Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2025
10.2.2025 | 01:55
Ratatoskur, Níðhöggur og Esus
Þegar ég fjalla um eitthvað sem ég hef mestan áhuga á þá lesa það mjög fáir, kannski 10-20. Þegar ég fjalla um pólitík lesa það allt upp í 300 manns þegar mér tekst vel til, en að jafnaði kannski 50-120 ef það eru meðalgóðir pistlar um pólitík.
Mér finnst það leiðinlegt að ljóðin mín lesa líka fáir og söngtextana. Ég hef lagt mikla vinnu í sumt af því, eða þannig séð.
Ég er virkilega ánægður með mörg ljóð eftir mig og finnst þau vera framúrskarandi þótt ég segi sjálfur frá, enda hafði ég góða kennara, Megas og Ingvar Agnarsson.
Jafnvel háskólafólk sem hefur prófgráður í goðafræði eða öðru fær ekki endilega marga lesendur að greinum eða bókum, því almenningur hefur ekki nógu þroskaðan smekk.
Í nútímanum er auðveldara en oft áður að verða amatörfræðimaður eins og ég, með því að kynna sér Youtube og fleira á netinu, og með því að lesa vel valdar bækur um viðfangsefnin.
Áhugamannafræðimenn geta haft forskot á þessa sem koma úr háskólunum, við erum frjálsari að nálgunum, og ekki eins mótuð af akademíunni, og framsetning okkar jafnvel lausbeizlaðri, en meira um mistök býst ég við, meira gammurinn látinn geisa án sjálfsgagnrýni.
Engu að síður er það svo að ég hef pælt í ýmsu og rannsakað í áraraðir, til dæmis keltneska og gaulverska goðafræði. Því telst ég vera sæmilega vel fróður um þetta, þótt ég noti ýmislegt úr Youtubemyndböndunum sem ekki telst allt jafn faglegt eða viðurkennt, eða eitthvað frá öðrum hnöttum sem ég hef fengið sjálfur með fjarsambandi, hinu mikla sambandi geimsins, eins og dr. Helgi Pjeturss útskýrði það, á sama hátt og Emanuel Swedenborg fékk upplýsingar og taldi sig tala við engla, en auðvitað var hann að tala við fólk á öðrum hnöttum eins og ég.
Ráðgátan um guðinn Esus er áhugaverð. Um hann er fátt vitað með vissu, nema talið er að hann tengist Lífsins tré í gaulverskri goðafræði, sem teljast má 3000 ára gömul. Það má merkja af líkneskjum af honum, en ekkert var um þetta ritað á sínum tíma, eða það hefur ekki varðveizt, svo vitað sé, nema það sé falið í Vatikaninu, eða því hafi verið eytt af ráðandi öflum, kirkjunni, eða Rómverjum á sínum tíma.
Líkindin á milli Esusar og Níðhöggs eru mikil, eða þá að hann eigi að vera Ratatoskur, eða einn hinna fjögurra hjarta, Dáinn, Dvalinn, Duneyrr eða Duraþrór.
Cernunnos tel ég að sé faðir Esusar, og hann er sýndur hyrndur. Snorri Sturluson veigraði sér sérlega mikið við að bæta þessum lýsingum við sum goðanna, guðanna og gyðjanna sem hann lýsti, þar sem hans samtími tengdi það við Satan einkum og sér í lagi, er þar hægt að tala um fordóma hans samtíma.
Alderva hygg ég að sé gaulverska og keltneska nafnið á heimstrénu, Lífsins tré, en Mugna er annað heiti sem er þekkt úr írskum heimildum fornum.
Alderva mun þýða "Hinn ókunni skógur, eða hinn mikli skógur, eða annar skógur".
Keltar og Gaulverjar trúðu ekki á að guðirnir byggju í fjalli eins og Forngrikkir, sem trúðu á sínir guðir byggju á Olympstindi. Þeirra himnaríki var djúpt inni í skóginum í einhverju leyndu ríki, þar sem enginn yrði gamall eða þjáðist.
Ef Esus er Níðhöggur þá er það stórmerkilegt í ljósi þess að drekar eru ævafornt tákn fyrir mátt og guðdómleika en hið djöfullega einnig. Það staðfestir eiginlega það sem ég hef haldið fram, að Esus hafi verið svipaður guð og Shiva í hinni indversku goðafræði, sem sé eyðileggjandi.
Mér virðist sem Teutates hafi verið svipaður og Vishnu, sá sem viðheldur sköpuninni, en Cernunnos eins og Brahma, skaparinn, upphafsskaparinn.
Það sem flækir þessi mál er að Taranos er einnig eins og upphafsskaparinn, Brahma. Það er jafnan viðurkennt að þótt sitthvað finnist hliðstætt í trúarbrögðum og trúarbragðakerfum þá eru þversagnirnar margar og þetta sem er einstakt við trúarbrögð hverrar þjóðar og menningar.
Jahve virðist hafa gleypt alla þá guði sem áður ríktu með honum. Ashera er dæmi um slíkt, fyrrverandi kona hans.
Það er þekkt úr trúarbrögðunum að fram komi sigursæll guð sem drepur aðra guði og tekur þeirra hlutverk yfir á sig.
Þessvegna gegnir Freyja mörgum nöfnum. Þessvegna ber Óðinn mörg nöfn.
Ég tel að Freyjunafnið Hörn þýði "Hin hyrnda gyðja", en ekki "gyðja hörsins" eins og Ásgeir Blöndal hélt, en viðurkenndi þó að það væri óljóst, "uppruni öldungis óviss", stendur skrifað í hans orðsifjabók um gyðjuheitið Hörn.
Tengsl eru milli Cernunnosar og Jahves. Cernunnos hefur verið tengdur við Chrónos, gríska guðinn sem át börnin sín og er guð tímans, og svo Satúrns, sem gerði slíkt hið sama og er rómverskur guð. Í Youtubemyndbandi sá ég Davíðsstjörnuna sem eitt af táknum Satúrns. Þar með er komin tenging á milli Jahves og Cernunnosar, þótt Cernunnos ásamt Pan hafi verið notaður sem staðalmynd fyrir Satan ásamt Bafómet, sem kannski á eitthvað skylt með þeim.
Dulfræðingar segja að satanismi sé aðeins táknaður með fimmarmastjörnu sem snýr niður en ekki upp, rétt eins og kross á hvolfi eigi að túlka slíkt, satanisma.
Davíðsstjörnuna má líka túlka á ýmsan veg og sagt er að þessi tákn séu ekki einkaeign eins hóps fólks eða trúfélags, heldur notuð af mörgum.
Ég fullyrði að Esus er mjög gamalt goð, og þróaðist og breyttist um langt skeið.
En það er víst alveg pottþétt og 100% víst, að Esus er sá sem heggur greinar af lífsins tré í keltneskri goðafræði, eins og Níðhöggur gerir í norrænni goðafræði.
Þetta er stórmerkilegt, og sýnir fram á ævafornar hugmyndir manna um að sköpun og eyðing haldist í hendur, hvort geti án annars verið.
Það að þetta vanti í þankagang margra í nútímanum er upplýsandi fyrir mörg vandamál nútímans.
Eftir því sem maður leitar lengra aftur í trúarbrögðin, þeim mun meiri sannleika finnur maður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
RÚV er komið á þann stað að endurráðning Stefáns var hneyksli, spillingarhneyksli. Það er þörf á endurnýjun af mjög mörgum ástæðum, bæði til að fá betri dagskrá og vegna aðkomu að svona spillingarmálum.
Ég sem hafði trú á Lilju Alfreðsdóttur, hún hefði átt að breyta lögunum um RÚV þannig að ömurleg dagskrárgerð og stöðug wók-innræting sé bönnuð, og hlutleysi sé tryggt, að allskonar sjónarmið komist þarna að.
![]() |
Fyrrum lögreglustjóri tafði rannsókn málsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2025 | 02:45
Eurovisionkeppnin sem er að klofna í fleiri keppnir
Í áraraðir hér á Íslandi hefur fólk kvartað útaf Eurovision keppninni, sumir vilja draga þjóðina út, aðrir stofna Scandovision. Klíkuskapur og leiðindapólitík gera keppnina umdeilda og þetta snýst meira um pólitík og umbúðir en tónlist og flutning hin seinni ár.
Persónulega finnst mér að aukið samstarf við Rússa og önnur BRICS ríki kannski vera skynsamlegra en að ríghalda sér í hnignandi ESB og Bandaríkin.
Þó býst ég alls ekki við að valdhöfum detti neitt slíkt í hug og því er það auðvitað ómögulegt.
En fordæmið, sem Rússar sýna, það er mjög merkilegt.
Af hverju þarf bara ein svona keppni að vera haldin? Af hverju ekki fleiri?
![]() |
Rússar endurvekja söngvakeppni til höfuðs Eurovision |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrumuguðir voru áður fyrr taldir æðstir allra guða einatt. Við Íslendingar treystum á Þór jafnvel eftir að kristnin var lögtekin. Sjómenn og bændur hétu á hann og aðrir sem tókust á við krefjandi, erfið verkefni.
Það er forvitnilegt að leita svara, hvers vegna var þrumuguðinn oft æðsti guðinn í fjölgyðistrúarbrögðum fortíðarinnar?
Ég grúska mikið í trúarbrögðum. Ég er að reyna að klára bækur um þrjá guði, auðvelt að byrja, erfitt að ljúka verkinu.
Guðirnir heita Taranos, Esus og Teutates. Þeir eru hluti af keltneskri goðafræði, nánar tiltekið gaulverskri, en vandinn er sá að drúíðar skrifuðu ekkert niður af þessum fræðum, eða svo er talið, ég efast um það.
Engu að síður er ýmislegt augljóst.
Taranos, stundum nefndur Taranis eða Tanarus til dæmis er þrumuguð. Það sést á nafninu. Taranos þýðir þruma, hann er þruman persónugerð.
Þetta er mjög áhugavert, ekki sízt vegna þess að eins langt aftur og hægt er að kafa í sögu indóevrópskra þjóða er þrumuguðinn meðal þeirra æðstu, en Týr, guð himinsins og hádegissólarinnar virðist þó eldri og upprunalegri.
Júpíter og Zeus eru þekktari guðir vegna forngrískra og latneskra rita þar sem um þá er fjallað. Hlutverk þeirra virðist þó vera hliðstætt hlutverki Taranosar.
Með þessum rökum er hægt að fullyrða að Taranis hafi verið æðstur guða Gaulverja, sérstaklega vegna þess að Júlíus Sesar fullyrti í bókum sínum að guðir Gaulverja væru samskonar og þeirra eigin guðir, Rómverja.
Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um þetta, en hafa komizt að þeirri niðurstöðu eftir áralangar rannsóknir að það sé að nokkru leyti rétt, en mikil einföldun samt.
Málið flækjast nefnilega þegar maður skoðar Esus og Teutatis að auki og jafnvel fleiri guði Gaulverska. Þessir tveir eru greinilega stórmerkilegir einnig og voru mikið tignaðir og víða í Evrópu fyrir Krists burð. Áletranir á gröfum, steinum og annarsstaðar staðfesta þetta, að útbreidd var trúin á þessa guði. Allt frá Þýzkalandi og til Ítalíu var trúað á guði Kelta og þessa kannski einna helzt.
Taranis er sýndur á steinmyndum, höggmyndum, sem guð sem heldur á þrumufleyg eða einhverju slíku og hjól er oft og einatt sýnt nálægt honum.
Guð Biblíunnar er jafnvel talinn hafa verið þrumuguð af sumum fræðimönnum, sem hafa gaumgæft og skoðað gamla texta. El og Jahve runnu saman í einn guð, Jahve, sem er af sumum kallaður Jehóva.
Annaðhvort var Jahve stríðsguð eða þrumuguð upphaflega eða hvort tveggja, það er hægt að lesa um það.
Guð Biblíunnar stjórnaði mönnum bæði með ógn og skelfingu, og reglum og kærleika.
Talið er að nákvæmlega þannig hafi menn einnig trúað á Zeus í Grikklandi til forna og á Júpíter í Róm til forna og á Taranis í Gallíu til forna.
Þrumur og eldingar eru áþreifanlegt "tákn frá himni", og þar sem allir trúðu því að guðirnir væru himneskir, annaðhvort íbúar annarra stjarna eða byggju í tóminu í loftinu, eða á fjöllum á jörðinni, þá voru þrumur og eldingar taldar "sönnun" fyrir því að guði þrumanna væri ekki sama, hann væri að segja sitt, gefa sitt álit, minna á tilveru sína, sanna sig fyrir mönnunum.
Faðirinn var æðstur á þessum tíma og ættfaðirinn. Þetta voru feðraveldissamfélög öll upp til hópa, nema kannski örfá, þarsem mæðraveldi ríkti, eins og til dæmis á eyjunni Krít.
Faðirinn stjórnaði með ógn og skelfingu, með því að beita eiginkonuna ofbeldi, eða hafa fullt leyfi til þess, og með því að stjórna börnum sínum og öðrum í fjölskyldunni með sama hætti.
Sögurnar um Jahve, guð Biblíunnar, sem refsar mönnunum í reiði sinni staðfestir þetta, að svona sýnir hann yfirburði sína og vald, staðfestir hver hann er og hvað hann má, umfram aðra.
Það má því fullyrða með næstum 100% vissu að Taranis var svona guð, blíður og harður í senn, en ógnvaldur ekki sízt.
Rómverjar sem drápu Kelta í stórum stíl til að ná yfirráðum yfir landi þeirra sem innihélt mikil auðævi, gróðursæla akra, málma og veiðibráð í gnægtum, þeir notuðu þá guði Kelta sem tengdust mannfórnum til að sannfæra almenning í Rómarveldi um að Keltar og Gaulverjar væru réttdræpir villimenn og viðbjóður.
Ég hef verið að rannsaka þetta í mörg ár og ég hef komizt að því að Esus, Taranis og Teutatis hafa sennilega verið svipaðir Títönum meða Forn-Grikkja, þetta voru sennilega einhverjir ógnvænlegustu guðir sem Keltar og Gaulverjar áttu.
Þó var Cernunnos enn ógnvænlegri sennilega. Hann hefur verið svipaður Chronosi og Saturnusi, en Jahve hefur einnig verið tengdur honum. Í allavega einu Youtube myndbandi hef ég séð fjallað um að Saturnus hafi haft tákn eins og Davíðsstjörnuna, sexarma tákn eða sexarma stjörnu, hexagram. Þar með er komin tenging á milli Cernunnosar og Jahves, sem er fullt af kaldhæðni, vegna þess að Cernunnos og Pan, og aðrir hyrndir guðir voru notaðir til að búa til staðalmynd af Satan, í kristninni, en Satan gæti að hluta til verið dregið af nafni rómverska guðsins Saturn.
Hexagon eða sexhyrnd stjarna er hluti af þeim leyndardómi sem umlykur reikistjörnuna Satúrnus í okkar sólkerfi, og þannig eru komin ákveðin tengsl.
Keltar Evrópu fyrir Krists burð voru sundurleitir, innihéldu fjölmarga ættbálka undir tugum eða hundruða nafna og guðir þeirra og gyðjur skiptu einnig hundruðum, og ekki öll nöfn þeirra þekkt.
Þegar Rómverjar vísuðu í villimenn og barbara voru þeir einatt að tala um þessa nágranna sína af fullkomnum hroka. En Rómverjar voru eins og Bandaríkjamenn og Bretar, þeir urðu sterkastir í hernaði, en urðu spilltir með tímanum.
Ef maður reynir að svara því hvers vegna þrumuguðirnir voru oft ættfeðurnir og voldugastir, þá er fyrst því til að svara að það var hefð, sem fylgdi indóevrópskri menningu. Sumir fræðingar telja að hægt sé að rekja hana aftur til annarra menningarsamfélaga, Súmera og annarra þar sem hámenning hófst fyrst. Enlil gæti verið svipað goðmagn, sá sem réð yfir himni, eða An, hinn fjarlægi, líkur Tý í goðafræði Germana.
Enlil var stormaguð, og því gæti þetta vel passað.
Ég lít ekki á heiðin trúarbrögð sem hjáguðadýrkun. Þvert á móti. Ég trúi því að guðirnir séu geimfarar, eins og Erich von Däniken hefur haldið fram og fleiri. Ég tel að í þessum gömlu sögum séu stórmerkilegar heimildir og sannar um uppruna lífsins á jörðinni og fleiri vísindi, blönduð skáldskap, því sögurnar breyttust.
Þó var það svo að fyrr á tímum var skáldskapur bannaður með lögum.
Ég tel að þannig hafi þetta verið meðal Kelta til forna.
Glæpamenn voru brenndir í Stórmanni, tágamanni, og það var til heiðurs Taranosi, þrumuguðinum, og til að blíðka hann.
Fólki var bannað að skrifa niður, nema í sambandi við viðskipti og það sem var alveg nauðsynlegt í þessum keltasamfélögum.
Allt var lært utanað sem snéri að mýtunum.
Helgi var á mýtunum.
Skáldskapur var ekki til meðal Kelta. Hann var álitinn glæpur, hygg ég.
Það er vegna þess að drúíðar álitu trúarbrögð vísindi.
Að víkja út frá því sanna, það var dauðadómur.
Drúíðar þurftu ekki að vinna. Samfélagið sá um þá. Þeir voru virtir og dýrkaðir eins og poppstjörnur nú til dags.
Þeir voru bæði prestar, löggjafar og læknar þess tíma.
Til eru kenningar um það að Jesús Kristur hafi verið erkidrúíði og einnig Júlíus Sesar, og Píþagoras, einn frægasti spekingur allra tíma.
Drúíðar voru eins og Essenar. Þeir kenndu útvöldum. Rétt eins og Míþrasardýrkunin þá var Esusartrúin launhelgatrú. Þeir kenndu herstjórnarlist, heimspeki, stjörnufræði, náttúrufræði, trúarbrögð og fleira.
Þar af leiðandi passar það að frægir menn eins og Júlíus Sesar, Jesús Kristur og Píþagoras gætu hafa lært hjá þeim.
Það eru þó aðeins kenningar, en þær eru spennandi.
Enginn veit með vissu hvaða speki drúíðar bjuggu yfir.
Það verður þó æ sennilegra með tímanum eftir því sem maður skoðar þetta betur, að þeir hafi sett djúp merki á söguna. Kristnin ber væntanlega merki þeirra líka.
Samfellulögmálið, það fjallar um að engin trúarbrögð verða vinsæl nema eitthvað svipað hafi verið til staðar áður.
Kristnin fellur undir þetta.
Esusardýrkunin var launhelgatrú. Fyrst í stað var gaulverskur og keltneskur almenningur ekki samstilltur og þekkti lítt trúna á Esus. Það breyttist þó eftir því sem Júlíus Sesar drap fleiri. Þá varð Esus sameiningartákn Kelta.
Þegar drúíðar voru pyntaðir og drepnir þá voru þeir pyntaðir til sagna. Leynileg rit voru skrifuð eftir þeim, þegar þeir sjálfir voru dauðir. Þessi rit voru álitin heilög. Á meðan voru hof þeirra brennd og hörgar, og heilögum menjum eytt að mestu leyti. Kristnir leiðtogar héldu nákvæmlega þessu sama áfram, eins og þekkt er úr heimildum.
Aðeins löngu seinna vaknaði áhugi og virðing fyrir þessu, þegar klaustrin voru orðin almenn.
Þó voru til heiðin klaustur, hörgarnir voru þannig, fræðasetur, og samsvarandi trúarmiðstöðvar drúíða í skógum, þau voru ekki uppfinning kristinna manna.
Þegar drúíðar voru pyntaðir og drepnir þá breiddist trú þeirra út eins og eldur í sinu meðal lágstéttanna, en sérstaklega meðal kvenna, sem fundu sjálfstyrkingu í trúarbrögðum sem innihéldu femínískar fyrirmyndir og jafnrétti kynjanna, nokkuð sem lítið var um meðal Rómverja og í þeirra miklu hernaðarhyggju.
Þetta er samfella sögunnar. Það er ekki hægt að gera trúarbrögð vinsæl nema jarðvegurinn hafi verið undirbúinn áður.
Þó má segja að drúízkan sé ólík kristninni að flestu leyti.
Nema hvað, að fáein atriði ríma þó.
Esus er guð ferðalaga, mjög svipaður Hermes og Merkúr, en þó fjölbreytilegri. Esus er einnig guð dauðaríkisins.
Ef skoðaðar eru andstæður á milli Taranosar, Esusar og Teutatesar þá kemur ýmislegt merkilegt í ljós.
Taranos var guð grimmdar eins og Cernunnos.
Esus og Teutates voru guðir kærleikans.
Teutates er guð mannlegra samskipta, heimilislífs, verndari samskipta, ásta, friðar, en einnig guð ófriðar og haturs, stríðs.
Esus hafði sérstöðu að því leyti að í nafni hans var boðuð andatrú, að andinn væri æðri en efnið.
Þetta gerði hann vinsælan guð meðal kvenna og jafnvel meðal Rómverja.
Eitthvað svipað og kærleiksboðorð kristninnar var hluti af Esusartrúnni, "það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra".
Þetta snýst um andóf gegn yfirvaldinu, svipað og gerðist með kommúnismann löngu seinna.
Ég tel að upphaflega hafi Esus verið talinn sonur Cernunnosar, svo sonur Taranosar.
Það fór eftir landsvæðum og tímabilum.
En um Esus var sagt að hann kæmist skjótar sem andinn hvert sem var og enginn gæti neitað honum eða lokað á hann. Hvort sem það var vegna fegurðar eða annarra eiginleikar hefur hann verið svipaður og til dæmis Baldur í norrænni goðafræði, fagurt goð.
Jafnvel Rómverjar skrifuðu sáralítið um Míþras, sem var helzti og vinsælasti guð rómversku hermannanna. Rómverjar voru ekki miklir andans menn, aðallega hermenn.
Þeir tóku grísku guðina og gerðu að sínum, breytti stundum nöfnum þeirra en ekki alltaf.
Úr því að varla finnast nokkur rit um Míþras, sem var aðalguð Rómverja, hermanna að minnsta kosti, þá er meira en mögulegt að guð eins og Esus hafi verið vinsæll meðal þeirra, en fátt finnist um hann ritað.
Fyrir þessu eru ýmsar ástæður.
Drúíðarnir vildu ekkert rita, þetta var þeirra guð.
Rómverjarnir hötuðu og fyrirlitu Kelta, kölluðu þá plebba, sveitamenn. Hví hefðu þeir átt að rita um þá og sýna þeim þá virðingu?
Drúíðar voru drepnir af Rómverjum með kerfisbundnum hætti.
Drúíðar ógnuðu valdi Rómverja eins og Jesús Kristur.
Drúíðar stjórnuðu almúgafólki, sem bar fyrir þeim gríðarlega virðingu.
Við sjáum því af þessum staðreyndum sem eru fyrir hendi, að allt var til hendi til þöggunar, til að gera sem minnst úr þætti gaulversku og keltnesku guðanna og þessarar menningar í heild.
Þó finnast fáeinar setningar.
Fólk hét á Taranis til að fá góða uppskeru.
Esus var persónulegur vinur. Hann átti að tryggja góða heimkomu sálarinnar. Hann átti að veita lækningu.
Teutatis var hernaðarguð og margt fleira.
Þjóði er nafn hans á íslenzku. Þó nær það nafn ekki alveg yfir upphaflegu merkinguna, sem er kannski Ættbálki, eða Landablessari, Landsvættur.
Talið er að nafn hans hafi borizt mjög víða, en hann verið tignaður á mismunandi hátt og honum gefnir mismunandi eiginleikar.
Guðinn Teutatis eða Toutatis (margar útgáfur eru til af nafni hans, enda áletranir sem finnast með nafni hans víða í Evrópu) var verndarguð ættbálksins. Hann er að mínu áliti einn fyrsti vitnisburðurinn um þjóðerniskennd, eða ættbálkahyggju sem var að þróast í þá átt. Þó áttu Rómverjar sína þjóðerniskennd, sem átti kannski meira skylt við hroka en þjóðerniskennd eða ættbálkahyggju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2025 | 13:55
Er ekki hægt að hætta við Borgarlínuna og spara morð fjár, hvort sem stjórn Einars springur eða ekki?
Dagur B. Eggertsson var galdramaður og töframaður að halda saman hriplekum meirihlutanum í Reykjavík þótt flestir hafi sennilega verið grautfúlir.
Það er þá alltaf hægt að prófa að setja Dag í formannssætið í Samfylkingunni ef Kristrún verður óvinsæl.
Það kæmi mér ekki á óvart þótt núverandi meirihluti í Reykjavík spryngi og Sjálfstæðisflokkurinn fái loksins aftur tækifæri til að leiða. Það gæti þá orðið byrjunin á endurreisnarstarfi og stækkun að nýju.
![]() |
Hriktir í meirihlutanum í borginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2025 | 15:13
Forsetaembættið er orðið pólitískt, byrjaði sennilega með Ólafi Ragnari, þótt hann hafi verið einn okkar bezti forseti
Gústaf Adolf skrifar um þetta í dag og er ég honum sammála. Ég ber mikla virðingu fyrir honum þar sem hann lýsti ástandinu í Svíþjóð rétt áður en aðrir gerðu það, á Útvarpi Sögu í viðtölum við Arnþrúði.
Mér finnst að Gústaf Adolf eins og Haukur Hauksson sem talaði frá Rússlandi hafi gert Útvarp Sögu að góðri stöð, betri en hún hefði ella verið, þeir tveir voru ekki aðeins með fréttir sem vöktu til umhugsunar, heldur umfjöllun um önnur mál sem var þroskandi fyrir mig og fleiri.
Annars var ég búinn að ákveða að fjalla um þetta í dag, ræðu Höllu forseta, sem ég heyrði brot af í fréttatímunum í gær. Mér finnst bara rétt að taka undir með frægari bloggurum en ég er svona í upphafi.
Þegar ég hlustaði á þetta sem var flutt í RÚV úr ræðu Höllu forseta, þá fór ég að rifja upp Vigdísi forseta og hvað hún var ópólitísk í ræðum, og ég fór að velta fyrir mér að þegar Halla var kosin þá sagði einhver álitsgjafi í RÚV að nú hafi þjóðin kosið sér Vigdísar-Finnbogadóttur-móðurlegan-ömmulegan-landsmóðurlegan-Fjallkonulegan-týpu-sem forseta, en þegar Guðni var kosinn hafi þjóðin kosið Kristjáns-Eldjárns-týpu-kennararalegan-föðurlegan-landsföðurlegan-fræðilegan-forseta.
En þá fór ég líka að bera þær Vigdísi og Höllu saman og ræðurnar þeirra. Ég fór einnig að rifja upp dýrkun ömmu minnar á Kristjáni forseta og þeim sem voru á undan honum, sem ég var of ungur til að heyra ræðurnar frá.
Ég held að ræðurnar hennar Vigdísar hafi allar verið mjög ópólitískar. Hún talaði vítt og breitt, mikið um landið, Íslandssöguna, fornkappana, gildin okkar, kristnu trúna og slíkt. Hún skipti sér ekki af nútímapólitík.
Ólafur Ragnar gerði það lítið í ræðum, en örlítið eins og þegar hann hyllti útrásarvíkingana og var kallaður klappstýrir þeirra í hruninu af pólitískum andstæðingum. Helzt breytti Ólafur Ragnar embættinu með því að virkja ákvæðið um víkja lögum til þjóðarinnar með forsetavaldi.
Nú brá svo við að þegar Guðni Th. Jóhannesson varð forseti þá varð hann mjög "wók" forseti og vinstrisinnaður, hann talaði mikið fyrir fjölmenningu, og vinstrielítan bókstaflega dýrkaði hann fyrir vikið.
Halla forseti talaði líka dálítið þannig í gær.
Ræða Höllu var dæmigerð Elíturæða, og Davos-dýrkunarræða, WEF-dýrkunarræða.
En munurinn á henni og Guðna er samt mikill.
Þegar Guðni talaði þá fannst mér hann gera það á eigin vegum, eins og hann væri að lýsa eigin skoðunum. Þessvegna gat ég ekki annað en fyrirgefið honum þótt ég væri ósammála honum.
Halla forseti talar öðruvísi, eins og sú sem valdið hefur.
Hún ávítar, hún gagnrýnir. Guðni var eins og lítill strákur sem segir hvað honum finnst, Halla forseti minnir á ávítandi yfirvald.
Svo er líka annað.
Mér fannst orð Höllu forseta ankannaleg, mér fannst hún tala fyrir lítinn hóp en ekki fyrir fjöldann. Mér fannst hún tala fyrir munn menntamanna og þeirra sem hafa forframazt og auðgazt í útlöndum frekar en hvert mannsbarn á landinu sem hefur mismunandi bakgrunn af mörgum ólíkum ástæðum, ekki bara frá mörgum löndum, heldur mismunandi stéttastöðu innlenda.
Það er eitt í þessu líka annað.
Bara fyrir örfáum árum þegar Guðni forseti talaði á þennan veg, þá var þetta ekki komið mikið uppá yfirborðið í umræðunni á Íslandi, um alþjóðastofnanir og hvernig skuggahliðar eru á þeim jafnan.
Hinsvegar núna þegar Halla forseti sagði þetta í ræðunni í gær og talaði um Trump, gagnrýndi hann og alþjóðlega þróun, þá fannst manni hún tala holum rómi og útí tómið án stuðnings þjóðarinnar allrar.
![]() |
Alþingi sett: Forseti vitnaði í norskt orðatiltæki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2025 | 15:55
Tollastefna Bandaríkjanna mun ekki duga ein til að snúa við helstefnu fjölmenningar og alþjóðavæðingar, en er eitt skref í rétta átt
Ryðbeltin svonefndu í Bandaríkjunum eru bílaborgirnar og þar sem annar iðnaður var einnig, ekki bara bílaframleiðsla. Áður fyrr var þarna blómlegt mannlíf og mikill gróði, en þetta eru hálfgerðar draugaborgir núna, fátækt mikið, færra fólk, minna að gera, allt miklu daufara.
Með því að láta framleiða hlutina í Kína og Kóreu gátu forstjórar og aðrir peningapúkar grætt morð fjár á meðan starfsfólki var sagt upp í stórum stíl. Með tímanum lærðu Kínverjar og aðrir að gera eiginlega allt sjálfir, gátu hnuplað teikningum og hugmyndum, og vinnuaflið var ódýrara þar, og svo fjórða iðnbyltingin, róbótabæðingin, sem sennilega er lengst komin í Kína en ekki á Vesturlöndum.
Fjölmenningin hefur svo sannarlega skemmt fyrir Bandaríkjunum og Vesturlöndum, auðvelt er að rökstyðja það. Það má tala um fjölmenningarfylleríið, skjótfengur gróði en hrikalegir timburmenn á eftir.
Tollafyrirætlanir Trumps eru ekki útí loftið heldur ígrunduð stefna sem á að lífga við Bandaríkin.
Það koma vaxtaverkir í kjölfarið, það er eðlilegt, hækkandi verð og samsvarandi aðgerðir að utan, en ef Trump ætlar að fá líf í deyjandi Bandaríkin þarf að gera eitthvað af þessu tagi, til að spyrna gegn fjölmenningunni, alþjóðavæðingunni.
Þessu má líkja við einstakling sem hefur ekkert unnið í áratugi eftir slys, vöðvarnir rýrna og þegar stoðtæki eru ekki til staðar virðist ekkert ganga. En eigi endurhæfing að duga og heilsan að koma aftur þarf einstaklingurinn að reyna á sig, og þessi ólga og óánægja með tollahækkanir Trumps eru bara vaxtaverkir óhjákvæmilegir.
Margir furða sig á því að Rússar hafa af eigin rammleik staðið sig betur en haldið var, þótt mjög sé orðið þungt þar margt og erfitt vegna skorts á varningi að utan. Þeir hafa einmitt orðið að treysta á eigin mannskap að miklu leyti vegna deilna um þeirra framferði og pólitík, en selt úr landi ýmislegt, og ef ekki til Evrópu þá til Bricsþjóðanna í staðinn.
Fjölmenningin hefur lamandi áhrif á Íslandi einnig. Kornframleiðsla hefur lagzt af, bókaframleiðsla, og fleira, allt er þetta nú gert í útlöndum þar sem það kostar minna.
Stefna Trumps ætti með tímanum að verða umhverfisvæn, því hún ætti að kosta minna eldsneyti og flugferðir á milli landa eða skipasiglingar.
Mannkynið á öld gervigreindar, fjórðu iðnbyltingarinnar og alþjóðavæðingarinnar er á góðri leið með að drepa sig.
Eina leiðin til að bæta úr því er að leita til rótanna, leiðrétta mistökin, hafna "framförum", tækni, ofurgróða, því sem Satan býður, auðrónar og elíta.
Það þarf bara miklu meira til en það sem Trump gerir og hans stjórn. Það þarf samstillt átak í öðrum löndum líka, þótt það geti tímabundið kallað á minnkandi hagvöxt eða gróða.
![]() |
Samþykkir að fresta tollum á vörur frá Kanada |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2025 | 23:41
Umbúðir, loforð...
Lítið er um breytingar, nema þessi stjórn vill koma okkur inní ESB. Til hvers var fólk að kjósa? Flokkur fólksins fær ekki mikið fram, Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að undirbúa margt af þessu eins og hinir flokkarnir í gömlu stjórninni. Gamalt vín á nýjum belgjum eins og sagt er.
Samfylkingin hefur slegið met Framsóknarflokksins í auglýsingum og framsetningu, þessar miklu breytingar sem boðaðar voru, frat eins og venjulega.
![]() |
Svona er plan ríkisstjórnarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hefur komið í sjónvarpsfréttum að kirkjusókn ungra pilta og karlmanna er að aukast. Sjálfur er ég ekki í nokkrum vafa um skýringuna. Í Biblíunni finna þeir heilbrigðar karlmannsímyndir, sem fyrirvinnu og slíkt.
Þannig að jafnvel þótt prestar Þjóðkirkjunnar séu kvenkyns, femínistar, wókistar og allt það, þá þurfa þeir ekki annað en að opna hina heilögu bók til að finna fyrir heilögum anda, Guði og Jesú Kristi, áhrifum sem eru hollari en margt í nútímanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2025 | 00:29
Orkupakki þrjú var samþykktur 2019, verulegar hækkanir, því var búið að spá af andstæðingum Orkupakka þrjú
Eins og fólk veit þá vantar Evrópu orku. Andstæðingar Orkupakka þrjú spáðu því að orkuverð myndi hækka hérlendis með innleiðingu.
Tíðindi og fréttir núna nýlega ættu að sannfæra hina mestu stuðningsmenn allra þessara orkupakka um að andstæðingar Orkupakka þrjú höfðu kannski rétt fyrir sér.
Norska stjórnin féll út af Orkupakka fjögur.
Það sem ég skil ekki er að maður heyrir í RÚV fólk segja að Angela Merkel hafi gert mistök með að semja um rússneska orku.
Getur þá engum á RÚV dottið í hug að það hafi verið mistök að slíta á þau tengsl og berjast við Rússland?
Einstefna í hugsun þar...
![]() |
Rafmagnsverð hækkar verulega milli mánaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.3.): 15
- Sl. sólarhring: 75
- Sl. viku: 579
- Frá upphafi: 137626
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 425
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar