Saga um segulbandstæki frá Þýzkalandi sem var álíka dýrt og vandað og fínir BMW bílar frá Þýzkalandi, eða Mercedes Benz eða Porsche (miðað við hljómtækjamarkaðinn um það bil árið 1981 þegar það kom fram nýtt).

Einu sinni var tíðin sú að hljómflutningstæki voru hlutirnir sem fólk var alltaf að endurnýja, eða frá um það bil 1968 til 1990, og jafnvel lengur. Nú eru það farsímar, snjallsímar og þesskonar tæki sem eru tækninýjungar sem fólk eltist við að uppfæra sem reglulegast.

Fyrir Bítlatímann voru "grammófónar" nokkuð stöðluð og einföld framleiðsla, en samt ekki, því þeir voru auðvitað misgóðir. Að minnsta kosti voru þeir ekki flóknar framleiðslueiningar í mjög misjöfnum gæðaflokkum eins og síðar varð.

Að þessu sinni ætla ég að segja frá segulbandstækinu Dual C844.

Dual fyrirtækið þýzka er ennþá til, þótt lesa megi að það sé með bækistöðvar í Florida í Bandaríkjunum núna eftir að Dual GmbH varð gjaldþrota 15. nóvember á síðasta ári, 2022,  og það selur enn hágæðaplötuspilara, enda eru þeir aftur komnir í tízku sem eftirsótt tæki til að hlusta á tónlist, eftir að hljómdiskasalan (CDR audio) datt niður þótt stafræna niðurhalið á tónlist sé feikivinsælt ennþá.

Fyrirtækið hefur gengið í gegnum mikla alþjóðavæðingu, eignarhaldið færzt til milli Evrópulanda og Asíuríkja, og til Bandaríkjanna. Um tíma eignuðust Þjóðverjar það aftur eftir að hafa verið í eigu Frakka um nokkurt skeið.

Fyrirtækið mun hafa verið stofnað árið 1907, þannig að það á sér langa sögu, og ekki aðeins Japanir og aðrar austurlandaþjóðir sem eru frægar fyrir framleiðslu á hljómtækjum.

Er Dual fyrirtækið enn eitt fórnarlamb Evrusamstarfsins og Evrópubandalagsins?

Í marz 2023, á þessu ári var tilkynnt að leynilegir (ótilgreindir, ónefndir) fjárfestar hefðu tekið fyrirtækið yfir. Er það ekki saga okkar daga að ofurríkir eignast allt?

Hvað sem því líður kemur enn frá þeim gæðavarningur. Fyrirtækið er enn starfandi því gæði tengjast vörumerkinu sem fólk þekkir.

Rétt áður en Dual, hið upphaflega fyrirtæki, varð gjaldþrota í Þýzkalandi árið 1982, aðallega vegna harðrar samkeppni við japansmarkað, og var selt frönsku fyrirtæki, Thomson, þá kom þetta mikla flaggskip á markað, Dual C844, en það var selt frá 1981 til 1984, Frakkarnir tóku við framleiðslunni, og þótt það væri rándýrt seldist það nokkuð vel á þessum árum.

Dual C844 er tveggja hraða segulbandstæki, sem merkir að það hefur möguleika á að spila og hljóðrita á meiri hraða en flest slík tæki, og þá í meiri hljómgæðum. 4.75 centimetrar á sekúndu er staðlaður hraði segulbandstækja, en þetta tæki getur keyrt böndin einnig á 9.5 centimetrum á sekúndu, á háhraða.

Munurinn er sá, að með meiri hraða verður minna vart við truflanir á bandinu vegna slaka eða slits, og áferðin því öll miklu jafnari og líkari hljómahöll eða CD diskum, til dæmis.

Þar fyrir utan er riðstraumur settur á upptökuna, svonefndur bias á ensku, sem merkir skáhalli, eða eflitíðni á íslenzku, og eftir því sem bandið fer hraðar dreifist þessi eflitíðni á stærra svæði, þannig að sveiflurnar verða stærri og tónarnir hærri, tíðnin hærri, sem veldur minna álagi á önnur kerfi, og útkoman er víðara tónsvið í afspilun og upptöku.

Gallinn við þennan hraða er að spólur og tæki endast skemur, eins og dekk sem slitna á bílum þegar hratt er keyrt og í beygjum ekki síður.

Þetta Dual segulbandstæki er með tækninýjung sem var alveg ný á þessum árum, Dolby C tæknin. Það er meðal fyrstu tækjanna sem fóru á almennan markað með þessum möguleika. Þetta er suðeyðingartækni sem var mikið notuð árin á eftir.

Einnig er það með Lagaleit (Musicfinder), minni þannig að hægt er að leita að lögum fram og til baka, Metal stillingu og Timer, tímastillingu eins og á myndbandstækjum síðar. Snúrufjarstýring var einnig fyrir tækin. Autospace við upptökur er þögn sem var sett á milli laga til að auðvelda tækinu að finna mörk á milli tónrása. Fade Edit var svo einnig sjaldgæf nýjung, en þannig var hægt að enda og byrja lög við upptöku eins og í stórum hljóðblöndunarkerfum hljóðveranna. Vissulega tæki í anda sportbíla Þýzkalands!!

Ekki er allt upp talið, því hægt var að hlusta nákvæmlega á það hvernig upptakan kom á bandið, með sérstakri stillingu, þar sem ekki var hlustað á magnarann, heldur beint af bandinu sem var verið að taka upp, og nýr magnari því tengdur þannig, og allt hægt að stilla framaná tækinu með tökkunum.

Repeat takkinn var svo notaður til að endurtaka lög við afspilun.

Til eru reyndar miklu dýrari segulbandstæki en þetta. HIFI classic vefsíðan fjallar um þetta, til dæmis. Markaður fyrir hljómflutningstæki skiptist í almennan markað og svo nördamarkað, og miklu dýrari tæki fyrir nördana. Dual C844 brúaði hinsvegar bilið eins og mörg önnur tæki frá Dual. Það fyrirtæki framleiddi bæði sæmilega ódýr og einföld tæki, en einnig svipuð tæki og þetta, sem voru alveg í langdýrasta flokknum miðað við almenn heimilistæki en ekki nördahljómtæki.

Ég verð að segja það, að ef maður nýtur þess að hlusta á hljómplötur þá veit maður um hvað þetta snýst. Analog hljómtækjaheimurinn er allt annað en digital hljómtækjaheimurinn.

Analog er hliðræn tækni en digital er stafræn tækni.

Fyrir ríflega 10 árum fóru unglingarnir aftur að sækjast eftir hliðrænum hljómtækjum einsog plötuspilurum, föttuðu hverju þeir misstu af með niðurhali og stafrænum hljómtækjum. Enn hefur þessi hliðræna bylgja þó ekki útrýmt þeirri stafrænu.

Þegar CD diskarnir ruddu sér til rúms fóru þessar rökræður margsinnis fram. Þá sögðu stafrænu dýrkendurnir þetta: "Hliðræna ruslið er ekkert nema suð og urg, gallar og rispur sem fólk er að sækjast eftir!" Eða þá:"Það er hægt að líkja eftir öllu hliðrænu miklu betur með því sem er stafrænt".

Hver er grunnur þessarar umræðu?

Fyrst þegar stafræna tæknin kom fram þá töluðu menn um það að allt strandaði þetta á því að hljóðnema yrði að keyra með hliðrænni tækni, því þá voru formagnarar ekki orðnir keyrðir með stafrænum hætti.

Nú er það hægt. Maður heyrir það til dæmis á sjónvarpsútsendingum þar sem búið er að útrýma suði. Merkilegt nokk, að einmitt og nákvæmlega á sama tíma kom bakslag í stafræna alvaldið og fólk fór aftur að kaupa gamaldags plötuspilara!!! Merkilegt hvernig margt fer í hringi!!

Ég hef lengi haft áhuga á svona tækni og hvernig þetta er gert.

Stafrænar upptökur nú til dags byggjast einmitt á nýrri tegund af suðeyðingu, ef svo mætti segja. Örgjörvarnir eru orðnir svo öflugir að þeir gera þetta allt á formögnunarstiginu, þar sem hljóðin eru tekin upp og svo er þeim breytt. Útkoman verður samt kannski alltaf gervileg, að sumra mati, það er smekksatriði að minnsta kosti.

Fyrst þegar smárabyltingin varð, frá 1950 til 1970 þá var reynt að líkja eftir hljóðinu úr lampamögnurunum. Það er nákvæmlega það sem átt er við þegar talað er um "mjúka" analogue hljóðið, mjúka hliðræna hljóðið. Það er þessir hefðbundnu magnarar, sem gefa suð með.

Ég vil halda því fram að hljómtækjaframleiðendur hafi gert mistök uppúr 1990 eða um og eftir 1986, þegar stafræna byltingin átti sér stað. Mistökin voru að staðla hljóðið of mikið.

Galdurinn við gömlu hljómtækin, plötuspilara og segulbandstæki í kringum 1980, og tuttugu ár þar á undan, var að hvert fyrirtæki á hljómtækjamarkaðnum hafði sinn hljóm og sína sérstöðu, svona nokkurnveginn. Þannig skiptust kaupendur á að halda tryggð við sín fyrirtæki.

Tækin smækkuðu undir lok tíunda áratugarins. Hljómurinn varð samræmdur. Kassahljómur er orðið sem stundum er notað, lítill bassahljómur og tækin aldrei mjög stór.

Gömlu og stóru græjurnar heyrðu sögunni til, en seldust grimmt á fornsölum. Enn finnast slík tæki í Góða hirðinum og víðar komin til ára sinna og slitin flest, þótt nýrri tæki séu sum sæmilega góð.

Dual C844 hefur sinn sérstaka hljóm. Upptakan er silfurtær lækur og mjúkur en bassahljómurinn mildur við upptökuna og lítt heyranlegur. Sú grunntíðni er leiðrétt við afspilun. Djúptíðnin er mikil við afspilun, og þannig má segja að með því að taka hljómplötur upp með þessu tæki sé verið að auðga hljóminn.

Ef maður opnar tækið og kann eitthvað í hljómtækjaviðgerðum getur maður með litlu skrúfjárni stillt stilliskrúfur á margvíslegan hátt og breytt hljómnum. Jafnvel getur maður skipt um viðnám með lóðbolta og breytt hljómnum enn meira.

Í kófinu var fyrirtækinu Miðbæjarradíó lokað, sem var mikil náma af varahlutum fyrir allskonar tækjanörda. Aðeins tvö fyrirtæki voru um árabil stærst í þessu og örfá smærri til. Hitt stóra fyrirtækið var Íhlutir, en þar virðist stefna á sömu leið, og því má segja að kófið hafi drepið niður þennan markað næstum algerlega á Íslandi, þeirra sem gera við svona tæki og leita sér að varahlutum í þau og ýmisleg önnur svona tæki af allskonar tegundum.

Þegar risafjárfestar gleypa allt og alla eins og ryksugur þá verður eftir eyðimörk. Ekki aðeins á einu sviði heldur á öllum sviðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 19
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 747
  • Frá upphafi: 108268

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 556
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband