14.9.2022 | 06:51
Vanatrú og Ásatrú gætu geymt einhverjar elztu trúarhugmyndir mannkynsins
Lengi hef ég spurt mig að því hvers vegna miðaldakirkjan hélt uppi þessum stöðuga áróðri gegn óvini kirkjunnar Satan, úr því að Biblían gefur ekki skýr svör um hann og jafnvel veigra prestar nútímans við að fjalla um hann eða helvíti.
En það sem mér hefur þótt alveg ljóst er þetta að allt það sem fólkið dýrkar og trúir á er þyrnir í augum valdhafanna. Þessvegna finnst mér það alveg deginum ljósara að dýrkunin á einhver heiðin goðmögn sem voru hyrnd hlýtur að hafa verið gríðarlega útbreidd, þannig að kirkjan og hennar forvígismenn hafi talið sig knúna til fordæmingar á öllu slíku og notað til þess nöfnin gömlu í Biblíunni, eins og Satan og Lúsífer.
Gríðarlega miklar heimildir skortir um trúarbrögð þjóða og ættbálka sem skildu ekki eftir sig neinar ritaðar heimildir. Það verður að gera ráð fyrir því að þarna hafi verið mikill menningararfur á ferðinni.
En sumt er varðveitt um þessi hyrndu og heiðnu goð. Pan úr grísku goðafræðinni er alþekkt slíkt goð, og svo Cernunnos úr keltneskri og gaulverskri goðafræði. Það má fullyrða það með vissu að slík hyrnd goð voru miklu, miklu fleiri, og gegndu ýmsum hlutverkum og mikill átrúnaður var á þau.
Það hefur nú tíðkazt nokkuð lengi að nota gyðjuheiti og guðaheiti sem mannanöfn á Íslandi, en á víkingatímanum var það álitið goðlast, eins og að leggja nafn Guðs við hégóma. Þó mátti kenna fólk við guðina og gyðjurnar með samsetningum úr þeirra heitum, en ekki kalla fólk nöfnum gyðja og guða.
Eitt slíkt gyðjuheiti sem er orðið nokkuð algengt kvenmannsnafn í nútímanum er Hörn, og talið Freyjuheiti, yfir Vanadísina og Vanynjuna Freyju. Uppruni þessa nafns er talinn óviss, en gizkað hefur verið á tengsl við hörplöntuna og vefnað.
Þó finnst mér ljóst að Hörn þýðir hin hyrnda gyðja. Cernunnos þýðir Horni, hyrndi guðinn. C breyttist í h í okkar heimshluta með tímanum. Þetta er sami orðstofninn og því er líklegt að Hörn merki "hin hyrnda gyðja".
Það er alveg útilokað að ekki séu vísanir í hyrnd goð í Sæmundar Eddu og Snorra Eddu, slíkt hefur þá frekar verið falið á kristnum tíma, en verið til staðar upphaflega. Samanburður á trúarbrögðunum leiðir þetta í ljós.
Ég tel að Helja sé elzta goð mannkynsins, leifar frá mæðraveldinu á ísöldunum, og styttan fræga, Venus frá Willendorf, 30.000 ára gömul, og aðrar slíkar lýsa hugmyndafræði mæðraveldis ísaldanna, en sú hugmyndafræði er að koma aftur með femínismanum, hugmyndafræði ísaldafólksins, mæðraveldið, endalok feðraveldisins, í bili.
Ef maður rekur sig í gegnum það sem kemur fram í Sæmundar Eddu og Snorra Eddu sér maður hvernig tröllatrú, jötnatrú og þursatrú eru elztu trúarbrögð mannkynsins, og trúin á Helju þar með. Einnig hefur Baldur verið dýrkaður á þeim tíma sem sólarguð, löngu áður en kristnin varð til, gyðingdómur eða Búddatrú, og önnur helztu trúarbrögð nútímans.
Vanatrú hefur tekið við af þessum trúarbrögðum og síðan babýlonsk og súmersk trúarbrögð, stríðstrúarbrögð og slíkt. Norðurlandabúar voru hinsvegar frumstæðir fram eftir öldum, og Vanatrúin ber slíkar leifar að hluta til.
Á ísöldunum hefur fólkið trúað á hina miklu móðurgyðju djúpt niðri í jörðinni sem hrærir í risastórum potti sínum, þar sem ævinlega er hlýja og nægur matur og drykkur, einmitt það sem ísaldarfólkið þráði, en þannig hafa þess hugmyndir um himnaríki verið. Þessi trúarbrögð hafa lifað um hundruð þúsundir ára sennilega.
Þegar Snorri Sturluson færði sína kennslubók í letur um skáldskaparfræði hefur hann lýst þessu. Helja er þetta fyrsta goðmagn mannkynsins. Henni er lýst fordómalaust í Snorra Eddu, en ranglega talin afkvæmi Loka, sem hlýtur að vera miklu yngra goð, og orðsifjafræðilega hugsanlega 3000 - 4000 ára, en á sanskrít merkir orðið loki reikistjarna, og bendir það til merkilegra hluta, passar vel inní það að guðir voru taldir reikistjörnur á þessum tíma.
Ásgeir Blöndal Magnússon fór kolranga leið í túlkun sinni á mörgum ævafornum orðum. Hann átti að leita miklu, miklu lengra aftur í fortíðina.
Grýla í Esjunni eða fjöllunum almennt er svo enn ein birtingarmynd þessara ævafornu trúarhugmynda. Það sem einusinni var heilagt breytist í forynjur og skrímsli eða þjóðtrú, barnafælur eða náttúruvætti.
Eins og séra Davíð Þór Jónsson, presturinn frægi hefur fjallað um þýðir ekki að nota fordóma miðalda og Endurreisnarinnar þegar um þetta er verið að fjalla. Fræðileg umfjöllun eins og það sem kennt er í guðfræðideildunum forðast slíka miðaldafordóma.
Reiðin gegn kirkjunni fyrr á öldum hefur verið til staðar, þegar fólk taldi Guð ekki hlusta á bænirnar eða svara þeim. Þá var gripið til svona fornra goðmagna, og árekstrarnir urðu margvíslegir, nornabrennurnar eitt frægasta og hræðilegasta dæmið.
Það má slá því föstu að gríðarlega mörg vinsæl goð af þessu tagi séu gleymd í sögunni, bæði vegna þess að bækur voru brenndar og líkneski og vegna þess að sumt var aldrei ritað. Þetta er risastór eyða í menningarsögunni, en þær eru svosem fleiri.
Ég tel að Njörður og Nerða eða Njörð, systir hans og eiginkona upprunaleg, hafi einnig verið svona goð, undirheimagoð, eins og Plútó og Hades. Plútó merkir "guð auðlegðarinnar", Dis Pater var einnig heiti yfir þetta goð.
Enn þann dag í dag er Satan talinn nátengdur peningum og ríkidæmi, samkvæmt hugmyndafræði aldanna, sem ekki var fundin upp með kristninni, en dafnaði meðfram kristninni, var innlimuð í kristna alþýðuspeki.
Rætur þessara goða tel ég ævafornar, frá ísöldinni, þegar nauðsynlegt var að trúa á slíka guði og slíkar gyðjur.
En grimmd og harðneskja fylgdi mæðraveldinu, mannfórnir og dýrafórnir. Hætt er við því að nútíminn gæti stefnt í sömu átt með því að hafna kirkjunni, feðraveldinu og menningunni sem þróaðist meðfram þessum fyrirbærum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Syndafallið í Biblíunni - Aldingarðurinn Eden tilraunastofa, ...
- Líta femínistar í eigin barm? Er ástæða fyrir bakslaginu?
- Jahve er djöfullinn og hann stendur á bakvið öll stríð, og er...
- Sjálfstæðismenn þurfa að sinna menningarmálum meira
- Vinstrimenn ættu að skammast sín, en ekki hægrimenn. Mengun e...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 85
- Sl. viku: 665
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 487
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2212521/
Magnús Sigurðsson, 16.9.2022 kl. 20:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.