Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Jón Baldvin, hrunið og Silfrið



Jón Baldvin Hannibalsson er mjög orðhvass maður einsog alþjóð veit á Íslandi. Þótt mér finnist Egill Helgason skemmtilegur spyrjandi og þáttastjórnandi oft, þá undrast ég á silkihanzkameðferðinni sem sumir fá í þáttum hans, Jón Baldvin er einmitt eftirminnilegasta dæmið um þetta.
    Ég er þeirrar skoðunar að jafnaðarmenn og vinstrimenn eigi þátt í hruninu ekkert síður en sjálfstæðismenn og aðrir hægrimenn. Það er auðvitað ekki að undra þótt Jón Baldvin sé ekki sammála þessu, sá mikli krati, en það er eftirtektarvert hvernig hann gerir sem mest úr hlut Davíðs Oddssonar, síns fyrrverandi samráðherra í hruninu, og annarra sjálfstæðismanna. Hann vill greinilega helzt sópa því undir teppið að hann átti sjálfur þátt í aðdraganda þessa mikla harmleiks.
    Auðvitað er það rétt að hann hefur sjálfsagt borið litla sem enga ábyrgð á einkavæðingu bankanna (eða milljónamæringavæðingu þeirra og útrásarmannavæðingu þeirra kannski öllu heldur), eða spillingarvæðingu embættiskerfisins og eftirlitskerfisins, en hann átti hins vegar stóran þátt í þeim umdeilanlegu breytingum sem urðu með inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið og þátttöku Íslands í Schengen samstarfinu því beint eða óbeint í framhaldi af því.
    Jón Baldvin hefur þá skoðun að Íslendingar hefðu aldrei gengið í gegnum bankahrunið og efnahagskreppuna ef þeir hefðu verið komnir í Evrópusambandið. Það þarf nú ekki að líta lengra en til Írlands til að komast að því að lönd lenda í bankakreppum og efnahagshruni þótt þau séu í Evrópusambandinu.
    Svo hafa aðrir velt upp þeim merkilega flöt að ef Íslendingar væru ekki í Evrópska efnahagssvæðinu eða Schengen samstarfinu hefðu þeir heldur ekki lent í bankahruninu og efnahagskreppunni. Hvernig má rökstyðja þetta?
    Jú, hvernig sem Eiríkur Bergmann eða skoðanasystkini hans halda því fram að hrunið sé ekki tilkomið vegna lélegra Evrópusambandsreglna, þá stendur það eftir að inngangan í Evrópska efnahagssvæðið og þátttakan í Schengen samstarfinu gerðu það að verkum að unnt var að stofna til Icesafe fúafensins. Reyndar fellst ég á þau mjög svo ágætu rök hjá Eiríki Bergmann að Íslendingar tóku upp, vegna eigin óforsjálni mjög svo gallaða evrópska löggjöf á þessu sviði, þar sem ekki var búið að aðskilja erlenda og innlenda starfsemi Landsbankans, eins og raunar kveður á um í Evrópulöggjöfinni, og önnur ríki höfðu gert yfirleitt.
    Þá má orða þetta þannig að Íslendingar hafi ekki haft sýn yfir regluverkið sem fylgdi inngöngunni í Evrópska efnahagssvæðið og Schengen samstarfið og að þeir hafi ekki metið hættuna á bankahruni rétt.
    Það eitt og sér er ekki einungis áfellisdómur yfir Íslendingum, einsog  jafnaðarmenn virðast helzt vilja fullyrða, heldur einnig vísbending um að ekki henti öllum að ganga í þessi gríðarstóru samtök.
    Það er ekki einleikið hvernig Egill Helgason og ýmsir aðrir fjölmiðlamenn draga fram rykfallna jafnaðarmenn og harðlínukommúnista og gera þá að sjálfskipuðum fræðingum og ráðgjöfum í ýmsum málum, eða sögurýnum í hruninu. Þar er einsog stundum gleymist að til eru menn með aðrar skoðanir á Íslandi.


Sókrates

Sókrates:

Gríski heimsspekingurinn Sókrates er án efa einn fyrsti einstaklingur mannkynssögunnar sem barðist gegn fordómum, með því að reyna að láta fólk sjá allar hliðar á málunum. Ég held að ekki hafi allir gert sér grein fyrir þessu eða sett hann í þetta samhengi. Einnig var hann einn fyrsti uppreisnarmaður sögunnar, eða að svo miklu leyti sem hægt er að styðjast við þekkta og viðurkennda mannkynssögu.
    Þótt hann hafi orðið frægur fyrir vikið, þá var hann tekinn af lífi með því að neyða hann til að fremja sjálfsmorð, en margir þeir sem hafa staðið gegn fjöldanum hafa einmitt hlotið þesskonar sorgleg örlög og í alla staði ómakleg.
    Það er nú svo að fólk virðist oft ekki skilja hvað orðið fordómar merkir, eða prejudice á ensku. Bæði orðin merkja það sama, það er að segja að dæma fyrirfram, að vera sammála síðasta ræðumanni án þess að mynda sér sína eigin skoðun. Það er án efa upphafleg og rétt merking þessara orða. Enska orðið á sér latneskar rætur, en er myndað á alveg sama hátt. Þessi orð hafa væntanlega verið mynduð áður en samfélagsgerðin varð eins og við þekkjum hana nú, það er að segja í fámennari samfélögum.
    Fólk þarf að venja sig af því að halda að fordómar séu bundnir við það sem þeir voru bundnir við fyrir 100 árum eða meira, við erum ekki að berjast við sömu fordómana, nema síður sé, nema auðvitað einnig með. Menningin breytist og fordómarnir sömuleiðis.   
    Það er svo oft sem múgæsing fer af stað sem ekki á rétt á sér, eða tæplega, og þá eru hafnar nornaveiðar, oft er þá aðeins byggt á einhverju sem er haldlítið, eða á röngum upplýsingum. Rétt er að taka eftir því, að múgæsingar nútímans snúast um allt aðra hluti en þær sem áttu sér stað fyrir 100 árum eða 1000 árum eða 5000 árum.
    Þannig er þetta til dæmis með atvikin sem gerðust í miklum styrjöldum fortíðarinnar, þær múgæsingar sem sköpuðust í þessum stríðum og urðu oft mörgum að fjörtjóni áttu sér rætur í fortíðinni og eldri menningu. Oft voru það ekki æðstu herstjórarnir sem byrjuðu þær múgæsingar, heldur löngu látnir einstaklingar í mannkynssögunni eða aðilar utan jarðarinnar.
    Einkenni múgæsingarinnar eru þau að hún byggist á tilfinningum frekar en staðreyndum. Hins vegar má einnig benda á það að yfirleitt er hægt að rökræða um alla hluti og færa rök fyrir máli sínu, hvaða skoðun svo sem maður aðhyllist. Þá þurfa sumir að læra þetta sem Sókrates og fleiri kenndu, að hlusta á aðra fordómalaust. Þó þarf það ekki að vera fyrirframsannfæring eða fordómur að mynda sér skoðun á grundvelli eigin tilfinninga frekar en þeirra sanninda sem eru yfirlýst sem algild og viðurkennd af fjöldanum. Slíkt má vel nefna tilfinningabundna skoðun en ekki vísindalega studda.
    Sókrates kenndi okkur að efast um allt, ekki aðeins það sem var efaðzt um fyrr á öldum, heldur einnig um það sem er viðtekið og viðurkennt sem sannleikur á okkar tímum.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 39
  • Sl. sólarhring: 166
  • Sl. viku: 723
  • Frá upphafi: 129838

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 546
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband