Óafsakanlegt að stefna kjarnorkuverum í hættu, hvort sem Úkraínumenn eða Rússar eru sekir um það

Þær eru yfirgengilegar og ótrúlegar fréttirnar sem koma um árásirnar nálægt stærsta kjarnorkuveri Evrópu í Úkraínu. Maður hefði aldrei trúað að þjóðaleiðtogar gætu verið svona vitlausir að stefna lífi þúsunda eða enn fleiri í hættu með þessu.

Fréttafólk á RÚV og Stöð 2 hefur að þessu sinni ekki verið með fréttir þar sem öðrum aðilanum er kennt um heldur sagt "Úkraínumenn og Rússar kenna hverjir öðrum um", auk þess sem það er rétt beygt mál.

Ótrúlegar voru fréttirnar um þetta um helgina, en svo mun þetta hafa haldið áfram eins og feigðarþráin sé þeim efst í brjósti Úkraínumönnum eða Rússum. Undarlegt er að þetta fær ekki stórt rúm í blöðum eða fjölmiðlum, eins skelfilegt og þetta er.

Margt er upplýsandi í pistlum Bjarna Jónssonar um þetta, en hann heldur mjög greinilega með Vesturlöndum en ekki Rússum, eins og flestir. Það er í sjálfu sér skiljanlegt enda er stríðið gjörsamlega skelfilegt í alla staði. Enda er það rétt hjá honum að framferði Rússa er erfitt að afsaka eða skilja. Þetta stríð virðist ónauðsynlegt og óskiljanlegt, nema ef Rússar telja að Vesturlönd hafi gert árás á sitt yfirráðasvæði með því að koma Selenský þarna fyrir sem forseta og vestræna Úkraínu.

En þetta með sprengingarnar í grennd við kjarnorkuverið keyrir út yfir allan þjófabálk ef svo má segja.

Enginn sigrar í kjarnorkustyrjöld og enginn sigrar þegar kjarnorkuver springur eða lekur. Þetta eru algild sannindi.

Hvaða rök í ósköpunum geta verið fyrir því að Úkraínumenn eða Rússar standi fyrir þessu? Eins og Ólöf Ragnarsdóttir á RÚV segir og fleiri benda Selenský og Pútín hvor á annan og þeirra lið.

Dettur Rússum það í hug að þetta verði nýtt Híróshíma og Nagasaki? Dettur þeim í hug að Úkraínumenn muni gefast upp ef þeir valda kjarnorkuslysi þarna?

Eða dettur Úkraínumönnum það í hug að Rússar verði sigraðir ef þarna verður kjarnorkuslys, að alþjóðasamfélagið sjái til þess? Svona röksemdafærsla verður brátt fáránleg, því svo mikið er í húfi, og svona sprengjuregn þarna er fullkomlega óafsakanlegt, jafnvel verra en drápin og ofbeldið.

Hvernig fer með Úkraínu sem fæðuforðabúr heimsins ef kjarnorkuslys yrði þarna í þessu stærsta kjarnorkuveri Evrópu? Mengunin myndi breiðast út um alla jörðina, en hætt er við að matvælaiðnaðurinn í grenndinni yrði úr sögunni, óvíst er hversu hrikaleg eyðileggingin yrði og eitrunin á umhverfinu, en það er hrollvekjandi að fjalla um þetta, sem því miður er ekki dystópískur skáldskapur heldur veruleiki.

Bjarni Jónsson telur að kjarnorkan sé lausn á orkuvanda Evrópu. Það mun þó allrasízt verða í kjölfar slyss af þessu tagi, sem myndi verða langtum verra en Chernobyl slysið, sem var þó alveg skelfilegt.

Heimurinn er nú á barmi gjaldþrots í efnahagskerfinu og á barmi alheimskreppu. Hvernig er hægt að leika sér að fjöregginu með þessum hætti?

Ég tek undir með öllum þeim sem gagnrýna Rússa. En ábyrgð Evrópusambandsins er líka mikil og Nató, Bandaríkjanna og allra andstæðinga Rússa. Særður andstæðingur er hættulegastur, eins og Rússar eru núna. Í raun ættu þeir að vera bandalagsþjóð, og hræðilegt er hvernig samskiptin við þá hafa versnað, og ábyrgð Vesturlanda er algjör í því máli.

Svo komum við að fánamálinu og árásinni á Fréttablaðið, netárásinni sem einhverjir aðilar innan Rússlands standa sennilega að.

Var það nauðsynlegt fyrir fréttafólkið á Fréttablaðinu að taka þessa afstöðu með því að sýna troðið á rússneska fánanum?

Lilja Alfreðsdóttir talaði um frjálsa fjölmiðla, og að Fréttablaðið væri frjáls fjölmiðill. Er það ekki á allra vitorði að Fréttablaðið er málgagn Evrópusambandsins en ekki frjáls fjölmiðill?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var í fréttum einnig og fjallaði um að héðan yrði sent fólk til að finna sprengjur Rússa í Úkraínu.

Aftur og aftur heyrir maður það að árás Rússa á Úkraínu sé árás á vestræn gildi, að þessi árás á vestræn gildi sé í raun kjarni stríðsins og það sem Úkraínustríðið snýst aðallega um. Eða árás á frjálslyndið á vesturlöndum eins og þetta er stundum orðað einnig.

Svo þetta sé orðað á annan hátt, þá hræðast vestrænir stjórnmálamenn sem kalla sig frjálslynda að vestrænir stjórnarhættir séu í hættu ef Rússar sigra Úkraínumenn, og að þessvegna "verði Úkraína að sigra", eins og margoft er sagt einnig.

Þetta stríð snýst því um miklu fleira en úkraínskt korn eða olíulindir eða auðlindir Úkraínu.

En þá vaknar spurningin: Hvers vegna telja vestrænir stjórnmálamenn að frjálslyndið á Vesturlöndum muni tapa ef Rússar sigra?

Þessi ótti við Rússa segir manni að Evrópa sé hrunin og afgangurinn af Vesturlöndum, fyrst óttinn við Rússa er svona mikill. Skynsamlegast hefði verið að hjálpa Rússum að sigra Úkraínumenn, til að forða frá þriðju heimsstyrjöldinni (fjórðu eða fimmtu segja sumir, ef femínisminn er talinn þriðja heimsstyrjöldin), og til að forða öllu mannkyninu frá kjarnorkuógninni, sem bæði stafar frá Úkraínu og Rússlandi, kjarnorkuvopnum og kjarnorkuverum.

Stjórnmál á Vesturlöndum ganga nú til dags út á það að hefja barnaskapinn í fólki á öllum aldri til vegs og virðingar. Þroskuð viðhorf eru gamaldags og hluti af feðraveldinu, segja femínistar.

Núna þegar menningin hefur getið af sér stórkostlega tækni hefur aldrei verið meiri hætta á gjöreyðingu mannkynsins.

Stjörnu-Sævar ætti að minna fólk á að talið er að mörg hátæknivædd mannkyn hafi útrýmt sér í kjarnorkueldi og að við séum að stefna í sömu átt, hann ætti frekar að fjalla um það mikilvæga mál og vara við þessari hættu en að tala um að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé í hættu eða eitthvað slíkt. Af hverju er hann sem sérfræðingur í öðrum málum að fjalla um mannréttindamál? Er það ekki mesti barnaskapurinn að mannréttindamálin, sem börnin skilja svo vel, séu aðalmálið?

Eru ekki margir að fatta að barnaskapurinn og ábyrgðarleysið kann að leiða til hörmulegra atvika?

Hvernig var þetta með hrunið 2008? Þá sögðu sérfræðingarnir að bankarnir gætu ekki fallið. Er frjálslyndi Vesturlanda svo mikilvægt að hætta á kjarnorkustyrjöld og gereyðingu mannkynsins þurfi að aukast til að sigra Rússa og telja þá að því vestræna frjálslyndi sé borgið í kjölfarið?

Vestrænt frjálslyndi er dautt ef kjarnorkuslys verður í Úkraínu eða annarsstaðar. Fasismi nærist á kreppum og erfiðum lífskjörum, hungursneyðum og öllu slíku. Að vinna með Rússum er tryggasta leiðin til að stuðla að heimsfriði, að vinda ofanaf Úkraínustríðinu og öllu því skelfilega sem fylgir því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bara ef það væri nú til betri tækni til að nýta kjarnorku heldur en vatnskældir úrankljúfar hannaðir fyrir kafbáta þar sem aldrei skortir kælivatn en eru svo stórhættulegir á þurru landi...

Guðmundur Ásgeirsson, 12.8.2022 kl. 16:55

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Gott að fá þessar aukalegu upplýsingar Guðmundur, takk fyrir þær. Full ástæða til að fylgjast með.

Ingólfur Sigurðsson, 13.8.2022 kl. 05:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.11.): 18
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 601
  • Frá upphafi: 126561

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 427
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband