27.12.2022 | 06:05
Hvað var Bob Dylan að pæla með umdeildum orðum á Live Aid tónleikunum 1985 og með undarlegri sviðsframkomu og lélegum flutningi að margra mati?
Vinsæl kvikmynd byggð á ævi Freddy Mercuries var sýnd í RÚV í gær og hún var með því skárra sem RÚV hefur sýnt lengi. Hún endaði á frábærri endurgerð á flutningi hljómsveitarinnar Queen á Live Aid árið 1985. Já, sviðsframkoman var eitt af því sem Freddy Mercury kunni að höndla meistaralega vel.
Þetta minnti mig á það hvernig ein stærsta tónlistarhetjan mín, Bob Dylan var með óvenju lélegan flutning á sínum lögum á þessum tónleikum. Hann lék þarna með tveimur úr The Rolling Stones, Keith Richards og Ronnie Wood en allir virtust þeir drukknir. Samkvæmt frásögn Ronnie Wood höfðu þeir æft öll lög eftir Bob Dylan í nokkra daga, en síðan hafi Bob Dylan ákveðið lögin á síðustu stundu, og þau lög sem þeir félagar höfðu minnst æft. Ronnie Wood sagði að þeir hefðu aldrei æft eins stíft og fyrir þessa tónleika, en það skilaði þó ekki góðum flutningi, því þeir heyrðu ekki hver í öðrum, hátalarar voru bilaðir, sögðu þeir eftirá. Allavega spiluðu þeir ekki í takti og söngurinn var laglaus. Gítarstrengur slitnaði hjá Bob Dylan í miðju lagi, Ron Wood lét hann hafa sinn gítar og tók við gítar sem einhver rétti honum, sem reyndist rammfalskur, og þannig spiluðu þeir það sem eftir var laganna.
Sögusagnir eru uppi um að þeir hafi allir farið á krá rétt áður en þeir fóru á svið og drukkið mjög stíft og verið mjög ölvaðir þegar þeir komu á sviðið. Ekki er hægt að finna þetta staðfest af tónlistarmönnunum sjálfum, en þannig hljómuðu þeir að vísu.
En þremenningarnir fóru einna síðast á svið þegar aðrir höfðu lokið sér af og væntingarnar voru miklar sem þeir stóðu ekki undir. Erfitt er að samhæfa þrjá kassagítara þannig að það hljómi vel, og ef mikið rokk hefur verið á undan hljómar slíkt sem gaul frekar en stórstjarna sé þar á ferð.
Síðan var það lagavalið og athugasemdir Dylans. Þeir spiluðu "Ballad of Hollis Brown", "When The Ship Comes In" og "Blowing In The Wind".
"When The Ship Comes In" er reiðilestur einhvers sem hefur verið móðgaður og fær ekki sínu framgengt, "When The Ship Comes In" er lína sem hægt er að þýða sem: "Þegar ég fæ mitt framgengt", eða "Þegar mér gengur í hag", og þessvegna má túlka lagið sem gagnrýni á Live Aid hugmyndina alla, að tónleikarnir hafi verið til að vekja athygli Bob Geldofs á sér frekar en málefninu.
Einnig má túlka lagið "Ballad of Hollis Brown" þannig. Það fjallar um fátækt í Bandaríkjunum, hvernig kapítalisminn getur leikið fólk.
Jafnvel "Blowing In The Wind" mætti túlka á þennan hátt. Viðlagið segir frá því hvernig allt getur verið fánýtt, "Svarið berst fyrir vindinum burt", og þá setningu mætti túlka þannig að svarið við hungursneyðinni hafi Bob Dylan ekki talið þetta, þessir tónleikar.
Einnig hafa margir sagt að þegar Bob Dylan sagði áður en hann yfirgaf sviðið að bændur í Ameríku þyrftu slíka hjálp, hafi hann verið að gagnrýna hugmyndina á bakvið Live Aid.
Bob Dylan er raunar ólíkindatól. Hann er vanur að finna andstæða punkta við svo margt sem fólki finnst sjálfsagt. (Eins og þegar hann kallaði nútímann hinar nýju myrku miðaldir 1993 á umslagi plötunnar World Gone Wrong). Þessvegna er honum trúandi til þess að hafa fundið þessum tónleikum eitthvað til foráttu og hugmyndinni á bakvið þá þegar hann frétti um þá.
En talið er að athugasemd Bob Dylans hafi hjálpað Farm Aid tónleikunum sem urðu árlegir. Jafnvel er talið að athugasemd Bob Dylans hafi komið öllu því dæmi af stað.
Bob Dylan er goðsögn í lifenda lífi. Menn velta sér uppúr ýmsu í sambandi við hann. Hvað var hann að pæla með orðum og textum, sviðsframkomu og ýmsu.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 5
- Sl. sólarhring: 94
- Sl. viku: 609
- Frá upphafi: 132062
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 503
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.