31.12.2020 | 13:23
Árið 2020, það hefur kennt margt.
Margt neikvætt mætti segja um 2020, en það kenndi okkur þó að samtakamáttur þjóðarinnar er enn til staðar og að náttúruleg landamæri vernda okkur þegar drepsótt geisar í heiminum.
Margt mætti segja neikvætt um ríkisstjórnina en ég sleppi því að sinni. Hún hefur verið kjölfesta á erfiðum tímum og ég er miklu ánægðari með Katrínu og Bjarna á þessu ári en hin árin. Mér finnst að Vinstri grænir ættu að ganga í Sjálfstæðisflokkinn allir sem einn, enda er hann orðinn svo vinstrisinnaður að það myndi passa fullkomlega, og kippir sér ekkert upp við harða vinstrisinnaða fóstureyðingalöggjöf, sem áður hefði ekki talizt samrýmast stefnu flokksins.
Það var vel gert að hlýða sóttvarnaryfirvöldum og bjargaði mörgum mannslífum. Samvinna Bjarna og Katrínar er eftirtektarverð, svo náin er hún og góð. Hvort sem það merkir að Katrín sé kapítalisti í sál sinni eða Bjarni kommúnisti í sál sinni er erfitt um að segja, nema hvort tveggja sé.
Framsókn hefur sýnt sitt gamalkunna andlit, að vera flokkur málamiðlana og framtakssamra manna.
Þetta hefur verið skrýtið ár, ég tek undir það sem flestir segja í þá veru, en lærdómsríkt og það hefur gert margar samsæriskenningar miklu meira áberandi en áður, og einmitt vegna þess hvernig stórar samsteypur erlendis hafa ritskoðað efni, með stórlega undarlegum hætti, og þannig gert allt slíkt trúverðugra en áður var.
Ómar Geirsson bloggari finnst mér hafa dregið saman lærdóminn af árinu þegar hann sagði sænsk yfirvöld stunda fjöldamorð á öldruðum þegnum sínum með léttúðugum sóttvörnum, og Eva Hauksdóttir norn hefur skrifað frábærar greinar í Kvennablaðið um svipað efni, þar sem hún líkir stefnu Tegnells og Löfven við Helför gyðinga á sínum tíma. Kannski fá Svíþjóðardemókratar aldrei aftur tækifæri til að komast til valda, því unga fólkið er þar dáleitt af jafnaðarfasismanum og margir sem dóu í faraldrinum var gamla fólkið sem kaus Svíþjóðardemókratana. Svíþjóð er því fast í vítahring sjálfseyðileggingar jafnaðarstefnunnar og fjölmenningarinnar.
Ef Kínverjar standa á bakvið þetta komast þeir jafnvel upp með þetta, því þeir eru engir taparar eins og Þjóðverjar voru á sínum tíma heldur sigurvegarar, ein voldugasta þjóð heimsins sem hefur efnahagslíf Bandaríkjanna í heljargreipum sínum, vegna margvíslegra tengsla, og Bandaríkjamenn og aðrir skulda þeim.
Af þessu ári höfum við lært að það skiptir ekki máli hver glæpurinn er sem er framdur heldur hvort næg séu völdin til að þagga niður í öðrum.
Hvort sem viðbrögðin við Covid-19 eru fasísk og ýkt eða ekki hafa afleiðingarnar verið hörmulegar í þessum stóru löndum þar sem allt hefur farið úr böndunum.
Íslenzkt sjálfstæði verður dýrmætara eftir því sem við lærum hversu hörmulegt það er að vera hluti af sjúkri heild, hvort sem það er Evrópa og Evrópusambandið, Kína eða Bandaríkin. Auðvitað eru þetta meiriháttar stórveldi á sína vísu, og langtum fremri okkar þjóð og landi að ýmsu leyti, en sjálfstæðið sem við eigum það er fjöregg og gulls ígildi, jafnvel þótt stjórnmálamennirnir okkar séu frændhyglnir og sérgóðir, og gagnrýniverðir, svo sannarlega.
Ísland gæti verið enn betra land og þjóðin gæti verið enn betri. Við gætum verið ennþá meiri vörn gegn erlendri spillingu, og innlendri. Ég óska lesendum mínum gleðilegs nýs árs.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 100
- Sl. sólarhring: 110
- Sl. viku: 607
- Frá upphafi: 133045
Annað
- Innlit í dag: 76
- Innlit sl. viku: 463
- Gestir í dag: 73
- IP-tölur í dag: 72
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk sömuleiðis Ingólfur, gleðilegt nýtt ár.
Var kominn með peist áður en ég las nafn mitt, hef kannski sagt margt annað en þetta.
Góð hugvekja, góð samantekt, en þessi setning kallaði fram athugasemd mína, áður en ég legg í að lesa afmæliskveðjur dagsins, það er þetta vakti hugleiðingu sem ég vildi að lifði;
"Það var vel gert að hlýða sóttvarnaryfirvöldum og bjargaði mörgum mannslífum. Samvinna Bjarna og Katrínar er eftirtektarverð, svo náin er hún og góð. Hvort sem það merkir að Katrín sé kapítalisti í sál sinni eða Bjarni kommúnisti í sál sinni er erfitt um að segja, nema hvort tveggja sé.".
Er ekki málið að þau tvö eru manneskjur, og er það ekki í raun hinn löngu gleymdi kjarni stjórnmálanna.
Að við erum ekki ismar, við erum manneskjur.
Sjálfstæðar manneskjur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.12.2020 kl. 18:31
Vel svarað Ómar. Þau mega eiga það að maður dáist að samlyndinu þótt þau fái ómælda gagnrýni bæði tvö. Ég er ekki einn af þeim sem segja stjórnina ómögulega þótt ég sé ekki sáttur við öll hennar verk.
Já við erum ekki ismar heldur manneskjur. Þú átt það til að hitta beint í mark stundum.
Sjálfstæðar manneskjur, já, en ef þú hefur lesið suma aðra pistla eftir mig veiztu að ég hef spáð í það hversu mikill hluti af okkar vilja er sjálfstæður og hversu stór hluti er áhrifagirni eða frá öðrum kominn. Maður getur aldrei verið sammála um allt.
Hinsvegar held ég að þú sért sammála mér í því að sumir daðra við ósjálfstæði, eins og Viðreisn og Samfylkingin - þótt ég sé þar með ekki að segja að þeir séu glataðir flokkar algjörlega. Pabbi, sem er Samfylkingarmaður hefur sannfært mig um það að það hefur kosti að vera í Evrópusambandinu. Er bara ekki viss um að þeir yfirgnæfi gallana.
Ég dáðist að þér í vetur þegar þú stóðst einn á móti þeim sem vildu opna landið og verja bara viðkvæma hópa (næstum ómögulegt verk), eða næstum því einn.
Það kalla ég ritfærni, þótt þú sért hógvær í því efni.
Þótt ég sé ekki sammála öllum þínum málflutningi eru þarna gullkorn inn á milli.
Áramótakveðja að sunnan.
Ingólfur Sigurðsson, 1.1.2021 kl. 13:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.