Ingvar frændi fylgdist með börnum og barnabörnum til að athuga hver væri móttækilegur fyrir Nýalsspekinni. Sum barnabarnanna hans sýndu þessu áhuga og svo ég, og nokkur fleiri. Hann sagði að ég spyrði skynsamlegra spurninga og þannig börn væru efni í heimspekinga.
Þegar hann komst að því að ég hlustaði mikið á Megas og vildi verða dægurlagasöngvari 1982 og var farinn að semja lög og texta þá kenndi hann mér bragfræðina. Hann sagði mér að koma í heimsókn til sín ekki sjaldnar en einu sinni í viku og skyldi hann gefa ljóðum mínum einkunn og segja til hvort námið bæri árangur.
Hann var strangasti kennari sem ég hef haft. Ég varð honum náinn þar til hann dó árið 1996 og sumt skildi hann betur en aðrir sem ég pældi í.
Hann var sjálfur farinn að yrkja ljóð á þeim tíma, og kenndi mér að dagsetja kveðskapinn og leiðrétta og lagfæra eftirá. Ég var mislatur við það.
Um veturinn 1982 fór ég að semja lög á leiðinni úr skólanum án texta. Það var einfaldlega æfing fyrir mig, því ég tók það skipulega að ætla að verða poppari. Þá átti ég ekki gítar en lítið hljómborð eða skemmtara sem ég hafði fengið í jólagjöf nokkrum árum áður.
Ég fór að reyna að gera vísur eða texta en það var allt frekar mikið rangt bragfræðilega, en Ingvar frændi kenndi mér grunnreglurnar, þannig að ég kunni að beita þeim þegar ég var að vanda mig upp frá því. Mér fannst það ekki erfitt, en nennti ekki alltaf að leggja þetta á mig, sem mér fannst eins og krossgáta. Þannig að sumir textar eða ljóð voru órímuð og óstuðluð strax í byrjun. Það kallaði hann prósur, þessi nútímaljóð, og sagði að það væri ekki alvörukveðskapur.
Ég man að það var mikill snjór 10. janúar 1984. Þá var ég farinn að taka þetta mjög alvarlega að verða poppari. Í skólanum gáfu kennararnir okkur ljósrituð blöð þegar við áttum að læra fleira en stóð í skólabókunum. Þannig að hver nemandi var með nokkrar lausblaðamöppur, eina fyrir hvert fag og blöðin voru auð öðrum megin. Í frímínútunum gerði ég oft ljóð og texta á bakhliðar blaðanna og gerði lög við þetta heima og söng á spólur, og fékk lánaða potta hjá ömmu og sleifar til að búa til takt, eða notaði hljómborðið, sem ég kunni lítið á, en gat notað til að framleiða einhver hljóð.
Síðan fékk ég gítarinn í fermingargjöf vorið 1984, en fór ekki að læra á hann fyrr en 1986, þegar ég fór að læra grip og nótnafræði sjálfur eftir bókum, ekki vel, en svolítið, til að kunna að spila eftir söngbókum Megasar, til dæmis.
Allar spólurnar endurgerði ég frá þessum fyrstu árum, tíu árum seinna, á árunum 1993 til 1997, auk þess að semja nýtt efni á þeim tíma og var þá búinn að setja grip við lögin og tók þannig betur upp. Demóupptökur frá og með 1987 fengu að halda sér. Þá kunni ég grip.
Þegar ég samdi lagið "Engar umbúðir" og um það bil tíu lög í viðbót í sama stíl þennan dag, þá var það mjög meðvituð ákvörðun en ekki háð mikilli andagift.
Ég var kominn með mjög ákveðnar skoðanir um það hverskonar ljóð væru merkilegir og hverskonar textar. Ég taldi allt í sambandi við rómantík og ástina hallærislegt, en allt sem væri þjóðfélagsgagnrýni eins og Bob Dylan hafði sungið um, og jafnvel Bubbi Morthens eða Bjartmar Guðlaugsson, þegar hann kom fram 1984, það væri töff og flott, góður kveðskapur.
Þannig að dægurlagagerð var framleiðsla að mínu áliti þá þegar.
Þegar Jón Ólafsson í Nýdanskri vildi fá mig í hljóðverið sitt 1992 til að taka upp plötu var ég of feiminn og dró það í heilt ár að láta hann hafa kassettu. Það varð úr að ég sendi honum myndbandsspólu sem var tekin upp 30. september 1992 og 1. október 1992.
Ragnheiður, systir hennar mömmu gaf mér ráð sem ég fór eftir. Hún sagði mér að læra lögin mín utanað í fyrsta lagi. "Hvaða lög?" spurði ég eins og glópur? "Þú verður að velja það sem þér finnst bezt drengur", sagði hún.
Þetta gerði ég og tók mig um það bil viku. Ég man enn þessi lög utanbókar, nokkurnveginn, hef annars ekki nennt að læra neitt eftir mig utanað. Árið 1990 hafði ég raðað saman lögum um umhverfisvernd, frá 1983 til 1990. Þá fór ég fyrst að láta mig dreyma um plötuútgáfu, tvítugur. Þennan lagalista fann ég aftur og lærði lögin, "Engar umbúðir" var inni í þessum lagalistapakka.
Þetta voru lögin sem ég sendi Jóni Ólafssyni á myndbandsspólu. En árið 1993 var hann orðinn mjög upptekinn við vinnu í Verzlunarskólanum, uppfærslur á söngleikjum og fleira. Ekki varð úr samstarfi.
Á þessum árum var dýrt að gefa út á vinyl og ekki fór ég til útgefenda. Það var ekki fyrr en 1998 sem ég fór að gefa þetta út sjálfur, en þá var hægt að gefa út á hljómgeisladiskum í eins litlu upplagi og maður vildi.
En ég vil fjalla svolítið meira um hversu strangur kennari Ingvar frændi var. Hann var meiri málræktarmaður en nokkur annar sem ég hef þekkt. Hann tók út allar slettur og jafnvel viðurkennd íslenzk orð ef hann taldi þau dönskuslettur eða enskuslettur. Hann kenndi mér að ofstuðla ekki, og að kveðskapur ætti að vera léttur og leikandi þótt mikil vinna væri lögð í hann.
Í sjálfu sér fannst mér þetta hundleiðinlegt og fann ekki tilganginn með þessu, en ég vissi að þessi fullkomnunarárátta kenndi mér eitthvað. Allt sem hann skrifaði var bæði fullt af góðmennsku og stílsnilld. Ég skildi það og virti óendanlega mikils.
Hann kenndi mér að hugsa um rætur orðanna, ef ég gerði y-villur eða aðrar villur. Z- regluna lærði ég reyndar síðar af Þorgils vini mínum, sem kunni hana en notaði ekki sjálfur.
Stuttar og skrýtnar setningar sem hann sagði vöktu athygli mína snemma. Með því að spyrja útí þær nánar fékk ég áhuga á Nýalsspekinni, og fleiru, til dæmis Ásatrú. En ég varð fallisti í skóla og olli honum vonbrigðum með því, þegar ég kom í menntaskóla.
Ég hafði engan áhuga á náminu. Einu skiptin sem ég náði prófum var þegar ég var með áhuga á flottum skvísum í bekknum, og fann þá félagslega hvatningu. Ekki lærði ég þó heima, heldur bara fyrir prófin.
Tvisvar féll ég viljandi í Menntaskólanum í Kópavogi. Í fyrra skiptið 1989 og í seinna skiptið 1994.
Ég var mjög einmana og dapur þegar ég byrjaði í þessum menntaskóla 1986. Þá var amma nýdáin og ég var tættur andlega. Ég kom með góðar einkunnir úr Digranesskóla.
Í raungreinum hafði ég staðið mig sérlega vel en einnig í öðrum fögum. Skólaráðgjafi ráðlagði mér að fara á raungreinabraut í september 1986 sem ég gerði.
Ég fann enga tengingu við skólann. Ég opnaði ekki bækurnar heima og heldur ekki fyrir prófin. Ég náði sumum prófum, það sem ég mundi úr tímum, en ekki stærðfræði, þar sem hún byggist á þjálfun og æfingu, ekki skilningi á efninu.
Árið 1987 fór ég aftur í fyrsta bekk eftir nokkuð viðamikið fall í flestum fögum, nema dönsku og íslenzku, minnir mig. Það var almenn deild. Í þessum bekk voru virkilega vel vaxnar stúlkur sem vöktu áhuga minn. Þannig að ég náði fyrsta bekknum bæði vor og haust. Það var einhver tilgangur með þessu annar en að verða þræll kerfisins.
En síðan gerðist það haustið 1988 þegar ég fór í annan bekk að námsráðgjafi kom aftur að því að velja úr grunndeildinni árið áður í bekki. Mínar einkunnir skipuðu mér á málabrautina á meðan skvísurnar fóru á félagsfræðibrautina.
Ástæðan fyrir því að námsráðgjafinn setti mig á málabrautina var sú að ég náði fínum einkunnum í íslenzku, ensku, dönsku, þýzku, félagsfræði og sögu, en ekki í stærðfræði. Mínar aðferðir við námið höfðu verið eins. Aldrei að læra heima, en að þessu sinni las ég fyrir prófin, veturinn 1987 til 1988, og náði prófum.
Ég var ekki hamingjusamur veturinn 1988 til 1989. Enn á ný tengdist ég engum úr bekknum nema einum sem varð vinur minn. Var ég nú orðinn virkilega pirraður.
Auk þess hafði ég sungið á skólaskemmtunum öll þessi ár frá 1986, því ég var beðinn um það. Veturinn 1988 til 1989 fór ég að syngja enn lengri lög en venjulega með engu viðlagi, hvert lag meira en 10 mínútur, og varð enn óskýrmæltari en áður. Þá gerðist það að skvaldrið fór að byrja bæði á milli laga og í lögunum sjálfum og ég varð feimnari fyrir vikið.
Einkunnir mínar fyrir jólin 1988 voru frekar slæmar, ég náði örfáum fögum en lærði ekkert fyrir prófin þannig að þetta var ekki glæsilegur árangur.
Hinsvegar vann ég það skemmtilega afrek fyrir prófin 1989 að láta mig falla viljandi. Ég skrifaði eintóma þvælu á prófblöðin og snéri út úr öllum spurningunum jafnvel þegar ég vissi svörin.
Námsráðgjafi ráðlagði mér að taka frí þar til ég hefði ákveðið mig, sem ég gerði.
Ég fór í kvöldskóla í MH haustið 1990. Með góðar einkunnir þaðan fór ég svo í annan bekk 1991 um haustið, eftir að hafa verið í nokkrum fögum vorið 1991 og gengið vel.
Öðrum bekk náði ég 1992 og þriðja bekk náði ég 1993. Veturinn 1993 til 1994 gerðist hins vegar það sem ýfði mitt skap og kom mér í fýlu. Ég tapaði í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir Emelíönu Torrini. Þá lét ég mig falla í annað sinn viljandi, vorið 1994, skrifaði þvælu á prófblöðin, rétt fyrir lokaprófin í fjórða bekk.
Ég var kominn með þá stöðu að vera skólaskáld á þessum tíma. Ég skrifaði ritgerðir í skólablöðin og kom þar ljóðum á framfæri. Emelíana Torrini var stórstjarna á uppleið, fyrst á landsvísu en svo á heimsvísu. Ég hafði unnið mér inn sess sem skólaskáld, og trúbador, en hún var félagslega sterk, ég alls ekki.
Ég gerði mér grein fyrir því að niðurstöður söngkeppninnar voru ákveðnar fyrirfram. Við vorum mörg sem kepptum, allskonar atriði, strákar og stelpur. Strax og hún fór á æfingar og prufur fór það að vera umtalað milli krakkanna sem ég þekkti að hún myndi vinna.
Ég var með lagið "Visthrun", samið 1989. Á þeim tíma var ég farinn að láta mig dreyma um að brjótast útúr því að vera bara trúbador. Þetta lag er órímað ljóð sem er sungið með hálfgerðu rapplagi. Ég bað þá sem spiluðu með mér á æfingum að útsetja lagið nútímalega, það er að segja eins og danslag og diskólag miðað við rapp og reiflögin sem voru vinsæl á þeim tíma. Ég virkilega braut hömlur utan af mér og vonaðist eftir frægð og vinsældum.
Ég fékk verðlaun fyrir sviðsframkomu, en komst ekki í 1. 2. eða 3. sæti, sem voru í boði. Árið áður hafði ég hafnað í 2. sæti í undankeppninni innan skólans fyrir lagið "Þitt ljóð er", við ljóð skáldsins Jóns Trausta. Árið 1992 tók ég fyrst þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna og flutti þá lagið "Ó græni þollur" eftir sjálfan mig, en ég man ekki hvort undankeppnin skilaði mér nokkrum verðlaunum eða verðlaunasætum.
En þetta var svolítið sérstakt vorið 1994. Ég var orðinn afhuga náminu aftur og tók þá ákvörðun að ef ég myndi ekki sigra söngkeppnina myndi ég hætta í skólanum, sem ég gerði.
Ég vissi að ég myndi ekki sigra þegar forkeppnin var haldin 1994. Ég vissi að niðurstöðurnar voru fyrirfram ákveðnar. Þessvegna nennti ég í raun ekki að flytja lagið og var virkilega svekktur á sviðinu og þessvegna var þetta "one in a lifetime" sviðsframkoma sem ég fékk verðlaun fyrir og verðlaunablað.
Ég man að eftir hvert erindi snéri ég baki í sviðið, ellegar þá að ég gekk næstum því baksviðs, eins og til að gefa til kynna að ég ætlaði ekki að syngja lagið til enda. Síðan rétt í tæka tíð til að koma inní sönginn í næsta erindi var ég mættur og greip um hljónemann og hreytti útúr mér orðunum hátt og skýrt eins og Megas hafði gert á Drögum að sjálfsmorði 1978, einni af uppáhaldsplötunum sínum. Nokkrum sinnum á milli söngerinda vafraði ég um svifið á milli hljóðfæraleikaranna og var ekki fastur við hljóðnemann eins og áður. Síðan þegar laginu lauk fór ég ekki bara af sviðinu heldur beint heim, og vissi að ég myndi ekki sigra, þannig að ég ætlaði fyrst ekki að mæta fyrr en næsta dag aftur í skólann.
Forkeppninni innan skólans lauk rétt fyrir miðnætti og forvitnin rak mig aftur í skólann að athuga hvernig úrslitin myndu raðast.
Þá var strax tekið vel á móti mér og mér sagt að þau hafi leitað að mér. Já, ég fékk þessi verðlaun fyrir sviðsframkomu, sem ég hafði ekki vitað af, enda ekki haft áhuga á. Það voru ýmis aukaverðlaun, bezti nýliðinn, bjartasta vonin, og eitthvað þannig. Ég hafði bara áhuga á að sigra keppnina og síðan aðalkeppnina eins og söngkonan unga gerði Emiliana Torrini.
Ég var sérlega stoltur af því að strákunum í hljómsveitinni tókst að umbreyta laginu mínu fullkomlega í það sem ég vildi. Þeir voru nemendur við skólann einnig. Það sem hafði verið þula hjá mér með kassagítarnum, eins og "Subterranean Homesick Blues" eftir Bob Dylan, það er að segja mjög eintóna lag og texti, það varð allt öðruvísi lag í meðförum þeirra af því að ég bað þá um þá á æfingum og heimtaði rétta útkomu, ég heimtaði að leikið yrði á hljómborðið og trommurnar eins og í þessum nýju lögum í útvarpinu. En allt kom fyrir ekki. Ég sigraði ekki í keppninni eins og ég ætlaði mér.
Í raun var þetta söngkeppni en ekki keppni um bezta lagið. Ég áttaði mig ekki á því. Þetta lag bauð ekki uppá tilþrifamikinn söng. Jafnvel í þessari rapp eða reif útsetningu með þessum dynjandi danstakti þá var söngurinn tilþrifalítill og eintóna. Það voru strákarnir sem lögðu meira í lagið en ég, nema sviðsframkoman var vissulega öðruvísi hjá mér en áður, sem var verðlaunuð.
Emiliana Torrini söng betur en ég. Hún sigraði með tilþrifum enda góð söngkona, og lagasmiður, sem hún sannaði seinna.
En hinsvegar var ég einn um að koma með lög eftir sjálfan mig í öllum þessum undankeppnum, minnir mig, í flestum tilfellum, þannig að ég var á undan minni samtíð með það.
En eitt af því sem er minnisstætt frá þessum tíma er að þarna var ég tilbúinn að búa til tónlist í takt við tíðarandann, og þeir sem spiluðu með mér kunnu það vel.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 8
- Sl. sólarhring: 67
- Sl. viku: 612
- Frá upphafi: 132065
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 506
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þess virði að lesa, Ingólfur. Margt sem rifjast upp og rennur í gegnum hugan við lesturinn. Sennilega hefur systir mín verið um samtímis og þú um tíma í MK.
Eins man ég eftir snjónum í Reykjavík í janúar 1984. Vann þá hjá Ármannsfell við byggingu dvalarheimilis í Seljahverfi og í Útvarpshúsinu. Fékk svo vinnu hjá múrarameistara í Hafnarfirði, þetta var hálfgerður hörmungar vetur.
Eins er ég sammála þér með Drög að sjálfsmorði hjá Megas, einhvet besta hljómleika albúm sem komið hefur út á Íslandi, varð strax í uppáhaldi hjá mér 1979 og ég á það til hlusta dolfallinn enn í dag.
Þakka þér fyrir upprifjunina.
Magnús Sigurðsson, 10.1.2023 kl. 21:19
Þakka þér fyrir innlitið Magnús og upprifjunina. Það eru margar minningar sem þannig verða samhljóma þegar þær eru rifjaðar upp.
Drög að sjálfsmorði var fyrsta hljómplatan sem ég eignaðist með Megasi. Ekki kannski auðveldasta hlustunin fyrir krakka sem er 12 ára. Fyrst fannst mér hún leiðinleg út af hrjúfri röddinni, en ég hlustaði aftur og aftur. Það var eitthvað þarna sem var öðruvísi.
Með því að lesa textana og fylgjast með þeim með söngnum áttaði ég mig á því að þetta var kveðskapur sem minnti á skólaljóðin, en hrjúfari og meira í takt við raunveruleikann. Það breytti öllu. Bæði laglínur og söngur fóru að verða hluti af upplifuninni.
Þá fór ég að fá áhuga á að gutla við þetta sjálfur.
Já ég hlusta stundum enn á þetta tvöfalda albúm og Stormskersguðspjöllin með Sverri Stormsker, einnig tvöfalt albúm frá 1987.
Ég var mjög hissa á Megasi þegar ég kynntist honum að hann var ekki nógu ánægður með albúmið. En ég held að það hafi nú verið tvíbent afstaða hjá honum. Hann talaði um að sum lögin hafi hann hugsað sér sem glaðlegri en þau urðu, og sagði að "Ef þú smælar framaní heiminn", hafi átt að vera glaðlegt lag og fullt af hæðni. Þannig tók hann það á Drögum að upprisu 1993. Þeir tónleikar þóttu vonbrigði miðað við Drög að sjálfsmorði.
Í raun var þetta mikið snilldarverk, tónleikarnir 1978. Hann hafði lært lögin vel enda voru þau samin á löngu tímabili, frá 1972 til 1978. Hann þekkti þau út og inn og hljómsveitin var mjög góð.
Ég spurði hann hvers vegna hann hafi ekki haft öll lögin ný á "Drögum að upprisu" 1993. Þá sagði hann að tímarnir væru breyttir og að fólkið vildi heyra gömlu lögin.
En Drög að sjálfsmorði fjallar um þunglyndið eins og hann lýsti í einu viðtali. Söngurinn um Eyjólf bónda, annað bindi endar í súrealískum ofskynjunum, en um leið og Hvell geiri hljómar er eins og heiðríkjan komi með nýjum morgni.
Mjög gott innlegg, takk fyrir.
Ingólfur Sigurðsson, 11.1.2023 kl. 01:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.