15.11.2023 | 16:05
Breytingarnar á viðhorfum, náttúruhamfarir og hryllingsmyndir
Ég var að lesa pistil í gær eftir Pál Vilhjálmsson, og þá rifjaðist upp gamalt samtal sem ég átti við ömmu mína um svona málefni, og nafna hans, tónlistarmanninn Pál Óskar.
Ég held að einn maður hafi gert meira fyrir hinseginfólk en flestir aðrir á Íslandi, og það er Páll Óskar, tónlistarmaðurinn frægi og diskómeistarinn. Ég man eftir því að áður en hann varð vinsæll var ástandið allt öðruvísi.
Nafni hans Páll Vilhjálmsson bloggari og kennari er alveg á hinum enda skoðanarófsins og mjög andvígur slíku. Margt hér á blogginu sem skrifað er um þessi mál minnir mig á það sem ömmurnar mínar kenndu mér um þetta. Önnur talaði um þetta á bakvið lokaðar dyr við gesti í lágum hljóðum svo við börnin heyrðum ekki (en þá lá maður á hleri og reyndi að heyra hvert orð því það var svo spennandi að heyra það sem var bannað að heyra) og smituðumst ekki af syndsamlegu líferni eða hugarfari, eins og syndin væri smitandi og bærist með púkum, og hin kallaði þetta sódómsku við mig.
Amma mín í föðurættinni sagði að í sínu ungdæmi hefði þetta verið kallað sódómska. Hún kaus Alþýðuflokkinn en sannkristin manneskja ekki síður en fólk sem kaus Sjálfstæðisflokkinn, "íhaldið" sem hún gagnrýndi mikið.
Amma Fanney bjó í eigin íbúð nokkur síðustu árin og þangað heimsótti maður hana nokkuð oft á tímabili. Svo fékk hún alzheimer og lézt nokkrum árum síðar.
Eitt sinn þegar ég heimsótti hana árið 1996 hafði biskupsmálið verið í hámæli, út af Ólafi Skúlasyni biskup, og ég man mjög vel eftir þeirri heimsókn og hvað hún sagði við mig.
Hún stóð 100% með Ólafi biskup eins og held ég allir af gömlu kynslóðinni. Hún talaði um "Ólaf sinn", og blessaðan saklausan manninn sem væri ofsóttur af geðveikum kvendum, og að þær væru bara að reyna að fá athygli konurnar sem ásökuðu hann.
Segja má að ég hafi ýmislegt lært um það hversu kynslóðabilið getur verið djúpt af svona heimsóknum og samtölum við þessa ömmu mína og fleiri af hennar kynslóð.
Hún dýrkaði Jón Baldvin, en var lítt hrifin af kvenréttindakonum innan stjórnmálaflokkanna.
Hún hafði miklar áhyggjur af mér því ég var síðhærður og spurði mig hvort ég væri nokkuð kominn útí sódómsku en ég neitaði því. Síðan hneykslaðist hún mikið á vinsældum Páls Óskars Hjálmtýssonar og sagðist ekkert skilja í því að unga fólkið væri að hlusta á hann, hann væri sódómskur, og í orðunum lá að hún bjóst við að Grillarinn næði í hann og alla sem létu mengast af honum og slíku.
Hún spurði mig hvort ég héldi upp á Pál Óskar eins og margt ungt fólk, en ég neitaði því líka, og sagði að hann væri ekkert sérlega fyrir minn smekk, ég vildi frekar Bob Dylan, rokk og slíkt, og þá andvarpaði hún af létti.
Ég sagði þó að mér fyndist gott það sem hann hefði gert með Milljónamæringunum, og að mér fyndist hann góður söngvari, vissulega. Þá spurði ég hana hvort henni fyndist hann ekki syngja vel. Hún neitaði því og fannst hann tilgerðarlegur og smeðjulegur og ekki sér að skapi. Hún kunni betur við karlmannlega söngvara eins og áður tíðkuðust.
Þegar þessar sprungur mynduðust í Grindavík sá ég fyrir mér hryllingsmyndir þar sem rauðir púkar skríða uppúr sprungunum, með horn, hala og klaufir og þríforka, tilbúnir að grípa okkur fólkið og draga niður í Helju með sér til að kvelja enn frekar. Slíkar hryllingsmyndir eru algengar og byggðar á kristnum minnum og allir hafa horft á slíkar bíómyndir, eða svipaðar. Hægt er að ímynda sér að gos og jarðskjálftar séu refsingar fyrir syndina í mannheimum, en allt á þetta sér jarðfræðilegar orsakir og skýringar. Eða skyldu þær vera fleiri?
Lifir ekki trúin kristna jafn vel í vitund okkar eins og trúin á náttúruvísindamennina og þeirra speki? Náttúruhamfarir rifja upp gamla alþýðuspeki og hjátrú, og það sem fólk fjasaði um en var ekki endilega í Biblíunni allt.
Blæs á orðróm um kynlíf með mótleikara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.11.): 5
- Sl. sólarhring: 185
- Sl. viku: 761
- Frá upphafi: 125783
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 545
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.