23.2.2022 | 04:47
"Ísland úr Nató og herinn á brott!"
Oft hefur Nató verið umdeilt, og sérstaklega óvinsælt af vinstrisinnuðu fólki í Alþýðubandalaginu, Alþýðufylkingunni og Vinstri grænum. Heimavarnarliðið hét hljómsveit vinstrisinnaðra komma og hæfileikaríkra tónlistarmanna, mjög skemmtileg hljómsveit, og nafn pistilsins er úr einu frægu sönglagi frá þeim.
Ástæðan fyrir því að ég er að rifja upp þetta gamla slagorð eru nýlegir atburðir, Úkraínudeilan, sem vekur upp spurninguna hvort Nató er enn nauðsynlegt fyrirbæri, Atlantshafsbandalagið svonefnda.
Það breytist svo margt með tímanum. Kalda stríðið er löngu búið. Nató var notað sem stríðstól til að auðvelda innrásina í Írak 2003, en það stríð reyndist ekki á rökum reist eins og frægt er orðið. Nú er þetta kallað að "senda friðargæzluliða á vettvang", sem er annað hugtak yfir að senda hermenn á staðinn. Nema hvað stríð eru háð með hátæknivopnum núna, og síður með gamla mátanum.
Það er gjörsamlega fáránlegt að Katrín forsætisráðherra og félagar í Vinstri Grænum skuli styðja Nató þvinganir gegn Rússum, þar sem Vinstri grænir eru leifarnar af Alþýðubandalaginu forna, sem hataði Nató eins og pestina og vildi ekkert frekar en að koma okkur úr því bandalagi.
Fáránleikinn á bakvið þessa blessuðu valdagræðgistjórn vex sífellt.
Nató er gamalt og dautt nátttröll, nema hvað þessi tröll styðja sig hvert við annað, til að láta líta svo út sem þau séu enn á lífi og eigi erindi, annað en að styðja óréttlæti, valdakerfi og kúgun.
Ég tel Evrópusambandið ekki vera fyrirheitna landið. Samt kann að vera rétt fyrir okkar þjóð að ganga þar inn, eða reyna það, því hvað er skárra í boði? Spilltir pólitíkusar, meðvirkur almenningur sem lætur kúga sig og stjórna sér? Almennilegir flokkar sem fá ekkert fylgi?
Svo er það með Kína. Umdeilt land og þjóðfélag, en maður heyrir líka raddir þess efnis að vesturlöndin séu búin að vera og eina vitið sé að mynda sterkari tengsl við Kína, og önnur rísandi stórveldi.
Vesturlönd hafa verið að grafa sína gröf í rúmlega 70 ár, og nú er hún tilbúin þannig að hægt er að husla hræið og ekkert verði eftir, lönd tilbúin til innflutnings á nýju fólki frá öðrum löndum.
Ég er hluti af jafnaðarstefnunni sem íbúi þessa lands, en veit að hún er að drepa börnin sín, þjóðirnar sínar.
Að minnsta kosti ættu meðlimir ríkisstjórnarinnar ekki að vera sammála um Natóaðild og Natóstuðning og stríðsrekstur gegn Rússum, sem reyndustu okkur Íslendingum mjög vel í þeim hörmulegu aðstæðum sem urðu 2008 og í kjölfar bankahrunsins.
Hverjum er það ekki ljóst að Nató er valdabandalag og spillingarbandalag?
Úkraínudeilan snýst um matvælaöryggi Evrópu og aðrar auðlindir, myndi ég halda. Hún snýst líka um valdamenn í Ameríku og Bretlandi sem þurfa að beina athyglinni frá eigin krísum og þykjast sterkir meðal eigin þegna og umheimsins alls.
Það sama gerði Hitler. Stríðsrekstur hans átti að skapa vinsældir heimafyrir fyrst og fremst, gera hann að þjóðhetju enn meiri. Það sama gera eiginlega allir valdamenn. Hvort sem þeir fara útí stríð eða ekki reyna þeir að auka vinsældir sínar. Munurinn á einræðisherrum og öðrum er að því leytinu ekki mikill. Um 1940 voru stríð talin eðlileg. Það er ekki hægt að meta stjórnmálamenn fortíðarinnar á sömu mælistiku og þá sem nú eru uppi.
Pútín veit að sitji hann á sem mestum auðlindum verður hann ekki hunzaður, hataður eða ofsóttur, eins og reynt hefur verið að gera hingað til.
Rússar reyndust okkur vel 2008, og eftir bankahrunið. Þrátt fyrir gagnrýnina sem Pútín hefur fengið er hann ekki neinn harðstjóri eða einræðisherra á venjulegum mælikvarða, en hann hefur farið bil beggja, og búið til samfélag sem er ekki fullkomin eftiröpun á Vesturlöndum, sem er áhugavert.
Auðveldi, eða ólígarkaveldi er Rússland kallað, en það sama má víst segja um löndin sem gagnrýna hann, og ráðafólkið þar. Peningaveldi allsstaðar.
"Ísland úr Nató og herinn á brott!"
Eins og kommarnir sögðu þá hefur Nató alltaf verið gagnslaust og aldrei snúizt um annað en að styðja valdabrölt. Hernaður varð úreltur með kjarnorkuvopnum, og lítil vörn í mengandi herstöð í Keflavík ef gereyðingarstríð hefst útí öðrum löndum.
Framtíðin felst í að útrýma gereyðingarvopnum og iðka friðarlistina fram á götuna, án þess að missa sérstöðu sína, menningu, kynþátt, landsvæði, auðlindir, og svo framvegis.
Hátæknihernaðurinn hefur einnig breytt heimsmyndinni.
Kalda stríðið er búið. Friðarviðræður, samstarf við Rússa og aukið traust á milli þjóða aftur, það er framtíðin, ekki nýtt kalt stríð.
"Ísland úr Nató og herinn á brott!". Hefur það nokkurntímann átt betur við?
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 47
- Sl. sólarhring: 48
- Sl. viku: 550
- Frá upphafi: 132122
Annað
- Innlit í dag: 40
- Innlit sl. viku: 442
- Gestir í dag: 37
- IP-tölur í dag: 36
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.