Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2024
10.4.2024 | 01:19
Ómissandi ráðherrar eða laun sem enginn vill missa af?
Ómissandi ráðherrar, eða eru launin svona ofsalega spennandi því þau eru með því hæsta sem hægt er að fá, fyrir utan forstjóra á hæstu laununum? Ja, margt fólk er ómissandi í alvöru og í raun sem deyr án þess að fá að blómstra og það er sannkallað tap fyrir okkur hin. Útlendingamálin er gott dæmi um eitthvað sem ráðherrar velkjast með fram og til baka án þess að sátt fáist. Flokkar eru talsvert ósammála, og þrýstihópar samfélagsins í öfgum á sitthvorum endanum, nema mannréttindafólkið vinstramegin miklu háværara.
Í hinum hópnum fer þó fjölgandi, sem vill harðar reglur um landamæri, í samræmi við þróun annarra landa.
Þannig að langfæstir trúa því að þessi stjórn sé algjörlega ómissandi og þurfi að fresta kosningum, hafa þær ekki um vorið á næsta ári heldur haustið. "Kirkjugarðarnir eru fullir af ómissandi fólki" - eins og orðatiltækið segir óformlega.
Verkin sem ráðherrar vinna eru nokkuð svipaðs eðlis sama hver á í hlut, því verið er að taka við því sem fyrri ráðherrar og stjórnir voru með í undirbúningi, eða sem er á stefnuskrám flokkanna, og stórkostleg þjóðþrifaverk eru sjaldan unnin af ráðherrum núorðið, heldur er það algengt að verk þeirra séu í hæsta máta umdeild.
Jafnvel nýjar hugmyndir sem koma með nýju fólki taka oft tíma að komast til framkvæmda, ef það þá gerist yfirleitt. Þannig að ómissandi ráðherrar sem vinna þjóðþrifaverk eru sjaldgæfir, og frekar má líkja þeim við verkamenn sem bifa steinum, sumum til gagns og öðrum til ógagns.
Til eru líka ráðherrar sem eru eins og Sísýfos, sem rogast með grjótin upp fjallið til þess eins að missa þá niður aftur.
Ég held að mikilvægt sé að endurskoða manngildið og hverjir fá hæstu launin.
Mikilvægt er að hjálpa fólki sem lendir í klóm eiturlyfja og sjúkdóma, líkamlegra og sálrænna til að fá heilsu og til að það geti fengið að blómstra og lifa sem beztu lífi. Það yrði öllum til hagsbóta.
Býst við kosningum í september á næsta ári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það var frétt í DV sem lýsti því að þjóðir Evrópu eldast hratt, en fréttin var sérstaklega um Ítala og lækkandi fæðingartíðni þar, sem var lág fyrir. Það sama á við um alla Evrópu og fleiri lönd.
Þegar ég og aðrir umhverfissinnar reyna að sannfæra um hamfarahlýnun þá eru stundum margir sem mótmæla, en stundum eru viðbrögðin engin.
Ef maður hefur menntað sig þar sem framfaratrú er ríkjandi og markaðurinn eða kommúnískur almenningur eða Elíta reddi málunum eða er í ábatasamri vinnu sem byggir á bjartsýni markaðarins finnst manni oft það vera afturhald og niðurrif að vera með heimsendaspádóma á reiðum höndum um hamfarahlýnun. Það er skiljanlegt.
En ef maður tekur allt með í reikninginn, og einnig að vestræn heimsmynd kunni að líða undir lok innan kannski mannsaldurs, og Kína taka við eða Afríka sem auðugustu heimsálfurnar, með nægan mannfjölda, þá spyr maður sig stóru spurninganna, eins og:"Höfum við gengið vegin fram á við til góðs - eða ekki?"
Þá er þessi spurning um hamfarahlýnunina ekki bara spurning um manns eigið egó og sannfæringu (hver hefur rétt fyrir sér tæknilega) heldur börnin og framtíðina, hvað við skiljum eftir okkur, hverjar eru framtíðarhorfurnar?
Svona fréttir slá mig alltaf þannig að hinn ábyrgðarfulli kemur upp sem vill efast um að mannkynið sé á réttri leið.
Varnaglar eru fyrir hendi og hljóma svona: Ein frétt lýsir ekki endilega heimsmyndinni rétt. En... þegar svona fréttir eru orðnar nokkuð alkunnuglegt stef undanfarinna ára fer að myndast hljómkviða svona frétta sem verður nokkuð sannfærandi.
Til er það að fólk geri grín að Grétu Thunberg. Oft fá þeir á sig árásir eru áberandi og skipta máli.
Ef litið er til stærstu málanna, þá kemur í ljós að mannkynið er á rangri vegferð, og maður er meðvirkur ef maður ekki gagnrýnir. Mannkynið gæti dáið út. Spillingin á lífkerfi hnattarins er miklu meiri glæpur heldur en stríð eða glæpir gegn þjóðabrotum.
Sem sagt: UMHVERFISMÁLIN eru stærsta málið.
Til eru hægrimenn sem hafa áhyggjur af því að kristnin deyi út með norrænu og germönsku fólki.
Lausnin er lýðfræðilegs eðlis, að hverfa aftur til fortíðarinnar, til minni tækni og framfara, til sveitalífs, og hafna borgum og tækni. Þá ættu börnin að fæðast fleiri og minni mengun að vera hleypt útí umhverfið.
Þegar maður les svona fréttir:"Hitamet slegið í Austurríki", þá ætti maður ekki að yppta öxlum og láta sér standa á sama. Svona fréttir eru ástæða til að snúa við byggðaþróun á Íslandi, flytja frá Reykjavík og nágrenni í dreifbýlið, segja upp alþjóðasamningum og gera allt til að landið verði sjálfstætt og þjóðin, laus undan hrunstefnu kapítalisma eða öfgavinstrisins.
Orðskýringar, nýyrði: Vekibjalla - wakeup call, sem kallað er svo á ensku.
Hitamet slegið í Austurríki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eitt af því sem er slæmt við tilgangslaust forsetaframboð í Athyglisýkilandi er að það tekur athyglina frá alvöru fréttum. Fólk fer að ræða um hvaða frambjóðandi Elítunnar er skástur, en það skiptir engu máli. Hvaða spotta viltu láta stjórna þér með?
Ef fólk skildi íslenzku vissi það að orðið forseti þýðir sá sem veitir forystu og stjórnar. Að stjórna þýðir að hafa vald til að vera ósammála og breyta um stefnu, gagnrýna. Þetta fólk flest sem er í framboði lýtur aðeins sínum meisturum í útlöndum sem toga í þeirra spotta.
Annað fyrir þá sem misst hafa máltilfinningu sína, athygli er kvenkynsorð og tekur ekkert s í eignarfalli, tengiess er fyrirbæri sem er ekki til nema hjá lýðskrumurum sem vilja tala rangt mál og barnamál. Sýki er einnig kvenkynsorð sem tekur ekkert s í eignarfalli, þannig að þetta þrísamsetta orð er svona rétt stafsett, athyglisýkiland. Þorgils Hlynur vinur minn kenndi mér það.
Alma hætt að íhuga framboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2024 | 00:54
Reykjavík, hið risastóra listagallerí framtíðarinnar?
Dóra Björt pírati fetar í fótspor Dags rækilega. Hún er að gera Hlemm að listasmiðju ásamt öðrum. Hlemmtorgið er mér nú svolítið dýrmætt - í minningunni að minnsta kosti. Ég hef aldrei átt bíl þannig að ýmsar minningar tengjast staðnum.
Ég man eftir pönkurunum á Hlemmi um 1980. Skrýtin hasslykt lá þar oft í loftinu og það sem oft gleymist er að þá var strætó mikið notaður. Áður en mathöllin opnaði voru þar verzlanir, ljósmyndari og sölustarfsemi og þjónusta ýmis.
Mér fannst Íslandi öllu fara aftur eftir 2000 þegar alþjóðavæðingin kom með fólk allra landa á klakann. Þá hvarf innileikinn og fólk fór að leika leikrit sýndarkurteisinnar, fór að setja upp svipleysið og flýja til útlanda, þessi stóri fjöldi sem maður kannaðist við.
Sjálfstæðisflokkurinn er að sjálfsögðu sekur um þetta eins og flestir flokkar. Þar sem gróðinn er, þar eru (Ó)sjálfstæðismenn. Sönn þjóðrækni heyrist í ræðum, en tilheyrir ekki íslenzkum veruleika. Hrunið sjálft, 2008, hefði ekki komið til án alþjóðavæðingarinnar.
Íslendingar eru sveitalegir kjánar sem trúa heimstízkunni, sér til óbóta. Eftir því sem við reynum að verða stórborgarlegri verðum við kjánalegri.
Það eru ýmsir kostir við fjölmenningu, en að glata sakleysi hins einsleitna samfélags er nokkuð sem má taka með í reikninginn.
Fyrir mér er Reykjavík orðin nokkuð framandi fyrirbæri, og fyrir mér verður hún sífellt meira framandi. Ég finn nefnilega mjög sterklega fyrir sterkum tökum Dóru Bjartar og Dags og Einars. Þetta fólk er ekki eins og sjálfstæðismenn sem leyfa öðrum að fara sínu fram, þetta fólk vill skipuleggja umhverfi sitt og hafa áhrif á það, og minnir það á gríska og rómverska einvalda fyrir ævafornu í mannkynssögunni, eða þá egypzku sem vildu eiga um sig dýrmæta minnisvarða.
Þegar frænka mín, sem er listakona, hélt listasýningu fyrir fáeinum árum settist ég inn á (erlent) kaffihús, þar sem aðeins enska var töluð. Ég verð að segja að ég heillaðist nokkuð, maturinn var góður og útsýnið yfir götuna, Skólavörðuholtið. En mér leið eins og ég væri í útlöndum.
Þessir staðir bera oft útlend nöfn. Enska er töluð. Fátt minnir á Ísland. Það er kannski allt í lagi. Ég er ekki endilega að nöldra heldur að lýsa þessu. Ég hreifst í sannleika af því hvað allt var þarna flott, ólíkt subbuskapnum sem var hér áður í Reykjavík, þegar göturnar voru stútfullar af tyggjóklessum og sígarettustubbum og jafnvel glerbrotum eftir bjórdósir og brotnar gosflöskur. Þannig var Reykjavík æsku minnar.
En Reykjavík er mikil geðklofaborg, því húsin eru frá ýmsum tímum og með allskonar útlit og ásigkomulag. Maður er hættur að finna sig í Reykjavík. Hún er samansafn ólíkra eininga með engan heildarsvip eða menningu, nema plastmenningu.
Sumt er flott, annað subbulegt, fullt af veggjakroti, sum hús mega muna sinn fífil fegurri, önnur alveg ný, en þetta er ekki okkar borg, heldur Dags borg. Þetta er einsog risastór skrautfjöður Dags B. Eggertssonar þótt hann sé farinn frá, hans andi lifir þarna enn, Dóra Björt og Einar eru hlýðnispök og virkilega hrifin af hans arfleifð og stefnu.
Embættismenn eru orðnir virkir og allt leikur í höndum þeirra. Leikföngin eru húsin og fortíðin, framtíðin, nútíðin. Þetta er skapandi kommúnismi.
Ég hef eiginlega allt mitt líf verið listamaður. Samt er ég ekki á þeim stað að segja að listin sé fyrir listina, að hægt sé að gleyma sér í algleymi hrifningarinnar yfir list sem ekki hefur merkingu eða þjóðfélagsskírskotun.
Listin finnst mér að eigi að hvetja til góðra verka. Hún þarf ekki að vera fyrirferðarmikil. Nóg er að hún gleðji og vísi rétta leið.
Mér fannst það gott í gamla daga þegar allir kunnu sömu dægurlögin. Það vakti samkennd, og stuð.
Þessi hámenningarborg Dags og eftirmanna hans er furðulegt fyrirbæri. Á þetta að trekkja fleiri ferðamenn til landsins?
Hverskonar túristar sækja svona borgir heim? Ætli það séu ekki ákveðnar manngerðir sem eru mikið fyrir menningu og listir?
Vinstrimenn og jafnaðarmenn hafa verið sigursælir á Íslandi síðastliðin 40 ár, ég verð að gefa þeim það, og ég er óspar á það hrós sem mér finnst fólk eiga skilið, hvort sem ég er sammála stefnunni eða ekki.
Þegar ég gef út hljómdiskana mína á vinyl verða þeir væntanlega meira að skapi vinstrimanna, femínista og jafnaðarmanna. Þótt ég muni nota "demó"upptökur þá mun ég velja lög sem falla meira í kramið hjá Dóru Björt, Degi og öllu því fólki. Ég samdi nóg af þannig efni líka allan minn feril, og geri enn.
Leitt finnst mér bara að hljómplatan "Kata rokkar" sem ég gerði 2019 sé ekki komin út ennþá. Þar leyfði ég mér að vísu að gagnrýna fóstureyðingar, en hverskonar menning er það sem er einhliða og þolir ekki gagnrýni? Hverskonar list er það sem þolir ekki allskonar listamenn, og líka þá sem gagnrýna?
Jú, þannig þjóðfélag er einhverft og meðvirkt, og fer til glötunar án þess að manni leyfist að benda á það.
Listakjarni verði við Hlemm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.4.2024 | 14:37
Fleiri en listamenn sem fá ekki laun fyrir vinnu sína
Mér hefur verið bent á það að óréttlæti hafi það verið gagnvart mér þegar ég hef verið að spila á tónleikum eða í partýjum frítt, og selja diska mína ódýrt, og kann ég þeim beztu þakkir fyrir sem vilja borga eða jafnvel borga vel. Tónlistarmenn sem eru ekki orðnir landsfrægir þannig að þeir lifi á list sinn fá oft að heyra það að ókeypis spilamennska sé kynning. Þannig að maður trúir því og ástandið breytist ekkert, áratugum saman. Þegar maður er að selja lítið yfir langan tíma af hljómdiskum finnst manni það enginn gróði og maður gefst upp, nennir hvorki að láta endurútgefa þá né að gefa út nýtt efni. Það er þetta sem Lilja Alfreðsdóttir hefur verið að benda á og berjast gegn, að listamenn gefist upp, frábært hjá henni.
Ég er ekki langskólagenginn. Eitt af því sem fólk lærir sem fer menntaveginn er að krefjast alltaf launa fyrir vinnu sína - nema í sérstökum tilfellum. Einnig er kunningjastuðningur menntasamfélagsins til að hjálpa, þar eru allir eins, að þetta gengur útá launin að miklu leyti.
Páll Vilhjálmsson hefur oft og mikið fjallað um RÚV og spillingu tengda RÚV eða Blaðamannafélagið og eitthvað svipað. Ég hef eiginlega ekkert skipt mér af því, en vissulega er það rétt að aðhald er nauðsynlegt fyrir þá sem segja fréttir að atvinnu.
En eins og ég hef rakið í pistlum, 1% mannkynsins á 99% auðævanna. Það er greinilega ofrausn og það fólk er gjörsamlega ofmetið, eins og sá ofurauður.
Það er staðreynd en ekki samsæriskenning að vestræn menning byggist á glæpum, eyðileggingu á náttúrunni, blekkingum, rangfærslum, falsfréttum...
Eins og Dylan söng um 1983, peðin komast í kast við lögin en stórlaxarnir fá virðingu og ríkidæmi. Ekkert réttlæti í raun.
Blaðamannastéttin á í vök að verjast, vegna Google og samskiptarisanna.
Ef maður á að spá um framtíðina hlýtur tvennt að vera mögulegt: Annaðhvort styrkjast hefðbundnir fjölmiðlar og risarnir verða veiktir eða dæmdir úr leik, Meta og allt hitt. Eða þá að hefðbundnir fjölmiðlar minnka þannig að þeir leggjast eiginlega af.
En það eru mjög miklar líkur á því að kreppan sem hefðbundnir fjölmiðlar eru í sé ekkert að minnka, einmitt vegna þess að tæknibyltingarnar halda áfram að koma, og bætast við. Fjórða iðnbyltingin, hún er letibylting. Hún býr til enn fleiri letingja, atvinnuleysingja, öryrkja og sérfræðinga í engu, sem jafnvel nenna ekki að mennta sig.
Vill fá laun fyrir formennskuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2024 | 02:32
Síðustu geirfuglarnir og heimsmynd sem breytist
Í tilefni af Nató-afmælinu gerðist sá sjaldgæfi atburður í sjónvarpi núorðið að það var tekið ör-viðtal við herstöðvaandstæðing og Natóandstæðing, og þar kom fram þetta sem mætti oftar heyrast, að viðkomandi taldi að það sama gilti um kalda stríðið og núverandi stríð í heiminum, að hlutleysið sé betri vörn en Nató-aðild og Nató-stuðningur.
Það hefur nú tíðkast mjög lengi að orð manna hafa mismikið vægi eftir því hverjir þeir eru. Þó er ég ekki frá því að það sé eitthvað á undanhaldi og meira sé farið að taka mark á fólki eftir því hversu rétt það er sem haldið er fram frekar en hvaða stöðu það gegnir.
En allir vita hvaða skoðun Björn Bjarnason hefur á þessu eða aðrir dyggðir Nató-stuðningsmenn, en þótt fólk fullyrði í RÚV að Nató sé á blússandi siglingu og eflist og allt það þá er ég ekki svo viss um það. Áður hefur RÚV verið á villigötum með boðskap sem ekki er fjöldans heldur lítils bergmálshellis.
Norðmaðurinn Jens Stoltenberg er hluti af landi sem gjörbreyzt hefur vegna innflutnings fólks frá ýmsum heimshornum. Hans lausn felst í að hanga í pilsfaldinum á Nató-stríðskvendinu mikla. Það er þó skammgóður vermir eða lausn á öllum þeim samfélagslegu vandamálum sem fylgja fjölmenningunni, en það er lausn fyrir einfalt fólk sem vill trúa á einfaldar lausnir.
Almenningur í Bandaríkjunum glímir við fátækt og þar á bæ eru margir orðnir hundleiðir á Nató og að Bandaríkin þurfi að vera ofaní hvers manns koppi til að vera lögregla heimsins, það kostar sitt. Sannleikurinn er sá að heimsmyndin er orðin flóknari þrátt fyrir gríðarleg útgjöld Bandaríkjamanna í Nató, og BRICS er ein helzta birtingarmynd þess.
Evrópa er heimsálfa sem er hrunin í raun, hvað varðar mannfjölda og menningu. Evrópa er rústir einar, því fólkið er að deyja út og menningin að hverfa. Rán og gripdeildir er það sem sjá má, og yfirtöku og sigur aðkominna.
Jens Stoltenberg kemur með gamlar krataklisjur og nýfrjálshyggjuklisjur. Evrópa er veikari í Nató og Bandaríkin eru veikari í Nató. Hvert land í Evrópu væri sterkara eitt og sér, og þótt Bretland hafi lent í örðugleikum vegna útgöngunnar úr ESB, þá var það stórt skref sem gæti vel borgað sig síðar meir.
Ég tek undir með Nató-andstæðingnum í viðtalinu, að friður fæst ekki með stríðsbandalögum þótt þau séu ranglega kölluð varnarbandalög.
Myndir voru sýndar frá mótmælunum þegar Ísland gekk í Nató. Vel má finna að andstaðan við Nató er enn til staðar á Íslandi, þótt Vinstri grænir hafi nú gerzt að minnsta kosti tvöfaldir í roði með framgangi Katrínar formanns í þessari ríkisstjórn í því máli.
Bandaríkin og Evrópa sterkari saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2024 | 01:27
Hvað er forsetalegt?
Það er áhugavert að byrja á bókum - eða handritum, en erfiðara að ljúka við þannig að maður sé sáttur. Ég hef minnzt á bók sem ég eiginlega kláraði 2017 en var samt aldrei fullkomlega ánægður með, taldi hana ekki búna. Ég vildi nefnilega láta hana í hendurnar á öðrum höfundi, til að ljúka við þar sem mér fannst mig skorta þekkingu.
Ég kallaði hana "Leyndarmál frægðarinnar", eftir frægu lagi Bubba Morthens frá 1984.
Margt er gott við þessa bók, en hafi maður fullkomnunaráráttu er maður aldrei sáttur við það sem maður reynir að setja saman. Þekking mín á tónlistarsögunni er léleg þegar kemur að öllum smáatriðum og því veit ég hvað mætti betur fara.
Ég vildi fjalla um þetta mjög vel, en er of latur til að nenna að vanda mig yfirleitt, eða að fara í heimildavinnu, og finn mér alltaf eitthvað að gera, hvort sem það er ómerkilegt eða ekki, og því er ég ekki duglegastur í að hnýta endahnúta og fullkomna.
Ástæðan fyrir því að ég fjalli um þetta óútgefna handrit hér er að boðskapurinn sem ég komst að rímar við forsetakosningarnar núna og þennan mikla fjölda frambjóðenda. Ég var nefnilega að velta því fyrir mér þegar ég var að skrifa þetta óútgefna handrit hversvegna svona margir tónlistarmenn eru til í dag sem njóta lítilla vinsælda, og hvað mætti lesa út úr því almennt, miðað við fáa sem voru frægir eitt sinn.
En ég fjallaði um Bítlana í einum kafla og Bob Dylan í öðrum, enda allir þeir tónlistarmenn stórir og áhrifaríkir, bæði á mig og flesta.
Egóismi er nokkurskonar spegilbrot sem ég nota í gegnum allt verkið, ég spyr mig hvort tónlistarmenn séu reknir áfram af egóisma meira en aðrir, eins og sumir héldu fram. Alla vega heyrði ég það hjá sumu eldra fólki að allir listamenn væru óalandi og óferjandi, eigingjarnir andskotar og sjálfhverfir, bara ónytjungar, líka þeir frægu. Sem betur fer hefur þessi skoðun aldrei verið mjög útbreidd, en talsvert þó.
Maður notar ýmis sjónarhorn til að komast að niðurstöðu.
Síðustu kaflarnir fjalla um nútímann, upplausnina í nútímanum.
Bókin mín óútgefna fjallar um það hvernig tónlistin endurspeglar menninguna og ástand eða hugarástand fólks hverju sinni.
Hvernig var byrjun tónlistarinnar? Tónlist frummanna, hvernig var hún?
Dýrin nota hljóð til tjáskipta.
Þannig að áður en frummennirnir höfðu þróað tal höfðu þeir þróað tónlist, tjáskipti með hljóðum án samtala. Það má teljast alveg fullvíst.
Síðan einhverjum hundruðum þúsunda ára síðar eru komin þróuð trúarbrögð, og þau eru notuð sem afsökun til að kúga lýðinn.
Þá höfum við það sem er andstæða nútímatónlistar, sem er alþýðulist að allmiklu leyti. Barrokkið kom upp 1600 - 1750, og orðið kemur úr portúgölsku, þýðir perla með óreglulegri lögun, eða ofhlaðin tónlist þar sem laglínan gjarnan týnist.
Nútíminn er fullur af upplausn. Eitt sinn var tónlist aðeins leikin við hirðina hjá kóngum og í kirkjum. Að vísu hlýtur fólk alltaf að hafa sungið, en þá var slíkt oft tengt við Djöfulinn, sem holdlegur unaður, alþýðulist.
Ef maður fer aftur til hins heiðna tíma í Evrópu þá kemst maður að því að þá var tónlist hluti af því sem tengdist töfrum og helgihaldi í hofum og hörgum. Bard þýðir söngvaskáld, þetta enska orð hefur einnig íslenzka samsvörun, sem er barði, listamaður eða kveðandi.
Talað var um að gala galdur í norrænni heiðni, og það styður nákvæmlega þessa túlkun.
Vissulega er það rétt hjá fræðimönnum að Ásatrú var farin að vera hnignandi trú við landnám Íslands, að því leytinu til að sennilega var hin óttablandna lotning á undanhaldi fyrir guðum og gyðjum, og þó til staðar, og átti eftir að fylgja Íslendingum, jafnvel á meðan þeir voru kristnir, en þá sem eitthvað bannhelgt fyrirbæri.
Engu að síður má fullyrða það með vissu, að sú lotning sem fólk sýndi tónlist í kirkjunum var arfur frá heiðninni. Ég hef lesið mikið um heiðni, og eitt sem má vera viss um, er að skilin á milli kaþólskrar kristni og heiðinna germanskra trúarbragða eru ekki jafn skýr og sumir halda. Helgisiðir héldust, guðir urðu að dýrðlingum, einkennin erfðust yfir á dýrðlingana, orðtiltæki, sögur um heilaga menn, ævintýri, barnasögur, þjóðsagnir, þetta umbreyttist. Klaustur voru til í heiðnum sið, þar sem einsetufólk í heiðnum trúarbrögðum hafði verið til, og hörgarnir nokkurskonar klaustur, eða bókasöfn heiðna tímans.
En miðstýringin var ekki eins mikil í Ásatrúnni og kristninni, fólk var ekki hrætt eins mikið með Helvítisvistinni og refsingum. Þessvegna munu guðirnir sjálfir hafa ákveðið að láta fólkið verða kristið, og þeir munu hafa litið á það sem siðbót, því þeir sjálfir gáfust upp á mönnunum, sem höfðu orðið afhuga heiðninni, Ásatrúnni og Vanatrúnni.
En eitt sinn var tónlistin notuð sem kúgunartæki. Við höfum ekki heimildir langt aftur í tímann, en getum gizkað á með sæmilegri vissu að þannig hafi þetta verið aftur í grárri forneskju.
Á tímum kirkjunnar í Evrópu var þetta þannig alveg pottþétt. Þekking í tónlist og færni gerði tónlistarmenn að hástéttarmönnum. Þó urðu tónlistarmenn ekki alltaf ríkir, en virtir oft.
Um leið og tölvur eru eign barna og unglinga, fólks á öllum aldri, og þegar þær eru notaðar í stað hljóðvera áður, þá er auðveldara að gefa út eigið efni á netinu.
Bítlaæðið er merkilegt menningarfyrirbæri. Sérstaklega unglingsstelpur misstu meðvitund og æptu úr sér raddirnar af dýrkun. Bítlarnir voru tignaðir sem guðir í mannheimum.
Í handritinu mínu kom ég inná þetta.
Ég lít á mannkynssöguna sem syndafall frá upphafi til enda. Eða það lýtur þyngdaraflinu. Fólk fellur til jarðar, andinn fellur til jarðar.
Ég hef eitthvað lesið eftir Emanuel Swedenborg. Hann er gott dæmi um rammlega kristinn heimspeking sem lýsti hugtakinu synd þannig að það festist í manni og verður manni hugstætt.
Swedenborg ritaði um Stórmanninn. Hann sagði að Himnaríki allt væri Guð sjálfur eða í mynd Guðs og að Helja öll væri í mynd Djöfulsins eða Andkrists.
Ég er forvitinn, og ég las þetta mér til skilnings. Það sem manni fyrst þykir óskiljanleg þvæla verður skiljanlegt þegar maður les betur og lengra, eins og rit Swedenborgs.
Þannig má lesa það útúr ritum Swedenborgs að Helja sé samansafn framliðinna einstaklinga sem láta stjórnast af egóismanum einum saman. Þar þykist hver vera mestur og hver höndin er upp á móti annarri, og Biblían ekki heilagri en bullið úr næsta manni.
Hinsvegar er Himnaríki andstæðan. Þar þekkja allir Biblíuna og elska hana eins og Guð og næsta mann, náungann. Þetta meikar sens og er skynsamlegt og rökfræðilega rétt, þótt ótrúlegt megi virðast.
Það er nefnilega þannig að ef maður hlustar á það sem sannkristnir segja og ef maður er ekki of kristilega þenkjandi finnst maður frelsunartal og frelsaratal órökrétt og eitthvað sem aðeins bilað fólk lætur útúr sér.
Swedenborg er allt annað mál.
Þetta verður skiljanlegt hjá honum.
Við vitum það alveg hvernig góð samfélög eru, þar sem kærleikur er ríkjandi og þar sem fólk fer eftir sameiginlegum reglum.
Þessvegna finnst mér frambjóðandi eins og Arnar Þór vera góður frambjóðandi og sýna embættinu virðingu, en ekki þeir sem gera það aðeins til að fá athygli og gera grín að því.
Sennilega er mannkynssagan ekki beint fall niður á við, heldur stöðug jójóganga á milli Himnaríkis og Helju.
En niðurstaða mín í bókinni "Leyndarmál frægðarinnar" er sú, að mannkynssagan stefnir að sífellt meiri satanisma og egóisma. Við erum að missa samstöðuna og heilagleikann, í staðinn kemur egóisminn.
Bítlarnir opna dyrnar, Presley gerði það líka og Bubbi Morthens, en talan er 666, tala mannsins.
Kúgun og einveldi er viðhaldið þegar ytri skilyrði eru hörð, þegar fólkið er svo þjáð og hungrað að það sættir sig við kúgara, ef þeir með svipuhöggum og ofbeldi koma á skipulagi.
Tónlistarkonan Laufey, sem er hálfasísk er mjög merkilegt tímanna tákn, því hún kemur fram með poppaða jazztónlist sem minnir á tónlistina um 1930 - 1950, en bara í miklu betri hljómi. Hún er virkilega fær tónlistarkona og ég tel mig vera aðdáenda hennar, en það sem er svo merkilegt við hana er að hún opnar glugga og dyr til fortíðarinnar aðallega en ekki til framtíðar aukinnar tölvutónlistar, og það finnst mér svo gott og mannbætandi.
Þar sem hæfileikar fá að njóta sín þar erum við ekki að tala um upplausn heldur að fólk njóti raunverulegra hæfileika, eins og hún.
En þegar sumir tónlistarmenn - og aðrir listamenn - slá í gegn er það augljóslega hið egócentríska og sataníska vald sem þar brýzt fram og sem á eftir að gegnsýra alþýðuna áratugina þar á eftir. Laufey held ég að sé ekki þannig, heldur himneskur sendiboði góðmennsku og hæfileika. Enda engin vantþörf á í samtímanum.
Jazztónlistin var að vísu upphaflega tengd "diabolus in musica", ómstríðum tónbilum og nýjungagirni sem bryti upp allt fegurðarskyn.
En Jón Múli Árnason til dæmis samdi fallegar poppjazzlaglínur einsog Laufey og bræddi þetta tvennt saman? Bræðingur, fusion? Ekki kannski alveg, heldur poppjazz, myndi ég segja frekar, lagrænn jazz, ekki framúrstefnujazz.
Ég kynntist tónlistarmanninum Eyjólfi Þorleifssyni 2011, og fór þá að veita jazzinum meiri athygli.
En jazzinn hentaði mér ekki vel, því ég týndi mér í honum. Mér fannst of freistandi að búa til ólagræn verk.
Sú niðurstaða sem ég fann 2017 er ekki eina niðurstaðan við þeirri spurningu hvert leyndarmál frægðarinnar er. Þó er sú niðurstaða gild, svo langt sem hún nær.
Niðurstaðan er þessi:
Í mörgum tilfellum dýrkar fólk listamenn í eigingjörnum tilgangi, ef listamennirnir standa fyrir lægri siðferðisstaðal en samfélagið allt (eða foreldrar, virðulegri einstaklingar þjóðfélagsins og harðari), þótt ekki sé nema að litlu leyti.
Svo dæmi sé tekið er fíkniefnaneyzla gott dæmi um þetta.
Tónlistarmaður getur þannig verið dyr sem opnast fyrir fjöldann að lögleiðingu fíkniefna, húðflúra og líkamsskrauts, eða lauslætis eins og á hippatímanum.
Nú er forsetaembættið notað á sama hátt, til að afhelga það, og gera það að leikvelli fyrir alla sem vilja láta á sér bera.
En niðurstaðan í óútgefnu bókinni minni frá 2017 er ekki endilega alltaf rétt og algild. Menningin stefnir ekki þráðbeint niðurávið til Heljar án hlykkja og króka fram og til baka og jafnvel uppávið öðruhvoru. Það sé ég af nýju tónlistarfólki sem ég lít upp til, Laufey er gott dæmi.
Hvernig er hægt að rökstyðja að margir vilji nota Bessastaði sem leikvöll fyrir egóið sitt? Tja, ég held að það komi vel í ljós með orðum og verkum.
Jón Gnarr þolir ekki mannanafnanefnd.
Þótt hún geti farið í taugarnar á mörgum, þá er hún að minnsta kosti hluti af menningunni.
Ef við missum beygingar, að kenna okkur við föður og annað, og loks alveg íslenzkuna, þá höfum við næstum misst öll okkar sérkenni sem Íslendingar.
Þessvegna get ég ekki sagt að Jón Gnarr sé forsetalegur að þola ekki ýmislegt sem virðulegur forseti ætti að standa með og telja mikilvægt.
Sumir tala um að forsetinn eigi að vera forseti allra. Jú, er það ekki augljóst? En föðurímynd má vera virðuleg og harðneskjuleg, eitthvað sem litið er upp til og sem lengi er verið að læra hvernig er og hvernig hægt er að fara eftir sem bezt.
Þannig forseti getur verið forseti allra, ef hver hönd er ekki upp á móti annarri. Fólk verður að koma sér saman um eitthvað í stað þess að allir segi: "Ég má, ég get, ég vil..."
Þetta verður spennandi. Útkoman mun sýna hvernig þroskastig þjóðarinnar er að þessu sinni.
Flestir vilja sjá Baldur á Bessastöðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2024 | 00:55
Þríeykið sem kannski mun berjast, Katrín, Jón Gnarr og Baldur
Er ekki tími Jóns Gnarrs sem pólitíkusar liðinn? Er ekki líklegra að vinstrafólkið vilji heldur Katrínu eða Baldur sem forseta? Er ekki meiri sátt um þau tvö?
Sennilegt að Katrín bjóði sig fram, verði forseti, (eða Baldur eða Jón Gnarr), boðað verði til alþingiskosninga í haust, vegna þess að samheldnin er öll á yfirborðinu hjá stjórninni, undir niðri kraumar óánægja. Þrennar kosningar, biskup, forseti, ríkisstjórn.
Það eina sem heldur aftur af Katrínu er sennilega hættan á að stjórnin springi án hennar. Hvaða gagn er að halda því saman sem er svo trosnað og að falli komið?
Hvaða heiður er eftir í þessari ríkisstjórn? Segir það ekki söguna alla að Vinstri grænir hafa misst fylgið niður í 6% og Sjálfstæðisflokkurinn líka orðinn minni en oftast áður?
Ef Baldur Þórhallsson verður forseti eða Jón Gnarr, þeir hafa svo sem mikið persónufylgi báðir og Katrín helzt gæti ógnað þeim, þá mun þessi ríkisstjórn tæplega fá góð eftirmæli. Kannski myndi hún fá skárri eftirmæli ef henni verður slitið og boðað til kosninga í haust, og ég held að það sé vilji landsmanna flestra, miðað við lítið fylgi hennar.
Ég er hættur að skilja þrjózkuna í þessu fólki að halda áfram í óvinsælli ríkisstjórn. Þau lifa í sínum eigin heimi og segja ríkisstjórnina hafa starfað vel saman og ekkert sé að. Þau álíta að sé sama lygin sögð nógu oft, og séu þau sjálf nógu raunveruleikafirrt þá geti þau breytt raunveruleikanum og fólkinu sem vill koma stjórninni frá, mjög stór hluti Íslendinga, meirihlutinn jafnvel.
Oftast hafa þó stjórnmálamenn unnið sig upp í áliti hjá almenningi með því að viðurkenna lélega stjórnsýslu hjá sér, með því að segja af sér og breyta sér.
Hvort álítur Katrín að tilgangur sinn sé að þjóna fólkinu eða drottna yfir fólkinu og hljóta persónuvinsældir fyrir (sem nú eru orðnar mun minni en áður)?
Það sem ég skil ekki er þetta, hvernig ættu Vinstri grænir að fá mikið fylgi á einu ári, með því að þrauka í ríkisstjórninni í eitt ár í viðbót? Hvað geta þessir pólitíkusar gert fyrir fólkið til að auka vinsældir sínar?
Maður sér þríeyki teiknast upp sem gæti tekið forystu í vinsældum, Katrínu J., Baldur Þ. og Jón Gnarr. Arnar Þór Jónsson hefur fylgi úr hægraliðinu og hlýtur að veita þeim talsverða samkeppni. Sjálfstæðisflokkurinn fær alltaf betri kosningu en skoðanakannanir sýna og hans fylgi gæti verið vantmetið einnig þannig. Katrín, Gnarrinn og Baldur eru öll að fiska á sömu vinstrimiðunum þannig að þau hljóta að ræna atkvæðum og kjósendur hvert frá öðru en varla frá Arnari Þór sem er á hinum endanum á litrófinu, hægramegin.
Katrín er kannski skásti kosturinn fyrir hægrafólk af þeim þremur og því mun hún fremur fá fylgi hvaðanæva að frekar en hinir tveir, og jafnvel sigurstranglegust allra.
Tími Ástþórs er þó virkilega kominn núna, finnst mér, því Úkraínustríðið og Gazadeilurnar sýna okkur fram á mikilvægi hans sem forseta og boðbera friðar í heiminum. Ekki virðist þó almenningur á Íslandi fatta þetta enn.
Það væri hugleysi af Katrínu að hella sér ekki í slaginn, og varla gróði fyrir Vinstri græna að þrauka í skipi sem er alveg að sökkva, og fólk vill nýtt.
En hvort sem hún býður sig fram eða ekki eru mjög miklar líkur á húmanískum forseta á borð við Baldur eða Jón Gnarr.
Jón Gnarr býður sig fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef verið að laga Onkyo TA 2330 segulbandstæki sem ég á, eða fá úr því betri hljóm öllu heldur með. Þetta tæki keypti ég held ég í Sportmarkaðnum fyrir alllöngu, 20 árum eða svo. Oft þarf að skipta um reimar og smyrja.
Ég hef verið að taka upp á snældur Jokerman til að auka bassaupptökuna, fyrsta lagið á "Infidels" frá 1983 eftir Dylan. Enn er ég að lesa tvær bækur um tónlist, "Surviving In A Ruthless World", um Infidels eftir Dylan, og "Born to Run", ævisaga Bruce Springsteen í skemmtilegri þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.
Þessa færslu langar mig að hafa um lagið "Jokerman" aðallega, en margt annað vekur áhuga minn.
Eftir að hafa lesið allmikið í ævisögu Springsteen finnst mér rétt það sem menn hafa sagt, að hann er sagnamaður, og minnir á Woody Guthrie og bókina "Bound for Glory", sem er sjálfsævisöguleg skáldsaga og ævisaga í bland, sem hefur hlotið allmikið lof. Hún kom út fyrst árið 1943.
Heillandi er að lesa hvernig Springsteen lýsir ævi sinni. Maður nefnilega upplifir þetta venjulega og sammannlega í ævisögunni, og getur skilið hann betur, en hann var einn af þessum tónlistarmönnum sem ég hlustaði á ungur en náði ekki að tengjast sál hans þannig að ég skildi hann og innlifði mig í verk hans á sama hátt og til dæmis Dylans og Megasar, og nokkurra annarra.
Annað er mjög merkilegt við bókina "Fæddur til að flýja (eða hlaupa)." Það er að Bruce Springsteen hefur notað svo margt í ævi sinni til að herðast og keppast að markmiðinu og ekki gefizt upp, sem sagt, að hann hefur unnið fyrir frægð sinni með þrautseigjunni auk hæfileikanna.
Takk Magnús, þetta er fróðleg bók.
Þau eru mörg segulbandstækin sem ég hef safnað sem eru orðin útboruð því ég hef sett aukaleg stilliviðnám í þau. Ég er að spá í að láta einhver fjúka á haugana, og vil kannski taka til, og þarf því að vita hvað af þessu er skást og virkilega gott. En jafnvel tæki sem líta ekki vel út geta hljómað frábærlega vel, eftir að maður hefur lóðað viðnám og þetta rétta við, sem bæta hljóminn.
Einnig er það svo að ef gúmmíhjól og aðrir vélahlutir virka vel skiptir engu hvort eitthvað útvortis sé brotið eða laskað, ef tækið hljómar frábærlega er það fyrir mestu, ekki útlitið.
Flatur hljómur eða flöt tónjöfnun var nokkuð sem framleiðendur hljómtækja kepptust nokkuð eftir sérstaklega eftir 1980.
Til að skilja þetta þarf maður svolítið að skilja þróun hljómtækja og hvað HIFI stóð fyrir upphaflega.
Snemma á 20. öldinni voru notaðir dýnamískir hljóðnemar aðallega, eða kraftrænir. Þeir eru sennilega algengastir enn. Þeir eru eins uppbyggðir og hátalarar að mestu leyti, ein þynna sem verður vör við titring hljóðbylgna, sem sendir rafskilaboð, þar sem þynnan víbrar og er föst við vafning af vírum, einangruðum eins og í spennubreyti, í sívalningi utan um segulstál, eins og í hátalara.
Munurinn er sá að kraftrænn, dýnamískur hljóðnemi, er byggður með mjög næmu plastbyrði og fíngerðu sem víravafið hvílir á, eða á öðru efni, sem titrar við minnsta hljóm, en hátalarar þurfa sterkari sívalning til að víbra á, svo þeir springi ekki af kraftinum sem þeir gefa frá sér.
Hvað sem því líður þá eru eiginlega allir kraftrænir, dýnamískir hljóðnemar takmörkunum háðir. Þeir gefa jafnan frá sér nokkuð annan hljóm en samþjappaðir/þétta (condenser), hljóðnemar, eða rafrænir hljóðnemar.
Kraftrænir hljóðnemar voru fundnir upp á 19. öldinni, en þeir rafrænu snemma á þeirri 20., en urðu ekki algengir fyrr en talsvert síðar, eða eftir miðja 20. öldina.
Lo-Fi hljómurinn svonefndi var algengur á upptökum fram til um það bil 1950, en Hi-Fi hljómurinn fór að verða til eftir það, sem er skilgreindur suðfrír hljómur þar sem öll tíðnin fær að njóta sín sem fór getur heyrt, eða næstum því. Lo-Fi stendur fyrir lág-gæði og Hi-Fi há-gæði (í hljóm).
Segulbandstækjaframleiðendur voru því að keppast um sem mest Hi-Fi gæði, en nú er þetta orðið öðruvísi, því fólk hlustar mikið á þetta í tölvum eða heddfónum, höfuðtólum. Þar er reynt að hafa gæðin sem mest að vísu einnig, en upplifunin af því að hlusta á tónlist úr þykkum og stórum hátölurum er að vísu önnur.
Flöt tónjöfnun býður uppá lítið suð, því það kemur helzt í hliðrænum tækjum þar sem hátíðnin er ýkt og mögnuð, en það er umhverfissuðið sem veldur því, og ýmis aukahljóð sem við heyrum ekki endilega svo vel án mögnunar tækjanna.
Stafræn mögnun hefur boðið uppá suðfríari tónjöfnun og magnara, en það hljóð er oft kallað sterílíserað og ónáttúrulegt, eða sótthreinsað. Það byggist á því að endurskapa aðeins hluta náttúrulegs hljóðs, en sleppa öðru, eins og suðinu. Það kemur öðruvísi út.
Allavega, öll þessi heimilissegulbandstæki sem eru algeng byggjast á analogue, hliðrænni tækni. Hitt er aðeins fyrir spekúlanta og sérvitringa með býsna rúm fjárráð. Það hafa víst verið framleidd stafræn segulbandstæki af ýmsum lítt þekktum tegundum, og DAT (smáar, stafrænar spólur) náði allnokkurri útbreiðslu og einnig ADAT, (stafrænar hljómsnældur sem líta út eins og myndbandsspólur) en ekki þannig að það ryddi burt snældum af hliðrænu tegundinni. Nú er slíkt einnig orðið fátítt vegna netbyltingarinnar, að tölvur eru látnar spila þetta eða símar.
Fyrsta græjan mín var Crown SHC 6100, sem ég fékk í fermingargjöf. Nokkrum árum síðar eignaðist ég Crown SHC 5500, vönduðustu tegundina, sem ég keypti í Sportmarkaðnum.
Crown SHC 6100 var á markaðnum frá 1981 til 1984, og selt með SHC 6200 og SHC 6300 og fleiri tegundum. Crown SHC 5500 var á markaðnum frá 1977 til 1980, og þótti mjög vönduð græja og var sú dýrasta frá þeim.
Hugmyndin á bakvið Crown SHC 5500 var að almennur neytandi fengi bæði að hljóðrita tónlist og hlusta á tónlist sem nálgaðist hljóðverin rándýru. Það gerði Crown fyrirtækið með öðrum hætti en aðrir framleiðendur, sem sóttust eftir flatri tónjöfnun.
Jafnvel í Crown SHC 6100 mátti heyra dýpri bassahljóm en í mörgum öðrum hljómtækjum. Það var þó ekki fyrr en ég fór að taka upp með hljóðnema mína eigin tónlist sem metnaður minn vaknaði í þessu efni.
Segulbandstæki hefðbundin hljóðrita og afspila hliðrænt eins og ég kom inná fyrr í þessum pistli. Sú tækni þýðir að reynt er að hljóðrita ALLT sem heyrist, öll umhverfishljóð, og skila því eins nákvæmlega til baka og hægt er. Stafræna tæknin gengur útá annað, að búa til gervihljóð sem er fullkomið og suðfrítt. Smekkurinn er misjafnt hvort fólki líkar vel við það.
90% af öllum segulbandstækjum frá 1968 til 2000, þegar þau fóru að detta út af markaðnum, eru þannig gerð að þau hafa afspilunina frekar þannig að bassinn er ýktur, en upptakan er ekki sem sterkust á því tíðnisviði. Þetta var sennilega gert til að spólur sem keyptar voru af opinberum hljómplötuútgáfufyrirtækjum hljómuðu vel.
Jafnvægi verður þó að nást, og var einnig keppt að því.
Til dæmis, ef almennur kaupandi keypti Bítlaplötu á snældu, vildi hann að sitt einkasegulbandstæki spilaði af henni vel, og að hún hljómaði ekki mikið síður vel en hljómplata frá sama tíma.
Öll segulbandstæki sem taka upp hafa að minnsta kosti tvær hljómjöfnunarrásir, aðra við upptöku og þá seinni við afspilun. Stundum er að vísu sama rafrásin notuð, að næstum öllu leyti. Það var þó sérlega algengt fram til 1982, þegar skiptarnir fóru að detta út. Það voru sleðar, þar sem skipt var úr upptöku í afspilun.
Af því að tækin hafa tvær hljómjöfnunarrásir (misjafnlega afstilltar á hvorn veg) þá er hægt að breyta tónjöfnun bæði með upptöku og afspilun.
Framleiðendur vissu að fólk vildi að afspilunin væri góð. Því var áherzla lögð á að afspilun skilaði nokkuð góðum bassahljómi og allri tíðninni. Fólk notaði þessi snældutæki síður til að taka upp heima, en það varð þó algengara upp úr 1978, þegar hljómkröfurnar fóru að aukast og gæði hljóðsnældanna sjálfra sem óáteknar voru seldar.
Einmitt um svipað leyti fóru því framleiðendur að bæta við Dolby suðeyðingarmöguleika í þessi tæki. Upphaflega var notað Dolby-B kerfið, sem var einfalt, miðað við Dolby-A kerfið, sem var notað í upptökuverum, var flóknara og ekki fyrir almenn heimilistæki.
Dolby C þóttu beztu tækin uppúr 1981, en það var algengt að slík tækni væri notuð til 1988, þegar fleiri tegundir af Dolby suðeyðingu bættust við, eins og Pro, HX og fleira.
En aftur að Crown SHC 5500. Þetta er nokkuð sérstakt tæki miðað við markaðinn á þeim tíma. Sem sé, upptakan gefur góða bassadýpt, en minni áherzla er lögð á miðtíðni og hátíðni. Þetta er af sérstökum ástæðum sem ég get rakið hér á eftir, því ég hef átt mörg svona tæki og rannsakað þau vel, haldið mikið uppá þau.
Crown SHC er með formögnun í plötuspilara sem gefur mjög víða jöfnun, og svo aftur í kraftmagnara, mikill styrkur í djúpriðum, 80hz og jafnvel neðar. Plötuspilarinn er með frábærum formagnara, sem gefur svo mikið "búst" eða aukastyrk frá 50-150hz að það heyrist, og allt verður flottara fyrir vikið, og þetta var fyrir tíma "boomboxanna", sem unglingarnir gengu með á herðunum og varð tízkubylgja uppúr 1980, og rapparar og fleiri hafa notað.
Á sama tíma er tónjafnarinn sjálfur mjög sérstakur í þessu Crown tæki eins og mörgum. Það er að segja, BASS takkinn tekur ekki við sér fyrren nálægt í botni, en þá verður styrkurinn líka mjög mikill. Miðtíðnin verður þá útundan. Sé BASS takkinn lágt stilltur heyrist þó miðtíðnin vel.
Þannig að spólur foruppteknar frá útgefendum hljóma nokkuð vel, en bassinn kemur ekki frá formagnara afspilunarsegulbandsins heldur meira frá tónjafnaranum sem er notaður fyrir plötuspilara og útvarp einnig.
Þetta leiðir til þess að þegar tækið tekur upp þarf upptakan að innihalda aukalegan bassa, þar sem afspilunin inniheldur minni bassa en venjulegt er.
Sem aftur leiðir til þess að spólur uppteknar í Crown SHC 5500 hljóma öðruvísi en í flestum hljómtækjum, eða með meiri bassa.
Segja má að ég hafi orðið tónlistarmaður einnig vegna þess að ég hreifst af þeim hljómi sem ég fékk, hann var ekki flatur heldur víður. Jafnvel úr snældum, og ekki sízt. Það var Crown fyrirtækinu að þakka og þessari sjaldgæfu og sérstöku hönnun, eða meðal annars að minnsta kosti, þótt fleiri þættir hafi einnig komið til, einsog klapp á tónleikum, grúpppíur og athygli frá jafnöldrum og hrós.
En nú að laginu "Jokerman" eftir Bob Dylan.
Í bókinni "Að lifa af í ruddalegum heimi" eftir Terry Gans kemur margt nýtt og merkilegt fram.
Hann fjallar nákvæmlega um hvert einasta lag á plötunni og rannsóknarvinna hans var frábærlega góð.
Það kemur í ljós eftir lestur á bókinni að lagið "Jokerman" er fyrsta lagið sem Bob Dylan tók upp stafrænt og fullkomlega með þeirri tækni, þannig að hann gat leikið sér meira í hljóðverinu, eins og Bítlarnir gerðu löngu fyrr, en ekki hann.
Þannig að upptakan sem birtist á plötunni er samsett, og svo mjög samsett að engin hljóðritun er til af laginu eins og það heyrist á plötunni, heldur aðeins bútar þess lags sem heyrist á plötunni. Enn fremur, þá breytti Dylan jafnvel textanum eftir að upptökunum lauk í maí 1983, og hann tók röddina upp aftur og aftur og aftur, með breyttum texta, æ ofaní æ.
Þá loksins var þessu skeytt saman. Það er að segja, ekki allur söngurinn var tekinn upp aftur, bútar frá upptökunum í apríl 1983 voru notaðir, en margar breytingar gerðar.
Dylan hafði svo sem tekið upp hljóðfæri aðskilin, að sjálfsögðu áður, en aldrei í svona púsluspili áður.
Þannig að þegar hann var kominn með texta hljóðritaðan sem hann var ánægður með, í júní 1983, þá var bætt við hljóðfærum aftur, sömu hljóðfæraleikarar notaðir. Yfirbreiðsla er gott orð yfir overdub á ensku, orðið sem notað er yfir þetta. Nýjar upptökur eru breiddar eða lagðar yfir þær gömlu.
Hlusti maður á upptökurnar frá apríl 1983 að Jokerman heyrir maður því brot af laginu, en yfirleitt voru lögin oft tekin upp.
Bob Dylan er svo sem frægur fyrir að hafa langoftast tekið upp "læf" í hljóðverinu, eða lifandi, með hljóðfæraleikurum í öðrum klefum, og notazt við fremur fáar tökur. Þarna er hin stóra undantekning. Þetta náði hámarki með "Empire Burlesque" 1985, en hún fékk vonda gagnrýni fyrir að vera of vönduð og hljóðblönduð, yfirpródúseruð, og með alltof mikið af effektum og hljómborðum, (hljóðgervlum).
Frá og með 1992 og plötunni "Good As I Been To You" fór hann aftur í einfaldari og lífrænni upptökutækni og hefur haldið sig við hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2024 | 00:35
Hin raunverulegu X-skjöl Svíþjóðar? Magnús Skarphéðinsson er sá sem safnað hefur slíkum gögnum á Íslandi
Það er ánægjulegt að fleiri þjóðir en Bandaríkin haldi svona frásögnum til haga. Þær eru víst til í öllum löndum, og sumir túlka álfasögur og huldufólkssögur sem sögur framandmannvera.
Eitt sinn kynntist ég Magnúsi Skarphéðinssyni, sem er áhugamaður um allskyns dulræn málefni og landsþekktur sem slíkur. Einnig komst ég að því að hann er sá Íslendingur sem er einna fróðastur um fljúgandi furðuhluti á Íslandi eða við Ísland. Ekki nóg með það heldur hefur hann með skipulögðum hætti safnað frásögnum fólks af þeim atburðum. Hann er alltaf fenginn í fjölmiðlana til að tjá sig þegar sjónvarpsstöðvarnar eru með þetta í fréttum. Hann er einn helzti opinberi og landsfrægi talsmaðurinn um þetta.
Ég hvatti hann til að gefa út bók um þetta og svo hef ég hvatt hann til þess aftur þegar við höfum hizt. Það mun hafa verið lengi í bígerð hjá honum og vonandi verður úr því. Þessar frásagnir sem hann á gætu fyllt meira en eina bók, en hann vill gera þetta vel.
Hér í fréttinni kemur fram að fólk telji sig hafa heimsótt tunglið og Júpíter. Það mun vera rangtúlkun. Það lærir maður sem Nýalssinni. Ég kynntist Magnúsi Skarphéðinssyni einmitt í sambandi við áhuga okkar á dulrænum málefnum og að báðir höfum við tengsl við Félag Nýalssinnar, byrjuðum þar ungir, hann þó á undan mér og því ekki á sama tíma heldur með margra ára millibili.
Kenningar dr. Helga Pjeturss eru nokkuð víðfeðmar og því er ekki hægt að gera þeim öllum skil í stuttum pistli eins og hér. Þetta með tunglið og Júpíter er þó nokkuð mikið á hreinu hafi maður lært þau fræði.
Draumakenning dr. Helga Pjeturss eru kannski miðjan í hans fræðum. Hún útskýrir sambönd lífvera í geimnum, "draumur eins er ævinlega vökulíf annars, sem einhversstaðar er vakandi í geimnum," eins og er nokkurnveginn orðrétt haft upp úr bókum hans.
Eins og sú kenning kemur inná þá eru rangtúlkanir algengar í draumum. Þegar fólk telur sig dreyma skyldmenni er í raun um aðra einstaklinga að ræða, sem hafa svipað útlit, en draumþeginn breytir útlitinu með skynjun sinni og vökuvitund, og telur að um sitt skyldmenni sé að ræða, eða sama umhverfi og þekkt er úr vökuvitundinni.
Dr. Helgi Pjeturss skrifaði um það í Nýal áður en flestir aðrir höfðu gert sér fulla grein fyrir því, að tunglið væri ekki byggt mönnum og að kenningar um Marsbúa eða tunglbúa væru sennilega þvæla. Þetta reyndist rétt. Skurðina á Mars taldi hann einnig tilkomna vegna þurrka, og sprungins landslags, sem einnig reyndist rétt. Þetta skrifaði hann í upphafi 20. aldarinnar, og þetta var staðfest síðar af fleiri vísindamönnum.
Á sama tíma og dr. Helgi Pjeturss efaðist um tilvist Marsbúa, og var nokkuð viss um að þeir væru ekki til, var fólk almennt skíthrædd við Marsbúa, sérstaklega á Vesturlöndum þar sem reyfarar um slíkt höfðu komið út.
Leikstjórinn snjalli Orson Wells vakti einna fyrst athygli með útvarpsleikriti sínu, "Innrásin frá Mars", sunnudagskvöld eitt í október 1938, í New Jersey í Bandaríkjunum.
Ofboð og skelfing greip um sig meðal fólks sem taldi þetta fréttir en ekki leikrit. Svo raunverulegt var þetta. Ýmsir flúðu heimili sín og keyrðu út í óbyggðirnar til að flýja frá Marsbúunum.
Þessi skelfing sem greip um sig meðal fólks árið 1938 út af leikriti um Marsbúa sýnir múgæsingu. Hún sýnir og sannar enn fremur að almennur ótti var við Marsbúa á Vesturlöndum, og ekki bara það, heldur virðist stór hluti fólks hafa trúað á að þeir væru til.
Aldrei kom það svo til tals meðal málsmetandi manna á þeim tíma að Júpíter væri byggður mönnum, enda gasrisi, en þarna í Svíþjóð eru einhverjar slíkar frásagnir eins og kemur fram í fréttinni. Slíkt töldu vísindamenn þó fráleitt og því er víst að dr. Helgi Pjeturss hefði aldrei tekið það í mál að Júpíter væri mannabústaður neinn.
Nöturlegt er til þess að hugsa að þessi rökfasti og skynsami maður, dr. Helgi Pjeturss var þó talinn klikkaður af sumum fyrir að halda því fram að geimurinn væri allur fullur af lifandi verum, bara miklu lengra í burtu. Þeir fordómar sem hann mætti fyrir þær kenningar voru eins heimskulegir og að trúa því að tunglið eða Júpíter væri byggt fólki. Enda hefur það komið í ljós að líkurnar á lífi órafjarri jörðinni eru sífellt að aukast eftir því sem fleiri reikistjörnur finnast með sólstjörnunum fjarri.
En samkvæmt Nýalsfræðunum eru það rangtúlkanir þeirra sem skynja þetta sem telja sig hafa farið til tunglsins eða Júpíters. Það munu vera fjarreikistjörnur annarsstaðar sem kannski bera svipuð nöfn, og sýngjafarnir hafa því veitt upplýsingar sem þannig eru ranglega túlkaðar af sýnþegunum.
Það gleður mig að almennur áhugi er á þessu eins og fréttin ber með sér. Íslendingar urðu þó forystuþjóð í þessum málum þegar dr. Helgi Pjeturss fór að rannsaka þetta, en snillingar eins og hann eru ekki á hverju strái, og því ekki auðvelt að halda áfram á þeirri sömu braut, en það hefur verið reynt í Sálarrannsóknarfélagi Magnúsar Skarphéðinssonar, í Félagi áhugamanna um stjörnulíffræði, sem Atli Hraunfjörð stýrði með sæmd lengi, en hann er látinn, og Félagi Nýalssinna sem enn er starfandi, upprunalega félaginu sem var stofnað 1951.
X-files var þýtt sem Ráðgátur í RÚV, og sýndar frá 1993 - 1997, en frá þeim tíma á Stöð 2. Það voru fyrirtaksþættir um þessi málefni, þótt þeir hafi verið nokkuð ýktir á köflum, en þeir gerðu þetta að tízkufyrirbæri meðal fleiri einstaklinga, og vöktu mikinn áhuga á þessum málefni.
Margir efast um að geimverur séu til, en við erum geimverur. Það er því ekki gott orð yfir aliens, en það enska orð þýðir útlendingur eða framandvera. Því er betri þýðing að kalla þetta framandverur, eða geimverur eða utanheimsverur.
Dr. Helgi Pjeturss var mjög rökfastur maður, en hann fór að rannsaka mál sem fólk hló að og efaðist um, eða taldi að yrðu alltaf á sviði trúarbragðanna. Hann var því einnig mjög hugrakkur maður, að veigra sér útá það svið.
Skjalasafn hins óútskýrða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.1.): 3
- Sl. sólarhring: 134
- Sl. viku: 716
- Frá upphafi: 133622
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 557
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar