24.8.2025 | 01:13
Vatnaguðinn sem ræður á okkar tímum, Toutates
Villimenn í frumstæðum samfélögum notuðu félagslega útskúfun til að sýna fram á hverjir væri ofarlega í metorðastiganum og hverjir neðarlega. Íslendingar nota þessa aðferð mikið, enda þroskastigið þannig hjá langflestum að óttinn við valdið ræður stjórnmálaskoðunum og hegðun oftast. Þegar ég lærði félagsfræði í menntaskóla var okkur kennt að aðeins villimenn notuðu félagslega útskúfun, að Vesturlönd væru bezt í heimi og fyrirmynd á öllum sviðum, og umburðarlyndi og kærleikur það sem aldrei myndi tapa eða hverfa hér á Vesturlöndum, og að við myndum breiða þetta út um alla heimsbyggðina smám saman. Það var 1986-1994, þannig að þá voru aðrir tímar. Merkilegt er það að vinstrimenn voru fyrstir til að taka slaufun opnum örmum, sem er svona villimennska, og afsökunin var kvenréttindi og fjölbreytileiki fyrir minnihlutahópa, á kostnað meirihlutans.
Mér finnst gaman af að grúska í myrkum afkimum sögunnar og því sem fátt hefur verið skrifað um, því það reynir meira á gáfurnar og forvitnina. Manni finnst vanta um það fróðleik.
Gallar áttu sér margar heilagar þrenningar. Þrenningarhugtakið kemur samt ekki frá þeim því það er eldra og var til í eldri menningarsamfélögum, heiðnum. Ekki tel ég samt vafa leika á því að hin heilaga þrenning sem þekkist í kristninni kemur úr öðrum menningarsamfélögum og eldri, og þá auðvitað þeim germönsku og evrópsku, þar sem slíkt var miklu algengara, en þekktist líka meðal Gyðinga, eins og helgi á tölunni 7 til dæmis, en að fjalla um heilagar tölur er mjög flókið og erfitt að finna eða fullyrða hvar slík helgi byrjaði.
Ég hef áður fjallað um guðaþrenningu í keltnesku samfélagi, en það eru guðirnir Taranis, Esus og Toutatis. Ég hef verið að rannsaka þá alveg sérstaklega.
Ég miða okkur nútímamenn mjög mikið við Gaulverja. Við eigum svo margt sameiginlegt með þeim. Við erum á barmi allsherjarhruns hér á Vesturlöndum, það sem gerðist fyrir Gaulverja virðist ætla að koma fyrir okkur, að önnur menning yfirtekur okkur, og það lítur út fyrir að það sé islam, miðað við vöxt og sigurgöngu þeirra.
Keltar, Gaulverjar, hluti af þeim, voru innlimaðir í Rómaveldi. Þó sluppu þeir sæmilega á Írlandi, þar varðveittust heiðnar sögur í nokkuð útþynntu formi, að vísu.
En guðirnir þrír sem mynda þessa meginþrenningu gaulversku trúarbragðanna eru ólíkir. Mjög merkilegt er það, að kristilega hugmyndin um mannlegan breyzkleika og mannlega synd liggur mér við að segja var komin fram fyrir Krists burð.
Toutates var oft sýndur sem dreki við fætur lífstrésins. Var hann fyrir langa löngu dýrkaður sem sjóskrímsli máttugt, eins og slíkt tíðkaðist í Mesópótamíu.
Ýmislegt í Snorra Eddu er meðal beztu heimildanna um trú drúíða og Kelta fyrir 2000-3000 árum síðan. Enda voru þetta talin ævaforn fræði þegar þau voru skráð á 13. öld hér á Íslandi.
Dreki sá sem nefndur er Níðhangur í sumum heimildum en Níðhöggur í öðrum heimildum er án efa enginn annar en guðinn Toutates, sem kenndur er við vatn.
Í sögunni um Derg Corra í írskum fornbókmenntum er Toutates hinsvegar hjörtur, sem er dýr sem er hyrnt og við Íslendingar ættum að kannast vel við.
Í Snorra Eddu er hjörtur sem heitir Dúneyrr. Hann tilheyrir sömu líkingu og íkorninn Ratatorskur, það er að segja, líking fyrir guðinn Esus. Í sögunni um Derg Corra er þessi skepna hinsvegar silungur í skál sem Derg Corra heldur á. Örn sem sagður er sitja í limum asksins í Snorra Eddu situr á toppi hans í öðrum og áreiðanlegri heimildum frá Evrópu, það er að segja Taranis súlunni sem víða finnst, sem kölluð er Júpítersúla einnig, Jupiter column á ensku.
Þessi ónefndi örn er enginn annar en guðinn Taranis. Í sögunni um Derg Corra er hann svartþröstur, í írsku útgáfunni sem til er skráð, en fleiri útgáfur voru til í munnmælum þar sem frávikin voru ýmis.
Kristileg áhrif gætu hafa ráðið úrslitum með það að í Snorra Eddu er þessi dreki kallaður Níðhöggur, sem er mjög neikvætt og lýsandi orð, og ákveðin kölskamynd jafnvel.
En svo virðist vera að Snorri Sturluson hafi þó haft upprunalegar heimildir að styðjast við, því hugmyndin var til löngu áður í drúízku samfélagi.
Það er þó miklu flóknara en svo, því guðirnir þrír, Taranis, Esus og Toutatis voru ævafornir og fólki fórnað til að blíðka þá, því fólk hræddist þá.
Dúneyrr þýðir "sá sem ferðast svo ótrulega hratt að fólk fær hellu fyrir eyrun þegar hann þýtur framhjá, það dynur í eyrum viðkomandi." Þetta er umorðun á skýringum þeim sem Ásgeir Blöndal gaf í orðsifjabók sinni á nafninu Dúneyrr, sem er einn af hjörtunum sem hlaupa upp og niður lífstréð, heimstréð. Þessa skýringu tek ég algjörlega gilda, hún passar vel við allt samhengið og raunar rúmlega það, hún bætir ýmsu við.
Þessi skýring og þýðing á nafni hjartarins leiddi mig á rétta slóð í þessum fræðum algerlega, sem sagt að hjörturinn sé líkingamál yfir guðinn Esus, sem Júlíus Sesar kallaði Merkúr í Gallastríðsbókum sínum, eftir þeirra rómverska guði með það heiti. Hann fræddi þó fólk um að Merkúr/Esus væri einn aðalguð þeirra Gaulverja og Kelta.
En fólkið sem trúði á Toutates var oft ekki sama fólkið og trúði á Esus eða Taranis í keltnesku samfélagi. Þetta skiptist á milli stétta. Taranis var guð yfirstéttanna. Konur trúðu mikið á Esus, í hans fræðum og boðskap var tal um jöfnuð og umbun í næsta lífi fyrir fórnfýsi.
En til var kenningin um að allt vont kæmi frá manninum. Það leiðir okkur að drekanum Níðhöggi, Toutates.
Svo virðist sem eldri sköpunarsögur hafi lýst þessu þannig að hann hafi orðið til þegar einum var fórnað, Manu drap Yemo, tvíburann og úr varð sköpunarverkið. Sumt bendir til að Taranos hafi verið þessi fyrsti guð, sem drap Esus og úr varð sköpunarverkið, og fyrsta hetjan, að hálfu maður og hálfur guð, sem var Toutates. Þó virðist hann stundum hafa verið tignaður sem naut eða dreki.
Í hinum fornu goðsögnum Kelta var þetta hvati fyrir fólk til að vinna og sanna sig, ekki ósvipað og í kristinni trú. Það er að segja, við erum öll afkomendur Toutatosar samkvæmt fræðunum, og hann ræðst á fullkomleikann, aðra guði. Þannig verðum við að bæta fyrir "synd" okkar með því að færa guðunum fórnir. Þeir áttu ekki alveg hugtakið synd, en það var eitthvað svipað sem fór nálægt því.
Manannán mac Lír er hinn gelíska mynd Toutatosar. Um hann eru til skráðar heimildir og nóg af þeim. Manannán er talið þýða "fjall", "að rísa", eða "vatn", "væta". Mac Lír þýðir beinlínis:"Sonur sjávarins". Hlér, nafn yfir Ægi, er sama orð og Lir. Hvort sem þetta bendir til írskra landnámsmanna á Íslandi eða sameiginlegs arfs sem einnig var til í Noregi, vegna samskipta við Íra og aðra Kelta sem trúðu á Manannán mac Lír er erfitt að segja.
Það er hinsvegar mín kenning að guðsheitið Manannán sé hreinlega samstofna við mannr og manðdr á víkingaöld, sem er sama orð og maður og man í ensku og íslenzku, örlítið breytt stafsetning.
Þetta er ný orðsifjafræði frá mér. Ég tel að þekkinguna megi rekja til drúíða, sem vissu meira í vísindum en jafnvel vísindamenn á okkar tímum.
Lífið spratt upp í hafinu. Þetta vissu drúíðar, afkomendur hinna raunverulegu guða og af þeirra ættum. Það endurspeglaðist í nafninu sem þeir gáfu okkur, sem þeir sköpuðu. "Þeir sem risu úr vatni, og eru vatn að miklum hluta." Það er merking orðsins maður.
En Toutates var og er meira. Hann var og er guð félagslegra samskipta og hvataheimsins, eða limbósins, vítisins sem fór fer til áður en það þroskast og fer til hnattanna sem teljast lífstefnujarðir - himnaríki öðru nafni.
Þarna komum við að ástandinu sem ríkir núna á jörðinni, þetta helvíti hvataheimsins, limbósins, sem er hreinsunareldurinn öðru nafni.
Rétt eins og Brahma þá er Taranis talinn fullkominn og reglur hans.
Fólk sem trúir á völd, á embætti og mannvirðingu, það tilheyrir veröld Toutatosar. Það var sagt að hann væri dreki og lægi á gulli við rætur trésins og það á vel við, því gullið táknar græðgi meðal annars og ofurtrú á efnishyggju og jarðnesk gæði.
Sem hjörtur er hann árásargjarn. Sagt var að með hornum sínum gæti hann molað hvern andstæðing með því að stanga viðkomandi. Enda Satan mótaður eftir honum og Cernunnosi síðar.
En hér er rétt að fjalla um það að Toutates er bæði guð jákvæðra og neikvæðra félagslegra samskipta.
Til að fá þetta í samhengi þarf að bæta nokkru við.
Esus er sá sem eyðir sköpuninni. Þannig myndast rými fyrir nýtt.
Toutates er sá sem viðheldur sköpuninni. Hann er eins og Vishnu.
Toutates er guð blekkinga einnig. Hann umbreytir og skiptir um form.
Niflungar og Niflungur er stundum tengdur við Toutates. Niflungur þýðir "guð þokunnar". Það heiti getur þýtt guð blekkinganna.
Þessir litlu hópar sem berjast um völd eru aldrei nema lítill hluti heildarinnar.
Eða svo þetta sé orðað á annan hátt: Þessir hópar sem kúga og beita einelti, þeir njóta aðeins verndar blekkingaguðsins sem er Toutates.
Þetta er útskýrt á þann hátt að Toutates er blendingur og verður aldrei guð, aðeins hálfur guð og hálfur maður, því Taranis eignaðist hann með jarðneskri konu.
Rétt eins og brahmanir, æðstu prestarnir í hindúisma, þá kenndu drúíðarnir að ekki væri hægt að stöðva hringrás lífsins, hnignun og upprisu.
Þeir reyndu hinsvegar að skapa jafnvægi með fórnum. Þannig vissu þeir að þegar ákveðinn guð var talinn of sterkur, til dæmis þegar jarðskjálftar eða hungursneyðir eða drepsóttir voru tengdar við einn ákveðinn guð, þá var reynt að styrkja og efla annan guð með því að blíðka hann með fórnum.
Þegar guðdómlegar reglur láta í minni pokann og mannasetningar verða ráðandi, þá minnka áhrif guða eins og Taranosar og Esusar, en áhrif Toutatosar eflast.
Þannig má vel vera að syndaflóðið hafi verið afleiðing af svipaðri ómenningu og við tilheyrum.
En samkvæmt fræðunum verður fólk að fara í gegnum þennan hreinsunareld og það er þá álitið dautt á meðan - og samkvæmt því erum við "dauð" og í hreinsunareldinum, samkvæmt fræðunum.
Andlega dauð - líkamlega dauð? Hvort tveggja?
Ég er að skrifa þetta því ég er að reyna að rifja upp leið í fræðunum - leið útúr völundarhúsinu sem allir eru staddir í. Eða með öðrum orðum - á grúfu í mölinni, krjúpandi í eyðimörkinni.
Dílemman er þessi: Ef maður verður samdauna Djöflinum og heiminum þá verður maður alveg geðveikur og vitlaus. Ef maður gerir það ekki, þá er maður djöflamerktur og útskúfaður enn meira af djöflunum. Útúr slíkri klemmu æskir maður að komast með fræðunum. En djúpt þarf að kafa til að finna gullmolana.
Það voru reyndar til margir góðir galdrar til forna, en þeim var eytt, bækurnar brenndar flestar. Maður hefur ekki aðgang að þeim. Galdrar sem finnast skráðir virka ekki eða þá mjög lítt.
En eitt er það reyndar sem gleymist í þessu, og það er að hver þessara þriggja guða fékk aðeins að ríkja og lifa hluta úr degi, drepnir af einhverjum úr þrenningunni daglega, lifna svo allir við að morgni aftur endalaust!
Það segir manni eitt sem huggun er í: Ekkert mannfélag, sama hvort það virðist sterkt eða veikt á yfirborðinu stendur að eilífu.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.8.): 19
- Sl. sólarhring: 86
- Sl. viku: 445
- Frá upphafi: 155727
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 337
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þakka þér fyrir áhugaverðan pistil Ingólfur, -það er mikill fróðleikur í honum.
Varðandi slaufunina, sem þú kemur inn á í upphafi, þá er ég ekki svo viss um að rétt sé að kenna hana svo mikið við vinstri hægri, -nema þá um heilahvelin tvö sé að tefla.
Það er hin svo kallaða æðri menntun sem slaufar, -og okkur er ætlað að trúa því að ef við látum ekki innræta okkur með henni, þá séum við að slaufa sjálfum okkur.
Annars takk fyrir góðan pistil, eins og svo oft áður þegar þessi gállinn er á þér.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 24.8.2025 kl. 06:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning