Guðinn Týr, vísbending um að Ásatrú sé eingyðistrú frekar en fjölgyðistrú - kannski.

Ég ætlaði mér lengi að útskýra trúarafstöðu mína heiðna betur, því hún er ekki endilega einföld.

 

Ég hef ekki endilega verið að básúna það fyrir fólki að ég telji mig fjölgyðistrúar, enda finnst mér slíkar skilgreiningar vafasamar. Ég tel mig leita að sannleikanum í trúmálum, ég er ennþá í Þjóðkirkjunni af því að á meðan ég get ekki sannað atriði fjölgyðistrúarinnar finnst mér það gott að heiðra skoðanir sem ég ólst upp við. (Ég á við afa og ömmu, Þjóðkirkjan og kristnin). Ennþá eru það flestir sem ég kann bezt við kristnir einstaklingar, með kristilega siðferðisvitund, og það hjálpar mér að vera áfram í Þjóðkirkjunni.

 

Auk þess hef ég kynnzt fólki í Ásatrúarfélaginu. Þar finnst mér vera aðalmálið að vera vinstrisinnaður Pírati, en Píratar eru mestu öfgastalínistar sem til eru, og því villusauðir af sorglegasta taginu. Ekki alveg minn tebolli. Ég segi mig kannski úr Þjóðkirkjunni þegar ég kynnist gríðarlegum fjölda af Ásatrúarmönnum sem iðka róttækari heiðni en gert er nú. Kannski verður það aldrei, miðað við hvernig fólki er stjórnað, svonefndum Ásatrúarmönnum einnig.

 

En þessi grein á að vera um guðinn Tý. Frá 1996 til 2014 sendi Ingvar bróðurafi mér frá öðrum hnöttum heiðin kvæði sem ég skrifaði niður með ósjálfráðri skrift. Það var eins og að fara í vímu, mikil hamingja.

 

Ég held að það hafi endað að nokkru leyti þegar afi minn varð of sljór af læknadópi 2014, enda dó hann 2015, vegna kransæðastíflu, en þá að verða 99 ára gamall, þannig að hann stóð sig vel. Samt hef ég skrifað svolítið slíkt eftir að hann dó einnig.

 

En þessi grein er um guðinn Tý, eins og ég minnist á. Systir hennar mömmu er áhugamanneskja um samsæriskenningar. Ég var í heimsókn hjá henni 2005. Hún fékk sér sígarettu á meðan vinkona hennar Þórunn kom í heimsókn. Á meðan þær tvær töluðu saman fór ég að lesa bók hjá henni, um íslenzka málhætti.

 

Þá var ég að leita eftir öllum þeim upplýsingum sem ég gat fundið um gömlu guðina. Ég varð fyrir meiriháttar vitrun í stofunni hennar frænku minnar þegar ég las örfáar línur, málshátt sem ég hafði aldrei heyrt, en opnaði þvílíkar dyr hjá mér að Ingvar frændi gat sent mér mörg fornkvæði frá öðrum hnetti, sem útskýrðu margt fyrir mér um guðinn Tý.

 

Ég leitaði að Týr í orðasafninu. Upp kom einn málsháttur, AÐ HEITA Á HURÐIR TÝS. Svo var vísað í "Að heita á hurðir Flosa".

 

Útskýringarnar sögðu svo sem ekkert meira en þetta, en þetta var nóg fyrir mig. Ég kvaddi frænku mína og vinkonu hennar í skyndi því ég fann þörf til að skrifa, og heima skrifaði ég eftir upplestri móðurafa míns á öðrum hnetti kvæði sem lýsir Tý betur.

 

Samkvæmt íslenzkum fræðimönnum er Týr aðeins öðruvísi en hin goðin. Sumir telja hann eldri og upprunalegri, enda orðsifjalega er nafn hans einna elzt og skylt deus, Zeus hinum gríska guði, og slíkum orðum sem í forngermönskunni, frummálinu germanska, þýddu himinn.

 

Ég fékk stórkostlega sýn og skynjun sem varði í nokkra stund. Mér fannst einhver leiða mig að fjalli, sem var eins og gullfjall, stórt og mikið og skínandi. Dyr opnuðust á fjallinu og glæsileg móttökusveit blasti við, skeggjaðir menn og prúðbúnar konur í búningum sem minntu á íslenzku skrautbúningana sem brostu vingjarnlega og buðu mér inn.

 

Ég vil bæta því við að þegar Magnús Sigurðsson bloggvinur minn hefur skrifað um Dyrfjöll hef ég margsinnis haft löngun til að fjalla um þetta í undirtexta hjá honum, en hef veigrað mér við það, til að hljóma ekki kjánalegur þar.

 

En allavega upplifun mín hélt áfram og það merkilegasta var eftir. Sá sem fylgdi mér og var alltaf á undan mér í gegnum fjallið sýndi mér langan gang, endalausan að því er virtist. Hann var upplýstur eins og í himnaríki, og endalausar dyr til hægri og vinstri.

 

Ég fór aldrei langt inní fjallið því sýnin endaði eftir að sá sem var að sýna mér þetta hafði opnað nokkrar dyr, en stórkostleg var upplifunin samt.

 

Ég held að fylgdarmaðurinn hafi opnað um það bil 10 dyr inni í fjallinu á þessum endalausa gangi. Nema það, að ég vissi um leið og ég sá, ég vissi að hann var að sýna mér mörg líf, æviskeið persóna og marga alheima inni í fjallinu.

 

Sem sagt, þegar fyrstu dyrnar voru opnaðar var þar allt á hreyfingu og endalaus smáatriði. Það var eins og þetta væri heil eilífð, þetta andartak sem ég fékk að gægjast þar inn. Ég sá fólk á iði, og sá það lifa lífum sínum á örskotsstundu. Ég sá hvernig himinn og jörð tengdust, dýr og jurtir með ósýnilegum þráðum. Ég sá hvernig örlög héldu þessu saman.

 

Þetta var fjall Týs, var mér sagt. Guðafjallið. Ég vissi ekki hvað það þýddi fullkomlega, tók því eins og það var sagt og upplifað.

 

Næstu dyr voru opnaðar og þá sá ég allt annað umhverfi. Ekki neitt sem var endilega í boði fyrir mig prívat og persónulega, heldur eitthvað sem var á iði, alheimur sem tilheyrði öðrum, og hægt var að komast inní hugsanlega seinna.

 

Nema það sem ég tók eftir var að náttúrulögmálin voru ólík eftir því hvaða dyr voru opnaðar, en stundum sama fólkið.

 

Sá sem vísaði mér áfram opnaði nokkrar fleiri dyr, en svo var eins og ég þyldi ekki meira og sýnin endaði og ég tók eftir mínu umhverfi að Digranesheiði 8, heima.

 

Sjáum til, maður er ekkert að segja nema vinum sínum frá svona vitleysu, nema verða talinn ennþá klikkaðri og skrýtnari en gerist og gengur. En svona var þetta nú samt.

 

En ég er ekki einn um að segja frá svona skynjunum.

 

Mér varð það ljós að guðinn Týr hefur sérstöðu.

 

En í trúmálum þýðir ekki að hafa neina vissu. En þessi skynjun og sýn hefur þó kennt mér að kannski er bilið á milli eingyðistrúarinnar og fjölgyðistrúarinnar ekki svo stórt eftir allt saman. En maður veit ekkert um það með vissu.

 

Þetta er það sem gerir lífið einmitt skemmtilegt en erfitt um leið, framtíðin er óljós, og stundum kemur hún skemmtilega á óvart, eins og þegar mér vitruðust þessar furður, og undarlegt að það séu 16 - 17 ár síðan, virðist styttra.

 

En við erum ekki ein á þessari jörð, hvorki sem einstaklingar né tegund. Við vitum næstum ekkert með vissu, en við ímyndum okkur stundum að við vitum eitthvað betur en annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Örlitlar leiðréttingar. Afabróðir minn Ingvar Agnarsson var dáinn að sjálfsögðu þegar hann sendi mér þetta frá öðrum hnetti, en hann dó 1996. 

Ég nefni hann ranglega í textanum móðurafa minn á einum stað og á öðrum stað nefni ég hann ranglega bróðurafa. 

Fyndinn ruglingur á orðum þegar maður er með athyglina annarsstaðar. Afabróðir er auðvitað rétta orðið, svo það sé nú leiðrétt.

Ingólfur Sigurðsson, 2.1.2022 kl. 07:47

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þeir eru alltaf áhugaverðir pistlarnir þínir Ingólfur, og þú þorir að segja það sem aðrir þegja.

Sjálfur hef ég mikið velt vöngum yfir Tý. Ég hef ímyndað mér að Týr hafi með vogaskálar að gera og að hann sé að mörgu ólíkur öðrum goðum Ásgarðs.

Ég hef aldrei náð að átta mig á hvað Ásatrú er sem trúarbrögð, eftir því sem dýpra er kafað þá hefur þetta verið heimsmynd, ákveðin lífssýn, almannatryggingakerfi og ættfræði.

Það geta sjálfsagt t.d. flestir Íslendingar rakið ættir sínar aftur til Óðins og Njarðar ásamt afkomendum þeirra í gegnum íslendingabók, skjöldungasögu og ynglingatal. En ég held að engin geti rakið ætt sína til Týs.

Það er áhugavert þegar þú segir frá upplifun þinni og ekki síður þegar þú segir frá kynnum þínum af Ásatrú dagsins í dag. Ég á ekki von á að mín upplifun yrði öðruvísi af þeim trúarbrögðum.

Rétt eins og þú, þá hefur mér ekki hugnast annað en að vera í þjóðkirkjunni. Þó svo að hún byggi á trúar-brögðum, þá finnst mér Ögmundur Jónasson afa hitt naglann á höfuðið þegar hann gekk aftur í þjóðkirkjuna með því að segja eitthvað á þá leiða, -að þó svo að maður hefði ýmislegt við hana að athuga þá vildi maður að orgelið væri í lagi við útför náinna ættingja.

Magnús Sigurðsson, 2.1.2022 kl. 09:14

3 Smámynd: Hörður Þormar

Trúarþörfin hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda.

Í Bruniquel í SV.Frakklandi er hellir þar sem fundist hafa merki um trúarathafnir Neanderdalsmanna. Aldursgreiningar hafa sýnt fram á að þessi helgidómur er 176 þús. ára gamall:                                   Neanderthal: The Mystery of the Bruniquel Cave (2019) Full Movie Alexernderau Starface Alexernderau Starface •                         

Hörður Þormar, 2.1.2022 kl. 18:39

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Sammála því að Týr er spes. Sammála því að Ásatrúarfólk samtímans eru vitleysingar sem hafa ekkert innsæi á eigin trú. Veit ekkert meira um Tý, annað en að hann býður fólki þriðjudagshindrun, en Antivistar eru myndastyttur. Það er fátt "fólk" á ferli.

Frábær frásaga. Ræðum fleira svona þegar við fáum Gettó.

Guðjón E. Hreinberg, 2.1.2022 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.2.): 156
  • Sl. sólarhring: 161
  • Sl. viku: 819
  • Frá upphafi: 137019

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 629
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 102

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband