Þegar leitað er svara við því hvers vegna Satan var oft á miðöldum sýndur sem hyrnd vætt, þá þarf að kafa djúpt.
Nokkrir heiðnir guðir koma til greina sem gefendur þessara tákna. Pan hinn gríski skógarguð, Dionysus hinn gríski vínguð og Bakkus hinn gríski og rómverski vínguð, Krampus hinn þýzki, Enki hinn súmerski, Cernunnos hinn keltneski, Satýrarnir forngrísku.
Það eru algjörlega evrópsk áhrif frá miðöldum, að sýna Satan sem hyrnda vætt. Í Biblíunni eru engar þannig lýsingar.
Satan Biblíunnar er þó máttug vera, bæði í Jobsbók og víðar, fallinn engill, Lúsífer sumsstaðar.
Þó er talið að í elztu gerð gyðingdómsins hafi það vonda verið hluti af reiði guðsins, Jahve. Hinn almáttugi guð og margar myndir hans er því það sem er elzt en ekki sjálfstætt afl, Satan, í þeim fræðum.
Hin miklu Satansfræði eru afrakstur guðfræðinga og áhrifamanna kirkjunnar á miðöldum og seinni tímum. Nornabrennur og spænski rannsóknarrétturinn voru einnig þannig fyrirbæri seinni tíma en ekki fyrstu kirkjunnar.
Það að Satan var sýndur sem hyrndur er eiginlega sönnun þess að heiðnir guðir og hyrndir hafi verið tignaðir af alþýðufólki fyrr á tímum og veitt Jesú Kristi samkeppni í vinsældum og föðurnum, Jahve, eða Jehóva, eins og hann er annaðhvort kallaður yfirleitt.
Satýrar fylgdu Bakkusi, Díonýsusi. Satýrar voru fyllibyttur, alkahólistar, kvensamir flagarar, hyrndir og bekknir. Bekkinn er gamalt orð yfir að vera áleitinn og yfirgangssamur. Vegna þess að latnesk menning fylgdi rómversku kirkjunni með latneskum ritum sem menn lásu víða þá er skiljanlegt að Bakkus og satýrar hafi haft mikil áhrif.
Í evrópskum sveitum hefur trúin á Cernunnos þó lifað lengi og á miðöldum án efa. Einnig hafa menn blandað saman hugmyndum sem lifðu góðu lífi um skógarguðinn og tónlistarguðinn Pan.
Hvaða heiðni guð var svo dýrkaður og elskaður í Evrópu á miðöldum að hann var vinsælli en Jesús Kristur? Var það Bakkus, Díónýsus, Pan, Satýr eða Cernunnos?
Cernunnos er minnst þekktur, því upphaflegu ritin skortir. Án efa var eitthvað um hann ritað, en því var þá eytt með skipulögðum hætti af rómverskum keisurum og kirkjunnar yfirvaldi, nema því sem komið var fyrir undir Vatikaninu í hvelfingum og söfnum þar og er enn ekki til sýnis.
Mér finnst áhugaverðast að fjalla um hina keltnesku og gaulversku guði, því fæst er um þá vitað og ég hef unnið rannsóknarvinnu sjálfur í sambandi við þá.
Það má í raun slá því föstu að fólk á miðöldum hafi ákallað Cernunnos og kannski undir öðrum nöfnum. Það er skýringin á uppgangi Satansfræðanna á miðöldum meðal fræðimanna og yfirvaldsins, því aðeins ógn við vald kirkjunnar útskýrir þessa móðursýki í raun, ógn í formi vinsælda annarra trúarbragða, eldri, heiðinna.
Rannsóknir mínar á Cernunnosi hafa opinberað ýmislegt sem er þvert á ýmsar ranghugmyndir manna um hyrnd goðmögn.
Eldur og þannig kannski brennisteinn koma við sögu margra guða keltneskra. Þannig tengist hann Cernunnosi einnig, en þó kannski Taranosi enn frekar, og sumum öðrum, og gyðjum heiðnum líka.
Það eru að minnsta kosti þrír reiðir og refsandi guðir innan drúízku trúarbragðanna, en Cernunnos er ekki einn af þeim. Taranos, Esus og Toutatis mynda ógnandi og heilaga þrenningu, sem kannski var óheilög í einhverjum skilningi einnig, þegar vel er að gáð.
Gyðjan Inanna er tengd við undirheimana og för til undirheimanna en hún var þó tengd guðinum Enki í súmerkri goðafræði.
Til eru lýsingar á Enki þess efnis að hann hafi verið talinn hyrndur, og þó er það vafamál, því honum var lýst á margvíslegan hátt.
En var til brennandi Víti í trúarbrögðum Kelta og drúíða? Það er mögulegt. Samt voru slíkar hugmyndir varla til í grískri eða rómverskri goðafræði, heldur í Saraþústratrúnni, þannig að ósennilegt er að slíkt hafi verið nándar nærri eins algengt og varð innan kristninnar á miðöldum.
Öðruvísi fólk hefur trúað á Cernunnos, Taranos, Esus og Toutatis. Þetta er augljóst af þeirri misjöfnu siðfræði sem þarna er boðuð, í mýtunum um hvern guð fyrir sig.
Mýturnar um Taranos eru um margt svipaðar mýtunum um Jahve, sem reiðan, refsandi guð, sem jafnvel er alvaldur.
Mýturnar um Cernunnos eru allt öðruvísi. Aldrei virðist hann sýna yfirlæti eða hroka eða löngun til að refsa nokkrum. Alltaf er hann sýndur sem auðmjúkur og kærleiksríkur guð, sem er stórmerkilegt og í mótsögn við Pan og Bakkus sem eru frægari hyrndir guðir.
Hugtakið "að dansa í eldinum" er komið úr Cernunnosartrúnni. Í James Bond myndinni "A View To A Kill" frá 1985 fjallar titillagið um eitthvað svipað, sungið af hinni vinsælu hljómsveit, Duran Duran.
Cernunnos er og var lækningaguð. Það er ein helzta ástæðan fyrir gríðarlegum vinsældum hans á miðöldum, því hann virkaði og læknaði fólk virkilega, jafnvel frekar en Kristur.
Er það manns eigin sál sem refsar manni eftir dauðann? Er maður þannig dreginn til kvalastaðanna eða kvalaástandanna? Eða gerist það á sama hátt í þessu lífi eins og í öðrum lífum, enginn eða lítill munur þar á?
Taranos er bæði andleg og efniskennd vera. Eldur sannleikans og eldur reiðinnar, þetta eru ólík fyrirbæri, en bæði tengd trúnni á hann.
Sá eldur sem tengdur er við Cernunnos er þó eldur lífsins og æskunnar, eða hraðinn, þetta sem tengist skemmtanalífi og æskugleði, lífsgleði. Það er mjög erfitt að finna neikvæðar kenndir eins og reiði eða óánægju tengdar trúnni á Cernunnos.
Sagt er að allir séu snertir af eldi Cernunnosar, þegar hann dansar í eldinum sem ungur guð, eldinum sem matreitt var með. Það eru þessi andartök þegar fólk er ungt og stundar kynlíf eða skemmtistaðina, og lætur undan andstæðum í geði sínu og ógnum hins óþekkta í ástarlífinu og tilverunni almennt.
Cernunnos sleppur samt alltaf óbrenndur og ósærður eftir þessa endurteknu athöfn, og það sýnir hversu alheilagur hann er og alfullkominn, það vinnur ekkert á honum, hvorki elli né dauði né annað.
Taranos er allt annað dæmi. Andlegur er hans eldur að vísu fyrst og fremst, en hann er þó sólarguð. Það sýnir að hann getur notað eld efnisheimsins bæði til eyðileggingar og góðra verka. Sem stríðsguð þá notar hann auðvitað mismunandi aðferðir.
En hugmyndin um eilífar kvalir Helvítis var eins fjarlæg Keltum og Gaulverjum eins og flestum öðrum þjóðum á þessum heiðna tíma. Þannig að það má svara þessu neitandi, hvort Gaulverjar og Keltar hafi átt sér hugmyndafræði líka hugmyndum í kristni um Víti.
Það má kenna kirkjunnar yfirvaldi um þessa hræðilegu hugmynd um kvalir fordæmdra vegna synda þeirra. Það var móðursýki sem magnaðist og yfirkeyrði sig í hræðilega óttastjórnun sem enn er lifandi sem stjórntæki.
Horn Cernunnosar, sem eru hreindýrshorn vel að merkja, þau tengdust líforku og endurnýjunarmætti, þau tengdust einnig ósæranleika hans, og hvernig hann var talinn stanga andstæðinga sína, og hrekja á brott þannig og sigra þá.
Það er einnig hluti af þeirri hugmynd að guðinn Cernunnos er sýndur vopnlaus einatt og náttúrulegur, jafnvel nakinn. Hann sigrar eins og dýrin, með því að stanga andstæðinginn, og sýnir það enn styrk hans og að hann er ósæranlegur.
Grimmd eða hatur þekktust aldrei í upprunalegu trúnni á Cernunnos, því það voru andstæður hans. Hann var aldrei tengdur hernaði eða þannig grimmd og eyðingu á mannslífum eða öðrum lífum. Hann var skógarguð og sköpunarguð og er það enn.
En grimmd og hatur tengist trúnni á Taranos, Esus og Toutatis, því allir tengjast þeir hernaði og jafnvel refsingum af ákveðnu tagi.
Refsingar tengjast öfgum, sagt var að fólk sem trúði of mikið á einn af þessum þremur guðum gæti hlotið sorgleg örlög. Sagt var að fólk sem trúði of mikið á Toutatis gæti tengzt rotnun eða ýldu, efnislegum óhugnaði og líffræðilegum. Sagt var að fólk sem trúði of mikið á Taranis gæti tengzt því að brenna til ösku, enda fólki fórnað þannig honum til heiðurs eða blíðkunar. Þó er þetta einföldun, því hann tengist einnig valdi og valdafíkn. Þannig að of mikil trú á Taranos getur leitt til þess að fólk veki gremju annarra, ef traðkað er á öðrum með valdbeitingu, en slíkt hendir tæplega fólk sem er fátækt og valdalaust, frekar hina sem gegna mikilvægum stöðum og eiga næga fjármuni.
Of mikil trú á Esus getur leitt til einangrunar, það hendir munka, það hendir fræðimenn og aðra sérvitringa. Það hendir einmana fólk, sem samlagast ekki öðrum. Það er andinn sem tengist Esusi, og því var fólk hengt og stungið til bana til að blíðka hann.
Drúíðar reyndu að skapa jafnvægi. Þó var þetta eins og í nútímanum, að aldrei er hægt að halda öllum á beinu brautinni og margt hendir fólk sem misgott er af ýmsum ástæðum.
Það er ekki hægt að sleppa útúr fjölheimunum og þetta kenna keltnesku og gaulversku trúarbrögðin einnig.
Þvert á það sem kennt hefur verið þá eru örlög einstaklinganna í framlífinu ekki einföld heldur flókin. Allt lifir áfram í sálinni sem lært var. Til að losna við óttann þarf að komast fyrir orsök hans.
Frumóttinn getur verið óttinn um að missa af móðurbrjóstinu eða snertingu og kærleika móðurinnar.
Hin röklega þenkjandi vera fullorðinsáranna getur átt erfitt með að nota rökhugsun á frumbernskutímann og óttann sem varð til þá.
Trúin á Cernunnos getur einnig hjálpað í þessu tilfelli. Trúin á Cernunnos leyfir nefnilega ekki að staldra við. Trúin á Cernunnos leyfir jafnvel ekki pláss fyrir óttann, því þar er hann alveg óþarfur.
Smábarnið mannlega er varnarlaust, því það er háð móðurinni og föðurnum, ytri aðstæðum.
En Cernunnos er í raun aldrei smábarn. Strax sem smábarn er hann endurfæddur sem hann sjálfur, þótt aðrir viti yfirleitt ekki af því.
Þannig er Cernunnos ófær um að hræðast. Fyrir honum er allt sama hringrásin alveg endalaust.
Sem smábarn er hann hluti af sama kærleikaferlinu og allt til æviloka.
Erfiðar aðstæður eru því aðeins blekking samkvæmt Cernunnosartrúnni. Maya myndi það vera kallað í hindúisma, efnisheimurinn og slíkar blekkingar.
Cernunnos frelsar því og losar undan vítishringrásum af ýmsu tagi. Æskudansinn einn frelsar og færir inní heim æsku og sköpunar, hreysti og fyrirgefningar.
Þar kemur í ljós að óttastjórnun kirkjunnar fældi fólk frá sannleikanum.
Esus sem óreiða og Chaos er svo annað mál, eða sem Ginnur, guðinn í Ginnungagapi.
Esus byrjar að tæta í sig skipulagið um leið og allt fæðist og kemur inní heiminn.
Okkar heimur hefur ekki sinnt um að blíðka hann, og það skýrir ýmislegt.
Við þurfum að fyrirgefa okkur sjálfum og elska okkur sjálf til að fyrirgefa öðrum og elska aðra. Þetta kennir Cernunnos, og aðrir guðir kenna þetta líka, ef maður hefur fundið innganginn að þeim og eðli þeirra.
Cernunnos var kallaður Auðfaðir. Sá auður var þó ekki endilega sá auður sem tengist peningum. Upphaflega var sá auður tengdur veiðibráð, ávöxtum, mat og drykk, öllu því sem jörðin gefur af sér.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Aðeins kærleiksrík vera gat keppt við Krist um vinsældir, ekk...
- Ástandið á Gasa sem ekki er bara Hamas að kenna er undirrót s...
- Svaraverðir menn, þeir sem styðja lífstefnu en ekki helstefnu
- Sókn er bezta vörnin - það er sú stefna sem hjálpar mest ísle...
- Mestu árásirnar mæta kristninni þegar reynt er af alvöru að k...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.10.): 10
- Sl. sólarhring: 111
- Sl. viku: 654
- Frá upphafi: 159837
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 512
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning