Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2023

Ef Kárahnjúkar hefðu aldrei verið virkjaðir...

Það eru gömlu og endursýndu þættirnir úr Rúv sem eru einstakir og perlur. Í gær var sýndur einn slíkur þáttur frá 1997, sem Ómar Ragnarsson gerði um Kárahnjúka, Jökulsá og allar þær perlur. Merkilegt að sjá þetta á þeim tíma ósnortið, og þó var fólkið á þeim tíma byrjað að tala um mögulega virkjun, en það var ekki tekið í mál á þeim tíma af heimamönnum.

Auðvelt hefði verið að búa til James Bond mynd og láta mest spennandi kaflana gerast í hrikalegum gljúfrunum þarna, áður en vatnið fyllti þau.

Afabróðir minn sem kenndi mér bragfræðireglurnar, Ingvar Agnarsson var mikill náttúruunnandi. Hann ferðaðist mikið um landið og skrifaði ferðabækur sem ekki hafa verið gefnar út og tók fjölmargar myndir af landinu. Einnig var hann málari og skáld, og nokkrar myndlistarsýningar hélt hann í Eden í Hveragerði og víðar, held ég.

Því miður lærði ég ekki af honum öll örnefnin sem hann kunni. Ég held að ég hafi ekki lært eitt einasta örnefni af honum, nema nokkur fjöll kannski. Nokkrum sinnum var hann bílstjóri þegar Nýalssinnar héldu fund á Þingvöllum, og hann gat nefnt næstum hverja einustu þúfu á leiðinni, og fjöllin, bæina, dali og fleira.

Eitt sinn þegar ég ferðaðist með pabba og fjölskyldu kvartaði hann yfir því að ég hefði engan áhuga á landslaginu og vildi ekki læra nein nöfn eða örnefni, að ég hefði verið niðursokkinn í teiknimyndasögur alla leiðina! Það voru víst engar ýkjur hjá honum.

En ég dáðist að þeim sem kunnu öll þessi örnefni og heiti, en mér fannst of mikið að læra þetta, tengdi ekki við þetta, því fyrir mér leit þetta allt eins út.

Mikið rof hefur orðið í menningunni. Ungu krakkarnir kunna varla íslenzk orðtæki, nema fáeinir sem eru þannig þenkjandi að vilja nema af eldri kynslóðum. Auk þess hefur maður frétt að landsbyggðin sé orðin full af enskumælandi túristum og innflytjendum frá öðrum löndum. Nei, það verður víst ekki aftur snúið, að því er virðist með okkar menningu.

Árið 2004 gerði ég lög og texta um Kárahnjúkavirkjun. Það voru fleiri en 100 lög og textar, í apríl 2004 og eitthvað tekið upp, en þó aðeins í demói, sem prufuupptökur til að varðveita tónsmíðir, því ekki kann ég nótur almennilega.

Ég gerði nú þetta einungis í einum tilgangi, til að fylgja eftir tveimur plötum frá árinu á undan, "Jafnréttið er framtíðin" (2003) og "Við eigum að samstillast öll" (2003). En þetta var ekki gefið út. Næsta plata sem kom út eftir mig var "Ísland skal aría griðland" (2009).

Í raun eru þetta ekki merkilegar tónsmíðar eða ljóð, því ég hafði ekki ferðazt um þetta svæði, og þetta er ort úr tilgerð og fjarlægð borgarbarnsins, sem þó hefur fjarlægan áhuga á náttúruvernd. Þó eru fáein lög grípandi, það er allt og sumt sem er merkilegt við þetta verkefni, sem var áhugavert að nokkru leyti.

En ég heillaðist mjög af áróðrinum hjá Vinstri grænum og fleirum sem um þetta fjölluðu.


Að sætta sig við femínismann - og annað.

Nú eru páskar. Sanntrúaðir kristnir menn á Íslandi verða að bíta í það súra epli að fjölmenningin gerir aðsúg að þeim og við sem erum heiðingjar og efumst sveiflumst í okkar afstöðu. Nútíminn er svolítið erfiður fyrir marga. Egill Helgason er einn af góða fólkinu svonefnda. Með falli Fréttablaðsins hefur "góða fólkið" ástæðu til að reiðast enn meira pólitískum andstæðingum sínum, því nú fær fólk eins og Egill Helgason ástæðu til að efast um eigin afstöðu, þegar örlög Fréttablaðsins eru ljós.

Í stað þess að fá snilling eins og Arnar Sverrison í þáttinn til sín kemur hann með hatursfulla gagnrýni á hann byggða á einni grein eftir hann en ekki þeim fjölda sem hann hefur látið frá sér fara. Egill Helgason er núna eins og Hans í ævintýrinu um Hans og Grétu. Hann er lokaður inni í búri nornarinnar grimmu og eina sem hann getur gert er að væla og vera með leiðindi. Þegar fólk má ekki hafa aðrar skoðanir en nornin grimma er það lokað inni, andlega.

Ef Egill Helgason myndi nú fara að hugsa rökrétt og taka gagnrýni skynsamlega hvar sem hún birtist myndi hann kannski finna lykil að búri nornarinnar.

En þetta er útúrdúr. Guðmundur Örn Ragnarsson skrifaði í athugasemdum fyrir neðan síðasta pistil minn: "Spurning Jesú til þín nú er þessi:Og hver sem trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu? Jóh. 11.26."

Ég átti erfitt með að svara þessu. Því þrátt fyrir allt á ég einhverja barnatrú eftir í sál minni, og get ekki útskýrt hana nógu vel, þótt ég sýni fjölmenningunni mikinn áhuga og allskonar öðrum trúarbrögðum.

Ég vil svara Guðmundi Erni þessu á annan hátt. Dr. Helgi Pjeturss skrifaði í ritum sínum að þannig væru náttúrulögmálin að hver einasti ætti eftir að endurlíkamnast á nýjum hnetti eftir dauðann, og því aldrei að eilífu deyja, og ég trúi því vissulega.

Kannski er Jesús Kristur þessi frelsari, eini sanni. Ég get ekki verið 100% viss um neitt, mér finnst það ekki vísindalegt. Ég kann oft vel við kristna menn, enda enn í þjóðkirkjunni og flestir Íslendingar enn kristnir, þótt trúleysið fækki kristnum mönnum og önnur trúarbrögð. "Af ávöxtununum skulið þér þekkja þá", stendur í Biblíunni. Ég tel að fólk af kynslóð ömmu og afa hafi verið gott vegna þess að það var sannkristið. Samkvæmt því er kristnin mannbætandi boðskapur, og það get ég verið sáttur við og talið meðmæli með kristninni. Mín kynslóð er öðruvísi og ég er hluti af henni.

Á páskunum minnist ég ömmu og afa. Þau voru með þennan sama boðskap.

Að lokum í þessum pistli kem ég svo að því sem ég ætlaði að skrifa um upphaflega, en nýlegt ráf á DV leiddi mig að öðru sem rætt er um hér að ofan.

Ég hef spurt mig hvort ég geti aftur orðið sannfærður femínisti eins og ég taldi mig einu sinni vera. Hvort er það auðveldara fyrir mig að verða sannkristinn maður eða sannfemínískur maður í anda nútímans?

Þessu vil ég svara svona:

Flestir nútímamenn kjósa að verða sannfemínískir á yfirborðinu að minnsta kosti.

Það stefnir flest í að kristnin deyi út á Vesturlöndum en islam komi í staðinn eða eitthvað annað sem við þekkjum ekki, kannski bara hreint trúleysi, að vera alveg utan allra trúfélaga, en þeim fjölgar einna mest á Íslandi sem eru þannig.

Ef maður sættir sig við fjöldamorð sem framin voru í fortíðinni af einhverri þjóð eða trúarhópi eða stjórnmálahreyfingu, einmitt þá getur maður sætt sig við fjöldamorðin sem eru framin í nútímanum. Þannig að já, maður getur orðið sannfærður femínisti. Það er sterkasta valdið sem yfirleitt safnar flestum í sinn hóp, burtséð frá öllu öðru.

En nútíminn er spennandi. Jafnvel þótt femínisminn sé sterkur er barátta í gangi. Kristnin sækir í sig veðrið sunnarlega á jörðinni en islam á Vesturlöndum. Það er ekki gott að segja hvernig úrslitin verða í þeim kappleik. Sérstaklega nú þegar trúarbrögðin ætla að blandast inní þriðju heimsstyrjöldina, Úkraínustríðið.

En hitt er annað mál. Maður neitar sér ekki um það að sjá í gegnum það sem er augljóst, þótt maður geti lítið eða ekkert að því gert.


mbl.is Misjafnar skoðanir á páskadagskrá RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Passíusálmarnir, bókmenntaarfurinn, og páskarnir.

Passíusálmana las ég frá upphafi til enda og vel árið 1985, eftir Passíusálmatónleikana með Megasi í apríl 1985. Þá var ég á 15. ári. Af Passíusálmunum lærði ég að gera stutta áróðurstexta í tónlist eða óbundnu máli. Þeir eru mjög gott kennsluefni í ritun þannig stílbrigðum, þar sem komið er inná sálræna þætti í lokin.

Það kom mér á óvart að sálmaskáldið skyldi tyfta sjálfan sig svona mikið í sálmunum. Ég las þessa 50 sálma, og þeir fara allir eftir sömu formúlu. Fyrst er fjallað um erindi í Biblíunni, síðan kemur útlegging og hún er oftast á þá leið að höfundurinn sé svo trúlaus og einskisnýtur og sé sekur eins og þeir sem krossfestu Krist. Auk þess kemur bæn oft í endann um að guð gefi trú og annað sem vantar uppá.

Já, Passíusálmarnir eru stórvirki. Þó er sagt að þegar útlendingar lesi þá þýdda þyki þeir ekkert sérstakir.

Ég held að hluti af glæsileika Passíusálmanna sé íslenzkan á þeim, og að þessi stöðuga áminning um að halda fast í trúna.

Rétt eins og Lúther bjargaði þýzkunni átti Hallgrímur stóran þátt í að bjarga íslenzkunni. Almenningur vissi lítið um Íslendingasögurnar þá. Handritin voru flestum gleymd. Passíusálmarnir voru geymdir undir koddunum hjá þeim sem þóttust svo ríkir að eiga þá.

Passíusálmarnir hafa verið gagnrýndir í seinni tíð. En mér finnst eins og með önnur listaverk, að þeir verði að fá að standa eins og þeir eru. Maður skilur ekki söguna ef hún missir sérkenni sín, fyrri tímar, eða einkenni skáldanna og skoðanir þeirra.

Boðskapur Passíusálmanna á alltaf erindi við mann. Mér finnst ekki skipta máli hvort sagan sé sönn, hvort Jesús Kristur hafi verið til, hvort þetta sé mýta sem eigi sér raunverulegar fyrirmyndir, eða annað.

Boðskapur Passíusálmanna er svo einfaldur þar fyrir utan, að maður þarf að viðurkenna smæð sína, og villu, galla og breyzkleika.

Auk þess þarf okkar þjóð að eiga heilagar gersemar í bókmenntaformi til að halda í sjálfstæðishugsjón sína. Við fáum þarna glugga inní fortíðina og getum speglað okkur í honum.


Sú staða er upp komin að Vinstri grænir gætu þurft að styðja endurkomu hersins til Keflavíkur (Reykjanesbæjar) ef svo fer fram sem horfir. Vinstri grænir eru komnir óraveg frá upphaflegri stefnu sinni.

Samkvæmt þessari frétt stendur Ísland nú frammi fyrir hernaðarógn frá Rússum. Þetta er haft eftir Nick Childs, brezkum varnarmálasérfræðingi.

Felst ekki í þeim orðum að stuðningur ríkisstjórnarinnar við Úkraínu sé ástæðan fyrir því, og skorturinn á hlutleysinu í þessum hernaði, þessu hörmulega stríði?

Gunnar Rögnvaldsson hefur lýst þessu betur en flestir, hvernig fréttaflutningur í okkar menningarheimi hefur afsannað sjálfan sig og gildi sitt. Í öðru orðinu er sagt að Rússar séu að tapa og síðan í hinu orðinu að allur heimurinn nánast þurfi að vígbúast bara útaf þeim einum! Þetta er hin fullkomna þversögn.

Nick Childs telur þörf á að endurvekja herstöðina í Keflavík (Reykjanesbæ). Arnór Sigurjónsson og fleiri hernaðarsinnar fá þarna stuðning frá þessum Breta.

Fyrrum friðarsinnar í Vinstri grænum taka nú höndum saman með Íhaldinu í hernaðarhyggjunni.

Þórdís Kolbrún segir að fordæmi verði að skapa að svona árásarstríð verði ekki liðin.

Þó eru margir sem sjá í gegnum það.

Nefnilega: Ef femínískt ríki og jafnaðarstefnufasískt myndi gera árás á annað ríki, sérstaklega pútínskt eða í andstöðu við helstefnu Vesturlanda, þá yrði það kannski stutt eða litið í hina áttina.

Þetta er allt svo fullkominn tvískinnungur og hræsni og allir vita það og flestum er sama.

Ástæðan er sú að 99% af Íslendingum og kannski mannkyninu hlýða félagslegum reglum í samvizkuleysi sínu. Það þýðir að fólk fylgir fjöldanum. Hugsað er einn dag fram í tímann. Allir vita að þessi ganga er gangan til glötunar, en kjötbitinn á prikinu sem nægir til næsta dags skiptir meira máli en framtíðarspár fram í næstu viku eða næstu ár. Þannig láta allir stjórnast af stundarhagsmunum.

Þeir sem eiga mannkynið og stjórna því vita það. Þeirra er ábyrgðin en einnig fíflanna sem vita betur í raun innst inni.

Var þá allur friðarboðskapur vinstrimanna í gegnum áratugina froðan ein og innihaldslaus fyrst Vinstri grænir hafa hafnað honum núna eða lifa ekki samkvæmt honum, eða ekki forysta flokksins?

Ef bara sumir hafa leyfi til að fremja glæpi gegn mannkyninu er víst rétt að leyfa öllum það og fordæma ekki bara suma fyrir það.

Það vita allir að keisarinn er nakinn. Ekki þar fyrir að nokkurt mark sé tekið á þeim sem blaðra um það, en það er þá aðeins til að reyna að halda í þá örlitlu geðheilsu sem er eftir til að halda í, til að missa ekki alveg raunveruleikaskynið og dómgreindina.

Auðrónar heimsins eru fyrir löngu komnir svo langt út fyrir allt siðlegt og réttlætanlegt að ljósárin skilja að sauðina og úlfana. Sauðirnir eru markaðir og jarma, og úlfarnir fá engan dóm, enda ráða þeir dómskerfinu.

Selenskí, Pútín, Biden og aðrir leiðtogar eru jafn sekir stríðshaukar. En þeir eru þó aðeins taflmenn sem láta stjórnast. Ef þeir stjórnuðu sér myndu þeir stíga útúr slíkum hlutverkum og iðka frið og gefa skít í skömm og heiður stríðsins.

Úkraínustríðið hefur sannað það í eitt skipti fyrir öll að Jóhannes Björn Lúðvíksson samfélagsrýnir og stórsnillingur hafði 100% rétt fyrir sér. Öll atburðarásin í Úkraínustríðinu hefur sannað það, eins og þegar glæra er lögð yfir á myndvarpa sem sýnir eitthvað fullkomlega skýrt.

Enn fremur geta allir vitað það með vissu að útskýringar á allri mannkynssögunni eru uppspuni og skáldskapur, og fortíð mannkynsins og jarðarinnar allt önnur en opinberlega er haldið eða útskýrt.


mbl.is Vægi norðurflotans eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þjóðin að sigla inní ESB hægt og hljótt?

Samfylkingin er stærsti flokkurinn um þessar mundir samkvæmt nýlegum könnunum.  Fylgi Vinstri grænna er hrunið og Sjálfstæðisflokkurinn er í veiklaðri kantinum.

Menn deila um það hvort Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eigi sök á gjaldþroti 15.000 heimila eða Samfylking og Vinstri grænir, undir einni DV frétt um þetta frá síðasta mánuði.

Stundum finnst manni gott fylgi Samfylkingarinnar bóki bara nýtt hrun, minni á árin fyrir hrunið 2008.

Ég hef stundum haft áhuga á inngöngu þjóðarinnar í ESB, sérstaklega þegar ég hef lítið álit á íslenzkum stjórnmálamönnum og þeirra rifrildum og spillingu.

Björn Bjarnason er einn af þessum áhrifamiklu mönnum á Íslandi og einn öflugasti stuðningsmaður EES samstarfsins, og um það skrifar hann í dag.

Deilurnar um frumvarp dómsmálaráðherra um útvíkkun EES samningsins, eins og þetta er orðað á síðu Frjáls lands, vekja upp spurningar hvort réttast sé ekki bara að Ísland gangi alfarið í ESB? Vitnað er í Stefán Má Stefánsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands þar.

Ég býst við að Guðmundur Ásgeirsson hafi rétt fyrir sér í því að um sé að ræða atriði sem ekki var gengið frá á sínum tíma, en góður pistill samtakanna Frjálst land - Ísland úr EES, "Útvíkkun EES samningsins" endar á orðunum:"Ísland er ekki lögbundið að lögleiða EES valdboð þó landsölumenn og konur haldi að svo sé."

Samtökin Heimssýn hafa einmitt mikið fjallað um þetta. Athugasemd Guðmundar Ásgeirssonar undir pistli Heimssýnar "Hægfara afnám lýðræðis" er eins fróðleg eins og pistillinn sjálfur, en hvort tveggja mjög upplýsandi fyrir áhugasama, sem ættu að vera flestir.

Í athugasemd hans kemur fram að forgangsreglan hafi verið hluti af EES samningnum frá upphafi, en ekki verið innleidd í íslenzk lög eins og lofað var í upphafi. Hann virðist hlynntur frumvarpi utanríkisráðherra eða telja það nauðsynlegt til að standa við skuldbindingar frá 1993. Þetta er vissulega deilumál og skiljanlega, varðar þjóðarhagsmuni.

Ef ég man rétt ræddi Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu mjög ítarlega og rækilega við Jón Baldvin Hannibalsson um þetta fyrir 3 eða 4 árum. Þá held ég að hann hafi sagt að íslenzkt sjálfstæði ætti að hafa forgang, og annars þurfi að endurskoða samninginn, ef slíkt er orðið efamál, að íslenzk lög hafi forgang.

Arnar Þór Jónsson hefur einnig ritað um þetta með fróðlegum, upplýsandi hætti. Nokkrar setningar úr pistli hans "Jú frumvarpið vegur að stjórnarskrá og lýðveldi Íslands" eru mjög upplýsandi og góðar:"Þetta eru reglur sem Íslendingar geta ekki haft nein áhrif á. Þær eiga bara að njóta hér almenns forgangs og setja ramma utan um alla umræðu, án þess að vera sjálfar til umræðu!" Varla er hægt að orða þetta betur.

Um lögfræðileg álitamál verður almenningur að vita að minnsta kosti að um þau er deilt og því eru dómstólarnir til, að láta reyna á þanþolið og réttlætið.

En efast má um afl íslenzka ríkisins í dómsmálum við erlenda dómstóla.

Ég hef áhyggjur af því að ráðherrarnir í þessari ríkisstjórn séu ekki þeir öflugustu í að verja sjálfstæði þjóðarinnar.


mbl.is Stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Íslandi vantar eins þjóðleg stjórnmál og á Ítalíu. Gott væri ef Píratar væru þjóðlegur flokkur.

Ítalir vilja skiljanlega vernda merkilega menningu sína. Þessi þjóðernisbylgja sem gengur yfir Evrópu hefur ekki enn skilað sér til Íslands nema að mjög litlu leyti. Maður spyr sig hvernig er hægt að hefja sjálfstæðisbaráttu í anda Fjölnismanna og vera samt þátttakandi í ESB, Nató og slíku og lúta þannig reglum. Jú það er hægt, en hamlar mjög möguleikunum til að ná árangri.

Sumir hafa vafalaust haldið að hin nýja ríkisstjórn Ítalíu yrði fasísk og rasísk, og að mannréttindi yrðu brotin, því Bræðralag Ítalíu á sumar ættir sínar að rekja til Fasistaflokks Mússólínis, þótt ræturnar liggi annarsstaðar líka. Ekki hafa komið neinar fréttir um það að að réttindi hafi verið skert á Ítalíu. Enda er veruleikinn sá að sjúklegur ótti elítu Vesturlanda við endurtekningu á seinni heimsstyrjöldinni hefur mildað þannig flokka, en á sama tíma er aukin eftirspurn eftir þeim og þannig stjórnmálamönnum frá almenningi, eins og sést á því hvernig þannig flokkar stækka og komast til valda, nú síðast í Finnlandi eru Sannir Finnar orðnir næststærsti flokkurinn.

Öfgavinstrið er orðið normið innan femínískrar elítu Vesturlanda. Það má vel sjá merki þess að almenningur sé kominn með meira en nóg af slíkri pólitík, kosningaúrslit gefa það til kynna í mörgum löndum.

Rétt eins og þegar franska byltingin var gerð 1789 vill elítan ekki viðurkenna neitt gagnrýnivert, og herðir tökin frekar en að lina þau með frekari reglugerðum.

Eitt sinn taldi ég mig femínista, og ég er það enn að einhverju leyti, en þá stendur Giorgia Meloni fyrir þesskonar femínisma sem mér finnst ásættanlegur, þjóðlegur og íhaldssamur.

Mannréttindi eru alltaf afstæð, því þegar einum hópi er hyglað bitnar það á öðrum. Jafnréttishugsjónin er útópísk en ekki raunsönn eða raunsæ. Eins og ævinlega snúast fyrirmyndarríkin uppí andhverfu sína, hvort sem þau byggja á þjóðerniskennd, alþjóðavæðingu, kapítalisma, kommúnisma eða jafnaðarstefnu. Óreiðukenningin segir að kerfin leitist eftir óreiðu, og því þurfi mikið til að halda þeim í skipulagi.

 


mbl.is Vilja beita sektum gegn enskuvæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing fyrir valdi

Með því að valdefla konur og aðra sem taldir eru hafa staðið höllum fæti hér áður fyrr er verið að stuðla að jafnrétti. Þar sem allir eru jafnir er ekki virðing fyrir valdi, því þar er valdið ekki lengur til, eða þannig er þetta oft framsett í útópíu fræðanna, hvað sem öllum veruleikum líður.

Valdafíklar sem missa völd auka vald sitt með því að auðgast. Vald stórveldanna verður gereyðingarvald, hótanir um beitingu kjarnorkuvopna, efnavopna og sýklavopna verða áberandi, og jafnvel verður slíkum vopnum beitt, og tilgangurinn gæti verið sá að viðhalda valdaójafnvægi, sem er að fara úr skorðum með jafnréttisbaráttunni.

Það er nokkuð sjálfgefið að upphafning á konum sem kynverum og heilögum verum, mildara og umburðarlyndara kyninu hlýtur að taka enda í jafnréttisheiminum. Feðraveldungar sem fyrrum létu sér ekkert duga minna en þær konur sem töldust eðalkvendi af samfélaginu hvað varðar að þær kappkostuðu að vera grannholda og þó þrýstnar, fagurlimaðar og andlitsfríðar áður fyrr, feðraveldungarnir læra að elska það, sem fyrrum var fordæmt eða útskúfað, til dæmis konur með karlmannlegt útlit sem alltaf hafa verið til í mannkynssögunni, en transkonur eru það nýjasta sem margir tala um, og auðvitað geta þær verið glæsilegar, því transmanneskjurnar gangast upp í hefðbundnum kynjahlutverkum jafnvel frekar en hefðbundnar konur sem lært hafa að hata karlmenn og stráka, og setja störfin skör ofar en ástina, framinn er þeim mikilvægur, völd og störf. Það rímar við að 70% nemenda í háskólum á Íslandi eru konur en 30% karlar.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að konur hafi ekki viljað kvenréttindi eða femínisma, heldur var þessu pínt uppá þær ofanfrá, af menntafólki, og menntasnobburum alveg sérstaklega, eins og John Stuart Mill, sem skrifaði bókina "Kúgun kvenna". Hún kom út 1869.

Í frönsku byltingunni 1789 voru kvenréttindi sett á oddinn af baráttusamtökum, eða alþýðu manna sem gerði uppreisn, sennilega í fyrsta sinn í hinum kristna og vestræna heimi. Baráttukonan og kvennaguðfræðingurinn Auður Eir er þó meðal þeirra sem kannast við að á heiðnum tíma fyrir meira en 1000 árum voru til mæðraveldissamfélög og konur sem börðust og höfðu allmikil réttindi, jafnvel full réttindi til jafns við karla, þótt um það sé tæplega vitað með fullri vissu, en ýmislegt bendir til þess.

En þegar forvígismenn kynjafræðinnar segja að verið sé að berjast fyrir betri heimi fer ekki saman hljóð og mynd, svo notað sé orðalag sem ráðherrar dýrka. Virðing fyrir valdi er áberandi í samtímanum, en vald er af gúrúum oft kallað hluti af því dýrslega og því ekki til upphafningar sálarinnar.


Sigríður Á. Andersen stóð sig vel í Silfrinu, moðreykur stjórnarandstöðunnar virkaði ekki

Sigríður Á. Andersen sagði í Silfrinu þau orð sem ættu að fá mesta athygli. Hún svaraði Sigmari á þá leið að andstæðingar Jóns dómsmálaráðherra hafi fengið gögnin, en á öðru formi en þeir vildu og um það snérist þetta. Sigmar Guðmundsson mótmælti þessu nefnilega ekki, og þögnin var svo sannarlega samþykki í þessu tilfelli, því þau áttu í eldheitum samræðum, ef ekki rifrildi um þetta, og hann hefði svo sannarlega leiðrétt hana ef hann hefði vitað þetta rangt eða ekki samkvæmt sinni vitneskju.

Enda leið ekki á löngu áður en vinstrisinnaður þáttastjórnandinn, Sigríður Hagalín kaus að skipta um umræðuefni, enda virtist áhugi hennar í þættinum mjög mikið snúast um að finna veika punkta á íhaldinu. Eitraður femínisminn hefur lagt RÚV í rúst. Byrjað var á málum sem voru hönnuð til að sýna Karl Gauta og Jón Gunnarsson í neikvæðu ljósi. Það bara tókst ekki, enda Sigríður Á. Andersen mikil ræðumanneskja og gat svarað fyrir sig og Sjálfstæðisflokkinn vel í þættinum.

Þögn Sigmars Guðmundssonar gefur það sterklega til kynna að andstæðingar Jóns Gunnarssonar hafi logið uppá hann.

"Þið vilduð ekki fá gögnin á því formi sem stóð til boða", eru orð Sigríðar Á. Andersen sem Sigmar Guðmundsson mótmælti ekki. Þá voru 46 mínútur liðnar af Silfrinu.

Jón Gunnarsson er frábær ráðherra. Hann nær að kveða stjórnarandstöðuna í kútinn og koma málum úr kyrrstöðu. Hann minnir á kempurnar í gamla daga í Sjálfstæðisflokknum, sem stjórnuðu landinu af dugnaði og snilld, þannig að vinstrimennirnir höfðu ekki roð í þá, sundraðir og ósammála.

Einnig er ánægjulegt að Sigríður Á. Andersen er aftur farin að sýna hæfileika sína og blómstra.

 


mbl.is Gagnrýnir skipun Karls Gauta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Donald Trump er langt frá því að vera dæmdur úr leik þótt búinn sé að fá á sig ákæru. Þetta er uppfærsla á glæpavæðingu allra á Vesturlöndum og versnandi siðgæði almennt.

Ég tel að hinn ákærði Donald Trump hafi aukið líkur sínar á að verða forseti. Þróun vestrænnar menningar stefnir öll í þá átt að gera alla að glæpamönnum, með Metoomálum, með því að gera það að glæpum sem áður þóttu dyggðir, karlmennska og sjálfsagt mál og þróun vestrænnar menningar er í þá átt að gera þannig dómskerfið máttlaust siðferðilega, þannig að eftir standi að það sé aðeins vopn sem beitt er til að auka félagslega kúgun, og þá beita bæði hægrimenn vinstrimenn slíku dómsmálaofbeldi og enn frekar vinstrimenn sem beita hægrimenn slíku dómsmálaofbeldi þegar þeir eru við völd. Þetta er helstefna augljós, eins og dr. Helgi Pjeturss fjallaði um í bókum sínum að myndi sigra, ef hans kenningar yrðu ekki vinsælli en öll trúarbrögðin samanlögð, og ný jarðöld hæfist í kjölfarið. Nei, helstefnan sigraði en ekki hans kenningar.

Hér á Íslandi sjáum við augljós dæmi um sömu þróun. Frægir hægrimenn fá dóma sem eru litaðir af sterkri pólitík og óréttlæti, Margrét Friðriksdóttir, Páll Vilhjálmsson, áberandi hægrifólk sem hefur verið að standa vörð um lýðræði, mannréttindi og tjáningarfrelsi. Fleiri dæmi mætti nefna úr Metoovítishjörðinni, af nógu er að taka.

Ekki er ég samt viss um að Donald Trump verði næsti forseti, þótt ákæran á hendur honum hafi aukið líkur hans á að verða aftur forseti sennilega. Samt er þetta reiknisdæmi. Demókratar verða aldrei líklegir til að kjósa hann og nóg er af þeim, með eða án ákærunnar. Repúblikanar fáeinir gætu hætt við að kjósa hann út af þessu, kannski.

Samt eru margir sem munu frekar kjósa hann núna, sem sjá hverskonar skollaleik demókratar eru að leika. Það virðist regla að eftir því sem demókratar eða aðrir vinstrimenn í öðrum löndum verða umdeildari þá svara þeir með því að ákæra hægrimennina, repúblikana eða aðra, og oft jafnvel á veikum grunni.

Almenningur hlýtur að sjá í gegnum þetta. Endanleg niðurstaða úr kostningum er samt aldrei ljós, nema svindl komi við sögu eins og Trump telur að hafi verið beitt gegn sér.

Gjáin dýpkar á milli hópa og einstaklinga. Það er sérlega slæmt uppá friðarhorfur að gera, ekki bara í Úkraínu heldur miklu víðar.


mbl.is Donald Trump ákærður fyrstur forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að telja kranana og önnur merki um uppgang í þjóðfélaginu, til að sjá hvenær kreppa nálgast

Ekki þarf nema að rifja upp hrunið 2008 til að sjá hliðstæður við það sem er að gerast núna. Í Silfri Egils 2007 eða 2008 kom einhver erlendur spekingur og sagði að það væri hægt að merkja að kreppa væri að koma þegar of margir kranar væru sjáanlegir, byggingaframkvæmdir og slíkt. Það gekk nú svona heldur betur eftir, að kreppan kom 2008, og telja mátti óvenju marga krana um það leyti og uppgangurinn í atvinnulífinu eftir því.

Sautján hæða hótelturn í Reykjavík? Það er eftir öðru. Fólk hagar sér eins og skepnur eða vélmenni en ekki sjálfstæðar verur. Fréttablaðið orðið gjaldþrota ásamt Hringbraut, en fólk staldrar ekki við samt.

Mútuþægni er innbyggð í kerfið. Hin gamla spilling Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins var skárri en nútímaspillingin, því sú tveggjaflokkaspilling var þjóðleg og hófleg, þessi nútímaspilling er stærri og hrikalegri.

Kenningin um Endurræsinguna miklu er ekki lengur kenning heldur staðreynd. Fólk gengur sér meðvitað inní hana.

Það er sérstaklega áberandi í sambandi við gjaldþrot Fréttablaðsins. Allt fólkið sem vann þarna mátti vita að það væri að vinna fyrir sömu öfl og skipulögðu Covid-19, Endurræsinguna miklu og hörmungar sem eru framundan.

Það er kaldhæðnin í þessu öllu. Blaðamennirnir á Fréttablaðinu reyndu af veikum mætti að segja að allir trumpistar og pútínistar væru samsærisfífl og vont fólk, en það fólk féll á eigin bragði, því í samsæriskenningunni um Endurræsinguna miklu kemur fram að yfirjafnaðarmennirnir sem telja sig "jafnari en aðra", eins og Orwell lýsti svíninu sem var tákn fyrir Stalín, Lenín og aðaljafnaðarmennina, vilja ekki þjóðlegt vald eða þjóðlega fjölmiðla, heldur skal lepja úr sömu skálinni í sömu svínastíunni.

Munu nú blaðamennirnir sem störfuðu á Fréttablaðinu læra að eina leiðin til að fyrirbyggja svona atvinnumissi og gjaldþrot eins og varð á Fréttablaðinu er að styðja þjóðlegt vald og þjóðlega flokka, helzt Miðflokkinn eða enn þjóðlegri flokka, sem eru ekki komnir fram ennþá?

Með því að gera fjármagnskerfið sem allra mest sjálfstætt og öll kerfi, þannig er hægt að búa til stöðugleika sem er meiri en utanlands.

Með því að þurrka út vinstriflokka og jafnaðarflokka og hægriflokka og endurnýja flokkakerfið, þar sem flokkar eins og Frjálslyndi lýðræðisflokkur Guðmundar Franklíns, Frelsisflokkurinn, Íslenzka þjóðfylkingin, Flokkur fólksins og Miðflokksins fá öll atkvæðin, og hinir svikaflokkarnir 0 atkvæði, þá rís upp frjálst Ísland og nýtt Ísland, eins og það átti alltaf að verða. Og ef fer að bera á sömu svikum við landsmenn og mútuþægni við erlenda eða innlenda spillingu, þá þarf að losna við þá flokka og búa til aðra, nýrri og skárri.

Þannig að endurnýjun, kröfuharka og virkni almennings er það sem sigrar spillinguna og annað ekki.

Þegar Guðmundur Franklín reyndi að verða forseti og þegar hann kom fram með Frjálslynda lýðræðisflokkinn risu varðhundar valdsins upp allir sem einn og mótmæltu honum og sögðu hann vera EINRÆÐISHERRA, áður en hann fékk tækifæri til að sanna sig!

Hvað lýsir betur fordómum? Bubbi Morthens var meðal þeirra sem réðust á hann í kommentakerfi DV, enda er hann gerspilltur eins og aðrir sem tilheyra þeirri mafíu sem kýs stóru flokkana.

Guðmundur Franklín benti betur á spillinguna erlendis og innanlands heldur en Sigmundur Davíð. Ef hann hefði verið kosinn forseti eða orðið forsætisráðherra, þá væri ástandið án efa miklu betra á landinu.

Það að maður eins og Guðmundur Franklín skuli ekki fá fjöldafylgi, 60% eða meira þýðir ekki að hann sé lélegur stjórnmálamaður. Það þýðir að almenningur er lélegur og fullur af þvættingi valdhafanna sem kúga. Endurræsingin mikla er ekki lengur kenning heldur veruleiki.


mbl.is Byggja sautján hæða hótelturn í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 95
  • Sl. sólarhring: 207
  • Sl. viku: 779
  • Frá upphafi: 129894

Annað

  • Innlit í dag: 84
  • Innlit sl. viku: 595
  • Gestir í dag: 78
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband