7.8.2021 | 00:55
"Tunglsljós" eftir Bob Dylan, túlkun á öllum textanum.
Þetta ljóð eða söngtexti er frá plötunni "Ást og rán" frá 2001, og er eins og mörg seinni tíma verk Dylans gætt dulúð sem hægt er að túlka á ýmsan hátt, á yfirborðinu er þetta venjulegt ástarlag, en sé kafað dýpra vakna efasemdirnar og því hafa líka þeir sem menntaðir eru í textarýni túlkað þetta sem morðballöðu. Túlkun eftir David Weir er til á netinu, en hann held ég mikið upp á sem textarýni, þótt mér finnist hann stundum túlka ljóðin á of kristilega bókstaflegan hátt, en það er líka það eina sem ég hef útá hans skörpu rýni að setja, sem er nákvæm og fræðileg.
Ég tek allt ljóðið fyrir, enda er það slík heild, fullt af náttúrulýsingum sem ekki er hægt að túlka nema sem náttúrulýsingar, nema á einstaka stað.
Þegar ég tek eitt erindi fyrir stakt í hvert sinn er það þegar hvert orð er þrungið merkingu og hver setning, og ekki er hægt að komast yfir túlkun með vandlegum hætti nema taka eitt erindi fyrir í einu. Þannig er það ekki í þessu tilfelli, það hentar betur að túlka allt ljóðið í einu, það er slík samhangandi eining ljóðmynda og merkingar.
Svona er þýðingin yfir á laust mál:
"Árstíðirnar koma og fara og sorgmædda hjarta mitt þráir að heyra aftur ljúft lag söngfuglsins. Viltu ekki hitta mig úti í tungljósinu - bara við tvö? Ljósið sem er að dvína, dagurinn sem tapar, brönugrösin, valmúarnir, sólhattarnir, jörðin og himininn sem bráðna með holdi og beinum, viltu ekki hitta mig úti í tunglsljósinu - bara við tvö? Loftið er þykkt og þungt meðfram stíflugarðinum þangað sem gæsirnar til sveitarinnar hafa flogið. Viltu ekki hitta mig úti í tunglsljósinu - bara við tvö? Gott og vel, ég predika frið og einingu og blessun róseminnar en samt þekki ég rétta tímann til að gera árás. Ég mun taka þig yfir fljótið væna, þú hefur enga þörf fyrir að dvelja hér lengur, ég þekki hvað þú vilt. Skýin eru að verða dökkrauð, laufin falla af trjánum og greinarnar kasta skuggum sínum yfir steina. Viltu ekki hitta mig úti í tunglsljósinu - bara við tvö? Breiðgatan sem er hulin kýprusviðnum, grímudansleikur fuglanna og býflugnanna, krónublöðin bleik og hvít sem vindurinn hefur borið, viltu ekki hitta mig úti í tunglsljósinu - bara við tvö? Vaxandi mosinn og dulræn birtan, fjólublár blóminn mjúkur sem snjór, tár mín halda áfram að flæða í sjóinn. Læknir, lögfræðingur, indíánahöfðingi, aðeins þjófur nær þjófi, fyrir hvern glymur bjallan væna? Hún glymur fyrir okkur tvö! Púlsinn rennur gegnum lófa minn, beittar hæðirnar rísa frá gulum völlunum með beygðar eikur sem stynja, viltu ekki hitta mig úti í tunglsljósinu - bara við tvö?"
Þetta er vandlega saman sett kvæði, eins og sígilt málverk, fullt af smáatriðum, eins og landslagsmynd með tilfinningum innbyggðum í það. Þetta er einn af mörgum söngtextum sem hafa sannfært þá sem véla um Nóbelsverðlaunin að Bob Dylan væri þeirra verðugur í bókmenntum, sem hann auðvitað er, og þótt fyrr hefði verið.
Ég ætla ekki að túlka þetta frá orði til orðs, enda væri það til einskis, þar sem ekki er reynt að vera með neinar dulrúnir í öðru hverju orði eins og í "beztu" ljóðum Dylans, þessum sem urðu til þess að hann var talinn spámaður um 1965, þegar hann sló endanlega í gegn, varð heimfrægur, elskaður og dáður af milljónum.
Ég ætla að bera saman túlkun þá sem David Weir kom með og þessa sem er á síðunni "Songmeanings", þar sem allir þeir sem vilja fá að láta ljós sitt skína og túlka allskonar söngtexta.
David Weir segir þetta morðballöðu en tveir eða þrír Dylan aðdáendur á "Songmeanings" síðunni segja þetta eitt einfaldasta og rómantískasta lag Dylans. Hvor skoðunin skyldi nú vera sú rétta?
Ég hallast að því að trúa David Weir. Hann er meiri fræðimaður og er vanari að túlka svona texta, svona ljóð. Það eru nefnilega smáatriðin sem skipta máli, eins og hann veit og hefur útskýrt í sínum pistli um ljóðið.
David Weir notar fáein orð og setningar til að útskýra mál sitt.
..."Þekki ég rétta tímann til að gera árás"...
..."Skýin eru að verða dökkrauð"...
..."Aðeins þjófur nær þjófi"...
..."Grímudansleikur fuglanna"...
..."Ég mun taka þig yfir fljótið væna"...
..."Loftið er þykkt og þungt"...
..."Púlsinn rennur gegnum lófa minn"...
..."Beittar hæðirnar"...
..."Fyrir hvern glymur bjallan væna?"...
..."Beygðar eikur sem stynja"...
..."Þú hefur enga þörf fyrir að dvelja hér lengur"...
Fyrir það fyrsta telur hann að "fljótið" sé fljótið Styx, í grískri goðafræði, sem dauðir fara yfir, eða þeir sem fara í dauðalandið.
Setningin að "gera árás" virðist ekki eiga heima í ljúfu ástarljóði, eða hvað?
"Beittar hæðirnar" telur hann lýsingu á hníf.
"Beygðar eikur" gætu verið deyjandi manneskjur, eða manneskja.
"Grímudansleikur fuglanna", gefur í skyn að engin raunveruleg gleði sé til.
David Weir túlkar þetta þannig að sögumaður sé í sjálfsmorðs og morðshugleiðingum, en telur þó ekki víst að af þeim verði, þar sem greina megi lífslöngun og von í kvæðinu einnig.
Hann heldur því réttilega fram að sá sem tjáir svo myrka kvöl sálarlífsins sé betur staddur en sá sem byrgir slíkt inni og ekki segir frá henni.
Samt, á móti kemur að kvæðið ber vott um hugarró, og áætlun, sem frekar er hrint í framkvæmd af einhverjum svona aðila, sem virðist nokkuð kaldrifjaður, og lýsa gleði og sorg sem einhverju sem honum (eða henni ef um lesbískt samband er að ræða) finnst ekki markverðar tilfinningar. (Dear, sem er ávarpsorðið á ensku í kvæðinu gæti reyndar einnig verið sagt við karlmann þannig að mögulegt er að kvæðið lýsi konu í svona hugleiðingum gagnvart karlmanni eða strák). (Einnig gæti verið um tvo samkynhneigða karlmenn að ræða, því eins og sagt er "dear" er bara ókynbundið gæluyrði, elskan, þótt það sé þýtt sem vinan hér, í samræmi við ákveðna svona hefð í bíómyndum og skáldsögum).
Svona tvíræðni er ekki á færi allra. Dylan sýnir hér meistaratakta í kveðskapnum eins og svo oft áður.
Ég verð nú að segja að síðastliðin 30 ár á ferli Dylans er ekki mitt uppáhaldsskeið á hans ferli, en það er vert að skoða það líka.
Þetta er ekki eins margrætt og hans beztu verk, en vekur samt spurningar.
Hann lýsir því nokkuð vel þarna hvað manneskjur geta verið flóknar og margræðar og erfitt að skilja þær eða þekkja til fulls.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.11.): 18
- Sl. sólarhring: 155
- Sl. viku: 730
- Frá upphafi: 125321
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 577
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.