Bloggfærslur mánaðarins, október 2025
1.10.2025 | 03:04
Sókn er bezta vörnin - það er sú stefna sem hjálpar mest íslenzkunni
Ég hef reyndar ekki verið sáttur við allar áherzlur Eiríks Rögnvaldssonar, eins og til dæmis að líða beri þágufallssýki og kalla það eðlilegar breytingar, en varla er til frægari maður en hann þegar kemur að því að fjalla um íslenzkuna í fjölmiðlum.
Í þessu er ég algjörlega sammála honum og finnst það mjög gott að setja af stað undirskriftir til að ýta undir að Alþingi hækki framlög til íslenzkukennslu.
Það hefði glatt mig mikið ef notkun mín á zetunni hér á þessum vettvangi hefði komið af stað nettri þannig tízkubylgju, ég hef reyndar örlítið orðið var við að sumir prófi þetta, en fæstir þó. Kannski er zetunotkun erfiðari en ég held þótt mér finnist það ekki.
Burtséð frá skorti á zetunotkun þá er ýmislegt sem er í útrýmingarhættu eins og viðtengingarhátturinn. Einnig heyrir maður sjaldan "hvort tveggja" notað, "bæði" er notað of oft og líka þegar "hvort tveggja" á við. Fleiri dæmi er hægt að nefna.
Aðdáun mín á zetunni held ég að sé til komin vegna þess að ég las barnabækur með zetunni. Það voru barnabækurnar eftir Enid Blyton og svo Bob Moran bækurnar.
Magnús Jochumsson þýddi flestar Bob Moran bækurnar úr frönsku. Hann var fyrrverandi póstmeistari, en kunni auk þess mörg tungumál. Hann fæddist 14. ágúst 1889 en lézt 11. nóvember 1973, þannig að hann var háaldraður þegar hann fluttist af þessari jörð okkar.
Eitt sinn keypti ég slatta af Bob Moran bókum á frummálinu, frönsku. Ég ætlaði að reyna að þýða þær. Aldrei lauk ég við neina bók, en byrjaði á fáeinum þýðingum. Orðaforðinn er mikill í þessum frönsku bókum eftir Henri Vernes, sem náði yfir 100 ára aldri.
Ég get lesið frönskuna þannig að ég nái samhenginu. Til að ná blæbrigðum fínni og þýða svo vel sé, þá þarf maður meiri orðaforða.
En það er annað sem Magnús Jochumsson hafði fram yfir mig. Hann gat umorðað setningar franskar yfir á íslenzku eins og ekkert sé. Ég hef borið saman frumtextann og þýðingar hans. Allar setningar hans eru hugsaðar uppá nýtt, þannig að þar er ekki vottur af franskri orðaröð eða öðru slíku. Það er ekki nema ljóðrænan sem skilar sér, sem var Henri Vernes eðlislæg, og myndrænar lýsingarnar, sem skila sér einnig vel.
Magnús Jochumsson notaði zetuna enda var hún lögboðin þá, og það gerðu þýðendur bóka Enid Blyton einnig.
Eitt sinn kom frétt um það, mig minnir um nýjar Fræknu fimm bækur eftir Enid Blyton, að nýr þýðandi sagði gömlu þýðingarnar stirðar eða þungar. Sú endurútgáfa hætti og aðeins örfáar bækur komu út. Sennilega ekki meira en 20 ár síðan það var.
Þetta orðalag, að tala um "þunga og stirða" íslenzku, það merkir að í þýðingunni eru gömul íslenzk orð og sjaldgæf, að orðaröð er kannski óvenjuleg, eða eitthvað slíkt. Þetta finnst mér kostur, því þetta kennir börnum gullaldaríslenzkuna.
Ég var mikill aðdáandi þessa "þunga og stirða" málfars. Ég heyrði einnig mun á málfari ömmu og afa og svo jafnaldra minna.
Þetta er eitt af því sem ég held að vanti í uppeldi nútímabarna, að þau lesi svona bækur á íslenzku sem ættu að vera fullar af sjaldgæfum orðum, og með zetu.
Lestur er orðinn sjaldgæfari en þegar ég ólst upp. Ég las mikið í barnaskóla og svo sem unglingur.
Sá texti sem lesinn er af snjalltækjum á íslenzku er einfaldari en málfarið á þessum gömlu Enid Blyton bókum og svo ævintýraspennusögunum um hetjuna Bob Moran.
Eitt það bezta sem íslenzka ríkið getur gert er að endurútgefa barnaefni eins og þetta sem ég er að nefna, í gömlu þýðingunum frá seinni hluta 20. aldarinnar.
Þessar bækur örva einnig hugmyndaflugið.
Þessar bækur hafa mætt gagnrýni wók-liðsins, ekki að undra. Enid Blyton hefur verið sökuð um að innræta karlrembu og rasisma. Bob Moran bækurnar eru sagðar fullar af úreltum hugmyndum um stöðu kynjanna, eins og að karlmaðurinn sé sterkara kynið og konur eins og í James Bond menningunni mest til fegrunar og skrauts.
Wók hugmyndafræðin er nazismi nútímans og þessvegna er þessi gagnrýni hrós og gæðavottun frá hættulegasta fólki jarðarinnar á okkar tímum.
Ég get rakið þessa gagnrýni nánar. Glæpamennirnir í bókum Enidar Blyton eru reyndar ekki einsleitur hópur, bæði konur og karlar af ýmsum kynþáttum, en þó þykjast wók-liðar og femínískir "kvenfrelsarar" finna þar of hátt hlutfall sígauna og negra til að sæmilegt geti það kallazt. Femínistarnir láta það fara mjög í taugarnar á sér að drengirnir í þessum bókum taka frumkvæðið og gera það sem hættulegast er, drífa áfram sögurnar oftast, en stelpurnar í þjónustuhlutverkum. Þannig sækja þær ísinn þegar sólin skín og önnur matföng, þær bæta flíkur, þær sefa reiði, þær gráta og svo framvegis.
Femínískir kvenfrelsarar vilja breyta þessu og að körlum sé lýst sem veikara kyninu.
Þetta er samt ekki eins einfalt og wókistar halda fram.
Enid Blyton skrifaði á tímum þegar þessar skoðanir voru normið. Henri Vernes gerði það líka. Þó má finna mun á hans bókum og hennar.
Guli skugginn er þannig kínverji eða mongóli og einn helzti glæpamaðurinn í bókaflokknum. Er sjálfkrafa hægt að kalla höfundinn Henri Vernes rasista þessvegna? Nei, auðvitað ekki.
Tanja Orloff er af rússneskum og kínverskum ættum, frænka herra Mings, sem er nafn Gula skuggans. Henni er lýst sem siðferðilegri andstæðu Mings, í henni er öll sú gæzka og kærleikur sem Gula skuggann skortir, og hún hjálpar Bob Moran einatt.
Wókistarnir sem hata Bob Moran bækurnar setja ekki dæmið þannig upp og gera lítið úr Tönju Orloff. Jafnvel fer lítið fyrir því að femínistar fjalli um það hversu merkilegt þetta er, að kona af blönduðum uppruna skuli vera kvenhetja á mjög stórum skala í þessum bókaflokki. Það til dæmis er hvergi í James Bond ævintýrabókunum, sem eru nokkuð sambærilegar Bob Moran bókunum hvað varðar hetjulund, karlrembu og kynjahyggju. (Hefðbundna).
Sumir vilja að börn hafi engar heilbrigðar og réttar fyrirmyndir, heldur sé þeim stýrt beint inní óreiðuna.
Henri Vernes var dæmi um mjög góðan kaþólikka, guðhræddan og siðferðilega sterkan. Skírlífi er til dæmis boðað í Bob Moran bókunum og óbeit á óhófi, glæpamennirnir tengdir við það en ekki hetjurnar. Undantekningin er að vísu Bill Ballantine, sem er einn af mestu köppunum, en hann verður að teljast alkahólisti, þótt aldrei komi það niður á heilsu hans. Þar koma kannski fram klisjukenndar fordómahugmyndir, því hann er rauðhærður skoti, mjög sterkur, síþambandi viskí.
Í Bob Moran bókunum er drjúgur skammtur af frönsku þjóðarstolti. Þannig er oft minnzt á að Bob Moran var sjálfboðaliði í RAF, brezka flughernum, og því hluti af andspyrnunni gegn hernáminu.
Einnig eru margar aðalhetjurnar rammlega franskar, Aristide prófessor, frú Durant og Jouvert ofursti.
Bob Moran er lýst sem nútímariddara, sem heldur í heiðri dyggðir krossfaranna og kaþólskunnar.
Bækurnar eftir Enid Blyton lýsa brezku miðstéttarsamfélagi á 20. öldinni. Kristin gildi eru í heiðri höfð en einnig hefðbundin kynjahlutverk.
Náungakærleikur og hjálpsemi er þannig nokkuð sem er áberandi í þessum bókum. Góð eru þau gildi geta flestir sagt.
Algengt er samt að andúð á valdi og fullorðnum birtist í bókum Enidar Blyton. Er það hollt börnum? Það er í smáum skömmtum og mest notað í húmorskringumstæðum, en er svo látið víkja undir sögulok.
Gunnar gamli lögregluþjónn gæti verið nokkurskonar ESB yfirvald. Hann er sífellt að tönnlast á reglum og að börn eigi ekki að voga sér að vinna störf fullorðinna, að allir eigi að gæta sinnar stéttar og stöðu.
Foreldrar barnanna eru oft í þessari stöðu. Börnin komast útí náttúruna frelsinu fegin, en þar hitta þau líka glæpalýð sem þarf að berjast við. Þótt foreldrarnir séu oft leiðinlegir, hluti af yfirvaldi sem börnin forðast, þá er einn fullorðinn að minnsta kosti vinur þeirra, Villi, og hjálpar þeim með aðstoð lögreglunnar.
Georgína er stelpa sem þráir að vera strákur og lætur kalla sig Georg. Transhugmyndafræðin var ekki til á þessum tíma, en krakkar með sjálfsmyndarrugling þó greinilega. Þó er alltaf að því látið liggja að "Georg" læknist af þessu þegar hún verður stór, og það er svo sterklega gefið í skyn að lesandinn veit 100% að þannig verður þetta, ekki er minnsta rúm fyrir efa. Þetta er því brandari í bókunum, eða skringileiki sem verður sjálfkrafa leiðréttur. Hér er því spurning hvort meiri hamingja sé að vera í skápnum eða koma úr skápnum. Enid Blyton svarar því þannig að þetta sé ekki spurning, allir fara sjálfkrafa í skápinn sem hafi svona hinseginhneigðir og ekkert sé nema eðlilegt við það.
Ennþá koma út bækur Enidar Blyton. Þó valda þær deilum. Bob Moran bækurnar eru enn vinsælar í Frakklandi, en útbreiðsla þeirra til annarra landa er takmörkuð, og var mest fyrir nokkrum áratugum.
Málfar er ekki lengur stirt og þung í barnabókum og það má harma.
"Fram, fram, aldrei að víkja", sagði Ingvar frændi oft.
Það að læra íslenzku og önnur tungumál er eins og íþrótt eða aflraunir.
Vill maður setja markið hátt eða vill maður setja markið lágt?
Kannski er það rétt með zetuna að zetureglurnar séu svo flóknar að fæstir geti lært þær 100%. Þá get ég sætt mig við að hún verði ekki aftur gerð að skyldu.
En það ætti að vera hægt að viðhalda orðaforða barna sem talinn er stirðleg íslenzka ranglega, það er að segja að hafna bjánaeinföldun íslenzkunnar, sem er undanfari algerrar enskuvæðingar.
Eiríkur Rögnvaldsson held ég að sé sammála þessu að einhverju leyti.
Um leið og beygingar falla niður og vandaður orðaforði, þá hefur íslenzkan misst sjarmann. Þá verður hún sjálfkrafa lögð niður og enskan tekin í staðinn.
Við erum stolt af íslenzkunni vegna þess að hún er flókið tæki, hún er tryllitæki en ekki borgarlína eða strætó.
![]() |
Eiríkur stofnar undirskriftalista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.10.): 8
- Sl. sólarhring: 64
- Sl. viku: 562
- Frá upphafi: 159664
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 439
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar