23.9.2021 | 07:33
Bókmenntir hjálpa manni að sjá lífið í öðru ljósi
Ég kaus Samfylkinguna og læt það atkvæði standa. Ég lít svo á að ég standi á einum tímamótum af mörgum í lífinu og er orðinn þreyttur á því að hafa áhuga á einhverjum stórum málum. Nú er ég aftur farinn að hafa áhuga á persónulegum samskiptum, sem sumir kalla smáu málin.
Málið er það að þegar amma dó, sem gekk mér í móðurstað, fékk ég mikið áfall. Þá flúði ég inní blekkingu vinnufíknarinnar, og að taka ábyrgð, til einskis, á einhverju sem var ekki á mínu valdi. Það er ákveðin klikkun. Ég missti af miklu félagslífi fyrir vikið og féll í skólanum að óþörfu.
Ég held að málflutningur femínistanna sé loksins að breyta mér í grunninn, en af þeirri flóru sem er femínískur málflutningur er sjálfsagt sumt rétt en annað rangt. Eitt af því sem mér finnst áhugavert í þeim fræðum er munur á uppeldi og viðbrögðum kynjanna og hvort maður geti ekki haft meiri stjórn á því en áður var talið.
Oft hef ég sakað aðra um að ég hafi ekki náð vinsældum sem tónlistarmaður og þá gjarnan talið að um samsæri væri að ræða gegn öllum sem segðu sannleikann, eða fjölluðu um ákveðin viðfangsefni sem fæstum væru að skapi.
Samt, burtséð frá því hvort maður hefur rétt eða rangt fyrir sér í einhverjum pólitískum ágreiningsmálum, í söngtextum eða hvar sem er þá eru líka persónulegar hliðar og ástæður fyrir afstöðu manns.
Með því að klára myndasögubækur sem ég hætti við á sínum tíma er ég að tengja mig við unglingsárin, þegar ég taldi mig vinstrisinna.
Ég hætti næstum alveg að gera myndasögur 1989, taldi mig ekki hafa tíma til þess lengur, og hefði ekki heldur næga hæfileika til þess.
Ég er reyndar ekki allskostar ánægður með bækurnar um Gorró sem ég hef lokið við, en samt að sumu leyti.
Gorró var fyrsta söguhetjan sem ég skapaði. Það hefur verið þegar ég var tólf ára, 1982. Ég kláraði aldrei bækurnar um hann í fullri lengd, einungis nokkrar bækur um Jóa og félaga.
Vinnubrögðum mínum hefur hrakað, og vandvirknin næstum engin í teikningunum. Samt finnst mér handritin þroskaðri og söguþráðurinn hjá mér, boðskapurinn útpældari, eins og sagan sem ég gerði 1987, í flokknum Jói og félagar, ber hún heitið "Norbrúmm prófessor". Að mörgu leyti eftiröpun á "Z fyrir Zorgblúbb" eftir Franquin, þeirri snilldarbók, en samt ekki alveg. Það er fyrsta teiknimyndasagan eftir mig sem er pólitísk og fjallar um spillingu almennt.
Árið 1984 náði ég hámarki í fyndni og spennuþrungnum, samþjöppuðum söguþræði og teikningum, aðeins 14 ára. Eftir það vann ég allar mínar myndasögur í hjáverkum, og eyddi sáralitlum tíma í þær, taldi annað mikilvægara.
Mig langar til að ná aftur þeirri færni og þjálfun sem ég hafði komið mér upp árið 1984. Þá hafði ég reyndar teiknað að staðaldri frá 1976, en myndmennt var eitt uppáhaldsfagið mitt í skólanum og tónmennt. Hitt fannst mér allt leiðinlegt, nema kannski íslenzka og saga.
Ég kláraði eina myndasögu uppá 62 blaðsíður frá júlí til nóvember 1984. Aldrei hef ég verið eins skipulagður í vinnubrögðum og þegar ég gerði þessa sögu. Ég byrjaði á því að ákveða að nota vélritunarpappír og teikna báðum megin. Zeta Mattpost, A4, það hét pappírinn í söguna "Uppfinningin", Jói og félagar númer 1.
Með reglustiku reiknaði ég næst út stærðina á reitunum og bjó til sniðmát fyrir aðrar blaðsíður. Ég fékk mér skrúfjárn sem var passlega hvasst og lítið, og með hamri sem ég fékk á verkstæðinu hans afa í næsta húsi barði ég holur á sniðmátin, V-laga hök efst í hornunum fjórum, sem skyldu afmarka stærð rammanna. Með því að staðla þannig stærð teiknireitanna var mér unnt að gera þetta faglegt eins og í belgísku og frönsku myndasögunum sem Iðunn og Fjölvi gáfu út. Hver rammi var reiknaður út. Yfirleitt fjórir reitir niður, stundum þó fimm, og þá stærðin reiknuð út þannig að þeir yrðu jafnir.
Næsta verkefni var að kaupa tússliti og þynna þá út með vatni þannig að sem minnst læki í gegn yfir á hina hliðina. Þannig breyttust einnig litirnir og urðu daufari, sem hentaði vel. Ég fékk vasapeninga hjá afa til að fjárfesta í þessu.
Þessi fyrsta saga var svo vönduð að ég bjó til handritið að henni í litla stílabók frá skólanum. Rétt eins og kvikmyndahandrit var þetta, og hugsað út ramma fyrir ramma, og söguþræðinum breytt, sumt strokað út.
Síðan byrjaði ég að teikna laust með blýanti, fór svo ofaní með filterpenna, litaði persónur með tússlitum og bakgrunn með trélitum. Oft voru það 2 tímar á dag sem fóru í þetta á kvöldin. Þannig kláraðist bókin á örfáum mánuðum, enda lét ég engan dag falla úr.
Vegna þess að mér fór að leiðast handritið bætti ég inní fyndnum persónum sem aðeins áttu að vera til skemmtunar, en Gummi grásleppa þótti þeirra fyndnastur, smákrimmi sem varð að stoppa við hverja fiskibúð til að kaupa sér sem úldnasta grásleppu vegna undarlegrar fíknar í slíkt.
Mikið fór nú þessum bókum aftur eftir þetta. Brandararnir hurfu og alvarleikinn tók við. Að lokum urðu þær frekar leiðinlegar og þá hætti ég, enda metnaðurinn löngu dauður og áhuginn horfinn.
Ég kynntist honum Kjarnó, Kjartani Arnórssyni, sem reyndist skyldur mér í gegnum afa, og hann sannfærði mig um að ég yrði að leggja á mig nám, og þá nennti ég þessu bara alls ekki lengur.
Ég afrekaði þó á örskömmum tíma á árunum 1988 og 1989 að grófvinna tvær bækur í öðrum bókaflokkum, eina um Konna kokk og eina um Gorró. Þær bækur biðu þó ólitaðar og varla fullteiknaðar ár eftir ár og áratug eftir áratug.
Síðan gerðist það í kófinu í marz 2020 að ég fór að skoða þessar bækur betur. Fúsi fíni var bók sem var ókláruð, í Jóa og félaga seríunni. Helmingurinn af henni var óteiknaður og næstum öll bókin ólituð.
Ég tók upp þau vinnubrögð 1986 að búa til engin handrit fyrir fram, en að leyfa söguþræðinum að ráðast eftir því í hvaða skapi ég var næst þegar ég tók upp pennan til að teikna og hélt þeim vinnubrögðum þar til ég hætti árið 1989.
Svo þegar ég byrjaði aftur 2020 notaði ég sömu vinnubrögð.
Afraksturinn hræðilegur að mörgu leyti. Alltof mikið um tal og kjaftæði, alltof mikill tilgangslaus texti, hræðilega illa teiknað allt, alltof lítil hreyfing og frásögn í myndum.
En málið er að mér finnst skemmtilegra að búa til skáldsögur í myndasöguformi en basla við að gera sögur án mynda.
Það er nefnilega hægt að búa til myndasögur með boðskap. Það er það skemmtilegasta við myndasögurnar, nokkuð sem hefur ekki verið fullreynt erlendis.
Gorró hentar mér mjög vel núorðið. Ég hef þroskann fyrir hann svona löngu seinna. Hann er brezkur leyniþjónustumaður eins og James Bond, 007, uppi á kaldastríðsárunum, sögurnar eiga að gerast 1950 til 1975 eða svo. Hann keðjureykir vindla, fer á hóruhús í öllum bókunum og er allt sem femínistar hata, og þessvegna er hann svo yndislegur. Hann er ríkur Breti sem hefur ekki minnstu hugmynd um femínisma, og þessvegna er hægt að elska hann. Hann er af gyðingaættum og bróðir hans er bankastjóri og fyllibytta, en kemst upp með drykkjuskapinn, og heitir Gylfi, alltaf fullur.
Þessar persónur eru launfyndnar, en samt eru þær teiknaðar af kærleika í garð ríka fólksins, en eins og margt annað gott í bókmenntum eru þær bæði ádeila og kærleiksrík umfjöllun í senn.
Gorró á skilningsríka eiginkonu, og öll ættin er þannig hjá honum. Þeir eltast að sjálfsögðu við glæpamenn. Að sumu leyti hefur maður meiri samúð með glæpamönnunum.
Einn helzti bófinn er Vindla-Church sem einnig keðjureykir vindla eins og Gorró. Á milli þeirra er því andleg tenging. Þetta er grunnhyggin persóna eins og Daltónbræðurnir í Lukku Láka.
Bryggju Beta er svo kvenbófi og hún er áberandi. Hún er hávaxin og grönn, en félagi hennar er Sígarettu Zalem, en þau eru alltaf að rífast eins og krakkar. Hann er dvergvaxinn kubbur.
Í öllum þessum sögupersónum kristallast einhvernveginn sú heimssýn að öll erum við eins í grunninn hvernig svo sem samfélagið flokkar okkur. Ekki er mikill munur á hetjum og bófum í þessum bókum.
Ég var svo ungur þegar ég byrjaði að búa þessar bækur til að söguþráðurinn þróaðist aldrei almennilega.
Ég byrjaði að búa þær til á afgangskartonpappír úr skólanum sem átti að henda. Ég sem sagt fékk að nota stórt tæki til að klippa karton, með löngum hníf á borði, og klippti niður og heftaði saman örlitlar bækur á stærð við CD diska eins og þeir urðu síðar, eða enn minni jafnvel.
Þannig að þetta voru mjög stuttar bækur og pínulitlar teikningar. Þær gerði ég aðallega 1982 til 1983, rúmlega 10 stykki, sem margar hafa týnzt, en örfáar á ég ennþá.
Það vantar alla stóra dýnamík í þessar bækur, eða stórfengleg viðfangsefni.
Bók númer 1 í bókaflokknum Gorró og félagar heitir "Bófaflokkurinn". Hún er kynning á Vindla-Church og félögum.
Söguþráðurinn minnir á Tinna í Sovétríkjunum eða fyrstu Lukku Láka bækurnar eftir Morris. Allt samhengi skortir, en stutt atvik drífa söguna áfram.
Hin dulræna vídd bættist inní hjá mér í fyrra, er sögurnar urðu 62 blaðsíður í fullri lengd. Sú dulræna vídd er þó ekki fullunnin, heldur aðeins eitt krydd í annars fáránlegar og grunnar sögur.
Engu að síður þá er bók númer 2 öðruvísi, "Stórsvindlarinn Loftur".
Fyrirmyndin að þessari bók var Loki úr Goðheimum, myndrænt útlit.
Hins vegar er George Soros sá sem er fyrirmyndin úr raunheimum, sálrænt séð, eða sambland af ýmsum slíkum billjónamæringum.
Einungis núna þegar bók er búin get ég skoðað kosti hennar og galla. Hún er langt frá því að vera skemmtileg eða áferðarfalleg, en hún er öðruvísi, og metnaðarfull á sinn hátt.
Þetta er frekar skáldsaga í teiknimyndaformi en hefðbundin teiknimyndasaga.
Rétt eins og í Tinna og pikkarónunum, síðustu bókinni sem Hergé lauk við um Tinna, þá er bókin að fjalla um það hversu ófærar hetjurnar eru um allt. Flestir myndarammarnir sýna Gorró taka fast um stýrið og reykja og tala við helzta samstarfsmanninn, Binna, en fá oftast engan botn í vandamálin.
Öðruvísi voru bækurnar um Jóa og félaga, þar sem hetjurnar áttu auðvelt með að sigra.
Í Gorró bókunum koma sigrarnir af tilviljun og hendingu og allt er kaótískt, eins og oft í raunveruleikanum.
Það skemmtilegasta við Gorró er þó að hann er mótefni gegn femínisma. Ég myndi ekki segja að hann komi af óvirðingu fram við kvenfólk, hann bara er af allt annarri kynslóð en nútímaunglingarnir sem þekkja þetta út og inn, þessi nútímaviðhorf, og Gorró er auk þess tilheyrandi þannig stétt að útilokað var fyrir slíkan mann um 1950 að hafa aðrar skoðanir en þessar, býst ég við.
Þannig finnst mér Gorró mjög viðkunnanlegur maður. Hann er mannleg hetja sem gerir mistök, til dæmis. Margar hetjur eru þannig í bókum. Brandararnir í þessum bókum snúast dálítið mikið um hann sem andhetju, en ekki klaufabárð samt, en bara þegar hann ætlar öllu að redda með einfaldri aðgerð þá kemur í ljós að málin eru ekki alveg eins einföld og í sumum hetjubókmenntum.
Allar mínar teiknimyndasögur eru svo ömurlega illa teiknaðar að þær yrðu að vera endurteiknaðar til að verða gefnar út, og jafnvel væri ekki úr vegi að lagfæra söguþráðinn á köflum, stytta hann og bæta inní fleiri bröndurum. Samt ekki endilega, ef menn vilja halda í vandaðan bókmenntastílinn og fíngerða kímnina.
En ég byrjaði þennan pistil á Samfylkingunni.
Þessi heimur okkar er brandari. Hann gengur ekki upp og skiptir þess vegna ekki máli. Í þannig heimi er bezt að kjósa Samfylkinguna, Pírata, eða þannig flokka, sem ekki á að taka alvarlega, og sigra þessvegna. Brjáluðum heimi hæfa brjáluð stjórnmál.
Engu að síður, Samfylkingin hefur kosti og marga kosti. Ég mun væntanlega fjalla um þá síðar, af nógu er að taka. Samúðin með öllu sem lifir er stór kostur sem hægt er að læra af vilji maður vera hluti af Samfylkingunni.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.1.): 52
- Sl. sólarhring: 56
- Sl. viku: 512
- Frá upphafi: 132180
Annað
- Innlit í dag: 48
- Innlit sl. viku: 407
- Gestir í dag: 45
- IP-tölur í dag: 43
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.