15.4.2020 | 02:24
Andrúmsloft jafnaðarstefnu
Trump Bandaríkjaforseti er í verulega erfiðri stöðu, eins og flestir eða allir þjóðaleiðtogar á þessum tímum, spurningin snýst alltaf um hvort á að setja heilsu þegnanna í forgang eða efnahaginn. Það hefur nú sannazt margsinnis að afneitun á vandanum hefur reynzt hættulegust, snemma eða seint í svona ferli, en íslenzk stjórnvöld hafa staðið sig býsna vel ennþá, þótt langt sé í land áður en hægt sé telja að hættan sé alveg liðin hjá.
Mér finnst rangt að segja að Trump sé óhæfur stjórnandi, en hann er eins og dæmigerður harðlínukapítalisti, efnahagurinn er honum mjög mikilvægur. Í þessu efni verða hin fylkin að hafa vit fyrir honum og stjórnkerfið í heild, hvað varðar að setja hjól efnahagsins of snemma í gang, þannig að það kosti of mörg mannslíf. Þrátt fyrir að hann sé gloppóttur eins og hann hefur verið frá upphafi má ekki gleyma því að Bandaríkin hafa verið sérlega glæsileg undir hans stjórn, eða fram að þessum dæmalausu krepputímum veirunnar sem enginn veit hvort er tilbúin eða ekki.
Það er að koma betur og betur í ljós að breytingar á ferðalögum, alþjóðahyggju og alþjóðakapítalismanum verða ekki umflúnar. Umhverfismálin höfðu ýtt á þessar breytingar fyrir löngu, en eftir þennan heimsfaraldur verður hægt að búast við að Evrópusambandið sjálft ásamt öðrum stórum hagkerfum skipuleggi sig með öðrum hætti. Það var kominn of mikill hraði á allt, og nauðsynlegt að vinda ofanaf þeirri þróun á ýmsum sviðum.
Síðasta kreppa varð á vakt femínískrar alþjóðahyggju og þessi líka. Það sem hefur verið einkennandi fyrir þessa tíma, síðastliðin 30 ár eða meira er þöggun á ýmsum sviðum, karllæg sjónarmið hafa átt undir högg að sækja, en meðvirknin algjör í femínískum fjölmiðlum sem eru allsráðandi, Djúpríkið. Greinilegt er því að fólk þrjózkast við enn sem fyrr, og afturhvarf til einfaldari tíma eða náttúrunnar eru ekki enn í sjónmáli, nema að litlu leyti.
Það hefur gleymzt í greiningum á orsökum síðustu kreppu að þar var almennt andrúmsloft femínisma og jafnaðarstefnu ríkjandi. Skuldinni var algjörlega skellt á karlmenn , hvatvísi þeirra, veiðimannasamfélagið, feðraveldið, og þessi töfraorð notuð til að koma Djúpríkiselítunni enn betur til valda með áherzlu á voldugar konur. Við erum enn í sama fasa og 2007 í raun, og ágætis menn sáu það fyrir að sú vegferð yrði ekki vandalaus.
Ef Trump tapar endurkjörinu í haust fær heimsbyggðin að öllum líkindum einhvern forseta sem minnir á Hillary Clinton. Þá minnka völd almennings en alþjóðakommúnisminn herðir tök sín, stórfyrirtækin, og Kína og Evrópa sameinast meira. Ég segi það enn, að ef Evrópusambandið hagnast á þessum heimsfaraldri og Kína, þá hljóta samsæriskenningar ýmsar að styrkjast, og kannski sannast að lokum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.1.): 1
- Sl. sólarhring: 120
- Sl. viku: 665
- Frá upphafi: 133472
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 505
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.