Jóhann Elíasson skrifaði mjög góðan pistil um þetta mál og hvet ég alla til að lesa hann, og ekki síður athugasemdirnar sem eru ekki síður góðar, til dæmis fer þar Óskar Helgi Helgason á kostum og er ég þarna sammála þeim ritfæra manni.
Ég er tvístígandi í þessu máli eins og ég hef skrifað um áður, en ég fagna þessu engu að síður, því ef þetta sprengir ríkisstjórnina má segja að farið hafi fé betra, og þótt fyrr hefði verið!!!
En þótt ég skilji sjónarmið Jóhanns og sé sammála þeim að miklu leyti, þá finnst mér þetta ekki svo stórt mál að ég reiðist Svandísi Svavarsdóttur fyrir þetta, eins og fóstureyðingarlöggjöfina sem er skömm Íslands hin mesta.
Þessu tengt, mál sem hefur farið mjög lágt en ætti að fá meiri athygli. Hanna Katrín Friðriksson fékk samþykkt í sumar frumvarp um bann við meðferðum gegn óhefðbundnum kynhneigðum og bælingum á þeim. Því var beint alveg sérstaklega gegn sértrúarsöfnuðum eins og Vottum Jehóva sem hún virðist í sérstakri baráttu gegn. Til eru þeir sem trúa að kynhneigðir séu skapaðar af Guði beinar og undantekningalaust allar eins, til einstaklings af gagnstæðu kyni, og það sé einmitt alltaf bæling á þeim sannleika og réttri kynhneigð sem felist í öðruvísi kynupplifunum og kynhneigðum. Þetta er því rammpólitískt mál. Það að rússnesk kosning hafi þarna farið fram, allir sammála, enginn ósammála, finnst mér ekki til vitnis um réttmæti málsins, heldur þvert á móti að þingmenn hafi ekki verið með sjálfum sér og nennt að setja sig inní það eða sinna samvizku sinni. Eða að þetta er dæmigert mál sem er samþykkt vélrænt fyrir þinglok þegar fólk þráir að komast í sumarfrí.
En aftur að hvalveiðunum.
Ég er kerfisbundið að reyna að losa mig við hægriskoðanir, því vinstrimenn hafa reynzt mér haukar í horni í tónlistinni og leyft mér að spila á tónleikum oft.
Því er ég sáttur við ákvörðun Svandísar, dýraverndunarsinninn í mér segir mér líka að gleðjast yfir þessu. Auk þess má segja að alþjóðasamfélagið sé orðið mótfallið hvalveiðum og kannski bæti þetta bara stöðu Íslands útávið, sem alltaf er gott.
Ég hef nú skipt um skoðun varðandi Svandísi Svavarsdóttur. Þegar hún kom fóstureyðingalöggjöfinni í gegn 2019 taldi ég hana hina hrikalegustu tröllskessu og skaðvald lands og þjóðar, meðal þeirra verstu af slíkri tegund. Spákona á Útvarpi Sögu hafði sannfært mig um það þar að auki þegar stjórnin var mynduð 2017, í áramótaspánni fyrir árið 2018, að Svandís Svavarsdóttir væri hin versta tröllskessa og skaðvaldur, og að hún stjórnaði Katrínu Jakobsdóttur og öðrum Vinstri grænum með harðri hendi. Ég býst við að það hafi verið ýkjur. Nú tel ég hana duglega verkakonu innan Vinstri grænna sem sinnir þeirra hugsjónum og hrindir þeim í framkvæmd af meiri dugnaði en flestir aðrir í Vinstri grænum, sem er ekki svo slæmt út af fyrir sig, ekki frekar en að Jón Gunnarsson sé afleitur maður þótt hann sé umdeildur.
En aðalástæðan fyrir því að ég gleðst yfir ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur um að stöðva veiðar á langreyðum á þessu ári er að þetta er hefnd fyrir frænda minn framliðinn, sem hefði átt að njóta miklu meira sannmælis fyrir öll verk sín, og verða hátt skrifaður sem einn af arkítektum hins nýja Íslands og auk þess hinn bezti listamaður.
Augljóst er þó að þetta er rammpólitísk ákvörðun og þarna stígur Svandís stórt skref eins og þegar hún kom löggjöfinni umdeildu um rýmri rétt til fóstureyðinga í gegn fyrir nokkrum árum.
Ég er að vísu sammála Jóhanni Elíassyni um að gögnin til grundvallar ákvörðuninni eru umdeilanleg og hæpin, því mannúðlegar verða aldrei veiðar á svona stórum dýrum, auk þess sem veiðar eru þess eðlis að þær fara mismannúðlega fram, og við því er ekkert eða lítið að gera.
Þannig að þetta er rammpólitískt mál í eðli sínu og til þess fallið að kljúfa ríkisstjórnina.
Maður sér nú línur teiknast upp í heimsmálunum og ég gleðst yfir mörgu í þeim málum og þar er ástæða til bjartsýni. Mannúð og kærleikur aukast, og ef maður hættir að hræðast mögulegan sannleika á bakvið samsæriskenningarnar um WEF og Davos og allt það, þá getur maður reynt að vera bjartsýnn um framtíðina og þá líður manni betur og laðar að sér þá sem voru ósammála manni, frekar að minnsta kosti.
Um Ingvar Agnarsson frænda minn vil ég gjarnan skrifa meira síðar. Hann er frændinn sem var langt á undan sinni samtíð í þessum dýraverndunarmálum og að vernda hvali, eins og í svo ótalmörgum málum öðrum.
Hann lagði á sig miklar þjáningar og var í sannleika sagt heilagur maður og dýrðlingur, ef menn virða mannkosti, gæzku og sjálfsaga, kærleika og góðar dyggðir. Einmitt af því að hann var bæði kristinn maður og Ásatrúarmaður að miklu leyti og heiðingi, eða fjölfræðingur sem aðhylltist ekki bara kristni heldur önnur trúarbrögð líka, þá tamdi hann sér mun harðari og agaðri kristni og siðferði en nokkur annar sem ég hef kynnzt.
En heimsmálin og landspólitíkin velta áfram á þann hátt að maður sér það ekki fyrir og margt kemur manni á óvart. Kannski er sú tíð að hverfa að maðurinn þurfi að neyta fæðu. Kannski munum við öll lifa á pillum eða grösum í framtíðinni, eins og sumar vísindaskáldsögur hafa fjallað um.
Veiðar á langreyðum stöðvaðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.12.): 111
- Sl. sólarhring: 150
- Sl. viku: 775
- Frá upphafi: 130360
Annað
- Innlit í dag: 74
- Innlit sl. viku: 581
- Gestir í dag: 72
- IP-tölur í dag: 72
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.