31.10.2020 | 12:18
Frjálslyndi, frjálshyggja eða stjórnleysi?
Það kemur fram í frétt frá RÚV, sem stendur sig vel í þessu tilfelli, að Ármann Jakobsson, formaður íslenzkrar málnefndar og bróðir forsætisráðherrans, Katrínar Jakobsdóttur, telji að alþingismenn ættu að láta moldviðrið gegn mannanafnanefnd sem vind um eyru þjóta.
Ég held að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sé í hjarta sínu og eðli sammála bróður sínum í þessu máli eins og svo fjölmargir aðrir. Það er mér því mikið undrunarefni að innan Sjálfstæðisflokksins sé dómsmálaráðherra sem alveg eins gæti verið meðlimur í Píratahreyfingunni.
Sjálfstæðisflokkurinn á sér langa sögu spillingar og sérhagsmunagæzlu eins og Ólína Þorvarðardóttir fjallar um í nýrri bók sinni um Skuggabaldur.
Hver verður trúverðugleiki flokksins ef hann tekur undir stjórnleysi ungra ráðherra sinna? Ég hef lesið umsögn Eiríks Rögnvaldssonar um frumvarpið og er hún um margt merkileg. Þar skrifar hann á einum stað að hefð breytist í nauðung ef henni er framfylgt með lögum. Hallfríður Þórarinsdóttir mannfræðingur segir nýja frumvarpið hafi að leiðarljósi jöfnuð og lýðfrelsi frekar en forræðishyggju, valdboð og mismunun. Einnig segir hún að núgildandi lög dragi fólk í dilka eftir stétt eða menningarlegum uppruna, með því að leyfa sumum en ekki öllum að bera ættarnöfn. Ný og frjálslegri hugsun en tíðkazt hefur sem sagt. Þetta má til sanns vegar færa.
Lög og reglur landsins eru ákveðin nauðung að sama skapi. Vill þetta fólk afnema þessi lög sem vinstrafólkið er að setja og vill setja eða almenn lög landsins? Þetta er munurinn á stjórnleysi og frjálslyndi. Frjálslyndið viðurkennir ákveðna nauðung sem felst í valdboði og lögum að utan, en ekki stjórnleysið.
Þetta er ekkert flókið mál, og ekki þarf að harma Sjálfstæðisflokkinn, ef hann fer þessa leið. Þá hefur hann þjónað hlutverki sínu. Þá taka aðrir flokkar við hlutverki hans, og ýmsum deildum mismunandi viðhorfa.
Þá fyrst finnst mér að ásakanir um spillingu fari að bíta sem sannleikur, þegar flokkur hefur svikið sjálfan sig og uppruna sinn, en hefðverndarstefna er uppruni Sjálfstæðisflokksins, ásamt ýmsu öðru sem henni tengist.
Munu því flugur sækja á hræið, flugur sem nefnast Píratar og margt annað, og dafna vel á hræinu.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.12.): 108
- Sl. sólarhring: 150
- Sl. viku: 772
- Frá upphafi: 130357
Annað
- Innlit í dag: 71
- Innlit sl. viku: 578
- Gestir í dag: 69
- IP-tölur í dag: 69
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.