Löggjöfin er langt á eftir tækninni, í sambandi við áróðursherferðir og níðsherferðir, ófrægingaráróður og kosningasvindl. Ein mynd segir meira en þúsund orð segir máltækið. Ein hreyfimynd segir því meira en milljón orð, eitt app sem sagt, eða einn filter, svo notað sé nútímatæknimál.
Sjá DV frétt þann 6. september 2021: "Sigmundar-Davíðs-filter vekur óhug netverja" "Vá hvað þetta er krípí". Sjá einnig fyrsta þátt haustsins af seríu Gísla Marteins á RÚV: "Vikan með Gísla Marteini".
Í DV-fréttinni er fólki bent á að það geti nálgazt þennan filter á Instagram.
Þessi filter er ekkert annað en heilaþvottur fyrir undirmeðvitundina þess efnis að Sigmundur Davíð sé einhver Drakúla. Þessi filter ber sennilega ábyrgð á fylgistapi Miðflokksins og fleiri hægriflokka, en það tap getur jafnvel verið gríðarlegt, bara út af þessum eina filter, því EIN MYND SEGIR MEIRA EN 1000 ORÐ!
Ef menn halda að þetta sé léttúðugt grín hjá mér að fjalla um þetta eða hjá þeim sem bjó til þennan filter, ekki er ég viss um að þessi Arnór Bogason sé ábyrgður fyrir honum þótt hann noti hann samkvæmt DV fréttinni og segi hann krípí, en hver svo sem bjó til filterinn ætti að gera sér grein fyrir hvaða áhrif slíkar myndbirtingar hafa og notkun á filterum í svona hápólitískum tilgangi, til að ófrægja Sigmund Davíð.
Nazistar seinni heimsstyrjaldarinnar eru oftast notaðir sem dæmi um hóp sem einna fyrstur notaði nútímatækni í framsetningu á áróðri og fjöldaáróðri gegn ákveðnum hópi manna, gyðingum, með hrikalegum afleiðingum.
Frægar eru myndir þeirra og veggspjöld af gyðingum, sem fégráðugum, svikulum og hættulegum mönnum, með sítt skegg og lævíslegt augnaráð. Þeir notuðu sama áróður og notaður er gegn Sigmundi Davíð, þeir skrímslavæddu ákveðinn hóp manna. Sigmundur Davíð er reyndar notaður sem eitt tákn fyrir stóran hóp, sem eru miðaldra karlrembusvín og feðraveldungar, en það kemur út á eitt, áróðurinn er jafn áhrifamikill og skaðlegur.
Þetta er alvarlegast í ljósi þess hver markhópurinn er, börn og unglingar, sem alizt hafa upp við sjónvarsgláp og tölvunotkun, og trúa því að teiknimyndir og tölvuleikir segi sannleikann á öðru borði en kjötheimar og veruleikinn venjulegi. Hið barnslega í sálinni trúir þessu, það er lúmskast, hættulegast. Þannig er versti áróðurinn settur fram, til dæmis með hraðmyndum, örmyndum sem virka á undirmeðvitundina en ekki hinn vakandi huga svo mikið. Þá eru klippiskeið sýnd stutt, eða sama myndin endurtekin margsinnis svo hratt og oft að maður tekur ekki eftir henni í raun, en fær hana á tilfinninguna og boðskapinn sem hún flytur, sem er túlkaður í táknum eða fordómafullum boðskap. Það er klisja sem búið er að hamra á í menningunni áður.
Það er auðvelt að ná sambandi við undirmeðvitund þessara barna og þessara ungmenna með svona myndrænum hætti, og síðan smitast ranghugmyndir þeirra á örskotsstundu yfir á fullorðna, sem fara að trúa þessu líka.
Nú er það umtalað að þessi kosningabarátta sé óvenju friðsamleg, og menn eru fegnir að skítkastið sé búið og liðin tíð. Er það svo gott? Hvað skyldi það merkja?
Þar sem búið er að henda mörgu út úr pólitíkinni sem áður var talið áhugavert og gilt, eins og þjóðerniskennd, ættjarðarást og trúmál, og varla er neitt talið gjaldgengt nema vinstri og hægri átökin og því eru kosningabaráttur jafnan eins og landsleikir í fótbolta núorðið.
Nema þessi fótboltaleikur er mjög undarlegur. Hægra liðið er lamað vegna skamma sem á því hafa dunið utan vallar. Leikmennirnir eru feimnir og bældir og þora ekki að sýna hörku eða láta sína beztu leikmenn spila af kappi. Vinstra liðið er aftur í essinu sínu og skorar hvert markið á fætur öðru. Þannig eru þessar kosningar. Búið er að múlbinda annað liðið af skömm og sektarkennd, sama lið og metoomenningin leggur í einelti.
Lögfræðingar, fjölmiðlafræðingar, ímyndarráðgjafar, almannatenglar, táknfræðingar og aðrir rýnendur ættu að skoða þessi mál til að athuga hvort ég sé ekki að benda hér á virkilegan halla í óbeinum auglýsingum og innrætingu fyrir þessar kosningar.
Að vísu gaf Sigmundur Davíð höggstað á sér af flónsku og kjánaskap með því að vera ekki í samræmi við veganisma stórs hluta fólks. Sé hann beittur órétti viljandi og jafnvel félagslegu ofbeldi þannig að pólitík hans sem á erindi við fólk beri skaða af þarf að stöðva slíkt og hindra að gerist aftur fyrir næstu kosningar.
Ég hef íhugað að kjósa Miðflokkinn en ekki gert. Framsókn ætti að heita Aftursókn, því eðli þess flokks er að elta og hörfa, laga sig að umhverfinu og aðstæðum, aldrei að leiða eða sýna kjark nema í miðjumennsku og miðjumoði. Ég hef verið nær því að kjósa Miðflokkinn, enda Sigmundur Davíð mjög merkilegur pólitíkus og öflugur, en mistækur að vísu.
Ef Sigmundur Davíð og Miðflokkurinn fær ekki nema 4% atkvæða (samkvæmt þeirri skoðanakönnun sem sýndi þeirra versta fylgi) og hægt er að tengja það nýtízkulegum níðsáróðursaðferðum af þessu tagi hníga sterk rök í þá átt að úrslit kosninganna séu ógild, að þau hefðu verið allt öðru vísi hefði þessum svínslegu aðferðum ekki verið beitt gegn hægriöflunum í landinu.
Já, einn lítill filter getur komið af stað skriðu. Þetta er svosem bara tilgáta um hvað valdi fylgishruni Miðflokksins - og er þá miðað við könnunina þar sem hann mælist aðeins með 4.5 prósenta fylgi eða svo.
Þegar hægriflokkar eins og ég tel Miðflokkinn vera missa fylgi verða þeir að finna skýringarnar með nýtízkulegum aðferðum. Tölvur og snjallsímar, filterar, öpp og slík fyrirbæri eru mjög áberandi í lífi allra undir tvítugu, jafnvel þrítugu eða eldri.
Kosningabaráttur nútímans fara ekki mikið fram með ræðum heldur frekar myndskeiðum, og meira í símum og snjalltækjum en sjónvörpum eða í dagblöðum. Þar skipta örsmá atriði máli eins og filterar og öpp sem ná gríðarlegri útbreiðslu, ná til margra á örskömmum tíma, eins og veira sem smitar þúsund manns eða milljón manns á nokkrum dögum. Þannig virka filterar og öpp.
Auk þess virka þessi myndskeið á frumstæðan hluta heilastarfseminnar, en ekki á vitsmunalífið, og virkar því niður aldursstigan alveg á börn enn frekar en fullorðna, þar sem myndmál er alþjóðlegt og fleirum skiljanlegt en ræður og rökstuðningur.
Stór hluti þeirra sem sjá Sigmund Davíð í Drakúlagervi rétt eftir að hafa séð hann neyta hrás kjöts úti á víðavangi, og íslenzks, þjóðlegs kjöts í ofanálag fá mjög skýr skilaboð og túlka þau eftir fyrirframgefnum stöðlum og innrætingu. Túlkunin er á þessa leið: Þarna er á ferðinni einstaklingur sem er dæmi um úrelta heimsmynd, og stendur fyrir allt sem nútímabarnið á að berjast gegn: Þjóðrembu, feðraveldi, íhaldssemi, ætternisstolt, karlrembu, blóðþorsta og grimmd, frumstæðan hellisbúahugsanahátt og kvenhatur.
Þessi skilaboð eru auðvitað ekki rétt heldur dæmi um fordóma sem er búið að innræta kynslóðum trekk í trekk með vinstrisinnuðum boðskap í fjölmiðlum, bíómyndum, bókum, menningunni, stjórnmálunum... og þannig mætti lengi halda áfram. Þetta er sama innræting og fór fram gegn gyðingum alveg frá því að þeim var kennt um að hafa krossfest Krist og þar til eftir seinni heimsstyrjöldina þegar loksins þessi mikla samúðarbylgja með þeim reis, sem stendur yfir enn.
Ég held að upp undir 80-90% allra þeirra sem nota Instagram-filterinn "Sigmundar-Davíðs-kjötáts-Drakúla-skrímslið" fái þessa neikvæðu mynd af honum uppí hugann.
Sá sem bjó til filterinn gerði það mjög snilldarlega, þar sem líkindin við Drakúla eru aðeins á jaðrinum, augnaráð og tennur gerðar áberandi, andlitssvipurinn látin halda sér, en með gleiðkjaftaáherzlunni og glottáferðinni er vitnað í Drakúla eða blóðsugukvikmyndir almennt og aðrar hryllingsmyndir sem fjalla um mannát eða grimmd, og þá beint verið að vísa í nýskeða atburði, þegar Sigmundur Davíð gæðir sér á hráu kjötfarsi. Hér er því verið að skapa mjög svo neikvæð hugrenningatengsl hjá fólki sem notar filterinn og þetta er allt gert í hápólitískum tilgangi, til að ná sér niðri á Sigmundi Davíð og þeirri pólitík sem hann stendur fyrir. Áhrifin smitast jafnvel til Sjálfstæðisflokksins og allra hægriflokka sem deila einhverjum einkennum og áherzlum Miðflokksins og Sigmundar Davíðs.
Lesendum er nauðsynlegt að skilja hvernig áróðursstríð eru háð og unnin í nútímanum. Hér er um að ræða mjög velheppnaða níðherferð sem Sigmundur Davíð eiginlega setti af stað sjálfur með myndskeiðinu af hráa kjötinu, ef ég hef skilið það rétt að sjálfur hafi hann póstað því. Hann á því samúð mína alla eftir þessa mjög svo óheppilegu atburðarás, sem ætti að grafast fyrir um, og komast að hver ber ábyrgð á í smáatriðum. Hver bjó til filterinn, og svo framvegis. Allavega var hægt að sækja hann á heimasíðu Miðflokksins samkvæmt DV.
Ef filterinn var gerður af einhverjum í Miðflokknum í auglýsingaskyni þarf að skoða hann í samhengi við lækkandi gengi flokksins, hvort þessi tilgáta er rétt sem hér er sett fram.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.1.): 29
- Sl. sólarhring: 43
- Sl. viku: 489
- Frá upphafi: 132157
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 386
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 26
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Já skilið.en særir þá sem laðast að hugmyndum hans.Annar sélega sannur mannvinur er 5 á kjörskrá xD í Kraganum Andrés-lögfræðingur. Var að hlusta á hann í annað sinn í ca,klukkutima í við tali hjá útvarpsstjóra á Sögu áðan en a von á viðtali við Sigmund þar rétt á eftir og svo ég er á spani MB.KV.
Helga Kristjánsdóttir, 21.9.2021 kl. 16:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.