Bloggfærslur mánaðarins, október 2021
31.10.2021 | 20:55
Kappsmál gott, Kommasilfrið síðra
Bragi Valdimar Baggalútur hefur hækkað sig í áliti hjá mér og er aftur finnst mér virðingarverður sjónvarpsmaður og tónlistarmaður. Kappsmálið var svo gott hjá þeim um helgina að ég gladdist mjög yfir því. Ekki aðeins minntust þau á Nýal og dr. Helga Pjeturss heldur kom fyrir orðið "stjörnusambandsstöð", en "Hvenær mun hér á Íslandi rísa stjörnusambandsstöð?" er eina dægurlagið eftir mig sem íslenzka þjóðin þekkir eitthvað, eða fleiri Íslendingar en annað eftir mig.
Þóra Arnórsdóttir frænka mín tók að sér Kommasilfrið að þessu sinni, og þrátt fyrir hæfileika hennar var það í sorglegum meðalmennskutakti eins og venjulega, eins og umsjónarmenn þess þáttar hafi engan áhuga á öðru en að sanna fyrir hlustendum að þeir séu gjörsamlega vinstramegin í stjórnmálalitrófinu. Femínismi, umhverfisvernd, á þessu er hamrað endalaust í Kommasilfrinu og varla neinu öðru. Vissulega aðhyllist ég umhverfisvernd, en það er ekkert gagn í því að þylja eitthvað sem allir vita að bjargar ekki jörðinni, heldur einungis samvitzkubitinu hjá fólkinu sem telur sér trú um það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2021 | 01:43
"Að vera einn með þér," eftir Bob Dylan frá 1969, þýðing, túlkun.
Árið 1969 kom út hljómplata með Bob Dylan með eintómum sveitasöngvum, "Nashville Skyline", sem þýðir "Útsýnið (eða sjóndeildarhringurinn) frá Nashville" (Borg sveitasöngvanna). Söng hann þar um ástina og sveitasæluna eingöngu. Fékk platan misjafnar undirtektir þá en þykir í dag sérkennileg og heillandi perla í hans fjölbreytta plötusafni, dæmi um hinn hamingjusama heimilisföður Bob Dylan, trúaða og dyggðuga á allan hátt.
Ástæðan fyrir þessum umskiptum mun hafa verið vélhjólaslysið sem hann lenti í árið 1966 að einhverju leyti, og að hann hætti í dópinu og fór að eignast börn með konunni sinni, Söru Dylan. Það gerði hann hamingjusaman.
Næsta plata, "New Morning" var að hluta til endurhvarf til beitzkari söngva, árið eftir 1970.
Svona er þýðingin:
"Að vera einn með þér, bara ég og þú, viltu ekki segja mér satt um það hvort það er ekki einmitt eins og það á að vera? Að halda þétt hvort um annað alla nóttina... það er allt eins og það á að vera þegar ég er einn með þér. Að vera einn með þér þegar deginum lýkur og aðeins þú í augsýn á meðan rökkrið leggst að, það aðeins sýnir og sannar að þótt takmörkuð séu gleðiefnin er það eina sem ég þekki að vera einn með þér. Sagt er að nóttin sé rétti tíminn til að vera með ástinni sinni, að of margt þvælist fyrir að deginum, en alltaf ertu sú sem ég hugsa um. Ég óska að nóttin væri komin, færandi mér alla þína töfra, þegar einungis þú ert nálæg að halda mér í örmum þínum. Alltaf þakka ég Drottni þegar vinnudeginum lýkur, ég fæ mín ljúfu laun þegar ég er einn með þér".
Já, í fljótu bragði er ekkert merkilegra við þennan texta en dægurlagatexta almennt. Það fer samt eftir því við hvað er miðað. Ljóðin á þessari plötu Dylans eru ekkert svo frábrugðin því sem Elvis Presley söng eða Tom Jones eða Bítlarnir, en samt eru þetta nokkuð ljóðrænir textar á köflum miðað við það sem þeir sungu, en ekki mikið meira en textar almennt. Síðan hefur gæðum texta hnignað á árunum allt fram til nútímans, býst ég við að margir séu sammála um.
Ekkert þarf að útskýra við þennan texta. Enginn fiskur er þarna undir steini, ekkert sagt á dulmáli, heldur allt barnslega einfalt, en heillandi um leið.
Þó er áhugavert að hann talar eins og mjög dæmigerður bóndi, eða alþýðumaður, ekki rokkari eða heimsfrægur tónlistarmaður. Hann yrkir eins og trúaður alþýðumaður og það er dálítið ljúft að hlusta á þessa hlið á honum, enda er þetta ein mest selda plata Dylans frá upphafi, ekki að undra, söngurinn líka óvenju góður.
Að vissu leyti hefur það þurft kjark hjá heimsfrægum tónlistarmanni af hans tagi að búa til tónlist sem tengd var við hægriöfga og rauðhnakka, red necks, en ekki vinstriöfga og mannréttindabaráttuna, sem hann varð frægur fyrir upp úr 1962.
Rauðhnakki er gamalt heiti yfir sveitalubba í Bandaríkjunum, neikvætt, en hefur margvíslega merkingu svo sem.
Það tjáði Bob Dylan í viðtölum að hann hafi alizt upp við svona tónlist og alltaf haft mikið dálæti á sveitatónlistarmönnum.
Það kom líka í ljós þegar hann gaf út hljómplötur nýlega með lögum sem Frank Sinatra gerði ódauðleg, að hann lítur sízt á sig sem neinn vinstriöfgamann eða mannréttindafrömuð, og hefur greinilega alltaf átt sér þann draum að vera raulari eins og Ragnar Bjarnason, Elvis Presley og fleiri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2021 | 03:20
Sitthvað um mikilvægi skósmiða og að járna hesta rétt og vel
Ég rakst á merkilega ritgerð um 126. erindi Hávamála. Höfundur er kona sem tengir saman Höð sem skósmið og Baldur fótlama. Allt það er stórlega merkilegt, en aðeins miklir fræðimenn pæla í þessu svona djúpt. Það sem meira er þarna tel ég mögulegt að hægt sé að finna þessa ör, eða mistiltein sem velur hjólið, örlagahjólið, Mjöllni, eða sálina, andann, á milli lífa.
Ég hef lengi talið Saxa málspaka marktækan sem heimildamann, en ekki veit ég til þess að hans rit séu að fullu þýdd á íslenzku. Eins og svo oft rekur maður sig á það að sum merkilegustu ritin hafa ekki verið þýdd á íslenzku, og margt frumritað og skrifað ekki gefið út vegna áhugaleysis fjöldans. Hvað sem því líður skal hér rekja þetta ögn nánar.
Þetta er löng grein þannig að ekki er rétt að endursegja hana alla hér, en nafn hennar er Hodur, Shoe-Smith, Baldur, Foot-Lamed eftir Carla O'Harris.
Ekki tel ég nokkurn minnsta vafa leika á því að Höður er sami guð og Eros á grísku og Cupid á latínu, eða öllu heldur samsvarandi guð. Baldur er og var sólarguð hins vegar.
En allt í Ásatrúnni hefur margar merkingar og heimsfræðilegar ekki hvað sízt. Nú þegar vísindaþekking mannkynsins er orðin samboðin þessum fornu fræðum er rétt að skoða þetta betur.
Eins og fram kemur í þessari grein rökstyður höfundurinn þetta þannig að viðvörun Óðins í Loddfáfnismálum Hávamála vísi í þessa goðsögn, sem ekki er tekin upp í Snorra Eddu en hefur að öllum líkindum verið til og hefur heimssköpunarfræðilega merkingu eilíflega tengda nútímavísindum, heimsfræði og heimsmyndunarfræðinni.
Leiddar eru líkur að því að Höður hafi í þessari horfnu sögu smíðað skó á Baldur og skeifur á hest hans. Mímir sjálfur er sagður hafa þjálfað Baldur og kennt honum skósmíðar og járnun hesta. (Hjá)trúin á galdramátt skeifa mun vera komin af þessari goðsögn, eða leiddar eru líkur að því í þessari merkilegu grein.
Nema hvað, að minnstu mistök við þessi verk voru talin valda miklu böli, ógæfu.
Þetta er mjög flókið og viðamikið mál og væri hægt að skrifa bók í fullri lengd um þetta, þannig að hér er þetta mjög stytt og aðeins tæpt á nokkrum meginatriðum.
Vitnað er í Robert Means Lawrence.
"Meðal Rómverja var sú hefð ríkjandi að reka nagla í veggi kota og bæja til að verjast drepsóttum". Á þessum tímum heimsfaraldurs að margra mati er ekki úr vegi að fjalla um slíkar hefðir til forna. Hestaskeifur, járnnaglar og ýmislegt slíkt var í sumum tilfellum talið verja gegn sjúkdómum og galdri.
Baldur var (og er í goðsögn sem talin er í eilífu hringferli) drepinn af mistilteini, sem líkt er við ör sem skotið er af boga, eða bölvuðum nagla, eins og kemur fram í þessari grein, þar sem þessar samlíkingar eru gerðar.
Niðurlag ritgerðarinnar fjallar um það hvort Höður hafi gleymt að negla skeifuna á einum stað, en skeifan hafi átt að vera galdratákn gegn Heði, og hans ástarörvum, truflandi. Telur höfundur greinarinnar að Gullveig hafi töfrað Höð og truflað hann við járnun hests Baldurs með þessum afleiðingum, eða spyr hvort svo geti verið.
Þannig er líkum leitt að því að Baldur hafi orðið móttækilegur fyrir sníkjujurtinni sem nefnd var mistilteinn. Einnig er fjallað um hvort Gullveig hafi tekið naglann sem átti að járna hest Baldurs með og skreytt örina með honum sem hæfði Baldur, hverrar skaft var mistilteinn.
Mér virðist það nokkuð ljóst að þessi goðsögn lýsir merkilegum heimsmyndunarfræðilegum fyrirbærum. Í hvaða hliðstæða alheim (eða búlg) fer sálin eftir dauða líkamans hér eða annarsstaðar? Það er gríðarlega stór spurning. Rétt eins og draumarnir sýna og sanna er svarið langt frá því að vera auðvelt og stillilögmálið getur virkað í eiginlega allar áttir, ef svo má segja.
Virðist mér nokkuð ljóst að þessi nagli sem vantar í skeifuna á hesti Baldurs kunni að vera svarið, eða mistilteinninn, eða örin sem Höður skýtur að Baldri með þessum skelfilegu afleiðingum.
Þetta er vegna þversagnalögmálsins ekki sízt, það sem upp á vantar og skapar örlagaþungann og þryngdina, það atriði bendir oft á Mjöllni og stjórnar rás atburðanna, á sama tíma og Hrungni er ætlað að hafa þar hönd í bagga.
Meðvitundin eða sálin sjálf er lykilatriði, hvort sem hún er "horfin" (eins og í tilfelli langflestra í okkar menningu og á okkar jörð) eða er annarsstaðar og kannski á réttum stað. Með kerfisbundnum hætti hefur fólk verið rænt sál sinni og anda sínum, en til lítils er að fjölyrða um það hér, slíkar staðreyndir hafa sinn gang.
Bæði strengjafræðin og fleiri skammtafræðitengdar heimsfræðilegar kenningar fjalla einmitt um þetta, hliðstæða alheima og annað slíkt.
Þarna vantar inní þessi fræði ýmislegt ennþá, eins og hvernig má mæla og setja inní jöfnur mannssálina og athyglina, og allt það.
Hef ég lengi verið á þeirri skoðun að þetta atriði sé að finna í Snorra Eddu og Sæmundar Eddu, en falið á dulmáli.
Þegar eitthvað er tekið út úr jöfnunni er það oft lykilatriðið sem hrindir atburðunum af stað. Rétt eins og sumir vísindamenn sem vilja halda því fram að tíminn sé í raun blekking og að allt gerist samtímis, þannig má líta á dauða Baldurs sem hrindir af stað Ragnarökum, ekki aðeins fyrir heiminn sem heild eða jörðina heldur hvern og einn einstakling, sem er alheimur útaf fyrir sig.
Þrátt fyrir að fleiri goðsagnir séu til um Baldur og Höður á öðrum hnöttum í öðrum mennningarsamfélögum, náskyldum okkar íslenzka menningarsamfélagi, sem ekki hafa varðveizt, þá er þessi mjög áhrifarík og segir margt, sem ekki kemur fram í orðunum sjálfum eða setningunum.
Án þess að fara lengra í þessa átt vil ég minna á það að Hávamál eru uppfull af tilvísunum í goðsagnir sem hvergi eru til á okkar hnetti.
Rétt eins og okkar menning er að komast að þá er ástin tengd Ragnarökum og hörmungum, bæði í tilfelli einstaklinga og þjóða. Síðan eru það andstæðurnar og samspilið þar á milli.
Okkar menning er löngu komin út af sporinu. En ég get sagt að vísbendingarnar eru fjölmargar sem sýna og sanna að Baldur var og er sólarguð og dýrmætur sem slíkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bókina "Elítur og valdakerfi á Íslandi" eftir dr. Gunnar Helga Kristinsson hef ég áhuga á að lesa, sem er nýútkomin. Dr. Gunnar Helgi held ég að sé frekar vinstramegin í lífinu eins og svo margir menntamenn, en af þeim viðtölum í RÚV og víðar út af bókinni finnst mér hann samt nokkuð hlutlaus.
Það er auðvitað nokkuð viðurkennt af öllum að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa haft mikil völd, en Gunnar Helgi gerir sér talsvert mikinn mat úr því.
Ég er nú þekktur fyrir að koma með aðra sýn á málin oft og vera ekki alltaf sammála. Að þessu sinni langar mig að fjalla um orðið fyrirgreiðslupólitík, þar sem í viðtölunum við dr. Gunnar á RÚV og víðar hef ég heyrt hann nota þetta orð.
Ég er ekki sammála þegar reynt er að koma óorði á þetta hugtak. Nú er það auðvitað rétt að þetta einkenni á þjóðfélagi hefur sínar skuggahliðar, en mér virðist vinstrisinnum mjög í mun að ýkja þær hliðar.
Spilling er mjög tengd þessu hugtaki. En það sem ekki hefur komið fram í opinberri umræðu um þessi mál og þetta "fiftísþjóðfélag", er að daglegt líf fólks á þeim tíma snérist ekki um spillingu.
Ég fékk svolitla innsýn í þetta í gegnum ömmu og afa. Heiður var mikilvægur, og náungakærleikur. Það þótti sjálfsagt að ríkir menn hjálpuðu fátækum en ekki hjálparstofnanir, sem þá voru fátíðari. Þá var það líka algengt að ríkir menn hjálpuðu þeim fátækari.
Það er í raun ósköp eðlilegt í okkar fámenna þjóðfélagi að skyldleiki var nauðsynlegur til að komast áfram í lífinu. En þá var líka algengt að taka ókunnugt fólk inná heimilið sem þurfti húsaskjól.
Þegar afi var að byggja verkstæðið og húsið þurfti hann lán. Þá skilst mér að skyldleikinn við Hannibal Valdimarsson hafi eitthvað verið til bóta þegar kom að því að þurfa lán. Annars vildi alþýðufólk held ég mest standa á eigin fótum á þessum árum, og lánin voru þrautalending þegar ekki annað var mögulegt. Allavega hjá þessari fyrstu kynslóð fyrir sunnan, held ég.
Afi vissi vel af tækifærum sem hann hafði til að þéna meira og komast í hærri stöður, en hann kaus að sleppa slíku. Þau voru bæði svo sannkristinn hann og amma að þau vissu vel hvað Biblían boðaði í þeim efnum, að fégræðgi væri leiðin til glötunar.
Þegar Gunnar Helgi fjallar um þetta er minna talað um þetta siðferði fortíðarinnar og þessa sterku siðferðiskennd sem fólk hafði.
Í dag felst spillingin meira í að snobba fyrir Evrópusambandinu og erlendum öflum. Gamla frændhyglin er enn til staðar, en nánast allt ofurfjármagn kemur að utan, ef ekki allt, eða frá fólki sem hefur líka erlendar tengingar þótt það geri það gott í íslenzkum fyrirtækjum.
Ég verð að segja það eins og er, að íslenzk spilling getur verið góð miðað við spillingu sem ennþá minni möguleikar eru á að ráða við, fyrir venjulegt fólk, í lágstétt eða miðstétt.
Vandinn er líka sá nú til dags að allir vefmiðlar og tímarit eða sjónvarp og útvarp veita takmarkaðar upplýsingar. Bók dr. Gunnars Helga er án efa mjög vönduð, en reynt er að halda því fram að alþjóðavæðingin sé góð, og minna gert úr skuggahliðum nútímans, miðað við það sem komið hefur fram í viðtölum. Svo verður spennandi að lesa bókina.
Í gamla daga var stutt leiðin til þeirra ríku. Í dag eru ríkustu hagsmunaöflin í öðrum löndum og brátt eiga þau Ísland allt, ef svo fer fram sem horfir, því miður. Það má því með sanni segja að fyrirgreiðslupólitíkin þarf ekki að vera versta fyrirbærið sem hent hefur okkar þjóð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2021 | 03:51
Engin þörf að kalla það bull sem er bull og því er það ekki bull sem kallað er bull
Þegar enginn hræðist "samsæriskenningu" eða gagnrýnir er hún ósönn. Þegar samsæriskenning er kölluð bull og lygi eða tekin niður hefur einhver hitt á veikan blett. Þar er sannleikur falinn.
Samsæriskenningarnar í kringum Covid-19 eru trúverðugri eftir þöggunina og bannfæringuna í kringum þær.
Á Hringbraut í gær var sagt frá því hvernig Rússum hefur hríðfækkað lengi og öðrum vestrænum þjóðum um langt árabil. Fólk þarf að spyrja sig að því hversvegna og hvort mannlegar athafnir hafi þar komið við sögu. Með því að Evrópa og Ameríka samþykkja ekki Sputnik-5 bóluefnið Rússneska vilja miklu færri Rússar nota það, geta ekki ferðazt til annarra landa, taldir óbólusettir. Evrópa og Ameríka bera ábyrgð á þessu.
Þeir sem telja bóluefnin hættulaus og nauðsynleg þurfa að spyrja sig að því hvort lyfjafyrirtæki eigi hlut að máli, hvaða leik er þarna verið að leika.
Engar afleiðingar verða af gjörðum, ef svo fer fram sem horfir. Það þýðir að grundvöllur kristni, gyðingdóms, islams og annarra megintrúarbragða er að eilífu brostinn. Hvað kemur í staðinn? Trú á vísindin? Eru það raunveruleg vísindin eða vel valið yfirvarp?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2021 | 05:07
Öll mannanöfn á að beygja, jafnvel þau útlendu. Þannig er íslenzka hefðin.
Í gær tók ég eftir beygingarvillu sem ég hef oft fjallað um áður. Mannsnafn var ekki beygt eins og íslenzkan segir til um. Nú er það spurning hvort sjónvarpskonan hafi gert óviljandi mistök, eða hvort hér séu útlend áhrif, beygingarleysi nafna sem ættu að beygjast?
Hún sagði þessa setningu: "Við ræddum í dag við hann Már Kristjánsson". (Ingunn Lára Kristjánsdóttir sagði þessa setningu á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í fréttaþætti stöðvarinnar). Langsamlega flestir Íslendingar hafa þá máltilfinningu að rétt sé að segja:"Við ræddum í dag við hann Má Kristjánsson".
Nú er ekki loku fyrir það skotið að þetta hafi verið mismæli hjá henni, en ef ekki þarf að spyrna við fótum og kenna ungu kynslóðinni að nöfn beygjast, jafnvel útlend nöfn, ef það er á annað borð hægt, eða ítreka þessa hefð ef fólk gleymir henni af einhverjum ástæðum. sum nöfn er erfitt að beygja, en allt slíkt er nauðsynlegt að læra og vel hægt.
Ég hef nefnilega tekið eftir þessu áður, en ekki haft fyrir að skrifa upp villurnar fyrr en nú. Allir vita að innfluttir Íslendingar bera útlend nöfn sem oft er ekki hefð fyrir að beygja. Þess vegna getur komið fram ruglingur, og þessi góða og gilda íslenzka hefð farið að sljóvgast og slævast.
Ég man þá tíð þegar næstum öll útlend mannanöfn voru þýtt uppá íslenzku í barnabókum og fullorðinsbókum, jafnvel nöfn á borgum og bæjum, Lundúnir í stað London, Kænugarður í stað Kiev, Pétursborg er enn nefnd á þannig á íslenzku, ekki Petersburg, og þannig mætti lengi telja.
Þessi beygingarvilla er mjög slæm. Það er hægt að ímynda sér að beygingar í grannmálunum hafi dottið út og dáið með þessum hætti. Hér er nauðsynlegt að hefja málræktarátak og koma þessu í lagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.10.2021 | 16:02
Stofnanavætt, staðlað uppeldi, kerfisvæðing kommúnísk
Sagt er að nú sé kommúnisminn búinn að smjúga inní öll horn. Ekki sízt í gegnum skólakerfið. Þegar ég var unglingur var pönkið vinsælt. Maður gat verið hræddur við pönkarana á Hlemmi, ég var aðeins of ungur til að vera af þeirra kynslóð, en þeir voru að minnsta kosti tákngervingar frelsis og uppreisnar gegn kerfinu.
Síðan gerðist eitthvað. Blandað skólakerfi og sérfræðingar sem skilgreindu allt niður í öreindir sínar. Eitthvað sem ég las bara um í blöðum síðar, sem frjáls einstaklingur og laus við skólakerfið.
Það er hægt að skilgreina til bölvunar og ólífis.
Svo er það salan á Mílu. Þetta lyktar allt af sama skítaeðlinu og þegar mærð voru mistökin fyrir síðasta bankahrun 2008.
Eitt það versta við núverandi skólakerfi er að það ýtir ekki undir sjálfstæða hugsun. Að vera kerfiskerling er versta skammaryrði sem hægt er að hugsa sér, þetta sögðu umdeildir menn á Klaustri um eina frú á þingi, en gæti því miður átt við fleiri en eina þar. Lilja menntamálaráðherra vinnur eftir þekktum ferlum sem hún hefur lært, en vandinn er kannski grunntækari en hún hyggur, og þörf að stokka upp í skólakerfinu og færa það nær því sem það var, þar sem börn voru frjálsari í hegðun og hugsun, ekki dæmd veik á geði út af smáfrávikum eða með hinar og þessar geðraskanir, en fengu samt kristilegt uppeldi á heimilunum.
"Traust til lýðræðisins í húfi" er yfirskrift á Þjóðmálaþætti þar sem þrjár fínar frúr ræða saman. Það traust fæst ekki með því að "fullkomna" kosningarkerfið. "Lýðræði" nútímans felst í skoðanakúgun, hugstjórnun og innrætingu, þar sem allt er talið geðveikt, pólitísk ranghugsun, eða eitthvað annað, sem ekki þóknast valdaelítunni.
Traust til lýðræðisins verður endurreist með því að fá Flokk fólksins inní ríkisstjórnina, til dæmis, og með því að frjálshyggjan fái aftur að vaxa og dafna, og kommúnisminn komist í skammarkrókinn, þar sem hann á heima og kúgunartilburðir hans lærisveina.
Traust til lýðræðisins verður þó helzt endurreist með því að góðir heimspekingar fái að hræra upp í staðnaðri þjóðinni og komast inná RÚV og aðra fjölmiðla, þannig að umræðan verði fólki en ekki þrælum og ambáttum bara sæmandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.10.2021 | 15:15
Covid staðan í Rússlandi og Nýja Sjálandi ekki góð
Ég reyni að líta á margar hliðar í Covid-málunum, en það tekst ekki alltaf jafn vel. Ég tek mark á gagnrýni. Ómar Geirsson telur mig orðinn of hlynntan bólusetningar andstæðingum. Það sjónarhorn er spennandi og freistandi, en ég get líka efast um að það sé rétt eins og hann og fleiri. Ekki til að þóknast öðrum heldur reyna að vera vísindalegur, sem hann telur mig ekki hafa verið í síðasta pistli um þetta, skrifa ég nú öðruvísi pistil um þetta.
Þær fréttir komu núna um helgina og í vikunni að Bretar eiga enn í erfiðleikum, þrátt fyrir bólusetningar, mikið um smit og dauðsföll. Ég ætla ekki að túlka það frekar, það er bara staðreynd.
Þessi frétt hins vegar sannfærir mig svolítið um aðra hlið á þessum málum. Tveir þriðju Nýja-Sjálendinga hafa verið bólusettir og nú gýs upp mesti fjöldi smita frá upphafi hjá þeim.
Sömu fréttir koma frá Rússlandi, eða svipaðar. Þar eru tiltölulega fáir bólusettir og gífurlega mikið um smit og dauðsföll.
Nú ætla ég ekki að þvæla eigin skoðunum við þetta. Ég ætla að leyfa tveimur öðrum bloggurum að njóta þess að þessar fréttir geta stutt það sem þeir hafa tjáð sig um þetta.
Í fyrsta lagi styður þetta málflutning Ómar Geirssonar um að bólusetningar séu helzta lausnin.
Í öðru lagi styður þetta það sem Þorsteinn Siglaugsson skrifaði í upphafi faraldursins, að faraldurinn yrði að ganga yfir löndin og taka sinn toll, að lokanir myndu ekki skila árangri.
Þetta er einfaldlega ályktun í ljósi þess að bæði Rússland og Nýja Sjáland hafa verið með miklar lokanir. Ályktunin getur verið röng eða rétt.
En dauðsföllin og smitin í Bretlandi og víðar þrátt fyrir bólusetningar sýna að þetta er ekki einfalt mál. Ég vona að Ómar Geirsson verði ánægðari með þennan pistil, ég reyni að hafa hann vísindalegri.
Niðurstaðan er að allir virðast hafa rétt og rangt fyrir sér að einhverju leyti. Það er hægt að toga þetta og teygja og rökstyðja á margan hátt.
Metfjöldi smita í Nýja-Sjálandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.10.2021 | 20:18
Ég minnist þín eftir Bob Dylan, frá 1985, þýðing og túlkun.
Þetta lag birtist á plötunni "Empire Burlesque" með Bob Dylan árið 1985. Nafnið Empire Burlesque þýðir Heimsveldið Skrípaleikur og segir það sitt um lágt álit hans á heiminum þá eins og oft, eða heimsmenningunni.
Þessi hljómplata meistara Dylans er yfirleitt ekki hátt skrifuð hjá gagnrýnendum. Ástæðan er tvíþætt í meginatriðum: Útsetningarnar eru mjög í anda "sixtís", það er að segja hljóðgervlar og trommuheilar, en ekki lifandi hljóðfæri. Í annan stað eru ástarlög mjög áberandi á plötunni en ekki þjóðfélagsgagnrýni, en oft er sagt um Dylan að hann sé orðinn "eins og hinir" þegar hann semur ástarlög en ekki þjóðfélagsgagnrýni, eða er reiður gamall maður og pirraður, fullur af ljóðrænum anda og líkingum.
Þetta er eitt af þessum ástarlögum, sem sumir kalla slepjupopp og tyggjókúluflatneskju. En hinn ágæti heimspekikennari og enskukennari David Weir hefur varpað nýju ljósi á þessa einföldustu texta Dylans á bloggsíðu á ensku þar sem hann túlkar ljóð skáldsins Bob Dylan. Fer ég að hans dæmi hér.
Þegar betur er að gáð kemur í ljós að þetta er ekki lélegur og einfaldur texti hjá Bob Dylan. Strax í nafninu vaknar spurningin: Er hann að tala um látna manneskju eða lifandi?
Svona er þýðingin:
"Ég minnist þín þótt ég gleymi öllu öðru. Við saman vorum sönn, við saman vorum bezt. Þegar um ekkert fleira er að ræða kemur þú beint að kjarna málsins skyndilegar en nokkur annar sem ég veit um. Í leyndardómnum mikla mun ég minnast þín. Ég mun minnast þín við enda slóðarinnar. Ég átti svo mörgu ólokið, ég hafði svo lítinn tíma fyrir mistök. Sumu fólki gleymir maður ekki þótt maður hafi aðeins séð það einu sinni eða tvisvar. Þegar rósirnar fölna og ég dvel í skugganum mun ég minnast þín. Reyndi ég ekki að elska þig? Reyndi ég ekki að láta mér ekki standa á sama? Svaf ég ekki og grét við hlið þér með regnið byljandi í hári þínu? Ég mun minnast þín þegar vindurinn næðir um furuskóginn. Það varst þú sem náðir til mín og það varst þú sem skildir mig. Þótt ég myndi aldrei segja að ég hafi farið eftir öllu sem þú sagðir mér, þá finnst mér þegar allt kemur til alls, kæri góði vinur að ég muni minnast þín."
Þetta er fallegur texti en það er hægt að túlka hann á margvíslegan hátt eins og margt eftir Bob Dylan.
Þetta getur verið trúarlegur texti, Bob Dylan gæti verið að syngja til þess guðs sem hann trúir á, hann getur verið að syngja til vinar eða vinkonu, eða maka. Sá eða sú sem hann syngur til gæti verið lífs eða liðin(n).
Ég held helzt að þetta sé verndarengill eða andlegur leiðbeinandi sem Bob Dylan syngur til og yrkir um í þessu kvæði.
Svipað orðalag notaði hann á Shot Of Love plötunni þegar hann var að afkristnast, til dæmis í laginu "In The Summertime" frá 1981. Þá talaði hann til æðri veru, kannski engils, eða verndarvætts, frekar en til guðs sem hann trúir á.
Í fyrsta lagi kemur það fram í textanum að hann hafi sennilega aðeins hitt þessa manneskju einu sinni eða tvisvar.
Þá getur það ekki verið Sara, fyrrverandi eiginkona hans, eða þessar konur sem hann var með á þessum tíma, sem sungu bakraddir eða eitthvað. Ekki getur þetta verið náinn ættingi, faðir eða móðir, eða vinur.
Eins og svo oft með texta Dylans lenda túlkendur og útskýrendur í vandræðum. Í textanum kemur fram að hann hafi "sofið við hlið" þess sem kveðið er um.
Getur verið að hann sé að syngja um konu sem hann svaf hjá einu sinni? Auðvitað er það ekki útilokað. Það er bara ein túlkun af mörgum og ekkert ótrúlegri en margar aðrar.
Samt passar það ekki við að viðfangið virðist hafa vakað yfir honum og verndað samkvæmt öðrum línum, eða skilið hann mjög vel.
Það er engu líkara en hann sé að yrkja um fylgju eða verndarvætt sem hafi líkamnazt einu sinni eða tvisvar og birzt honum. Getur það verið? Kannski. Fólk verður fyrir alls konar andlegum upplifunum og skynjunum.
Að minnsta kosti enn eitt ljóð eftir Bob Dylan sem bæði gleður og vekur upp spurningar, og margir vilja túlka á margvíslegan hátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2021 | 16:37
Hvaðan kemur aukafylgi Framsóknarflokksins?
Kenningin um að hið nýja fylgi Framsóknarflokksins komi frá vinstriflokkunum er áhugaverð. Er ekki annars rökrétt að ætla að þetta aukafylgi komi frá Miðflokknum?
Annars hef ég skýringu sem ég vona að sé rétt, að þetta sé þjóðernissinnað fólk sem vilji að Framsóknarflokkurinn verði aftur eins og hann var í upphafi. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru mjög þjóðernissinnaðir flokkar í upphafi. Við þá stefnu líkar mér.
Framsókn hækkar enn Sjálfstæðisflokkurinn dalar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Hvernig ætti að vera hægt að bjarga bandarísku þjóðinni undan...
- Er Samfylkingin lengra til hægri en Sjálfstæðisflokkurinn? Rá...
- Áfengisdrykkja tengist sjálfstæði einstaklinganna, manndómsví...
- Þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn verða að hjálpa landbún...
- Í þessari frétt endurspeglast elítuviðhorf wóksins og svo frj...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 82
- Sl. sólarhring: 140
- Sl. viku: 690
- Frá upphafi: 133161
Annað
- Innlit í dag: 52
- Innlit sl. viku: 520
- Gestir í dag: 48
- IP-tölur í dag: 48
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar