22.5.2023 | 00:44
Margar góðar setningar í pistli Sigmundar Ernis Rúnarssonar:"Evrópsk samstaða", í DV, þótt boðskapnum sé ég ekki sammála algerlega.
Ólíkt mörgum öðrum sem skrifa gegn þjóðernisstefnu finnst mér Sigmundur Ernir Rúnarsson hafa sett sig inní hana svolítið, því ekki notar hann bara slagorð, hann notar óspart og skynsamlega allt sem neikvætt getur talizt við einangrunarstefnu harðrar þjóðernisstefnu, eins og það sem hann flokkar þannig, að segja sig úr EES, Schengen og slíku. Ísland undirritaði þennan Schengensamning í desember 1996, og EES samstarfið komst á 1994, þannig að allt gerðist þetta á stuttum tíma.
Sumt sem Sigmundur Ernir skrifar um Evrópusambandið, sem er honum hjartans mál, finnst mér of áróðurskennt, en annað finnst mér bara býsna gott. Pistillinn "Evrópsk samstaða" sem birtist í DV 20. maí 2023 síðastliðinn finnst mér vera meðal pistlanna sem ég kann vel að meta, eru hóflega í jafnvægi og geyma innihald sem hægt er að samþykkja að einhverju leyti. Umfjöllunarefnið er Evrópuráðsfundurinn í Hörpu í vikunni, að sjálfsögðu.
Lokaorð pistils hans eru eftirtektarverð, því þau geyma nokkurn sannleika, þótt maður sé kannski ósammála þeim. Þau eru svona: "En Reykjavíkurfundurinn sýnir okkur og sannar að þjóðir sem standa einar eru utanveltu. Þær græða ekkert á innantómu fullveldi. Þær eru ekkert án annarra þjóða."
Þetta eru augljóslega ýkjur, því tæknilega væri hægt að lifa hér á landsins gæðum án umheimsins, þótt það yrði mun erfiðara líf en við lifum nú á þessu landi. Árangur hefur náðst með að framleiða dýraáburð, en ef stjórnmálamenn kæmust til valda sem ætluðu sér að hrinda slíku í framkvæmd yrði að undirbúa það lengi, svo mikið er víst, og mjög vafasamt að nógu stór þjóðarinnar yrði samtaka með það.
En það er svo margt annað skemmtilegt í þessum orðum hans sem hægt er að velta fyrir sér. Hvað er "innantómt fullveldi?" Ég hef fjallað um það með öðrum orðum en merkingin er sú sama og hjá honum (innantómt fullveldi) að fullveldið sé innantómt á meðan við lifum á áhrifasvæði Hollywoodmenningarinnar. Ég legg þó andstæða merkingu í slíkan frasa en hann.
Ég get útskýrt það betur. Lífsgildin á ég við, þau sem skipta okkur einna mestu máli, og sem stjórna okkur jafnvel enn meira en fullveldi, stjórnarskrá, trúarbrögð og kynhneigð eða útlit. Ég hef það forskot á unglinga nútímans að hafa alizt upp hjá ömmu og afa sem voru af kynslóð þjóðernishyggjunnar, og þeirra viðhorf voru allt önnur en viðhorf mömmu og pabba, auk þess sem kristileg viðhorf hafa orðið lausari í reipunum í seinni tíð, og núna alveg á tímum hinseginsamfélagsins, þar sem kirkjan í raun dansar með heiminum.
En hvað á Sigmundur Ernir þá við með orðunum "innantómt fullveldi?" Hann virðist eiga við að það sé fullveldi án viðskipta við önnur lönd, og fullveldi þar sem allt fólk er af sama uppruna, eins og Ísland var í gegnum aldirnar. Að vísu ríkti hér þá ekki fullveldi, nema alveg í byrjun, á víkingaöldunum.
Sumir myndu nú einmitt segja að þannig fullveldi sem hann á við sé einmitt ekki "innantómt fullveldi" heldur raunverulegt fullveldi. Hvort þetta er meðvituð eða ómeðvituð tilraun vinstrimannsins til að ná valdi á hugtökum og snúa þeim sér í hag skal ég ósagt látið, en þetta er algengt þegar fólk reynir að sannfæra pólitíska andstæðinga.
En það er alveg rétt hjá Sigmundi Erni þegar hann skrifar þetta:"Og heilbrigð skoðanaskipti, þar sem ólík sjónarmið takast á af virðingu fyrir tjáningafrelsi og fjölmiðlafrelsi, mæta í æ ríkari mæli tómlæti og skeytingarleysi."
Já, eins og hann bendir á er þetta upptakturinn fyrir sterka leiðtoga með einfaldar lausnir. En það er þó nokkuð ljóst að of mikill og hraður innflutningur á fólki hefur ýtt undir þessa þróun og er ein aðalástæðan fyrir henni. Og það eru einmitt flokkarnir sem hann hrífst mest af sem hafa verið með þannig stefnu, Samfylkingin, Píratar, Vinstri grænir, Sósíalistar, Viðreisn.
Og það er annað í þessu sem er staðreynd. Pistlahöfundar og leiðarahöfundar í Fréttablaðinu sáluga tóku sérstaka stefnu, sem fólst í því að ýkja andstæður, mála allt með sterkum dráttum, sem sagt að taka öfgana sem dæmi, frekar en einstaklinga sem vildu málamiðlanir. Þetta leiðir af sér skautun og pólun ósjálfrátt, þetta sem er svo mikið kvartað undan núna. Augljóst er að þetta er alþjóðlegt vandamál og ekki bundið við Ísland.
Nafni hans, Sigmundur Davíð var með lausnina á þessu fyrir löngu, að hætta að hafa fordóma gegn hæfilegri þjóðerniskennd, og þá myndi skynsamlega lausnin finnast.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 39
- Sl. sólarhring: 45
- Sl. viku: 542
- Frá upphafi: 132114
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 436
- Gestir í dag: 32
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.