6.9.2025 | 02:18
Margir sem blogga ekki gætu gert það. Mamma var ein af þeim. Hún var frábær í íslenzku og mælsk, með mikla pólitíska sannfæringu og réttlætiskennd
Ég á móður minni mikið að þakka að ég get bloggað hér um pólitík. Ég hef meira talað um mælsku ömmu og pólitíska sannfæringu, en mamma erfði þessa pólitísku sannfæringu með vöxtum og ekki síður mælskuna.
Móðir mín andaðist núna í síðasta mánuði og finnst mér því rétt að minnast hennar eins vel og ég get. Það er alltaf að gerast að kona sem er 77 ára og að verða 78 andast, en það er samt alltaf jafn erfitt fyrir aðstandendur, sama hver aldurinn er.
Mamma var ekki sammála ömmu um að staður konunnar væri aðeins inni á heimilinu, en þær voru báðar miklir þjóðernissinnar og hægrimanneskjur. Þótt mamma hafi haft áhuga á Kvennalistanum á tímabili breytti það ekki þeirri staðreynd að mamma var kona einstaklingsframtaksins og þjóðerniskenndarinnar, og kannski er mín sannfæring á því sviði meira komin frá henni en ömmu.
Mamma studdi Íslenzku þjóðfylkinguna og Frjálslynda flokkinn þar áður. Það var mér mikil hvatning til að tjá mína sannfæringu á sama hátt og hún gerði vel og dyggilega.
Það er mér mjög minnisstætt þegar við mamma bjuggum bæði á Digranesheiði 8 árið 2016 eftir fráfall afa árið 2015.
Þá rifumst við mamma mikið um pólitík. Hún vildi að ég kysi Íslenzku þjóðfylkinguna, en ég vildi kjósa flokk sem ekki var til lengra til hægri. Ég samdi fleiri en 10 lög í þessum anda þetta haust, 2016, en þau eru öll óútgefin ennþá, því miður.
Seinna sættist ég við Íslenzku þjóðfylkinguna og skildi að hún hafði rétt fyrir sér, að það er ágætur flokkur með góða stefnu.
Fjölmargir hér á blogginu hafa svipaðar skoðanir og mamma hafði.
Heimurinn er miklu tómlegri án hennar. Við áttum trúnaðarsamtöl bara á þessu ári sem mér voru dýrmæt og henni líka. Ég reyndi að skilja hana.
Hún vann sem kennari í meira en 50 ár, barnaskólakennari og svo sérkennari. Hún byrjaði að kenna áður en hún eignaðist mig og hélt svo áfram.
Þegar mamma var mjög virk á Fésbókinni fyrir 10 árum og þar áður þá skrifaði hún pólitískar athugasemdir og fékk mikinn stuðning, átti góða hægrimenn sem vini eins og til dæmis Jón Magnússon lögmann sem hún taldi frábæran og margir aðrir sem hún átti í samskiptum við.
Mamma hélt andlegri heilsu alveg fram í andlátið og gaman að tala við hana um pólitík alltaf, hún var baráttukona, frábær sem slík. Líkamleg heilsa var þó farin að verða verri, og því vissum við að þetta gat komið fyrir, en sorgin er alltaf mikil.
Hún las oft þar sem ég bloggaði og var stolt og ánægð yfirleitt, en stundum skammaði hún mig fyrir að skrifa um sig í neikvæðu ljósi en um ömmu í of jákvæðu ljósi. Einhvernveginn þá hélt maður að hún væri eilíf og það litaði þessi skrif.
Ég veit að hún myndi senda forystumönnum Íslenzku þjóðfylkingarinnar beztu kveðjur ef hún væri að skrifa þetta en ekki ég, og öðrum þjóðernissinnum.
Mamma var sannkristin, þar vorum við ósammála. Hún studdi 100% íhaldssöm sjónarmið kristinna manna og margt tók hana þungt í nútímanum.
Ég skil það núna að hún studdi mig betur og meira í tónlistinni en ég gerði mér grein fyrir. Hún gagnrýndi mig fyrir að ganga of langt í sumum textum og auðvitað var sú gagnrýni hennar alveg rétt, ég var bara ekki alltaf sammála.
Þegar Sverrir Stormsker varð minn uppáhaldstónlistarmaður með plötunni "Stormskersguðspjöll" árið 1987, þá fór mamma að hafa þungar áhyggjur af mér að ég færi á grillið til Andskotans en ekki til Himnaríkis með henni.
Þá greip hún til þess ráðs að draga mig með sér á samkomur til að láta frelsa mig. Það reyndar gekk ekki upp hjá henni á þessum árum frá 1988 til 1994, en sáði einhverjum fræjum sem spíruðu seinna, þegar ég gekkst inná þetta 1997 til 2002.
Mamma var leitandi í trúmálum þegar ég var krakki á Álfhólsveginum. Þá var hún Nýalssinni um stund, spíritisti, búddisti, prófaði Nýöld, Nýaldarspekina svolítið, en endaði í Þjóðkirkjunni alltaf en hélt ágætum tengslum við sértrúarsöfnuði líka.
Það tók mikið á hana eins og mig að missa æskuheimilið að Digranesheiði 8 þegar það var rifið 2021.
Fólk getur þroskazt með aldrinum og fengið mjög góðar skoðanir. Þegar mamma var um fertugt fannst mér Verublöðin sem hún átti sýna mikinn femínískan áhuga. Það var mjög skiljanlegt, hún vildi valdefla sig eftir erfiðan skilnað. Á efri árum studdi hún samt Íslenzku þjóðfylkinguna og Frjálslynda flokkinn og var mér mikil fyrirmynd í þeim efnum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.9.): 18
- Sl. sólarhring: 43
- Sl. viku: 358
- Frá upphafi: 159201
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 272
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Fallegur pistill Ingólfur, -sem segir margt á góðri íslensku.
Samúðarkveðja.
Magnús Sigurðsson, 6.9.2025 kl. 05:57
Blessaður Ingólfur.
Eftir að ég hafði klárað að lesa þennan pistil þinn og sá að það var ein athugasemd, þá vissi ég um leið að þarna væri félagi minn í efra á ferðinni, og hann myndi þakka þér fyrir mína sömu upplifun, fegurðina og gott mál.
Ég vil bæta við einlægnina Ingólfur, hún er þinn styrkur og fjarsjóður.
Ég er núna næmari fyrir svona skrifum því mín móðir liggur núna sína banalegu, eftir tæp 93 ár, skilandi af sér góðu búi ástar og kærleik.
Þetta er gangur lífsins en eins og þú segir réttilega Ingólfur þá er það jafn sárt fyrir það á meðan á því stendur.
Innilegar samúðarkveðjur Ingólfur og ég fullyrði, miðað við þá persónulýsingu sem þú teiknaðir hér með fallegum orðum, að þá sé móðir þín mjög stolt af stráknum sínum og hvernig þú hefur þróað rithæfni þína.
Og trúðu mér, þið eigið eftir að hittast þarna hinum megin þegar þar að kemur, það vita allir Viðfirðingar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.9.2025 kl. 10:03
Þakka ykkur fyrir góðu menn. Þetta hefur verið bjart og fallegt sumar og það er bót í máli. Ég heimsótti hana ekki í ágúst því hún var svo hress síðast þegar ég hitti hana rétt fyrir afmælið mitt í júlílok. Svona er þetta skrýtið. En ég átti langt og gott samtal við hana síðast þegar ég hitti hana, verð að hugga mig við það. Ég hélt að hún væri að hressast, en auðvitað liggur leiðin bara í þessa átt þegar aldurinn færist yfir og heilsan orðin tæp.
Hún hefði átt að vera á spítala þessa mánuði en hún var svo stolt og sjálfstæð að hún vildi hafa þetta svona. Ágætt að vitna í Margréti nágrannakonu sem ekki er mjög langt síðan lézt. Hún trúði að þetta væri örlög hvenær fólk fer og að Guð einn réði. Við menn værum eins og peð.
Þakka þér sérstaklega falleg orð Ómar.
Ingólfur Sigurðsson, 6.9.2025 kl. 17:46
Sæll Ingólfur.
Innilegar samúðarkveðjur
við fráfall móður þimar.
Þú skrifar af þvílíkri einlægni og prýði og mætti margur af því læra;
hreinskilni sem er sem lampi fóta þinna og ljós á þínum vegi.
Lifðu heill!
Bestu kveðjur.
Guðni Björgólfsson, 6.9.2025 kl. 21:40
Þakka þér fyrir hjartnæma og góða athugasemd Guðni. Þú ert góður maður. Það gæti verið að mig langi að hringja í þig við tækifæri.
Sömuleiðis, góðar kveðjur til þín og þakka þér fyrir. Mér fannst það mjög gott þegar þú skrifaðir huggunarorð til konu sem hefur átt erfitt og bloggaði um það.
Beztu kveðjur.
Ingólfur Sigurðsson, 7.9.2025 kl. 01:29
Sæll Ingólfur.
Þakka hlý orð í minn garð.
Allt var það velkomið.
Hafðu samband ef þú vilt.
Bestu kveðjur.
Guðni Björgólfsson, 7.9.2025 kl. 11:56
Heill og sannur Ingólfur' ég kemst við skaltu vita og með einlægni votta ég þér samúð mína.
Helga Kristjánsdóttir, 8.9.2025 kl. 22:26
Þakka þér innilega góð og fögur orð Helga. Við skulum vona að við hittum hana að þessu lífi loknu og verðum þá öll betri og þroskaðri manneskjur, betri hvert við annað.
Beztu kveðjur.
Ingólfur Sigurðsson, 9.9.2025 kl. 00:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.