17.4.2023 | 11:49
Lóður er meginguð í norrænni goðafræði - og Hænir einnig.
Til að komast að þessari niðurstöðu þarf maður að skoða Völuspá mjög vel. Maður þarf einnig að gera ráð fyrir því að hún hafi upphaflega verið lengri, að erindi hafi dottið út, vegna gleymsku eða ritstjórnar, (viljandi úrfellingar) eins og þegar Biblían fékk á sig þá mynd sem fólk þekkir nú, og öðrum ritum úr henni sleppt.
Lykilerindið að þessum skilningi er 63. erindi Völuspár, sem Sigurður Nordal skildi ekki og túlkaði lítið í bók sinni frá 1922 sem var svo endurútgefin 1952, framúrskarandi bók og með þeim beztu á þessu sviði.
Svona er 63. erindi Völuspár:
"Þá kná Hænir
hlautvið kjósa
ok burir byggja
bræðra tveggja
vindheim víðan.
Vituð ér enn - eða hvat?"
Byrjum fyrst á nokkrum skýringum Sigurðar Nordals, og þó ekki nema litlu af því sem hann skrifar um þetta efni, en sýnir hversu ráðvilltur hann var þegar hann reyndi að útskýra þetta erindi:
"Þessi vísa er mjög myrk og mætti vel missa sig úr kvæðinu, þótt ekki verði sannað með neinum gildum rökum, að hún sé síðari viðbót. Byrjunin: "Þá kná...", sem gæti verið fyrirmynd upphafs 34.v bendir a.m.k. til, að þess vísa hafi verið lengi í kvæðinu."
Þetta erindi útskýrir Völuspá með alveg nýjum hætti ef hún er rétt skilin og útskýrð.
Athugum fyrst nokkrar staðreyndir sem liggja til grundvallar útskýringum:
A) Þetta erindi er meðal þeirra síðustu í kvæðinu. Það hefur því mikið vægi uppá lokaskilning og heildarmynd sem er dregin upp í þessu mjög svo margslungna verki.
B) Þetta erindi minnist á Hæni, sem er einn af sköpunarguðunum í Völuspá, og kemur annars mikið fyrir í 18. erindi, þar sem sköpun mannkynsins er lýst.
C) Þetta erindi lýsir ástandinu EFTIR Ragnarök en ekki fyrir þau. Allt sem gerist eftir Ragnarök hlýtur að vekja eftirtekt, ekki síður en fyrir þau.
Þessi þrjú atriði vega þyngst og ættu að geta skapað heildarmyndina.
Meginástæðan fyrir því að nauðsynlegt er að skoða þetta betur er sú að um guðinn Hænir er fátt vitað og allt sem hægt er að uppgötva um hann er mjög dýrmætt.
En ég komst að þeirri niðurstöðu að staða Hænis þarna í kvæðinu gefi honum mikla vigt sem guði, og Lóði einnig, þótt á hann sé ekki þarna minnzt, úr því að á þá er minnzt saman fyrr í kvæðinu og samhengið ber þetta með sér.
Ef kvæðið er skoðað í samhengi sést mjög vel á þessu að Hænir er yfir það hafinn sem gerist í Ragnarökum.
Sögnina að knega er þarna notuð, og ekki sem hjálparsögn heldur í sömu merkingu og í enskunni, að kunna, vita, hafa skil á, þekkja, know á ensku er sama sögnin.
Á nútímaíslendzku myndum við betur skilja setninguna ef hún væri svona orðuð:
Þá var Hænir fær um að kjósa hlautvið. Eða: Þá gat Hænir kosið hlautvið. Eða: Þá hafði Hænir kunnáttu og færni og getu til að kjósa hlautvið. Svona merkingarþrungin er sögnin að knega, eða var á þeim tíma.
Auk þess, þessi setning er í nútíð. Þetta er eitthvað sem gerist í sífellu jafnvel, yfirstandi og eilíf nútíð. Þar er lykillinn að skilningi á kvæðinu.
Aðeins vantar orðið að, að kjósa, en var skrifað at á þeim tíma og hefur víða fallið burt og þótt óþarft eins og þarna.
Svo er það annað í þessu sem er mjög mikilvægt, og það er athöfnin að kjósa hlautvið, en varla var til mikilvægari athöfn í heiðninni í blótunum.
Ef farið er aftur í skýringar Sigurðar Nordals þá skrifar hann:"Ef til vill er kjósa hlautvið sama sem fella blótspón."
Nefnilega, hann er ekki viss. Svo margt er fólgið í fáum orðum.
Viður getur þýtt skógur og skógur í merkingunni efniviður í blótspæni. Að kjósa hlautvið getur því þýtt að kjósa úr hverskonar efniviði valkostirnir eigi að vera gerðir. Þetta þýðir á nútímamáli að velja um takmarkaða alheima, búlga, því úr slíkum efniviðum erum við öll gerð. Því er hér um mjög stóra athöfn að ræða sem nær út fyrir verksvið venjulegra guða af smærri tegundinni, hverra hlutverk er verklegar framkvæmdir og áhrif á svona lífverur eins og okkur, sem ekki stjórna sér sjálfar, eða sjaldnast.
Í 18. erindi kemur fram að Hænir gaf óð. Hefðbundin skýring er að hann hafi gefið vitsmuni og það mun rétt vera, að öllum líkindum, nema merkingin kann að vera víðtækari þó.
Lóður gaf hinsvegar lá og litu góða, eða útlit gott, útlit guðanna og blóð, ætterni, stétt og stöðu.
Óðinn gaf önd, lífsandann, blés honum í efniviðinn.
Ekki er rétt að rugla saman því sem stendur í Snorra Eddu og Sæmundar Eddu. Vili og Véi eru ekki þeir sömu og Lóður og Hænir. Vili er guð viljann og Véi er guð heilagleikans og fullkomleikans. Snorri notaði aðrar heimildir en Völuspá skýrir þetta rétt.
Erindi 62 er mjög misvísandi þegar þar er minnzt á þá Baldur og Höður, og að þeir búi Hrofts sigtóftir, eða tóftir sigurríkis Óðins, eins og þetta er oft skilið.
Og þó er 62. erindi ekki fullskýrt af fræðimönnum ennþá. Orðin "Vé valtíva" virðast standa ein og án samhengis. Bara eitt orð skýrir margt, valtíva. Tívar eru æðstu guðirnir og valtívar eru samkvæmt orðanna hljóðan þeir guðir sem velja og hafa yfirstjórn. Til þeirra teljast fleiri en Týr, en það efni er ekki þekkt að fullu.
Baldur og Höður byggja vé valtíva samkvæmt þessu erindi. Það myndi eiginlega útleggjast á þann hátt að þeir fái stöðuhækkun og verði taldir meðal tívanna, hinna æðstu guða eftir Ragnarök. Þó eru Ragnarök ekki einstakur atburður heldur síendurtekinn og því hefur þetta aðra merkingu. Þetta hefur þá merkingu að um aðra guði er að ræða, samsvaranir þeirra í æðri guðastétt, áður en endurtekning hins sama hefst aftur, sífelld.
Það hefur ruglað marga skýrendur að einungis er minnzt á Baldur og Höður þarna svona aftarlega í kvæðinu eftir Ragnarök og því hafa sumir haldið því fram að aðrir æsir deyi og ásynjur ásamt vönum og vanynjum, en auðvitað er þetta ekki þannig.
Baldur er sólin í himnaríki og það hefur alveg mjög sérstaka merkingu að segja "Mun Baldur koma..." það hefur táknræna merkingu meðal annars, bæði að upp rennur betri tíð, eða eins og við segjum, það fer aftur að birta til.
Höður er ástarguðinn og hefur hann sömu stöðu og Cupid, Amor og Eros í grískri og rómverskri goðafræði.
Þegar þarna er minnzt á þá saman Baldur og Höður þá er það til að sýna fyrirgefningu og hreinleika. Sá sem drap Baldur er með honum og þeir lifa í sátt og samlyndi. Hvergi er vottur af reiði eða beizkju eða hefndarþorsta, ekki neinn minnsti vottur, vel að merkja. Það er tákn fyrir fjöldann, tákn fyrir alla hina guðina sem fyrirgefa og gyðjurnar, það er tákn fyrir fullkomið og beizkjulaust líf eftir dauðann.
En aftur að 63. erindi.
"Burir byggja bræðra tveggja vindheim víðan." Hvað þýðir þetta nákvæmlega?
Þetta eru ekki synir Baldurs og Haðar, alls ekki. Þetta orðalag er mjög nákvæmt og þýðir að allt verður eins og það var, barátta milli góðs og ills helzt óbreytt, og byrjað á byrjuninni aftur, eins og í kvikmyndinni "Groundhog's Day".
Þetta eru synir Loka og Óðins!
Þeir eru meira en fóstbræður, þeir eru albræður og Loki er þeirra eldri. Af því kemur allt böl alheimsins samkvæmt fornum skilningi. Sagan um Kain og Abel er forn endurómur af þessu.
Synir Óðins eru allir góðir og réttlátir en synir Loka eru allir myrkrahöfðingjarnir og djöflarnir, eða ófullkomna og hræðilega fólkið, sem við erum öll.
Víður vindheimur er auðvitað það sem við þekkjum, líf ófullkomleika og þjáninga.
Að auki verður að skoða þetta í samhengi við síðasta þekkta erindið, 66. erindið.
"Þar kemur inn dimmi dreki fljúgandi..."
Ég staldra við orðalagið DIMMI dreki. Hænir er útskýrður orðsifjalega sem persónugervingur hana eða hænu hugsanlega, eða sá guð sem hefur vængi að minnsta kosti eins og fugl. Aðrir fræðimenn telja að öðruvísi fugl hafi verið fyrirmyndin.
Með ósjálfráðri skrift hef ég fengið aðrar upplýsingar.
Hænir er andstæða hins dimma dreka. Hænir er hinn bjarti dreki. Fara verður aftur í kínverska goðafræði og heimspeki til að skilja jákvæða eiginleika sem drekum vorum gefnir.
Þetta er svo aftur efni í lengri umfjöllun en farið verður útí hér.
Ég vil aðeins taka það fram að það sem hér hefur verið rætt um Lóður og Hæni er aðeins 1% af því sem um þá má segja. Við sjáum aðeins toppinn á ísjakanum, allt annað er eftir.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.1.): 109
- Sl. sólarhring: 120
- Sl. viku: 580
- Frá upphafi: 132655
Annað
- Innlit í dag: 71
- Innlit sl. viku: 437
- Gestir í dag: 66
- IP-tölur í dag: 65
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú ert að flækja þetta erindi Ingólfur, -þó vissulega sé þetta líkingamál.
Það má færa þetta til nútímans með því að nota þær í stað Hænir, -og ef þú vilt endilega nota stóran staf Dúkkulísur.
Að kjósa hlutvið er að draga strá, -það sem ræður úrslitum.
Burir byggja, (barn og bura) tæknifrjóvgun í nútímanum.
Bræðra tveggja, kemur skýrt fram í spánni hverjir eru hæfir til undaneldis, þeir sem voru saklausastir meðal goða nokkurskonar Hán.
Vindheimur víður = heimurinn, -eins og hann ævinlega er.
Völuspá er einföld og skorinorð og talar alltaf til samtímans, rétt eins og Hávamál þegar heilræði er annars vegar.
Magnús Sigurðsson, 17.4.2023 kl. 17:10
Takk fyrir Magnús, gott að einhver sýnir þessu áhuga og hefur aðra skoðun. Góður kveðskapur er oft þannig að hann má túlka á margvíslegan hátt. En þarna er munurinn á þeim sem er heiðingi og ekki. Eins er það með þá sem eru kristnir og ekki. Heilagleikann sér maður og skynjar aðeins ef maður er trúaður. "Ég sé ljósið" sagði Guðjón Hreinberg þegar ég bað hann um rök fyrir trúnni.
Þín skýring er útúrsnúningur til að réttlæta nútímann með helgiriti. Ég á eftir að útskýra það hvernig ég álít kristnina réttlæta hánveröldina og nútíma fjölmargra kynja, tæknifrjóvgun, Davos dúkkulísur og annað. Ég held nefnilega að Jesús Kristur standi á bakvið nútímann og Jahve, kynin fjölmörgu og það sem fólk hneykslast á.
Baldur og Hænir eru eins miklir hánar og maður vill sjá útúr þeim. Alveg eins má sjá slíkt útúr sumum í Biblíunni ef maður vill. Það er valkvætt.
Við sjáum það sem við viljum sjá úr heiðnu ritunum. En þú ert að stríða mér. Ég hélt upphaflega að þú værir heiðinn því þú skrifar svo skemmtilega um heiðnina. En kannski ertu eins og sumir fyrstu kristnu mennirnir á Íslandi við kristnitökuna, þekkir heiðnina en stendur með kristninni.
Mín skýring er mjög vönduð. Hún meira að segja er jafngóð og opinberar skýringar hámenntaðra manna, og meira en það, hún bætir við þær og fullkomnar þær.
En þessvegna fær þessi pistill lítinn lestur, því hann er virkilega góður og vandaður og getur hjálpað fólki, hann er hjálpræði og bjargræði. Það er annarra missir.
Takk samt fyrir að sýna þessu áhuga. Ég hef líka gaman að því sem ég er ekki sammála.
Þjóðin hefur gert grín að heiðninni í 1000 ár. Er ekki kominn tími til að hún fari að taka hana alvarlega aftur?
Ingólfur Sigurðsson, 17.4.2023 kl. 23:01
Þakka þér fyrir svarið Ingólfur.
Eins og ég hef sagt við þig áður þá er ég ekki meiri sérfræðingur í Völuspá en hver annar.
Í mínum huga talar Völuspá til samtímans rétt eins og Hávamál með heilræðum sínu.
Ég er ekki að snúa út úr eða segja að þú hafir ekki rétt eftir fræðimönnum.
Magnús Sigurðsson, 18.4.2023 kl. 06:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.