Emanuel Swedenborg og boðskapur hans

Trausti Jónsson veðurfræðingur var á Brúnóráðstefnu á háskólasvæðinu sem Þór Jakobsson og fleiri stóðu fyrir árið 2000. Ég talaði örlítið við hann og hann hvatti mig til að lesa rit Swedenborgs sem ég gerði almennilega eftir það, las bókina "Himinn og Hel" eftir Swedenborg alveg spjaldanna á milli, en hafði svolítið lesið í henni áður og kynnt mér grundvallaratriði hennar þá.

Það var svolítið afrek að lesa þessa bók, því hún er bæði hnausþykk og svo með örsmáu letri, og til að kóróna ólæsileika hennar er gríðarlega mikið um endurtekningar í henni, setningar og orð endurtekin til að hamra sömu hugsuninni inní fólk, að góðmennskan sé nauðsynleg svo fólk fari ekki til Vítis og grillist þar að eilífu.

Engu að síður stórmerkileg bók sem ég lærði mjög mikið af.

Ég ætla að fjalla um kenningar og boðskap Swedenborgs í þessum pistli, boðskapur hans er sannkristilegur, nokkuð sem við nútímamenn höfum hollt af að kynna okkur og rifja upp á þessum hröðu hátæknitímum.

Hann stillir upp tveimur andstæðum í bókinni sem hann endurtekur aftur og aftur. Það eru hugtökin "elskan til sjálfs sín og elskan til heimsins" og hins vegar "elskan til náungans og elskan til drottins" hins vegar. Í gríðarlega löngu máli í bókinni fjallar hann um samskipti sín við engla sem hafi sagt sér að náungakærleikur og trúrækni sé það eina sem geti gefið fólki betra líf hérna megin og í framlífinu. Þetta er alþekktur boðskapur, en hann fer í þetta í smáatriðum.

Ég fór að skilja það betur eftir þessa bók hvernig afleiðingar yrðu af því ef allir væru sjálfselskir og hinsvegar ef allir gerðu sitt ýtrasta til að öðrum liði vel fyrst og fremst. Ég komst að því að hann hafði rétt fyrir sér. Þetta er alveg rökrétt. Það hlýtur að vera þannig að til Helvítis safnist fólk sem skaðar umhverfi sitt og sjálft sig en til Himnaríkis þeir sem eru góðir við alla og vilja auka hamingju náungans.

Samt er þetta auðvitað ekki alveg svo einfalt. Ýmsar vísindagreinar voru ekki komnar fram á hans æviskeiði. Hann til dæmis veltir því ekkert fyrir sér af hverju fólk er misgott og misvont, hann fer ekki útí sálfræðina, spyr sig ekki þannig spurninga, enda var það sennilega ekki gert á hans tíma.

Ég hef velt því fyrir mér hvernig líf mitt hefur verið. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég hafi verið sjálfhverfur eða elskað aðra. Sitt lítið af hvoru eins og hjá öllum er svarið.

Ég fékk gítar í fermingargjöf og fór að glamra á hann. Ég lét mig dreyma um frægð og frama. Það var eigingirni og sjálfhverfa. Slíkar syndsamlegar kenndir verða því að teljast órjúfanlegur hluti af tónlistarheiminum og menningarlífinu. Þetta er nokkuð sem drífur listamenn áfram, auk óskilgreindrar sköpunarþarfar.

Líffræðikennarinn minn kenndi okkur um mengun. Það var elska til náungans þegar ég bjó til þannig kvæði og texta.

Ég velti því mikið fyrir mér hvað Swedenborg ætti við með "elskunni til guðs". Ég skoðaði textana í bókinni vel og gaumgæfilega. Á einhverjum stöðum lýsir hann því þannig að guð sé það sanna í sjálfu sér, það sem er satt og gott burt séð frá gildismati okkar mannanna, einhver alheimsleg sannindi og góðmennska sem sagt. Þetta hafði vissulega mikil áhrif á mig, mér fannst þetta merkilegar pælingar hjá honum og í samræmi við eitthvað sem ég hafði sjálfur velt fyrir mér.

Einnig lýsir hann því í bókinni hvernig guð sé sólin sjálf í himnaríki og þeir sem trúi á guð séu í guði, í sólinni. Þannig bjó ég til listamannsnafnið mitt, Insol, (þótt í því séu miklu dýpri og flóknari pælingar sem ég fer ekki allar útí að sinni hér), sá sem er í skilningnum, kærleikanum, guði, það er að segja, að leitast eftir því og vilja fara eftir þessum boðskap.

Swedenborg lýsir því einnig merkilega í þessari bók hvernig sumt fólk í heiminum sem gefur gjafir til fátækra og slíkt sé að þykjast, og að slíkt fólki grillist á teinum Andskotans þar neðra ef það er ekki hreint og gott innst í sál sinni. Þetta fannst mér kjarkmiklar lýsingar og hreinskilnar hjá honum, lýsingar trúmanns sem er sannfærður og hefur ástæðu til þess, eins mikill vitranamaður og sambandsmaður og hann var.

Giordano Brunó sem fjallað var um á þessari ráðstefnu er annar merkilegur maður, sem kirkjan grillaði á báli 17. febrúar árið 1600 fyrir að halda fram villutrú miðað við bókstafstrú þess tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.1.): 54
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 514
  • Frá upphafi: 132182

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 409
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband