Þá er komið að því að túlka fjórða erindi þessa söngtexta eftir Bob Dylan. Ekki er hér mikið að gerast frekar en í öðrum erindum. Maður hefur það á tilfinningunni að þetta sé taltexti nokkurskonar, eða spuni þegar lagið var hljóðritað, en Bob Dylan hefur stundum verið þekktur fyrir þá listgrein að stunda tónspuna, tónlistarspuna og kvæðaspuna. Sérstaklega þegar lögin og textarnir eru svona einföld finnst manni að slík aðferð hafi verið viðhöfð, þar sem minni hæfileika þarf en þegar um flóknar melódíur er að ræða eða flókin kvæði að uppbyggingu, rími, stuðlum, höfuðstöfum, líkingum og efni.
Engu að síður koma hér fram örlítið sértækari lýsingar en fyrr í textanum. Hér beinir hann spjótum sínum að ríka fólkinu, hann taldist næstumþví í þeirra hópi, en reyndar hafði gríðarmikill kostnaðurinn við kvikmyndagerðina 1975 -1978 komið illa við hann fjárhagslega, en hann borgaði mestan hluta kvikmyndagerðarinnar sjálfur, við myndina "Renaldo and Clara" frá 1978, hans eigin söguþráður, tónlist, og hann lék í þeirri mynd einnig. Hans egóflipp myndu sumir segja, en myndin kom út í algjöru tapi í kvikmyndahúsum, var sýnd í stuttan tíma og fékk vonda dóma hjá gagnrýnendum.
Mér finnst þetta erindi beittara og skárra en mörg önnur erindi í ljóðinu, því ríku fólki gleymist það oft að það er ekki almáttugt og að það lýtur sömu lögmálum og almenningur þegar allt kemur til alls, og því ekki vitlaust að fjalla um það í svona ljóði eða texta.
Svona er þýðingin yfir á laust mál:
"Þú mátt vera húsasmiður sem vinnur að húsasmíðagerð, þú mátt búa í höfðingjasetri, þú mátt búa í stórhýsi. Þú mátt eiga byssur og þú mátt jafnvel eiga skriðdreka. Þú mátt vera húseigandi einhvers, þú mátt jafnvel eiga banka, en þú verður að þjóna einhverjum. Já, vissulega verður þú að þjóna einhverjum. Það má vera Djöfullinn og það má vera Drottinn, en þú verður að þjóna einhverjum."
Eins og sjá má af erindinu fjallar það um ríkidæmi, stórar landaeignir eða hvar maður býr, og hvernig það endurspeglar fjárhagsstöðuna, eða að vera húsasmiður, eða eiga vopn.
Hann byrjar á húsasmiðum og beinir þannig athyglinni að fasteignum og fasteignamarkaðnum almennt, það setur tóninn fyrir hitt í erindinu.
Næst syngur hann um hallir og stórhýsi, dýrustu og stærstu fasteignirnar sem hægt er að ímynda sér. Hann er þannig að ítreka boðskapinn að allir séu Guði háðir óháð fjárhag eða möguleikum til að búa á flottari stöðum en flestir aðrir.
Því næst talar hann um byssur, byssueign og skriðdrekaeign. Nokkuð stór hópur innan Bandaríkjanna, en þó aðallega hershöfðingjar og slíkir sem eiga skriðdreka sjálfir.
Hann heldur áfram að telja upp ríka menn, húseigendur, bankaeigendur. Þannig telur hann upp marga ríkustu menn þess tíma, á árinu 1979. Síðar hafa komið aðrar stéttir, tölvuhönnuðir eins og Bill Gates og fjárfestar í tæknigeiranum, svo eitthvað sé nefnt, jafnvel enn ríkari.
Viðlagið er svo í sama dúr, endurtekning, eins og viðlög eru langoftast, en stundum með örlitlum breytingum, litlar breytingar í þessu viðlagi, helzt orð eins og "en" og "og" sem breytast.
Þetta er ekki mikill skáldskapur, en þetta er einarðleg túlkun á þessari skoðun.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.11.): 10
- Sl. sólarhring: 43
- Sl. viku: 617
- Frá upphafi: 126446
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 444
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.