Traveling Wilburys

Önnur hljómplata þessarar súpergrúppu (sem var tölusett nr. 3) er hljómplata þar sem Bob Dylan syngur flest lögin. Þar er George Harrison auk þess mest áberandi ásamt honum. Tom Petty er einnig áberandi söngvari á þeirri plötu, en hann hafði svipaða rödd og Bob Dylan.

Tónlistin á þeirri plötu er lítt spennandi iðnaðarrokk með örfáum spennandi textalínum sem minna á það hvílíkt skáld Bob Dylan er. Engu að síður njóta kraftar Bob Dylans sín ekki á þessari plötu. Hann var ekki uppá sitt bezta á þessum árum og auk þess var þessi hljómplata öll tekin upp á hlaupum að því er virðist, á milli tónleikaferða þessara poppstjarna sumra, á meðan aðrir gerðu lítið í vinnslunni, eftir útkomunni að dæma.

Tónlistarlega minnir þessi önnur (þriðja) plata Wilburyanna á margt sem George Harrison lét frá sér fara, og lagasmíðar hafa því verið talsvert í hans höndum, en Bob Dylan og Tom Petty hafa þó borið jafn mikla ábyrgð á þeim sennilega.

Hins vegar ber ótrúlega lítið á Jeff Lynne. Sá maður hefur viðurkennt að hann þjáist af feimni, og er lítið fyrir að trana sér fram. Hljómblöndun hefur þó verið eitthvað á hans könnu, maður heyrir það, en George Harrison er einnig skrifaður fyrir slíkri vinnu, enda var hann fær á því sviði einnig.

Lagasmíðar Jeff Lynne eru yfirleitt nokkuð einkennandi. Þær eru grípandi og einfaldar, barnalegar á köflum, eins og vinna hans í ELO ber með sér.

Lagið "Not Alone Anymore" sem kom út á fyrri plötu félaganna árið 1988 er eftir Jeff Lynne, og það ber öll merki Jeff Lynnes, enda er hann skráður fyrir því, en hann samdi það fyrir Roy Orbison, sem söng það snilldarvel á þeirri plötu, en lézt það sama ár, því miður.

Raunar kunni Roy Orbison mjög vel að semja lög. Það gerði hann oft í samstarfi við aðra, en snilldarvel og þá í upphafi ferils síns áður en flestir hinna slitu barnsskónum og urðu frægir. Hann reyndar var nokkurnveginn að slá í gegn á sama tíma og Dylan, en þá mest rétt þegar Dylan byrjaði, en hvarf svo af sjónarsviðinu í mörg ár og áratugi, þar til hann birtist aftur í Traveling Wilburys.

Ræturnar að samstarfi þessara félaga má finna býsna langt í fortíðinni. Virðingin fyrir Roy Orbison var þeim hinum sameiginleg, og djúp vinátta ríkti á milli Bob Dylans og George Harrisons, sem náði aftur til Bítlaáranna.

Eins og heyra má á fyrri plötunni unnu þeir hver í sínu lagi talsvert. En lagið "Dirty World" sem Bob Dylan á mest í er þó samið af þeim öllum, því þeir komu með örlitla textabúta allir í það lag.

En að semja lag með öðrum er ekki alltaf eins auðvelt og halda mætti.

Gott dæmi er lagið "I'd Have You Anytime" sem Bob Dylan og George Harrison sömdu saman á þakkargjörðarhátíðinni 1968, þegar George Harrison og kona hans voru í heimsókn hjá Söru og Dylan.

Á þessum tíma var Bob Dylan í rithöfundavanda, ritstíflu, og hafði aðeins samið lítið, en lagið "Lay Lady Lay" samdi hann á þessu ári og einnig "I Threw It All Away".

Sagan segir að hann hafi beðið George Harrison að kenna sér ný gítargrip og spila Bítlalög sem George Harrison hafi gert með ánægju. Þeir voru með segulbandstæki þarna og nokkrar mínútur komust á netið einhverntímann fyrir nokkrum árum af því sem þeir hljóðrituðu, þar sem heyra mátti söngl þeirra félaganna frá þessu ári, 1968, og lagið "I'd Have You Anytime".

Hinsvegar má heyra það að viðlagið er eftir Bob Dylan en erindin eru eftir George Harrison. Þannig unnu einnig Bítlarnir, Lennon og McCartney, nema stundum unnu þeir enn nánar saman, með því að semja laglínur og texta saman við píanóið eða með gítarana sína.

"She's My Baby" er lag sem er sennilega eftir George Harrison að mestu leyti, textinn og lagið bera einkenni hans.

"Inside Out" er merkilegt lag, því það fjallar um umhverfisvernd. Samkvæmt upplýsingum var það samið af mörgum félögum hljómsveitarinnar. Bob Dylan og Tom Petty áttu upphaflegu hugmyndina að textanum og hinir hjálpuðu til, nema allt lagið í léttum dúr þrátt fyrir að fjalla um alvarleg mál, en hinir félagarnir gátu ekki að sér gert að snúa þessu uppí hálfvegis grín. Bob Dylan og Tom Petty áttu líka talsverðan þátt í lagasmíðinni, en Jeff Lynne og George Harrison fínpússuðu hana og útsettu, og George Harrison samdi sennilega brúna í lagið og söng hana að auki.

"If You Belonged To Me" er sungið af Bob Dylan og sennilega samið af honum líka að mestu leyti. Eintóna lag sem minnir á margt eftir hann.

"The Devil's Been Busy" er eitt snjallasta lagið, því það er fullt af gagnrýni á nútímann. Þeir syngja það allir saman.

Textinn ber öll merki Bob Dylans, með kristilegar og gyðinglegar tilvísanir, Biblían ekki fjarri og vandlæting predikarans.

Lagasmíðin gæti þó verið eftir Jeff Lynne eða George Harrison, en tæplega Tom Petty eða Bob Dylan.

"Seven Deadly Sins" er einnig sungið alveg af Bob Dylan. Þessi texti ber einnig öll hans höfundareinkenni. Jafnvel gæti lagið verið alveg eftir hann.

"Poor House" er sungið af Jeff Lynne og Tom Petty. Það er langt frá því að vera eins fjörugt og beztu lögin hans Jeff Lynnes, og þó eru fáeinir tónar í því sem minna á hann. Gæti vel trúað að Tom Petty eigi ekki síður mikið í því en hann. Þetta er ekkert sérlega gott lag, en sæmilegt iðnaðarpopp. Reyndar er varla ein einasta laglína á þessari plötu merkileg, örfáir textar nokkuð áhugaverðir.

"Where Were You Last Night?" er sungið af Bob Dylan að mestu. Brúin er þó sungin af George Harrison. Gæti bezt trúað því að lagið sé samið af þeim tveimur. Textinn er blanda af paranoiu Bob Dylans og lögunum sem George Harrison samdi, sem voru andleg mörg hver, og einnig talsverð gagnrýni á nútímann í þeim. Þó minnir það einnig á ástarsöngvana sem þessir tveir hafa samið, en það er venjulegt, og einhverjir hinna hefðu getað samið það jafnvel líka.

"Cool Dry Place" er sungið af Tom Petty. Það gæti vel verið eftir hann að mestu leyti.

"New Blue Moon" er sungið af þeim öllum, og er dálítið ruglingslegt, ekki kannski mjög gott, en einhver tilþrif í lagi og texta, sem ómögulegt er að vita hverjum tilheyra, því þeir gætu allir hafa lagt í púkkið, eins og í "Dirty World", og þó er útkoman ekkert meistarastykki, en svona sæmilegt lag með fáeinum áhugaverðum atriðum í.

"You Took My Breath Away" er sungið af Tom Petty. Sæmileg lagasmíð, textinn er líka allt í lagi, að mestu leyti. Jeff Lynne syngur brúna. Gæti vel trúað að Jeff Lynne eigi eitthvað í laginu og Bob Dylan eða George Harrison hafi einnig komið að sköpun lagsins, en ekki sízt þó textans.

"Wilbury Twist" er lokalagið, og kjánalegur textinn er svo sem einsog sumt á þessari plötu, hvorki fugl né fiskur. Reyndar virðast þeir hafa hent textabrotum út úr sér án íhygli og síðan leyft þeim að standa, eða þannig hafa þeir lýst vinnunni sumir.

Ég verð að segja að hvorug platan með Traveling Wilburys fannst mér sérlega góð, og ekki hefur það breyzt með árunum.

En samt voru merkilegir hlutir að gerast á fyrri plötunni. Hún hjálpaði til við að lífga við feril þessara risaeðla að minnsta kosti.

Bob Dylan vaknaði þar aftur til lífsins sem ljóðskáld, en hafði verið í dvala sem slíkur frá 1985 að mestu leyti, eða í 3 ár, en þó ekki algerum dvala, því fáein frumsamin lög höfðu komið út eftir hann á eigin plötum, sem voru þó léleg miðað við fyrri afrek.

Fyrri platan vakti verðskuldaða athygli á ný á Roy Orbison áður en hann lézt, og nýja platan hans, "Mystery Girl", sem kom út að honum látnum 1989 varð nokkuð söluhá, en þá plötu vann hann einnig um þetta leyti, 1988.

Ekki lífgaði þessi plata feril George Harrison við, en Tom Petty lét að minnsta kosti ekki deigan síga næstu árin á eftir.

Jeff Lynne var einnig lítt virkur í að gefa út eigið efni árin á eftir, þannig að þetta breytti litlu fyrir hann.

En fyrri platan sýndi þó hvernig frægir menn geta slakað á og búið til "léttvæga" tónlist, sem einkennist af gríni og klisjum, en er samt hressandi og fyndin, og gott er að dansa við.

Seinni platan (þriðja) er einnig með þannig einkenni, en samt er hún hræðilegur bastarður, og seldist hvorki eins vel né fékk eins góða dóma.

Mestu hæfileikamennirnir í Travelling Wilburys voru Bob Dylan og George Harrison. Afköst þeirra voru mikil þegar þeir voru uppá sitt bezta og gæðin sömuleiðis. Nema hvað, að báðir voru þeir langt frá því að vera á sínu bezta skeiði.

Reyndar má segja það sama um hina mestmegnis.

Á seinni plötunni gaf Bob Dylan sér tíma til að semja nokkuð góða texta. Lagasmíðarnar eru þó ekki að lyftast sérlega hátt.

Á seinni plötunni er engin yfirburðagóð lagasmíð frá George Harrison, eins og "Handle With Care" á fyrri plötunni eftir hann eða "End of The Line", eftir hann sennilega líka.

Þannig að senni platan er nokkuð misheppnuð. Enginn af þessum mönnum var að semja góð lög, og aðeins textar Dylans bjarga plötunni frá því að vera afleit.

Sumar af lagasmíðum Roy Orbisons frá fyrstu rokkárunum, þegar Elvis Presley var einnig að byrja, verða að teljast hrein og tær snilld, og hann hafði einnig sanna englarödd. Hinsvegar er eins og ferill hans hafi farið í vaskinn of snemma. Frábæru lögin hættu að koma frá honum og hann gleymdist.

Þannig að það er eins og heimsfrægir tónlistarmenn geti misst hæfileikann að semja góð lög, og þannig geta þeir týnt sviðsljósinu.

Traveling Wilburys var sennilega aldrei alvöru hljómsveit að því leytinu til að þeir voru ekki í þessu nema til að skemmta sér og öðrum léttilega, þeir gáfu ekki út hljómplötur árlega og voru ekki að túra stíft þessi ári.

Þeir voru allir orðnir svo frægir og stórir að erfitt var að leika sama leik og tvítugir strákar í leit að frægð og frama.

Súpergrúppan Traveling Wilburyes sýndi það og sannaði að það er erfitt að búa til lög og texta í samstarfi við aðra. Rétt eins og það er erfitt að kynnast öðrum náið, hvort sem þeir eru frægir eða ekki, og að eignast nána vini eða jafnvel kunningja.

John Lennon og Paul McCartney voru nánir og góðir vinir. Auk þess pössuðu þeirra hæfileikar saman óvenju vel saman, þeir voru einsog hjón í sköpun sinni. Báðir með mikla hæfileika til lagasmíða, en með lítinn áhuga á alvarlegum textum. Með tímanum kom það samt líka, eftir að hafa hlustað á Bob Dylan.

Jeff Lynne samdi mjög góð lög í ELO, sérstaklega 1973-1981, þegar sú hljómsveit var á hátindinum. Augljóst er að þau lög jafnast á við Bítlalögin, og Jeff Lynne var undir áhrifum Bítlanna.

Samt virðist persónuleiki hans vera þannig að hann semji einn en ekki í samstarfi við aðra. Hann gat ekki sezt niður með Bob Dylan og búið til góða laglínu ofaná góðan texta frá honum.

Seinni platan með Traveling Wilburys sýnir vel hversu sköpunarferlið er erfitt og ekki fyrir alla, jafnvel ekki þótt menn séu heimsfrægir.

Samt finnst mér ýmislegt gott á þessari plötu.

Sérstaklega "Devil's Been Busy", en það er vegna þess að sá texti lýsir alveg nútímanum, og því sem átti eftir að gerast.

En að gera góða plötu frá upphafi til enda er erfitt. Þá má enginn texti vera lélegur og ekkert lag. Kjánaleg textabrot geta skemmt annars góða plötu. Þannig finnst mér kjánaskapurinn eyðileggja seinni plötu Traveling Wilburys algerlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Frábær greining og einhver albesta plötugagnrýni sem ég hef vitað og það yrði virkilega flott ef þú myndir "taka fleiri plötur fyrir".  Ég verð að segja eins og er að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessa plötu þegar hún kom út og fyrir mér kom í ljós hversu stóran þátt Roy Orbison silaði í þessu samstarfi.  Fyrri platan fannst mér koma sem algjör "sprenga" inn í tónlistarsenuna á sínum tíma og ljóst var að það yrði MJÖG erfitt að fylgja henni eftir.........

Jóhann Elíasson, 7.5.2024 kl. 09:19

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Gaman að fá þessa athugasemd Jóhann, þarna erum við sammála. Fyrri platan var tímamótaverk, og seldist grimmt og fékk góða dóma. Ég held hreinlega að þeir hafi líka verið í sorgarferli þegar þeir sömdu seinni plötuna, eftir að missa félaga sinn...

beztu kveðjur.

Ingólfur Sigurðsson, 7.5.2024 kl. 23:45

3 Smámynd: vaskibjorn

Flottur pistill,langaði að minnast á hægri hönd Jeff Lynne,bassaleikari og síðar hljómborðsleikari og útsetjari Richard Tandy sem lést 1-5 "24 frábær tónlistar gúrú og var heilinn á bakvið að sameina strengja harmonium,pop og rok hjá ELO.Útkoman var algjört eyrnakonfekt.Sjálfur fer ég ávallt í sparigallann þegar ég set ELO á fóninnwink

Kv.Björninn

vaskibjorn, 8.5.2024 kl. 05:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 11
  • Sl. sólarhring: 159
  • Sl. viku: 711
  • Frá upphafi: 133257

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband