27.1.2023 | 00:56
Stríðið í Úkraínu má ekki stigmagna segja leiðtogar og stigmagna stríðið sem mest á sama tíma.
Hafa menn tekið eftir því að yfirlýsingar Nató leiðtoga eru í þversögn við gjörðir þeirra?
Allan stríðstímann hafa þjóðaleiðtogar talað um að þeir ætli ekki að stigmagna stríðið og að það megi ekki stigmagna stríðið á meðan hver einasta athöfn þeirra stigmagnar stríðið.
Stöðugt er bullað um að Rússar ógni heimsfriðinum en ekki er talað um að það eina sem ógni heimsfriðinum sé að þetta líkist meira heimsstyrjöld með hverjum deginum sem líður, eftir því sem hið fámennara ríki fær meiri "hjálp", Úkraína og stjórn þess, sem er þarna á vafasömum forsendum.
Kjarnorkuveldið Rússland ætlaði með ofbeldisfullum hætti að gleypa Úkraínu, og mesta hættan er augljóslega í því fólgin að ógna Rússlandi en ekki að sætta sig við sigur Pútíns og Rússa.
Það er hægt að líta á stríðið á margvíslegan hátt. Það er hægt að segja að Rússar brjóti alþjóðalög sannarlega. Það er hægt að gizka á að kannski muni þeir ganga lengra ef þeir sigra Úkraínu. Það er líka hægt að líta á þetta þannig að þeir kæri sig allra sízt um vestræn áhrif í bakgarðinum hjá sér, ef svo má segja. Það má rökstyðja að með réttu haldi þeir því fram, í krafti mikilmennskubrjálæðis stórveldis, eða rómantíkur þar að lútandi.
Það er hægt að segja með réttu að hegðun Rússa og Pútíns sérstaklega sé ekki í samræmi við siðferði eins og það hefur mótazt í femínískt þenkjandi Vesturlandabúum. Það sama má segja um Erdogan og Tyrki, því stór hluti þeirra styður hann, eða aðra svonefnda einræðisherra, þótt það hugtak sé nú ranglega notað oft, því svonefndir einræðisherrar eru oft lýðræðislega kjörnir og vinsælir í löndum sínum. Þjóðfélagsgerðirnar eru margvíslegar og einfaldanir ekki til bóta alltaf.
En þetta er yfirleitt aldrei svo einfalt að okkar siðferði trompi siðferði annarra og að okkar menning trompi menningu annarra eða eigi rétt á því. Jú, það getur virzt, og hægt er að fá lærða prófessora úr háskólum okkar til að hjálpa okkur að trúa því, en það sannfærir ekki þá sem eru ósammála, sérstaklega tilheyrandi öðrum menningarheimum.
Hætt er við því að Rússar bregðist við með því að stöðva kornútflutning frá Úkraínu, nú þegar skriðdrekarnir eru að komast í gagnið frá Evrópu. Einnig má búast við að Rússar muni heiftarlegar drepa saklausa borgara í Úkraínu eftir því sem stríðið stigmagnast, vegna þess að Vesturlönd hlýða blóðþyrstum stjórnendum Úkraínuhers, "masters of war", eins og Bob Dylan kallaði þá á sínum tíma.
Á sama tíma og grimmd Rússa magnast og blóðþorsti þeirra kemur berlegar í ljós fá pólitískir andstæðingar þeirra ástæðu til að segja:"Var það ekki rétt? Eru þeir ekki vondir?"
Alltaf er það saklaust fólk sem þarf að gjalda fyrir svona valdatafl.
Í menntaskóla var okkur kennt það að sígild hafi sú kenning talizt í gegnum aldirnar í mannkynssögunni að "drepa og berjast útúr kreppum, að fara í stríð til að fela vandamálin heimafyrir". Þegar ég var í menntaskóla var að vísu hæðzt að þessari hugmyndafræði og sagt að hún væri úrelt og gamaldags. Þó finnst manni að þetta sé aðalástæðan fyrir Úkraínustríðinu, græðgi í auðlindir í Úkraínu, bæði í Rússlandi og á Vesturlöndum, og svo til að koma hjólum spillingar aftur í gang sem stöðvuðust með Donald Trump, þegar hergagnaiðnaðurinn var sveltur, aldrei þessu vant.
Þær skýringar finnst mér ekki halda vatni að hræðslan um að Rússar sigri heiminn þótt þeir nái Úkraínu á sitt vald. Einnig finnst mér það gjörsamlega innantóm skýring að leiðtogar Natóríkja hafi skyndilega fyllzt svo ógurlegri samúð með sjálfstæðishugsjón Úkraínu, Selenskís, og þeirra sem með honum starfa, að þeir hafi ákveðið að bjóða Rússum byrginn með þessum hætti, og hætta á þriðju heimsstyrjöldina, kjarnorkustríð, heimsendi jafnvel.
Það er búið að benda á það oftlega að Rússland er ekki lengur það efnahagslega stórveldi sem það var, og með efnahagsuppgangi í Kína og á Indlandi er heimsmyndin miklu flóknari en hún var í kalda stríðinu.
Innrás Rússa í Úkraínu er ekki í samræmi við það sem menn bjuggust við.
Sú hugmynd er áhugaverð að með innrás Rússa í Úkraínu skapist fordæmi fyrir aðra að berjast og hefja stríð eða gera innrás í nágrannaríki sín. Mér virðist nú að sumir þurfi allrasízt þannig fordæmi.
Einnig er sú hugmynd áleitin að ef Rússar myndu ná Úkraínu á sitt vald hernaðarlega þá muni skapast fordæmi fyrir kjarnorkuríki að þenja þannig út svæði sitt. En þetta eru svo sem vandamál sem var ljóst að hlytu að verða til. Er ekki sagt að allt gerist sem getur gerzt?
En annað er lítið rætt og það er hvernig Rússum myndi haldast á Úkraínu þótt þeir myndu sigra landið hernaðarlega. Miðað við gang stríðsins ætti það að vera öllum ljóst að slíkt hernám myndi helzt minna á hernám Bandaríkjamanna í Afganistan, sem lauk með sigri Talíbana, bara fyrir tæplega tveimur árum.
Af hverju eru þessar hliðar stríðsins í Úkraínu sjaldan ræddar? Hvernig ættu Rússar að sigra "friðinn" og "sigraða" Úkraínumenn ef frelsisást þeirra er svona mikil og sjálfstæðisbaráttuþrek þeirra svona mikið?
Þetta eru svo yfirborðskenndar skýringar í RÚV, þetta eru heimskulegir frasar, og hver trúir þeim nema fólk sem trúir í blindni frösum og hefur ekki velt fyrir sér valdabrölti stórveldanna?
Við sem erum almenningur á Vesturlöndum vitum ekki hversu margir í Úkraínu styðja Pútín og hverjir styðja Selenskí. Stríðið hefur að öllum líkindum gert venjulegt fólk að óvinum Pútíns meira en fyrir innrásina, en hversu lítill er sá stríðsfúsi hópur sem vill berjast, eða vill láta aðra berjast fyrir sig?
En fréttirnar í RÚV eru sérvaldar. Fólk sem talar í frösum gegn Rússum, verstu og ljótustu árásirnar af hálfu Rússa, og þannig mætti áfram telja.
Bob Dylan fordæmdi stríð einna bezt í laginu "Masters of war" frá 1963. Slíkir stríðshaukar eru bæði í Rússlandi og í Úkraínu og á Vesturlöndum og út um allt.
Eins og Gunnar Rögnvaldsson hefur fjallað um í firnagóðum pistlum hefur styrkur Rússa verið miklu meiri en okkur hefur verið sagt í RÚV og slíkum fjölmiðlum. Ætli það sé ekki ástæða til að efast um miklu fleira en það af fréttaáróðrinum nú til dags?
Stríðið megi ekki þróast út í átök við NATO | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.1.): 15
- Sl. sólarhring: 43
- Sl. viku: 609
- Frá upphafi: 131965
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 504
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.