Annað erindi ljóðsins "Too Late/Foot of Pride" eftir Dylan frá 1983. Reynt að kafa dýpra og undir yfirborðið.

Þegar ég fjallaði um fyrsta erindið fannst mér það kýrskýrt að um kristilegt verk sé að ræða. Það er engin furða að "Infidels" er kölluð veraldlegt verk, því eins og hér má sjá er einnig hægt að túlka þetta með veraldlegum hætti.

Flestir aðdáendur Bobs Dylans kunna bezt að meta hans ljóðrænustu verk, sem eru full af bókmenntatilvitnunum, einsog hjá Megasi til dæmis. Þetta ljóð er þannig, og ekki er fullkomlega víst að það sé kristilegt, þótt sú túlkun bjóði uppá rökrétta nálgun.

Þetta erindi ljóðsins "Too Late" breyttist lítið og er svipað og í "Foot of Pride".

Einhver "hann" er þarna nefndur í upphafi, og það stríðir gegn þeirri túlkun minni að þetta sé kristilegt kvæði. Sá "hann" er mennskur maður, því hann átti bróður sem heitir Paul samkvæmt textanum.

Það að túlkanir stangist á þegar menn reyna að botna í kveðskap Dylans er ekkert nýtt. Það er eitt af því sem einkennir margt af því sem hann hefur sett saman.

En vandinn er sá að ef þetta er ekki kristilegt kvæði heldur veraldlegur söngtexti þá er næstum ómögulegt að botna í honum skynsamlega. Hin lausnin lét þetta ganga upp.

"Café Royal" sem þarna er nefnt gæti sennilega átt við mörg kaffihús. Dylan lýsir því svona:"Where all the company is mixed."

Enn á ný kemur túlkunarvandi. Hvað á hann nákvæmlega við með orðinu "mixed"? (Blandaður mannfjöldi?).

Maður fær á tilfinninguna að orðið þýði að fólk sé þarna ekki aðeins af mismunandi stétt og uppruna eða útliti heldur feli orðið í sér að þarna sé misjafn sauður í mörgu fé, og kaffihúsið því ekki eins konunglegt og nafnið gefur til kynna, en það er svo sem ekki skrýtið, því nöfn segja oft fátt.

Sérstaklega miðað við fyrra erindið þar sem konurnar með slæðurnar sögðu afbrotin sem komu vini sögumannsins í fangelsi "natural situation", en það orðalag er mjög lýsandi, sem sé að vitnin eru samdauna þeim sem frömdu afbrotið og standa með viðkomandi.

Það gefur þá tilfinningu að Dylan sé að lýsa skuggahliðum tilverunnar í kvæðinu.

Það er vissulega erfitt að túlka sum kvæði Dylans. Þetta er eitt af þeim.

Síðan stendur í þessu erindi:"Fallegur í útliti, en vill finna einhvern til að henda bók í."

Enn og aftur er það mjög, mjög langsótt að þarna sé Dylan að lýsa Kristi, og því má segja að leyndardómarnir dýpki og það verði æ torveldara að túlka þetta.

Þetta getur verið persónulýsing gerð í skyndi og án teljandi merkingar.

En myndin sem er dregin upp lýsir glaumgosa, einhverjum sem er grunnhygginn og veraldlegur, langt frá því að þekkja miklar trúmálapælingar.

Viðlagið gæti vísað til Krists, þótt persónur séu kynntar í erindunum sem hafa öðru hlutverki að gegna og eru ekki hann.

Ef maður skilgreinir þessa hegðun sem lýst er, þá er þetta hegðun einhvers sem snöggreiðist sennilega og íhugar ekki afleiðingar gjörða sinna, eða er auðsæranlegur og móðgunargjarn líka, og þá jafnvel hugsanlega hégómlegur úr hófi fram, kannski vegna útlitsins sem hann lifir fyrir.

Þar næst er því lýst að þessi maður drekki, og að drykkir geti verið göróttir.

Í ensku er það eðlilegt að segja:"Fix me a drink", blandaðu mér drykk.

Ég tel að Dylan hafi notað setninguna í slangurmerkingu, að eitthvað sé sett útí drykkina, vímuefni, muldar pillur til dæmis. Annars hefði hann varla notað svona setningu.

Sögnin fix getur þýtt að fastsetja eða ákveða með sérstökum hætti. Því finnst mér merkingin geta verið "lyfjakokteill". Það er þó aðeins tilgáta.

Þegar tekið er fram að einhver drekki í ensku getur það einnig þýtt að viðkomandi sé alki, drekki mikið.

En lýsingin á þessum manni er ekki hrós eða slíkt, heldur lýsing á syndaseli. Ég skil þetta eftir opið fyrir aðra að túlka betur, eins og annað.

Síðan kemur háðsleg lína þarsem sögumaður hvetur einhvern til að syngja annað lag um sumarástina sína. Söngleikurinn Grease kemur manni í hug, en Dylan hefur oft öfundazt útí slíka velgjurómantík og komið með háðslegar línur, eins og í "Handy Dandy" frá 1990.

Bætt er við "eða um skyndikynnin með Errol Flynn." Sá leikari varð frægur fyrir að vera laglegur og vinsæll af kvenþjóðinni. Flynn var líka þekktur fyrir að drekka talsvert, og var ákærður fyrir nauðgun, til dæmis.

En hér er ástæða til að ætla að ljóðmælandinn yrki til konu, því Dylan hefur ævinlega verið þekktur fyrir að viðurkenna aðeins ástir gagnkynhneigðra, í lögum sínum.

Hvort það hjálpi til við túlkunina er ekki svo víst.

Þó getur verið að sögumaðurinn sé að reyna að vinna ástir konunnar sem hann syngur til með því að gera lítið úr öðrum vonbiðlum, eins og þekkist vel.

Áfram halda línurnar. "Á þessum ástríðutímum þar sem formfesta er í tízku."

Margir hafa kvartað undan því að Bob Dylan hendi orðum að því er virðist tilviljanakennt í hlustandann eða lesandann. Þannig eru þessi orð undarlega tilviljanakennd.

Þetta með ástríðutímana er þó í samræmi við ljóðið að öðru leyti, því hér er eins og sögumaðurinn sé að reyna að afsaka lauslæti sitt eða eitthvað slíkt, og allt verkið lýsir syndugum heimi, hvort það er túlkað algjörlega með kristilegum hætti eða með veraldlegum hætti.

Alla setninguna gæti verið hægt að túlka þannig að ljóðmælandinn sé að gagnrýna formfestuna, kristileg gildi og eitthvað slíkt. Ef það er rétt þá er ljóðið margslungið, og gagnrýni á syndir með því að leggja það glaumgosa í munn, sem þó virðist gera sér grein fyrir hinum kristilega boðskap að einhverju leyti.

Síðan kemur setning sem hélt sér til síðari útgáfa af laginu: "Say one more stupid thing to me before the final nail is driven in."

Þarna er ljóðmælandinn að líkja sér við Krist og krossfestinguna. Að vissu leyti passar þessi setning ekki við þá lýsingu sem við höfum fengið á þessum persónum hingað til.

Aðrir ritskýrendur Dylans, eins og David Weir hafa bent á að margir ljóðmælendur séu oft í sama texta Dylans. Hér kann það að eiga við.

Síðan kemur viðlagið.

Sumt er breytt í "Foot of Pride".

Hér segir söguhetjan að sú eða sá sem mælt er til eigi bróður sem heitir James, og að sá gleymi hvorki andlitum né nöfnum.

Kinnfiskasoginn og kynblendingur, stendur í textanum. Ekki jákvæð lýsing miðað við 1983. Frekar eins og staðalímynd á vafasömum manni, og bíómyndir gáfu þessa staðalímynd líka.

Síðan kemur sú lýsing að hann horfi beint inní sólina og hvæsi:"Hefndin er mín, er það virkilega", eins og hann sé að ögra Guði. Fyrir utan að fólk blindast af því að horfa beint í sólina lýsir þetta hroka þess sem þannig er lýst.

Afgangurinn af erindi númer tvö er nokkurnveginn í samræmi við það sem ég fjallaði um í fyrri útgáfu lagsins, á meðan það hét "Too Late".

Breytingin á þessu erindi snýst því um að gera boðskapinn beittari, og í seinni útgáfunni er textinn orðinn miklu kristilegri en hann var.

Til að rökstyðja að þetta sé spádómskvæði má segja að þessar dómsdagslýsingar eiga betur við um nútímann en 1983, þegar þetta var ort. Heimurinn er orðinn líkari því sem stórlega hneykslaðir frelsaðir einstaklingar voru hræddir um að hann yrði með tímanum.

Þannig er þetta spádómskvæði, eða mögulega, kannski að minnsta kosti.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 112
  • Sl. sólarhring: 150
  • Sl. viku: 776
  • Frá upphafi: 130361

Annað

  • Innlit í dag: 75
  • Innlit sl. viku: 582
  • Gestir í dag: 72
  • IP-tölur í dag: 72

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband