Frosin gríma eftir Bubba Morthens frá 1985, mín túlkun.

Söngtextar Bubba Morthens voru ljóðrænni áður en hann byrjaði að nota klisjur óhóflega, eins og hann hefur verið gagnrýndur fyrir síðastliðin 20 - 30 ár. Hér er einn söngtexti eða ljóð af einni af þeim plötum sem fengu bezta gagnrýni eftir hann, Konu, frá 1985. Allt er þetta kveðskapur um skilnaðinn við Ingu, sem var fyrsta eiginkonan hans, og einnig ort í meðferð við vímuefnaneyzlu. Ég kann ágætlega við nokkrar plötur eftir Bubba, mjög vel meira að segja, en þær eru margar og misjafnar, afköstin gríðarleg hjá honum.

 

Konuplötunni hans var líkt við gæðaplötuna "Blood On The Tracks" eftir Bob Dylan, báðar fjalla um vandræði í samskiptum við hitt kynið og á báðum plötum eru áhugaverðir textar og ljóð, og ágæt tónlist við.

 

Í textum Bubba kemur stundum fram ákveðinn klaufaskapur í framsetningu samhliða fallegri ljóðrænu og tilfinningasemi, þannig að úr verður sérkennileg en stundum áhugaverð blanda. Ég held mikið upp á þennan texta eftir hann, tel hann snilldarverk, því finna má duldar merkingar í honum.

 

Eins og oft í textum Bubba blandar hann saman setningum sem hann fær að láni og vitnar í. Í þessu ljóði er það vel heppnað og frumlegt, skáldlegt, ekki eins venjulegt og í seinni tíma verkum hans yfirleitt.

 

"Skömmu fyrir sólsetur sé ég miðnættið sigla að" er fyrsta línan.

 

Hér er miðnættinu líkt við skip sem leggst að bryggju, vel skáldlegt.

 

"Leita skjóls í minningum liðins tíma".

 

Hér veit lesandinn strax meira. Skáldið er að yrkja um sjálfan sig. Þetta sólsetur er sólsetur ástarinnar, og sólin er sól ástarinnar, eða hamingjunnar í samlífi parsins sem um er fjallað, söguhetjunnar og makans.

 

Miðnættið eru sambandsslitin, þegar þau hætta saman, skilja, eða eitthvað slíkt, eða þegar snurða hleypur á þráðinn einhversstaðar, ósætti verður á milli þeirra.

 

"Ég leita skjóls í minningum liðins tíma", er setningin að segja, og er orðin persónuleg. Annars væri r í enda orðins leita, ef það ætti við miðnættið eða sólsetrið.

 

"Varir mínar hreyfast, sérð þú það?"

 

Þessi setning lýsir tjáningarörðugleikum. Söguhetjan ætlar að segja eitthvað en megnar það varla vegna þess að sennilega er ástæðan ótti um að því verði ekki vel tekið.

 

"Andlit mitt sem frosin gríma".

 

Þetta minnir á svarthvítu hetjurnar eins og Humprey Bogart, og rám röddin og útsetningin sem er frekar djössuð gefur þessa sömu tilfinningu einnig, að Bubbi hafi leitað í tónlist millistríðsáranna eða gamla dægurtónlist allavegana.

 

"Úr tóminu heyri ég spámannsins orð: Dæmir þú aðra, er enginn tími til að elska?"

 

Þessum orðum er samtímis beint að makanum og skáldinu sjálfu, býst ég við. Allt mjög auðskiljanlegt.

 

"Ég spyr með augunum: Verð ég dæmdur fyrir morð? Á sjálfum mér taki ég enga sénsa?"

 

Hér fyrst verður ljóðið dularfullt og spennandi fyrir alvöru, því hægt er að túlka þessi orð á margvíslegan hátt.

 

Þetta ljóð fjallar um sektarkennd fyrst og fremst. Hér loksins kemur hún fram í allri sinni dýrð.

 

Hvaða morð er þetta sem skáldið fjallar um? Á barni sem aldrei var getið eða vegna fóstureyðingar eða eitthvað allt annað? Morð á sambandinu, ástarsambandinu milli þeirra tveggja? Eitthvað allt annað?

 

"Ef ég þyrfti ekki að gizka myndi ég glaður játa það sem ég gæti hafa gert".

 

Gizka á hvað? Þetta orðalag minnir á yfirheyrslur yfir dæmdum manni sem er í gæzluvarðhaldi út af einhverju afbroti. Eitthvað mun Bubbi hafa komizt nálægt því að komast í kast við lögin á þessum árum vegna fíkniefnamála og annarra atriða jafnvel.

 

En, sektarkenndin er allt um lykjandi í textanum. Hann telur sig hafa gert eitthvað en veit ekki hvað það er eða gæti verið.

 

Fyrri hluti setningarinnar er kannski áhugaverðastur og órökvísastur:"Ef ég þyrfti ekki að gizka". Ég túlka þá setningu þannig að hann verði að gizka á það hvort hann sé saklaus og verið sé að klína einhverju á hann saklausan.

 

"Ef ekki væri þessi vissa myndi ég glaður játa það sem ég hef ekki gert".

 

Þarna kemur þetta skýrt í ljós sem mér fannst liggja í hinum orðunum. Hann er þrátt fyrir allt viss um að vera saklaus ákærður.

 

"Frá angurværum skuggum til verksmiðjufriðar".

 

Þessi setning er ekki í samræmi við næstu setningu, hún stendur sjálfstæð og er skrýtin í ljóðinu og virðist helzt gegna hlutverki umhverfislýsingar.

 

Frá skuggum til friðar? Hvað á hann við? Verksmiðjufriður? Þetta er býsna óljóst. Hvaða angurværu skuggar eru þetta? Sennilega ósögð orð á milli þeirra tveggja, eitthvað sem aldrei kom í ljós en lá í leyni, gæti líka verið eitthvað skuggalegt og neikvætt, það sem stíaði þeim í sundur.

 

Verksmiðjufriður í þessu sambandi gæti vísað í kuldalegt viðmót samskipta pars þar sem áhuginn er dofnaður og samskiptin yfirborðsleg.

 

Þannig að þessi eina setning gæti lýst sambandi hans og Ingu, ef rétt er túlkuð. Þessi eina setning gæti sagt að þeim hafi ekki auðnazt að ná eins vel saman og hann hefði óskað, kannski vegna vímuefnaneyzlu hans.

 

"Eru fuglarnir frjálsir? spyr ég sjálfan mig, því þó vindar blási er eins og þeim ekkert miði með hlekki himins vafða um sjálfa sig."

 

Þessi lína er stolin úr ljóði Bob Dylans "Ballad In Plain D", frá 1964, sem einnig fjallar um sambandsslit.

 

En hvaða erindi á hún þarna? Hvað er verið að tjá? Bubbi lýsir ósýnilegum hlekkjum, með orðum Dylans þýddum af honum. Hann lýsir því hvernig sálin hlekkjar hann, eigin minningar, eigin fortíð, þótt hann finni sér aðra konu eða kærustu, farangurinn skilur hann ekki við sig, fortíðina.

 

"Þegar húma tekur spyr ég hjarta í trúnaði: Hver er tjáning ástarinnar? Og það svarar: Þögnin, vissirðu það ekki, að ástin er tjáning þagnarinnar?"

 

Hér er eins og hann sé í vafa um þessar fullyrðingar, setji þær fram til að sannfæra sjálfan sig og aðra. Það er að segja, hann veit að þau þögðu of mikið í sambandinu, en reynir að sannfæra sig um að hann hafi ekki átt sökina á að upp úr slitnaði. Fullyrðing hans um að ástin sé tjáning þagnarinnar er ekki staðreynd heldur tilraun hans til að réttlæta sig og samskiptaleysið á milli þeirra.

 

Í vissum tilfellum getur ástin verið tjáning þagnarinnar, en ekki alltaf og um það má vissulega deila. Þessi setning er þarna sögð þegar skáldið reynir að firra sig ábyrgð á að þetta hætti að ganga upp á milli þeirra.

 

"Ef ekki væri þessi vissa myndi ég glaður játa það sem ég aldrei hef gert".

 

Hér er endurtekning, aðeins hert á merkingunni með því að nota orðið "aldrei".

 

Í heildina litið er þetta ágætt ljóð og alveg prýðilegt, hæfilega torskilið, því sumum finnst of flókin ljóð leiðinleg, eða textar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.1.): 47
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 507
  • Frá upphafi: 132175

Annað

  • Innlit í dag: 43
  • Innlit sl. viku: 402
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband