24.2.2023 | 04:33
Á heimurinn 2000 ár eftir?
Stundum þegar maður fær athugasemdir við pistla sem eru snjallar og þarfnast pælinga tekur maður sér tíma í að svara þeim. Þessi pistill átti að vera svar við góðri athugasemd við síðasta pistil, því ég fór að velta því fyrir mér hvort ég væri orðinn of svartsýnn um framtíð mannkynsins.
Við því er ekkert auðvelt svar. Ég hef kannski orðið fyrir of miklum áhrifum frá Davosliðinu sem margir gagnrýna, úr því að ég trúi einni möntrunni þeirra, sem er trúin á hamfarahlýnun á jörðinni. En um annað er ég ekki sammála Davosliðinu.
Þegar Magnús, sem skrifaði athugasemdina góðu sem virkilega snerti við mér þannig að ég þurfti að velta ýmsu fyrir mér, fjallaði um Jesus Christ Superstar söngleikinn, sem var til á mínu æskuheimili eftir Andrew Lloyd Webber, þá áttaði ég mig á því að stór hluti af minni heimsmynd er heimsmynd foreldra minna, sem voru af hippakynslóðinni, og allavega tóku talsvert af þeirra hugsjónum í arf, eins og til dæmis umhverfisvernd.
Góðar athugasemdir sem láta mann íhuga afstöðu sína, eins og Magnús kom með, þær láta mann velta því fyrir sér hvort maður ætti að skipta um skoðun að einhverju leyti.
Sem sagt, ég átta mig á því að stór hluti af umhverfisverndarsjónarmiðum mínum eru komin úr bernsku minni þegar ég kannski var ekki vanur að gagnrýna jafn grimmt og síðar allskyns áreiti úr umhverfinu.
En það er ekki allt sem þessi athugasemd vakti mig til umhugsunar um.
Hann minntist á stjörnualmanak Majanna, sem ég ber mikla virðingu fyrir, eins og þeirra menningu. Hann minntist einnig á öld Vatnsberans, sem var grunnhugtak í hippamenningunni.
Ég man að 2012 var ég mjög kvíðinn út af því að heimsendir gæti orðið vegna Mayaheimsendaspánni svokölluðu. Þá samdi ég fullt af ástarlögum til manneskju sem ég var hrifinn af, en þau hafa ekki verið gefin út ennþá, en ég vildi fara útúr heiminum ástfanginn og hamingjusamur, ef heimsendir yrði.
En kannski varð heimsendir 2012. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs var við völd frá 2013 til 2016. Strax árið 2013 hafði ég á tilfinningunni að við lifðum í hliðstæðum alheimi, því svo ótrúlegt fannst mér að þjóðernissinni var orðinn forsætisráðherra, mér fannst það of ótrúlegt.
Síðan þegar Wintris-málið kom upp árið 2016 og Sigmundur Davíð var felldur vegna haturs óvina hans og dáleidds almúgans, þá fannst mér aftur eins og ég væri hluti af raunveruleikasjónvarpi en ekki veruleika fólks sem stjórnaði sér sjálft.
Sama gerðist þegar Trump var kosinn 2016. Það fannst mér alls ekki í takt við veruleikann. Aftur þegar Joe Biden var kosinn, það fannst mér ekki í takt við söguna. Hann var kosinn sem mótvægi við Trump og eitthvað var undarlegt við það allt. Nú er það komið í ljós að hakkari í Ísrael stjórnaði teymi til að hafa áhrif á forsetakosningar, og viðurkenndi að það tókst í flestum tilvika. Kannski er það bara toppurinn á ísjakanum þegar kemur að því að breyta niðurstöðum kosninga í heiminum, og ásakanir Trumps réttar þar af leiðandi um að sigurinn hafi verið tekinn af honum.
En það vona ég að Magnús muni á sinni vefsíðu fjalla nákvæmlega um túlkun sína á Völuspá betur, og þessi 2000 ár, því þann part var ég ekki viss um að ég skildi nógu vel.
Völuspá er það dulræn að fólk skilur hana á sinn hátt og þarf vel að útskýra hverja túlkun.
En allavega, það vona ég að hann hafi rétt fyrir sér, að heimsendir sé ekki í vændum. Nóg er um slíkar fréttir.
Erlendir spekingar fullyrða að heimsendir sé í nánd. Dómsdagsklukkan glymur brátt, er þeirra söngur, og það er okkur að kenna sjálfum, segja þeir fræðingar, í loftslagsmálum og í alþjóðlegum samtökum sem njóta mikillar virðingar.
Heimsendir getur verið margskonar.
Hann getur verið visthrun, endir efnislegs lífs.
Hann getur líka verið hrun menningar, þar sem andleg vakning á sér stað. Það felst í orðinu veröld. Veröld þýðir í raun tilvera mannsins, öld er sama og maður í fornu máli, og veröld gæti því einnig þýtt mannsins tími, eða menningin. Veraldarendir, sem er annað orð yfir heimsendi, gæti þannig þýtt endir menningarinnar, upphaf nýrrar menningar.
Íslenzkan er margslungin og margræð.
Takk fyrir spaklega og djúpviturlega athugasemd, Magnús. Hún vakti upp spurningar sem erfitt er að svara.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 3
- Sl. sólarhring: 136
- Sl. viku: 611
- Frá upphafi: 133082
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 469
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Völuspá er margslungin Ingólfur, -og ekki ætla ég að halda því fram að ég hafi réttari túlkun á henni en hver annar. En ég hallast að því að Völuspá eigi sér 9 heima hvort sem er aftur eða fram í tíman, sem er jú nota bene bara mælieining.
Til að dýpka skilning minn á Völuspá þá ákvað ég að fara fortíðina með hringferli, -spíral, aftur á bak og sjá nútímann sem línulegan og með því fæ ég ekki betur séð en spáin hennar Völu gildi bæði um fortíð og framtíð.
Ég setti fyrir nokkrum árum, rétt fyrir fárið, inn pistil um hvernig ég skynjaði spána og var það nokkuð ruglingslegur pistill. Í athugasemd vitna ég til íslenskra fræðimenna sem hafa legið yfir Völuspá, þó svo að ég hafi komist að allt annarri niðurstöðu en þeir, hjálpaði það að kynna sér þeirra skoðanir. En það þarf jú fyrst og fremst að kunna skil á íslensku til að skilja Völuspá.
2160 ára aldahvörfin er að mig minnir flengin úr tímahjóli Mayanna, en þau ganga nokkurn veginn upp í öld Jesus Christ Supersar. Og reiknað er með að öld Vatnsberans vari jafn lengi.
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2244843/
Magnús Sigurðsson, 24.2.2023 kl. 06:25
Mér finnst nú Magnús vera ÓÞARFLEGA HÓGVÆR í þessu svari sínu. Þó svo að þetta komi fram í VÖLUSPÁ, þá þarf lesandinn að hafa kunnáttu, getu og greind, til að geta lesið þessa spádóma OG ALLT ÞETTA HEFUR MAGNÚS SIGURÐSSON TIL AÐ BER og þetta gerir það að verkum að bloggið hans er eitt það athyglisverðasta hérna á blogginu. Ekki ætla ég að draga úr gildi annarra blogga, þar á meðal þínu Ingólfur því hvert blogg hefur sín sérkenni en Magnús stendur með höfuð og herðar upp úr öllu, að mínum dómi..........
Jóhann Elíasson, 24.2.2023 kl. 10:10
Ætli hættulegast fyrir heimsbyggðina séu ekki einræðisherrarnir,trú þeirra er svo mikil á eigin getu og réttmæti þess sem þeir halda fram að enginn varkárni er í gjörðum þeirra ,heldur ræður hjá þeim sú afstaða til heimsins að þegnarnir skuli lúta þeim hversu heimskuleg sem stefna þeirra er öðrum þenkjandi íbúum jarðar.Hvað loftslagsmálin snertir gæti vopnaskakið komið á stað óafturkræfum jarð hræringum sem tortímdi lífi mannsins á jörðunni.Við verðum að vona að leiðtogar þjóðanna verði það viti bornir að þeir skynji nauðsyn lífsins á þessum hnetti fyrir mannkyn,dýra og jurtalíf.Dreymdi eitt sinn draum þar sem hungur var mikið meðal mannkyns en nægur matur á borðum og það var eins og hlaupið hafði verið frá öllum kræsingunum, en rödd sagði að þetta væri stjórnmálamönnunum að kenna hvernig komið væri fyrir mannkyni.Hvítklæddir lögreglumenn gættu þess að enginn kæmist að kræsingunum.
Sigurgeir Árnason, 24.2.2023 kl. 13:40
Magnús, ég las pistilinn sem þú vísar í. Hann er með því bezta sem ég hef lesið eftir þig, og þá er ég að miða við margt gott. Eins og ég skrifa í svari til Jóhanns hér fyrir neðan þá finnst mér þetta svo áhugavert að ef þú gæfir þér tíma til að skrifa um þetta þannig að bók yrði úr því myndi hún án efa standast samanburð við annað sem hefur verið ritað um Völuspá. Þekking þín er mikil og ályktanir mjög áhugaverðar.
Vona ég bara að markaður yrði fyrir slíka bók og hún seldist nógu vel.
Ingólfur Sigurðsson, 25.2.2023 kl. 06:02
Jóhann, ég er sammála þér. Eins og Sigurður Nordal sem gaf út túlkanir sínar á Völuspá er Magnús kominn með efni sem hann gæti unnið úr ef hann gæfi sér tíma. Mér finnst aldrei nóg út gefið af bókum um Völuspá.
Ingólfur Sigurðsson, 25.2.2023 kl. 06:02
Sigurgeir, þetta með einræðisherrana og stríðsbröltið er rétt. Dr. Helgi Pjeturss skrifaði um það að þar sem helstefnan ræður, þar verður náttúran tryllt og hamfarir verða verri og tíðari.
Þakka þér fyrir að segja frá þessum draumi. Hann minnir mig mjög um draumana sem Ingvar frændi sagði mér frá, og eftir hann voru gefnar út nokkrar bækur um drauma á vegum Skákprents á sínum tíma, með nýölsku ívafi, en ekki spíritisku.
Draumur þinn lýsir því mjög vel hvernig ástandið er á jörðinni.
Þessvegna hef ég tjáð mig um áhyggjur mínar af heimsmálunum, mér finnst þetta mikill örlagatími, verður samið um frið, eða mun spennan magnast þannig að jafnvel skelfilegri atburðir gerist? Ekki er hægt að útiloka að heimsendir verði útaf þessu.
Ingvar frændi talaði oft um að samstillast lífstefnumannkynjunum þar sem kærleikur og friður væri ríkjandi. Já, takk fyrir góða athugasemd.
Ingólfur Sigurðsson, 25.2.2023 kl. 06:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.