16.11.2022 | 21:14
Helgimyndin af Jónasi Hallgrímssyni í nútímanum og ógæfumaðurinn Jónas Hallgrímsson í samtíma sínum
Afmæli Jónasar, dagur íslenzkrar tungu, gott er það og vert að minnast hans með virðingu og hlýhug og hvetja alla til að tileinka sér baráttumál hans.
En hver var Jónas Hallgrímsson? Hversu margir hafa lesið ævisögurnar um hann, ekki sízt það Páll Valsson hefur skrifað um hann, sem er eiginlega sérfræðingur í listaskáldinu góða?
Jónas Hallgrímsson var maður andstæðna, en hann lýsti sér bezt í eigin ljóðlínum þegar hann samdi síðustu sonnettuna sína, þar sem þessi lýsing er:"Tíminn vill ei tengja sig við mig". Þunglyndi hans kemur vel fram í þessum línum:
"Svo rís um aldir árið hvurt um sig,
eilífðar lítið blóm í skini hreinu.
Mér er það svo sem ekki neitt í neinu,
því tíminn vill ei tengja sig við mig."
Það eru aðeins stórskáld eins og Jónas sem yrkja svona, þar sem mikið efni er í stuttu kvæði (sem er reyndar lengra, en þetta segir nóg).
Í dag, 16. nóvember 2022 skrifaði einnig í Feyki, skagfirzkt blað á netinu, Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir framhaldsskólakennari og ritari DKG Félags kvenna í fræðslustörfum þessar góðu línur um mann dagsins:
"... Hann lýsir því að betra er að kenna til og lifa en að sitja afskiptalaus hjá og afneita hvort heldur er vanda eða lygi samtímans, jafnvel þótt hann sjálfur hlyti bágt fyrir".
8. janúar 2000 skrifaði Njörður P. Njarðvík ljóðrýni um þetta sama ljóð sem vert er að vitna í einnig, svo góð er hún.
"Viðbrögð mælanda ljóðsins eru ekki uppgjöf sárþunglynds manns, heldur vissan um dýrmætustu eign sérhvers manns: hugann, hugsunina, skynjunina, - og þörfina fyrir að vera sjálfum sér trúr - líka í mótlæti. Með öðrum orðum: að láta tímann ekki buga sig í hverfulleika sínum. Hér ómar bergmál úr eldra kvæði: "allt er í heiminum hverfult". Ef til vill þykir okkur nú myndmálið í lokin ögn einkennilegt, af því að við þekkjum ekki lengur þann sið að hafa sauðarlegg í vörðum og yrkja í þá vísur - eða hnoð, klám og níð. Jónas vill ekki vera slíkt viljalaust verkfæri annarra. Í hugarglímu sinni gerir hann upp hug sinn - og þannig er þessi sonnetta uppgjör - að vera trúr sjálfum sér og innstu sannfæringu sinni."
Megas var á sínum tíma gagnrýndur fyrir að níða Jónas Hallgrímsson í ljóðinu "Um skáldið Jónas", en í raun og veru var Megas þarna fyrstur til að gagnrýna samtíma Jónasar sem sýndi honum lítinn skilning og áleit hann fyllibyttu og ólánsmann, en margir báru þó virðingu fyrir honum og elskuðu ljóðin hans, að vísu.
Ég held að Jónas Hallgrímsson hafi frekar minnt á menn sem eru litnir hornauga í dag sem sérvitringar, og eru ólánsmenn á ýmsa lund, kvenmannslausir, ekki með fulla heilsu og slíkt, en afreka samt ýmislegt.
Jónas var óheppinn í samskiptum við kvenfólk, fékk ekki stúlkuna sem hann elskaði, hann var drykkfelldur og heilsutæpur, eftir lungnasýkingar og vosbúð, sem hann fékk á ferðalögum um landið og varð að gista í lélegum tjöldum í miklum kulda við náttúrufræðilegar rannsóknir.
Ég held að fólk hafi haft samúð með honum þegar hann var uppi á 19. öldinni, og hafi ekki litið á hann sem stórmenni, heldur hörkutól sem átti svolítið erfitt vegna heilsuleysis.
Nýyrðin sem hann fann upp urðu ekki fræg fyrr en eftir hans dag í alvöru, þótt sum þeirra hafi fengið útbreiðslu mjög snemma, á meðan hann var á lífi. Kvæðin hans fóru að vísu víða, enda mörg prentuð í tímaritum sem voru lesin upp til agna.
Það er ekki lítil hræsni í því að upphefja bara Jónas Hallgrímsson í nútímanum en ekki þá sem eru umdeildir í okkar samtíma og eiga skilið meiri athygli og viðurkenningu. Jónas vann sér inn þessa frægð, en það hafa fleiri gert og ekki uppskorið enn.
Maður les það úr mörgum kvæðum Jónasar að hann var haldinn sjálfsfyrirlitningu, fyrir að vera "tapari", eins og það er sagt í nútímanum. Hann er ekki talinn tapari núna.
Barátta Jónasar og Fjölnismanna fyrir hreintungustefnu var tízkumálefni á hans tíð, og margir litu á þetta sem snobb í honum sem ætti ekki við þá erindi. Tíminn tengdi sig þó við hann að því leytinu til, að þjóðerniskennd Jónasar var vissulega í takt við tímann. Að öðru leyti kann hann að hafa upplifað sig utanveltu og tapara.
En skál, Jónas, þar sem þú ert á öðrum hnetti!
![]() |
Þjóðargjöf afhent á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2022 | 07:26
Undirmeðvitundin og fleira
Fréttir auka jafnan streitu og sérstaklega á okkar tímum, en sumir hafa kallað þessi ár verstu ár mannkynsins, ár lokana, kófsins, Úkraínustríðsins, upplausnar á öllum sviðum menningarinnar, en 536 er talið verra af mörgum sögufróðum mönnum vegna þess að þá myrkvaðist heimurinn bókstaflega vegna margra eldgosa, og þurfti ekki útblástur bíla til þess, án þess að ég sé að afneita áhrifum mannsins á veðurfarið, en viðurkenni að fleira getur komið til.
Einn sjónvarpsþáttur er ljós í myrkrinu í neikvæðninni sem gerir mann þunglyndan, en það er þátturinn hennar Ásdísar Olsen á Hringbraut, "Undir yfirborðið", þar sem hún oft fjallar um andleg málefni til að láta manni líða betur, og kvilla nútímans, streitu og firringu.
Í gær var kona þar í viðtali sem hefur komið með róandi greinar hér á bloggið, Sara Pálsdóttir.
Þótt maður kannist vel við þessi fræði á maður það til að gleyma þeim og það var kærkomið að rifja þetta upp í gær.
Þessi þáttur veitti góða slökun, enda nokkuð sem hún kann vel í gegnum dáleiðslu. En fræðilega hliðin byggist á kenningunni um undirmeðvitundina, og þótt ég á sínum tíma hafi kynnt mér þau fræði nokkuð þegar ég heillaðist af kenningum Freuds og fleiri spekinga þá ólst ég upp við Nýalsfræðin, en þar var mér kennt að taka kenningunum um undirmeðvitundina með varúð, því þær voru nokkurskonar ruslafata fyrir ýmislegt óútskýranlegt í vitund mannsins eða dularfullum fyrirbrigðum sem henda bæði manninn og umhverfið, skynjanir og slíkt, geimverufræði, trúarbrögð og hvaðeina.
Það er nauðsynlegt að nota dáleiðsluna til að slaka á, ef fólk til dæmis er ekki trúað. En á árunum 1997 til 2008 fékk ég margar uppljómanir eins og Sara Pálsdóttir lýsti í þættinum, en þær voru í þá átt að sannfæra mig um að guðirnir í Valhöll væru til og gyðjurnar þar.
Er hægt að biðja til undirmeðvitundarinnar eins og maður getur beðið til guðs islams, kristninnar, til Vana, Ása og annarra guða? Hver er veruleikinn í þessum efnum? Á maður að trúa því að guðir Valhallar séu einungis skáldskapur og ímyndun mannsins, eða guð kristninnar og slíkt?
Nei, ég trúi því að guðir Valhallar séu til, Æsir, Ásynjur, Vanir, Vanynjur, og Jesús Kristur, Jahve og Ísis, svo nokkur nöfn séu nefnd.
Fólk notar þær aðferðir sem það vill. Eitt er á hreinu, það verður að vera jafnvægi á milli þess sem veldur manni streitu og ánægju. Það eru óvenjumargar streituvaldandi fréttir nú á tímum Úkraínustríðsins, og óttinn við kjarnorkustyrjöld eða öðruvísi gereyðingarstyrjaldir, með efnavopnum eða sýklavopnum, gerir það að verkum að fólk er ennþá streittara en áður, en góður vinur minn vill útrýma orðinu stress, og tala um að fólk sé streitt, leitt af orðinu streita, enda er orðið stress tökuorð úr ensku.
Mér finnst ágætt að nota nýyrði og slanguryrði jöfnum höndum, sérstaklega á meðan maður er að venjast nýyrðunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 16. nóvember 2022
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.9.): 15
- Sl. sólarhring: 34
- Sl. viku: 544
- Frá upphafi: 159084
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 392
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar