp fyrir þessar plötur á þessum árum.
Það er vegna þess að maður tekur upp lög í blindni eiginlega, maður semur lög með það að markmiði að hafa úr mörgu að velja þegar maður velur 10 stykki að lokum.
Þetta lærði ég af Magnúsi Eiríkssyni þegar ég las Poppbókina hans Jens Guðs, sem mér var gefin í fermingargjöf árið 1984. Ættingjar mínir vissu að ég vildi verða poppari og gáfu mér hana.
Magnús Eiríksson sagði í viðtali í þessari bók að eftir því sem menn gerðu fleiri lög gætu þeir hent fleiri lögum í skúffuna sem afgangslögum, og úr yrði sterkari heild, sterkari hljómplata.
Því miður fór ég ekki alveg eftir þessu þegar ég gaf út jafnréttisplöturnar fyrst, 2001-2003. Það var vegna þess að ég fór eftir mjög einfaldri forskrift sem ég ákvað 1997-1998. Ég taldi það flott að gefa út kvenhaturslög eins og Megas, svona er að eiga fyrirmyndir sem eru sérstakar og vilja vera sérstakur líka.
Maður er í misjöfnu skapi þegar maður býr til lög og texta. Til dæmis var það þannig að ef einhver falleg stelpa brosti til mín gat ég samið 10-20 jákvæð og skemmtileg lög á einum degi í kjölfarið eins og ekkert væri. Eins var það þannig að ef paranoian mín taldi mér trú um að kvenfólk hataði mig á öðrum degi sem ekki var eins góður og skemmtilegur gat ég samið 10-20 kvenhaturslög á einum degi eins og ekkert væri. Svona er þetta.
Ég hef lært að svona perlur verða ekki endurteknar, það er að segja, maður getur ekki endilega samið svona lög núna meira en 20 árum seinna. Þessvegna vill maður halda uppá þetta og athuga hvort fólk fílar þetta.
Annað er merkilegt, að eftir því sem maður syngur svona lög oftar þá sannfærist maður um boðskapinn í þeim.
Alla vega, ég man ekki nákvæmlega hvað ég var að pæla þegar ég samdi þetta. Þetta var á þeim tíma sem ég samdi lög á færibandi og samkvæmt forskrift. Ef ég var í réttu skapi þann daginn neyddi ég mig til að semja að minnsta kosti 10 lög og texta, sem hugsanlega útgáfuvæn stykki síðar á árinu.
Rithöfundar setjast niður þegar þeir skrifa bækur. Tónlistarmenn og ljóðskáld gera það í sumum tilfellum líka, bíða ekki eftir andanum, heldur beizla hann, þar sem hann finnst í loftinu, í formi skoðana sem skáldið hefur kynnt sér eða numið af öðrum.
Sum ljóðskáld bíða samt eftir "andanum". Ég hef líka gert það stundum. Þetta er með ýmsu móti.
En þetta er engu að síður texti sem passar alveg inní okkar tíðaranda, eða jafnvel miklu betur núna 22 árum síðar, ekki satt?
Það er meiri harka í þessum málum í nútímanum. Ég vil njóta vinsælda sem tónlistarmaður. Því miður gengur það erfiðlega þegar ég tala gegn pólitískum rétttrúnaði. Svona verk úr fortíðinni hjálpa mér að halda mér á réttu línunni.
Db7
Nýi tíminn, gæfa og gleði.
Ab7 Db7
Gamli tíminn, víti og pína.
Gb
Karlar núna konum þjóna;
Eb Db7
konum skaltu hlýðni sýna.
Viðlag:
G F Db7
Konur verða að krefjast hærri launa!
Eb Db Db7
Konur verða að krefjast hærri launa!
G F Db7
Konur verða að krefjast hærri launa!
Ab7 Db7
Kanntu á feðraveldið nú að bauna?
Kirkjur, messur, kristni, fortíð,
konur vilja eitthvað betra.
Ef við föllum aftur niður
óðar fer hér þá að vetra. (Viðlag).
Ömurleiki okkar tíma:
Einhver launamunur kynja.
Rétt þinn skaltu reyndar vernda,
rembu fornri skaltu synja. (Viðlag).
Skil ég þessa skugga tímans?
Skaltu ekki launa krefjast?
Mannréttindi, meiri jöfnuð,
mannsins vonir upp svo hefjast. (Viðlag).
Eitthvað sem þú oft á trúðir
er nú veiklynt, fallið niður.
Aðeins sigrar alger jöfnun:
Út frá konum breiðist friður. (Viðlag).
Loksins framför lifnar eilíf,
Loki dregst til hliðar fölur.
Unga fólkið allt nú bætir,
ekki er þetta langur spölur. (Viðlag).
Réttlát augu, góðlynt geðslag,
gífurlegur andastólpi.
Réttsýnn maður, rímvís, skynall
rennir niður liðnu skólpi. (Viðlag).
Millivers:
E
Karl í konu býr,
E
krafan birtist enn.
A
Stríð og starfi dýr,
H Hm Db7
stærri krafa senn.
Konur alla karla gleyptu,
kanntu að stjórna miklu betur?
Þenja skal út þjóðir, stofna
þar til upp rís hinzti vetur. (Viðlag).
Unga fólkið, allt það bezta,
engin mistök, bara speki.
Góðvild, mildi, gleði og friður,
góðúð okkar mannúð veki. (Viðlag).
Feðraveldið fúla, vonda,
fellir þig og kvelur gjarna.
Við skulum ekki skugga lofa,
sköpum góða framtíð barna. (Viðlag).
Jöfnum kjörin, jörðin batni,
ég vil öllum hjálpa meira.
Þeir sem hræðast þurfa að tala.
Þráum kæfða rödd að heyra. (Viðlag).
Nýi tíminn, gæfa og gleði,
gamli tíminn, hörmung, pína.
Stefnan loks er sterk og rétt nú.
Stúlkum skaltu ástúð sýna. (Viðlag).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2024 | 16:58
Öfgasamtök og öfgasjónarmið eru rótgróin í samfélaginu. Femínisminn.
Við höfum ósammála fólk í dómskerfinu eins og annarsstaðar. Við höfum Woke-fólk annarsvegar og svo íhaldsfólk hinsvegar, sem styðst við réttlæti, hefðir, og bóklærdóm aldanna. Woke-fólkið hefur verið til á öllum öldum, en verið kallað ruglað, barnalegt og einfalt. Ekki lengur, ekki eftir að sumar konur og vinstriöfgamenn, jafnaðaröfgamenn, komust til valda og þeirra barnslega trú á jafnrétti raungerðist miskunnarlaust.
Helgi Magnús var í raun að viðra það sem var umtalað í samfélaginu, en ekki að lýsa eigin fordómum, eða ef menn vilja kalla íhaldssemi fordóma, þá eru allt fordómar nema woke.
Menningarstríð er gott orð, eða andleg barátta eins og kristnir menn nota um myrkraverur Satans.
Sigríður J. Friðjónsdóttir er erkifemínisti og þarf ekki lengi að skoða störf hennar og feril til að komast að því. Vel má vera að flest í hennar störfum hafi verið unnið af sæmilegu hlutleysi, en ég minnist dómsins yfir Hlyni Frey Vigfússyni, og fólk sem fer gegn íslenzkum hagsmunum, það er víða við völd. Hún tilheyrir gömlu femínistakynslóðinni sem kom Vigdísi Finnbogadóttur til valda. Það er hún sjálf sem ætti að víkja úr embætti og þótt fyrr hefði verið. Vinsældir og uppgangur Trumps og slíkra hetja erlendis segir okkur að verið er að sópa femínistunum burtu og koma þeim á ruslahauga sögunnar, þar sem þeir eiga heima.
Margir hafa líkt femínistum við nazistana í Þýzkalandi sem voru dæmdir fyrir glæpi gegn mannkyninu.
Einhverntímann þarf að gera upp þá sögu sem femínistar skilja eftir sig, ef eitthvað mannkyn verður lifandi þegar það verður tímabært. Ef börnin fara aftur að fæðast nægilega mörg, þá verður kannski einhverja sögu að segja og einhverjar úrbætur að gera, annars ekki.
Helgi: Áminningin núll og nix | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.7.2024 | 14:25
Um kveðjur, skilnaðarkveðjur og heilsanir ýmsar í ensku og íslenzku.
Ég átti ágætan afmælisdag í fyrradag. Við félagarnir ræddum mest kristileg mál, hnignandi menningu og allskyns mál ofarlega á baugi en þegar mér leiddist það talaði ég um heiðna trú og annað sem þeir tóku vel í. Góður vinur minn sem er mikill íslenzkumaður vill ekki að maður tali um að "eiga dag" því það sé enskusletta, en mér er nokk sama þegar breytingar verða á málinu sem erfitt er að stöðva. Eiríkur Rögnvaldsson hefur rétt fyrir sér með það að maður verður stundum að sætta sig við mállýti sem vaða uppi.
Hefðin á Íslandi er að tala um að njóta dagsins eða að hafa það gott í dag. Þegar við heilsum og segjum:"Góðan dag", þá er innifalið í því:"Ég óska eftir að þú upplifir góðan dag".
Enskumælandi þjóðir segja þetta að skilnaði. (Have a nice day).
"Eigðu góðan dag" er nokkuð hvimleið setning. Hún minnir á "Eigðu þig!", sem fólk sagði stundum í ýmsum tilbrigðum í reiði sinni þegar það vildi slíta samtali og vildi að einhver færi jafnvel og léti sig í friði. Íslenzka kveðjan "bless" að skilnaði er sennilega komin úr kristilegri menningu, "vertu blessaður/blessuð". Það er fallegt blessunarósk sem allir geta tileinkað sér.
Síðan er "bæ" og "bæbæ" úr ensku líka eins og allir vita. Áhugavert er að athuga þá kveðju orðsifjalega. Sennilega er hún stytting úr "good-bye", sem er svo stytting úr "God be with ye", síðla á 15. öld. Good-day og good-evening hafa síðan stytt God be with ye í good-bye samkvæmt fræðingum. Ég tek þessa skýringu góða og gilda.
"Í Óðins nafni" gæti hafa verið kveðja í Ásatrúnni fyrir kristnitökuna, stytting úr:"Ég heilsa þér í Óðins nafni". Kveðjan heill! er einnig ævaforn, og er sennilega stytting úr "Ég drekk þér heillaskál", eða stytting úr:"Heill sértú á sinni ok í hami!"
"Óðinn sé með þér!" er góð skilnaðarkveðja Ásatrúarmanna, eða:"Far þú á Óðins vegum!". Slíkt mætti stytta í "Óðinsvé!" (Stytting úr: "Á Óðins vegum").
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2024 | 00:36
Druslugangan ýtir undir lauslæti
Ef konur og unglingsstelpur eða jafnvel þær sem eru á þrítugsaldri og eldri almennt vilja láta kalla sig druslur og ef þær vilja ekki láta virða sig þá draga þær að sér gaurana sem vilja bara kynlíf en ekki virðingu og vinskap.
Allt svona orkar tvímælis. Þetta sendir tvíræð skilaboð.
Annars er eitt í sambandið við þetta margumtalaða bakslag sem ku vera í hinseginbaráttunn og jafnréttisbaráttunni.
Dettur þeim aldrei í hug að þetta bakslag sé vegna þess að færri íslenzkir karlmenn eru á landinu nú en fyrir 10 árum og miklu fleiri erlendir, og þá jafnvel tilheyrandi menningu þar sem kvenfyrirlitning er algeng og viðtekin?
Já, færri af norrænum uppruna og með íslenzku sem móðurmál, því hellingur hefur flúið land og annar eins eða meiri fjöldi komið inn í landið af erlendum uppruna.
Dettur þeim aldrei í hug að gömlu karlarnir hafi verið góðir við þær en ekki allir sem tilheyra framandi menningu?
Annars kemur mér ekki á óvart svona bakslag. Það er helstefna ríkjandi. Maður sér það í meiri dópneyzlu, dauðsföllum ungs fólks og fólks á öllum aldri, lækkandi meðalaldri Íslendinga, og kreppu sem sumir tala um, hækkandi matarverði og rýrnandi lífskjörum allra nema þeirra allra ríkustu þannig mætti lengi telja.
Svo má deila um hvað er bakslag.
Finna fyrir auknu mótlæti í ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.7.2024 | 03:18
Enn um hnignun skólakerfisins
Orðið framfarir er notað hvort sem hryðjuverk eru framin eða einhverjar smávægilegar framfarir verða. Við fáum erlendar fyrirskipanir og kerfið hlýðir.
Orð eru fyrir löngu búin að missa merkingu sína í flestum eða öllum tungumálum á Vesturlöndum, því við búum við ómenningu en ekki menningu. Þessvegna er það gott ráð að taka það sem reglu að athuga með sjálfum sér hvort sannleikurinn sé ekki andstaða þess sem haldið er fram í falsfjölmiðlum nútímans.
Eitt sinn bjó mannkynið við þekkingarleysi sem stafaði af ónógum vísindum og lélegum möguleikum á rannsóknum.
Nú býr mannkynið við þekkingarleysi sem stafar af því að Elítan vill halda fólki heimsku, til að það sé þrælkað í hel, og hafi sem minnst völd. Kerfisbundinn ruglingur skilningarvitanna er afleiðingin.
Upphaflega barðist Donald Trump gegn þessu er hann var kosinn 2016. Nú hef ég grun um að hann sé orðinn innlimaður í kerfið, sem er spillt. Þó má vera að hann geri eitthvað örlítið rétt, ef hann verður aftur forseti. Ég efast stórlega um að það verði eins mikið og orð hans bera vott um, eða gjörðirnar á fyrra kjörtímabilinu.
Það má vel segja það með sanni að maður missi síður jarðtengingu ef maður athugar andstæða merkingu margs þess sem fullyrt er og haldið er fram opinberlega.
Þó verður maður að gæta þess að sumt er sannleikur sem maður les og heyrir, eða nálægt því að vera rétt, og fremur rétt en rangt.
Óli Björn í Sjálfstæðisflokknum er meðal þessara fáeinu sem ekki hafa alveg misst alla jarðtengingu. Hann er ekki slíkt fórnarlamb wokeheimsmyndarinnar sem flestir, þannig að hans heimsmynd er ekki á hvolfi.
Því er fyrirsögnin á fréttinni rétt eins og flest sem í henni kemur fram.
Maður fagnar því.
Menn verða einfaldlega að horfa til baka og spyrja sig hvar byrjaði afturförin og hversvegna. Hér einu sinni virkaði skólinn.
Þá er komið að því að ógilda vondar ákvarðanir sem skemmdu. Skóli án aðgreiningar er eitt slíkt fyrirbæri.
Þetta gamla góða er sígilt, agi í kennslustofunni og inni á heimilunum.
Sumar svokallaðar framfarir eru afturfarir. Þjóðfélagsverkfræði sem miðar að eyðileggingu þjóðfélagsins verður alltaf að vera sett fram sem eitthvað nýtt og betra, þótt það sé haugalygi og blekking. Við vitum það. Ekkert kemst í gegn nema það sé sett í jákvæð föt og glæsileg. Það sannar ekki gæði innihaldsins vel að merkja.
Um langt skeið hefur það tíðkazt hér á klakanum og annarsstaðar á Vesturlöndum að prófa ekki hugmyndir sem koma að utan, og jafnvel að efast ekki um þær, heldur taka þær hráar upp sem heilagan sannleika vegna þess að valdið kemur fram með þær, og þeir sem koma úr skólakerfinu.
Drekinn bítur í hala sinn. Skólinn útskrifar fólk, og fólkið kennir eitthvað sem á að vera rétt, en er það ekki endilega samt.
Við sjáum afleiðingar þess að efast ekki um hugmyndir sem hingað eru innleiddar. Sjálfstæðið er farið á haugana. Við lifum við kommúnískt samfélag að því leytinu til, að kerfið er orðið að heilögu fyrirbæri. Það fær líf sjálft. Embættismennirnir þrífast á því að láta báknið tútna út.
Börnin eru orðið aukaatriði, nemendurnir. Aðalatriðið er að koma með nýjar aðferðir til að sem flestir hafi atvinnu. Aðferðirnar eru svo gjarnan til að spilla fyrir og búa til ný vandamál, því ný vandamál kalla á fleiri sérfræðinga. Eins og púkinn á fjósbitanum.
Ekki er tekið mark á neinum nema þeim sem hafa tileinkað sér viðurkennt orðfæri, sem segir gjarnan ekki neitt, er innihaldslaus froða sem þó lýsir valdi, því sú froða er síbreytileg, eftir nýjum "sannleika" sem fundinn er upp. (Les:Nýrri blekkingu).
Menn hafa rætt þessi málefni í áraraðir. Ýmislegt er breytt. Eins og lesa má af þessum pistli mínum eru gagnrýnendur orðnir harðorðari, vita betur hvernig vandamálið er, og það má ekki síður lesa út úr orðum Óla Björns og fréttinni um þetta, og mörgum fleiri svona fréttum.
Á sama tíma er deyfðin orðin meiri hjá stórum hluta fólks, og ekki bara gagnvart þessum máli, vanda í skólakerfinu, heldur gagnvart flestu eða öllu.
Fylkingarnar til vinstri og hægri ógilda hver aðra. Heiftin er slík á milli þeirra að erfitt er að koma með framfarir.
Ég veit það ekki, kannski verða engar framfarir í bráð, þetta er dropi í hafið sem ég er að gefa, þessi pistill, en hann sýnir þó að ég fylgist með og læt mér annt um þetta.
Maður veit ekki hvenær framfarir verða. Þær geta komið eins og skriða, úr því að lausnir eru farnar að birtast. Einnig getur verið að afturfarir haldi áfram, ef valdastétt sem kýs stöðnun og afturfarir nær að stjórna.
Hnignun skóla staðreynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.7.2024 | 00:23
Fjölmiðlafólk hefur markað Höllu forseta bás sem kapítalíski forsetinn
Vigdís var virðulegur femínisti. Ólafur Ragnar var bragðarefurinn sem skaut pólitíkusum ref fyrir rass og tók þátt í stjórnun landsins sem forseti, og aðeins hæfileikamaður var fær um það sem þekkti reglur og takmörk embættisins, en hafði einnig metnað og skilning á þjóðarviljanum. Guðni forseti var fjölmenningarforsetinn og barnvæni forsetinn, sá sem minnti kasnnski mest á Kristján Eldjárn í alþýðleika sínum.
Bæði Stöð 2 og RÚV gerðu þessari frétt góð skil framarlega í sínum fréttatímum. Mér fannst örla á óvild í garð Höllu, en viðurkenni að þetta er gagnrýnivert fyrir forseta landsins, jafnvel verðandi forseta, að tengjast einhverju sem minnir á útrásina, hannaða og smíðaða hrunið 2008 og kapítalisma eða nýfrjálshyggju.
En skrefið er stigið og með þessum samræmda fréttaflutningi allra stórra fréttamiðla landsins er búið að brennimerkja Höllu sem mikinn kapítalisma, jafnvel þótt auglýsingin sé rafbíll.
Samkvæmt öðrum fréttum var auglýsing þessi birt án hennar vitundar. Auk þess hefur hún verið fjarlægð af Fésbókinni, þannig að öllum er ljóst að þetta orkaði tvímælis.
Held að það hafi komið fram í sjónvarpsfréttum að Halla þekki Egil, forstjóra Brimborgar, en að hennar ósk var auglýsingin fjarlægð.
En hvernig ætti þetta að gleymast? Allir sem verða fjölmiðlafígúrur á Íslandi fá ákveðna ímynd í fjölmiðlum, oft er sú ímynd ýkt og einstaka sinnum kannski alröng, en oftast er ástæða fyrir þeirri ímynd.
Heiða Kristín Helgadóttir sagði eitthvað á þá leið á kosninganóttinni að henni fyndist Halla Tómasdóttir hafa bandarískt yfirbragð, eða áherzlur hennar minntu svolítið á þær bandarísku. Ég tel rétt að taka mark á hennar orðum, því hún fæddist þar westra og er hálfbandarísk því í eðli sínu og kallar Bandaríkin annað heimaland sitt.
Síðan var tekið viðtal við Höllu, verðandi forseta á bandarískri sjónvarpsstöð nýlega og hún tjáði sig um Biden og Trump. Hún kemur úr viðskiptalífinu og bjó í 10 ár í Bandaríkjunum. Það er svo sem ekki óalgengt með Íslendinga, en ég er að draga saman myndina sem fjölmiðlar eru að draga upp af okkar verðandi forseta, og hvað lagt er áherzlu á.
Það sem fólki finnst miður er að þetta skuli minna á Hrunið 2008 og Ólaf Ragnar, sem kallaður var klappstýra Útrásarvíkinganna bæði í gamni og alvöru. Er þetta enn eitt merkið um að verið sé að tromma upp í nýtt hrun, eða er það kannski hafið nú þegar?
Sjálfur finnst mér það jákvætt af Höllu að auglýsa rafbíl, því ég vona að þeir minnki mengun og geri sitt gagn, þótt sagt sé að þeir mengi ekki síður en hinir bílarnir, vegna landanna þar sem raforka er framleidd með mengandi hætti, svo sem kolaverum og olíubrennslu.
En ég er að spá í fjölmiðlafólkið hvernig það býr til fígúrur úr fólki. Nú verður fylgzt með Höllu og sennilega eitthvað notað á hana sem finnst í framtíðinni af þessu tagi. Forsetinn á reyndar að vera hafinn yfir auglýsingamennsku og kapítalisma, en einnig kommúnisma eða að auglýsa eina pólitík fram yfir aðra.
Það er vinstrislagsíða á fjölmiðlunum. Því er reynt að gagnrýna kapítalisma.
En ég vil gagnrýna fyrirsögn fréttarinnar.
Af hverju skrifaði ekki blaðamaðurinn "Á sérkjörum?" Það er bara málfar sem er hvorki gamaldags né úrelt. Jæja, öllum getur orðið á í messunni. Kannski gerði hann þetta fyrir rímið og það er afsakanlegt.
Halla fær rafbíl á sérdíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.7.2024 | 02:12
Píratar eru búnir að þróast í venjulegan vinstriflokk
Píratar gáfu sig í upphafi út fyrir að vera fylgjandi ýmsum hægrimálum. Þeir töluðu um frjálst niðurhal og heim án höfundarréttar og netið sem vettvang þar sem algert frelsi ætti að ríkja eða því sem næst. Það myndi ég telja hluta af hægristefnunni.
Ef maður kynnir sér heimasíðu þeirra sem nú er uppi sér maður fljótt að hefðbundin vinstrimálefni eru mest áberandi, svo sem flóttamannamál og mannréttindabarátta.
Að þeir skuli nú leggja niður Pírataspjallið sem var fyrir alla gæti bent til þess að þeir séu að lokast enn meira inní bergmálshelli og séu ekki tilbúnir að hlusta á rök annarra.
Svo mikið er víst að þeir hafa stutt vinstrimenn og vinstriflokka mjög oft, og talað eins og vinstrafólk.
Mér fannst meiri þörf fyrir þann Pírataflokk sem var öðruvísi, og opinn fyrir hægrimálefnum líka.
Ég tel ekki líklegt að Pírataflokkur sem er nákvæmlega eins og Sósíalistaflokkurinn vinni almennan stórsigur og fái til sín fylgi úr öðrum flokkum.
Sögulegt spjallsvæði lagt niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2024 | 02:48
Netanyahu á sína áköfustu aðdáendur í Bandaríkjunum
Netanyahu fékk mikið lófaklapp er hann ávarpaði Bandaríkjaþing. Efast má um að hann fái svo góðar viðtökur heima hjá sér í Ísrael. Hann var eins og heimsfræg poppstjarna á tónleikum, svo mjög hylltu þau hann í Bandaríkjunum.
En eins og fréttakonan kom inná þá fór hann í þessa för til að fá viðurkenningu og stuðning erlendis frá vegna þess að hann er umdeildur í heimalandi sínu.
Nú er mjög áhugavert að bera saman Selenskí Úkraínuforseta og Netanyahu forsætisráðherra Ísraels. Jafnvel mætti bera saman Pútín og Netanyahu, kannski er það nær sanni.
Pútín fer til einræðisherranna vina sinna í Kína og Norður Kóreu og Netanyahu fer til sinna beztu vina í Bandaríkjunum. Er mikill munur á því? Nei.
Munurinn er sá að Netanyahu fær stuðning í Bandaríkjunum og víðar í hinum vestræna heimi en Pútín fær ekki stuðning í vestrinu.
Þó er margt hliðstætt sem þarna hefur verið að gerast. Jafnvel má segja að Ísraelsmenn séu að sprengja á smærra svæði en Pútín.
Sérfræðingur í málefnum Austurlanda sagði að Ísraelsmenn reyndu nú að kremja vonir Palestínumanna um heimkynni á þessu svæði.
Já ef þetta er borið saman þá er staðan ójafnari á Gazasvæðinu. Þótt hryllilegt sé ástandið í Úkraínustríðinu er þar miklu stærra svæði sem fólk býr á, og þó stendur hinn vestræni heimur frekar með Ísraelsmönnum en Rússum.
Þó er að verða þar breyting á. Eins og kom fram í fréttum þá er mikil óánægja einnig innan Bandaríkjanna með það sem gerist á Gaza, og heimsókn Netanyahus.
Svo mikil er andstaðan í Ísrael sjálfu gegn þessari stjórn og þessum hryllilegu atburðum að búast má við að í framtíðinni komi stjórn til valda í Ísrael sem heimilar tveggjaríkjalausnina og að Palestínumenn eignist þarna einnig landsvæði og sjálfstæði.
Það mátti heyra á ýmsum í Bandaríkjunum sem rætt var við í fréttunum að þessir atburðir á Gaza væru að valda óánægju sem muni ekki minnka svo glatt í framtíðinni.
Þegar stuðningur við lönd eða stjórnmál verður bara útskýrður með pólitík og trúarafstöðu eða menningaráhrifum þá er hægt að draga þá ályktun að engin raunveruleg mannúð búi að baki.
Þar af leiðandi er allt þetta mannúðartal innantómt kjaftæði, þessar miklu peningasendingar í mannúðarskyni eða allskyns hjálparstörf.
Harris verður ekki viðstödd ávarp Netanjahús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2024 | 01:32
Amma og afi, pistill í tilefni af afmæli afa, fæddist 24. júlí 1916.
Afi minn Jón Agnarsson á það alveg skilið að ég minnist hans á afmælisdegi hans sem er 24. júlí. Hann fæddist 1916 en lézt 2015. Hann varð næstum 99 ára. Hann hefði sennilega lifað af hjartaþræðingu, en það var ákvörðun læknanna að fara ekki útí hana vegna þess að hann var orðinn svona aldraður, en hann var af þeirri gerðinni að hann hefði talsvert líklega lifað hana af.
Það er einmitt vegna þess að mannkostir hans eru sjaldgæfir í nútímanum sem maður minnist hans, en þeir voru mjög algengir í upphafi 20. aldarinnar og fyrr á öldum býst ég við.
Til dæmis á ég við vinnusemi og heiðarleika, sjálfstæði og stolt yfir því að vera Íslendingur. Hann vildi alltaf vinna fyrir sér og ekki þiggja hjálp eða ölmustu ef hann gat undan því komizt. Það sem gerðist í Hruninu 2008 var vegna þess að manngerðir voru þá uppi sem voru öðruvísi en þetta gamla fólk.
Húsið okkar var eins og skip sem hélzt á floti vegna hans. Hann byggði húsið sjálfur, að Digranesheiði 8, Digranesvegi 92 áður, og 46 þar áður.
Hann var trésmiður, vélvirki, járnsmiður, pípulagningamaður, uppfinningamaður, rafvirki og margt fleira, alhliða reddari sem sá um að allt væri í lagi.
Ég ætla ekki að gleyma ömmu, Sigríði Tómasdóttur. Hún var frá Snæfellsnesi. Bæði voru þau fátæk, amma ólst upp í torfbæ en afi í bóndabæ sem var steinhús en einnig að hluta til úr torfi og timbri.
Amma var ári eldri, fæddist 1915 en dó 1985.
Í gær fann ég ljóðabók í Góða hirðinum sem heitir "Kveðjubros" eftir skáldkonuna Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Melgerði. Í formálanum kemur fram að hún var frá Ströndum eins og afi, en Kollafirði og því ekki sömu slóðum, afi var frá Trékyllisvík.
En það sem heillaði mig við þessa ljóðabók er sama trúræknin og hjá ömmu, Sigríði. Skáldkonan Guðrún mætti miklu mótlæti í lífinu en varð 93 ára, en var lömuð stóran hluta ævi sinnar og rúmliggjandi. Engu að síður reiddist hún ekki Guði eða Kristi heldur bar í brjósti eilífa trúarvon og trúarhita ef marka má kvæði hennar.
Þessar gömlu konur lærðu aldrei að hata karlmenn og eignuðust mörg afkvæmi. Að missa ekki vonina er dýrmætt. Böl kulda og trúleysis læsti helköldum klóm sínum í þjóð okkar síðar, er hún var farin á vit feðra sinna og mæðra.
Hún bjó á Elliheimilinu Grund lengi eftir að maður hennar dó og orti þar á meðan heilsan leyfði. Er hún af mörgum talin kvenhetja, jafnvel nútímakonum.
En amma Sigga og Jón afi voru alltaf samhent. Bar held ég aldrei skugga á hjónaband þeirra.
Það heyrði ég frá mömmu og öðrum að amma hafi verið of nægjusöm og ekki heimtað nýjar mubblur eða annað af afa eins og hún hefði átt að gera. Um þetta má deila.
Eitt sinn spurði nágrannakona okkar mig að því sem hafði verið góð vinkona ömmu löngu eftir að amma var dáin hvort afi hafi ekki verið karlrembusvín eins og margir voru taldir af hans kynslóð, reyndar ekki með þeim orðum, en ég skynjaði að hún meinti það, en ég tók af allan vafa að svo hafi ekki verið.
Nei, málið var það að þau voru svo samstíga, að ég held að amma hafi talið það frekju af sér að krefjast of mikils af honum. Þetta var bara tíðarandinn, að bera virðingu fyrir eiginmanninum og leyfa honum að ráða.
Mér er það ljóst að afi hefði virkilega getað orðið ríkur ef hann hefði bara viljað það og haft metnað í þá átt. Það má segja að hann hafi hugsað smátt í þeim efnum, en auk þess hafði hann óbeit á peningagræðgi sem maður fann á honum.
Það var líka annað sem einkenni afa, og það var að hann hafði óbeit á því að láta á sér bera. Hann var ímynd hógværðarinnar. Hann neitaði blaðamönnum um viðtöl sem vissu að hann var einstakur uppfinningamaður. Það var ekki nema ef þeir tóku mynd af bílnum hans við bílastæði og spurðu hann spurninga án þess að taka það fram að þeir væru blaðamenn sem myndir birtust af honum í gegnum árin.
Ef afi hefði stækkað verkstæðið og fengið menn í vinnu þá hefði hann getað þénað vel. Um mjög langt árabil komust færri að en vildu.
Þegar ég var 10 ára ákvað ég að flytjast til ömmu og afa. Það var haustið 1980. Þegar húsið hans afa var rifið 2021 missti ég það æskuheimili sem veitti mér innri frið og var tákn um kærleika og frið fyrir mig. Það voru alltaf vondar minningar tengdar við Álfhólsveg 145 þar sem ég ólst upp frá 6 ára til 10 ára, því ekki var mamma í nógu friðsamlegri sambúð þar.
Kannski langar mig að gefa út ævisögu afa og ömmu sem ég hef skrifað, en ég hef ekki reynt að fara með handritið til útgefenda enn að minnsta kosti. Það er svolítið sem mig langar til að gera. Kannski læt ég verða af því, og vonandi finnst áhugi á að gefa þetta út.
Það eru svo sem til margar svipaðar ævisögur fólks frá þessum tíma, en saga hverrar ættar er sérstök og einstök út af fyrir sig, ekki er alltaf alveg sama sagan sögð.
Það eru til margar fallegar konur og stúlkur í nútímanum, en maður ber þær svolítið saman við ömmu. Hún fórnaði sér fyrir manninn sinn og börnin, fyrir heimilið. Ungar nútímakonur sem hugsa um kynlífið sem eitthvað sem eigi bara að gleðja þær og einnig sem halda að trúnaður og tryggð við sama makann sé ekki endilega sniðugt fyrirbæri þegar allir hugsa um að græða og tolla í tízkunni, þær standast ekki samanburðinn við ömmu sem ól mig upp jafnvel frekar en mamma. Eigingirni er ekki nógu gott fyrirbæri.
Einnig minnist ég þess hvernig amma og afi ræddu saman. Oft ræddu þau um pólitík áður en þau fóru að sofa og voru þá sammála. Afi var á verkstæðinu frá 8 á morgnana til kvölds. Amma tók á móti kúnnum og bauð þeim kaffi og meðlæti sem hún bakaði jafnvel sjálf eða keypti úti í búð.
Amma talaði mikið um ættfræði. Hún spurði hverra manna fólk var og þekkti til örnefnanna á landinu og þekkti allskonar fólk hér og þar, eða kannaðist við það. Hún var eins og gagnabanki.
Amma var líka mjög lífsglöð og kát. Hún hló mikið og brosti, hún söng hárri sópranrödd þótt aldrei hefði hún lært söng. En hún mundi lög og texta sem hún heyrði í útvarpinu eða í leikhúsinu eða annarsstaðar.
Mamma var með allskonar mótþróahugmyndir. Hún byrjaði að vinna í mjólkurbúð sem unglingur og síðan við allskonar störf, sem hún hefur verið samvizkusöm að sinna.
En amma ætlaðist til að hún hjálpaði til við heimilisstörfin, en mamma var alltaf ófús til þess. Hún lá í ástarsögum daginn út og daginn inn, lét sig dreyma um draumaprinsa og fullkomna menn. Amma miðaði við kröfurnar sem hún sjálf ólst upp við.
Ég hef spurt mömmu nýlega að því hvort hún sé femínisti, en hún neitar því. Þó getur hún ekki neitað því að hún varð fyrir miklum áhrifum frá femínistum, og þótt hún neiti því að vera femínisti hafa femínistar stjórnað henni mjög mikið án þess að hún viðurkenni það.
Þessi pistill átti víst að vera um afa. En það lýsir afa líka mjög vel að fjalla um ömmu, eiginkonuna hans, og konuna sem hann elskaði alltaf.
Afi átti trúartraust en hann talaði sjaldan eða næstum aldrei um trúmál. Afi reyndar var þögull maður og talaði lítið yfirleitt.
Hinsvegar hlustaði hann vel og kom með eitt og eitt orð eða setningar sem oft gátu geymt merkilega og skemmtilega speki.
Oft hélt ég ræður um Ásatrú eða heiðni og hann hlustaði án þess að móðgast. Þá fór hann með kvæði sem hann kunni um Ásbrú, Óðin og Sleipni hestinn hans, kannski eftir Einar Benediktsson, en hann kunni mörg kvæði utanað.
Afi var opinn og frjálslyndur að mörgu leyti. Amma var sannkristin og móðgunargjörn og gat fordæmt trúleysingja eða þá sem ekki voru samkvæmt hennar stöðlum, eða kristinnar trúar almennt.
Áður en amma dó var ég kominn í uppreisn gegn henni. Kannski var það ekki fallegt af mér, en svona eru unglingar. Það var áður en ég heyrði fyrst í Sverri Stormsker. Það gerðist 1986, ári eftir að hún dó.
Uppreisn mín gegn ömmu fólst í því að ég rökræddi við hana um trúmál og efaðist, um það leyti sem ég fermdist, 1984. Það var svo margt sem ég gat ekki talið trúlegt. Amma kenndi Megasi um og vildi að ég hætti að hlusta á hann, en það gerði ég ekki, heldur varð æ ákafari aðdáandi hans eftir að við amma urðum ósáttari um trúmál.
Samt finnst mér gott að við amma sættumst alltaf. Hún áleit mig vera með unglingaveikina og fussaði bara og sveiaði og bað Guð að hjálpa mér og fyrirgefa ef ég guðlastaði eða sagði eitthvað sem hún var óánægð með.
Árið 1987 fór afi að huga að heilsunni og meðal annars með því að fara í jógatíma, Róshildur Sveinsdóttir kenndi honum jóga, en mamma var ekki hrifin af því, því mamma taldi jóga heiðið og austrænt og því ekki guði kristninnar þóknanlegt, en afi var ekki svo forhertur að láta það á sig fá og hélt áfram í jóga.
Ég held að góðir mannkostir komi oft þegar fólk elzt upp við erfiðar aðstæður. Amma mín Sigríður ólst upp við mikla stéttskiptingu. Hún bar alla tíð mikla virðingu fyrir prestum, bankastjórum og alþingismönnum.
Skólakerfi nútímans kennir jöfnuð og kommúnisma. Allir eiga að heimta sem mest fyrir sig.
Kosturinn við uppeldið sem amma fékk er að hún var auðmjúk og þakklát. Hún var ekki heimtufrek eins og kynslóðirnar sem komu á eftir.
Það er til mjög skemmtileg saga sem amma sagði og sem raunverulega gerðist.
"Eitt sinn stóð hann bara á tröppunum hjá okkur og vildi koma inn!" Amma var mjög stolt af því að hafa talað við einn ráðherra landsins, og auk þess mann sem hún hélt mikið upp á og var ein af sjálfstæðishetjum landsins að hennar mati.
Hún var að tala um einn RÁÐHERRA landsins, Hermann Jónasson, sem var pabbi Steingríms Hermannssonar. Já, hann kom víst einu sinni inn í stofu til ömmu þegar afi var ekki heima og það var víst á sunnudegi árið 1952, þegar hann var landbúnaðarráðherra.
Þessi saga er mjög merkileg. Kannski sýnir hún að Hermann Jónasson var við alþýðuskap og lét ekki undirtyllur gera allt fyrir sig.
En ég þekki ekki forsöguna, veit bara brot af þessu. Ég veit samt ástæðuna fyrir því að Hermann Jónasson kom í heimsókn.
Þegar afi var að byggja húsið að Digranesheiði 8 frá 1946 til 1950 þá var hann held ég of stoltur til að biðja um bankalán. Þá var það pabbi hans sem fór á fund einhvers bankastjóra eða ráðherra og fékk lán fyrir hann.
Finnbogi Rútur og Hannibal voru skyldir afa og það mun hafa hjálpað uppá lánið. En ég held að langafi hafi talað við Finnboga Rút eða einhvern háttsettan.
Allavega var það þannig að ég veit hvernig afi fékk efnið í þakið á húsinu. Það var bárujárn sem var sléttað og fengið úr bragga sem var verið að rífa um þetta leyti, árið 1949.
Þegar Hermann Jónsson kom var það eitthvað út af þessu, semja um eitthvað svona eða eitthvað tengt þakinu og bárujárninu sem var keypt í það og einhver ráðherrann hafði reddað held ég.
Þetta voru skrýtnir tímar. Íslendingar voru svo fáir. Það varð stundum að hafa sambamd við áhrifamikla menn og því var oft tekið vel.
Ingvar frændi, bróðir hans afa, hann erfði þennan metnað sem Agnar langafi hafði. Ingvar skrifaði í Morgunblaðið allskonar pistla, bæði um Nýalssinnamálefni og dýravernd og fleira. Ingvar bróðir hans afa vildi að Nýalsmálefnið yrði frægt um öll lönd og hafði þannig stórar hugsjónir.
Já ég man eftir fleiri smáatriðum úr þessari sögu sem amma sagði. Þetta var skömmu fyrir hádegi og hún var að elda matinn. Af einhverjum ástæðum var afi ekki heima, sennilega að sinna viðgerðum úti í bæ.
En ég vissi það líka að afi stóð í skilum og þetta varð ekkert vandamál, en í þetta eina skipti kom ráðherrann mikli í heimsókn sem amma bar mikla virðingu fyrir. Annað skipti þegar afi þurfti bankalán var 1992 til 1993, en þá voru vegirnir allir grafnir út og suður í brekkunni vegna viðgerða, og viðskiptavinirnir komust ekki. Afi fékk engar bætur fyrir það, nema malbikað planið til hálfs þegar vegurinn var malbikaður í kjölfarið árið 1993.
Já, talað var um það að Kópavogur hafi verið svefnbær þegar kommúnistarnir voru þar við völd, og göturnar ekkert malbikaðar og allt hafði staðið í stað, stöðnun á öllum sviðum.
Afi minn var alltaf vinnandi, en samt var hann ekki eins og pabbi sem sagði mér að tónlistarmenn (eins og ég) sem ekki urðu landsfrægir og gætu lifað af list sinni ættu að finna sér aðra vinnu.
Afi lifði samkvæmt því að allir væru mismunandi og ekki þýddi að reyna að breyta fólki. Þessvegna þrasaði hann eiginlega aldrei í mér, nema út af drasli og kenndi mér að vaska upp eftir sjálfan mig.
Það er margt fleira sem ég gæti skrifað um afa. Ég hef áður skrifað um það að hann var viðgerðarmaður af Guðs náð og einnig vel menntaður á því sviði.
Það var mikill missir að verkstæðið hans var rifið. Þangað sóttu margir til að gera við bílana sína, til að fá aðstöðu, jafnvel eftir að hann var dáinn. Öll verkfærin voru til staðar, og líka þessi sérsmíðuðu verkfæri og skrýtnu sem hann bjó til, en gerðu vissulega sitt gagn og biluðu aldrei.
Hann var þolinmóður og úrræðagóður. Ef eitthvað var ekki til smíðaði hann það bara sjálfur, en var ekki sáttur við þessa tölvuvæðingu í bílunum, því það var nokkuð sem hann réð ekki við, og hann hafði ekki heldur neina trú á rafbílum.
Hann hafði sennilega rétt fyrir sér að því leytinu til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.7.2024 | 01:40
Nú er þörf á því að fá Íslenzku þjóðfylkinguna í næstu ríkisstjórn, Frelsisflokkinn og Miðflokkinn.
DV er með frétt sem er svona:"Ofbeldismaðurinn Kourani breytir um nafn - Mohamad Th. Jóhannesson." Um það bil allir sem koma með athugasemdir eru á því að íslenzk stjórnvöld taki linar og léttar á málum en erlendis og Ísland sé því að draga slíka menn (og konur) að sér.
Mér er spurn: Hvers vegna eru Íslendingar meiri kommúnistaþjóð en nágrannaþjóðirnar? Hvað er það í íslenzka þjóðareðlinu sem gerir okkur að ósjálfstæðri þjóð?
Þegar jafnvel allir í athugasemdum DV eru sammála um þetta, þá segir það ýmislegt, því tæplega er hægt að kalla DV fréttablað Sjálfstæðismanna - eða Miðflokksins - eða Flokks fólksins.
Þetta er enn eitt dæmið um það að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki það sem hann var. Fylgishrun Sjálfstæðisflokksins er ekki tilviljun. Stjórnarsetan með Vinstri grænum og Framsókn var ekki byrjunin á niðurferð flokksins, miklu frekar mætti segja að botninum sé vonandi náð og flóttanum frá hægripólitíkinni sem hann var stofnaður utanum.
Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún eða Áslaug Arna eru eins og Barbie og Ken, með gott útlit, en eins og fólk sem er að leika í leikritum, eða auglýsingum.
Dúkkulísur af báðum kynjum bera ekki ábyrgð. Þannig fólk getur ekki stjórnað landinu, það bara lætur að stjórn, dúkkulísum er stjórnað af börnum.
Erlend glæpagengi herja á verslanir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Það er sama hvað gerist, sjálfseyðing Vesturlanda er á sjálfs...
- Ekkert eða fátt breytt? Hlutverkaleikur? Inga Sæland í gervi ...
- Spænska veikin var af fuglaflensustofninum. Þessa sýkingu þar...
- Okkar vestræna þjóðfélag sem Nató-Kata og Nató-Þórdís Kolbrún...
- Eins og í Bandaríkjunum þarf stuðning þeirra sem ættaðir eru ...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 38
- Sl. sólarhring: 165
- Sl. viku: 722
- Frá upphafi: 129837
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 545
- Gestir í dag: 31
- IP-tölur í dag: 31
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar