23.4.2021 | 13:24
Skilgreining á þvældum og ofnotuðum hugtökum
Fasismi íslenzkra stjórnmála birtist ekki í útlendingahatri eða rasisma heldur í að stjórna þegnunum með sóttvarnaraðgerðum. Mér finnst nauðsynlegt að agalaus þjóð eins og Íslendingar kynnist fasisma og endurmeti hugtakið og fyrirbærið sem slíkt. Fasismi er ekki það sama og rasismi og natzismi er svo allt annað fyrirbæri, menn rugla þessu alltof oft saman, hafa ekki hugtökin á hreinu. Ég fer eftir skilgreiningu meistara Megasar á hugtakinu fasismi, það er að segja "hrísvöndunarstefna", að stjórna með gerræði og ofbeldi jafnvel. Ítalski fasisminn var að vísu tengdur hugmyndafræði yfirburðahyggjunnar eins og sá þýzki í seinni heimsstyrjöldinni, en hugtakið fasismi hefur breytt um merkingu í seinni tíð og hefur verið notað um hverja þá stjórnmálastefnu sem fólki finnst gerræðisleg, yfirgangssöm, það er að segja ganga á rétt þegnanna.
Hrísvöndunarstefna, eða fasismi, sem er þekktara og alþjóðlegt orð, er eins og orðið gefur til kynna sú stefna foreldra að berja börn sín með hrísvendi þar til þau hlýða, hvort sem blæðir undan höggunum eða ekki. Það er fasismi í innsta eðli sínu. Rasismi og nazismi eru skyld fyrirbæri, rasismi almenn andúð á öðrum kynþáttum eða einfaldlega tilhneiging til flokkunar eftir útliti, og nazismi er svo þessi alþekkta yfirburðahyggja okkar aría, sem er heillandi en margir vilja hræðast, eða telja sig þurfa að hræðast.
Stjórnvöld, ríkisstjórnir, eru oft í hlutverki foreldra í samfélaginu. Stjórnvöld sem hýða þegna sína með hrísvendi eru því fasísk, en oftar en ekki er hrópað: Úlfur, úlfur að ástæðulausu og menn nota þessi hugtök þannig að þau eru gjaldfelld með ofnotkun.
Ég held að auðvelt sé að fullyrða hvergi á jörðinni séu nazísk stjórnvöld, rasísk kannski sum og fasísk, slík fyrirbæri ná yfir víðara svið.
Þegar ég skrifaði um það í síðasta pistli mínum að hræðslan við fasismann væri mikil á Íslandi eins og víðar og órökstudd var ég ekki þar með að gefa í skyn að fasismi, rasismi eða nazismi væru einkenni núverandi stjórnvalda.
Hitt má segja með sanni að nauðsynlegar og eðlilegar sóttvarnaraðgerðir má gagnrýna á þeim grundvelli að þær nálgist einhverja tegund af fasisma, en þar með er ekki sagt að þær séu glæpsamlegar eða þurfi að vera það.
Það er kannski skrýtið að ég skuli halda upp á tvo svo gjörólíka bloggara sem Guðjón Hreinberg og Ómar Geirsson, þeir eru á andstæðum kanti í sóttvarnarmálum en eiga það sameiginlegt að tjá sig af hreinskilni. Ég þarf ekki að vera sammála öllu sem einhver skrifar þótt stíllinn hjá viðkomandi geti verið skemmtilegur. Stundum finnst mér Ómar stjórnast af ótta við veiruna og ótta við fasisma samkvæmt nýlegri færslu. Það finnst mér ekki sniðugt. Sumar setningar Guðjóns eru mjög snilldarlegar, eins og að menningin sé hrunin, en að hunza smitvarnirnar er ég hræddur um að myndi kosta mannslíf.
Ég er að reyna að horfa á björtu hliðarnar en sumir snúa því uppí hræðsluáróður. Agaleysi og stjórnleysi er andstæðan við fasismann. Ég held að fólk sé ekki spennt fyrir stjórnleysi. Ég hef oft kosið Vinstri græna, og er umhverfisverndarsinni. Þar með þarf ég ekki að vera sammála fóstureyðingastefnu þeirra, eins og hún birtist með svívirðilegum hætti í þessari ríkisstjórn, og ofanaf þeim mistökum þarf að vinda með breyttri reglugerð í næstu ríkisstjórn, og Sjálfstæðisflokknum er langbezt treystandi til þess, verandi svona öflugur og stór flokkur með þessa hægristefnu, sem enn eimir eftir af, sem betur fer.
Mér finnst það fáránlegt að halda því fram að ríkisstjórnin sé að ráðast á Pólverja með þessari reglugerð. Það vill bara þannig til að nokkrir af því þjóðerni hafa verið ógætnir í þessum sóttvarnarmálum, mér skilst að þessum lögum eigi að beita jafnt gegn öllum, sama um hverja verður að ræða.
Ákveðinn fasismi er jákvæður, til að lenda ekki í gryfju heimskulegrar upplausnar múgæsingar, lýðskrums og menningarhruns. Þar með er ég ekki að segja að sá fasismi þurfi að vera eins og fasismi Mússólínís. Það sem sumir kalla fasisma í dag var einu sinni kallað nauðsynlegt regluverk og aðhald með þegnunum. Hugtökin fara á flug, og það er eins og hver og einn hafi sinn skilning á hugtökunum. Það er nauðsynlegt að ítreka hvað við eigum við með orðum, og að sameiginlegur skilningur náist á þeim og viðhaldist.
Ég vil ekki að einhver hryðjuverkahópur eða ofsaæsingafólk nái að eitra og menga öll hugtök sem við notum og gera þau neikvæð. Við eigum betra skilið. Við eigum að hugsa um hugtökin, muna hvað þau þýddu upphaflega og hvernig merking þeirra getur breyzt í tímans rás, og hver og einn þarf að gera upp við sig hvað er neikvætt og hvað er jákvætt, ekki láta aðra segja sér það.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.1.): 97
- Sl. sólarhring: 120
- Sl. viku: 940
- Frá upphafi: 131550
Annað
- Innlit í dag: 91
- Innlit sl. viku: 725
- Gestir í dag: 88
- IP-tölur í dag: 86
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.