15.8.2025 | 06:48
Viðgerðir á tækjum miserfiðar
Ég hef nokkra reynslu í að laga segulbandstæki, en einnig plötuspilara, geisladiskaspilara og fleira líka. Ég var að koma einu tæki í lag sem ég keypti frá Bandaríkjunum, sem var ónothæft fyrir viðgerðina. Tvöfalt TDK tæki til að fjölfalda tónlistargeisladiska en aðeins önnur opnaðist en lokaðist strax aftur svo engan disk var hægt að setja inní tækið.
Ég er eins og afi minn Jón á verkstæðinu, enda báðir ljón ég og hann, hann á öðrum hnetti, framliðinn en ég hér á þessari jörð. Ég semsagt gefst ekki upp við svona erfið verkefni, mér finnst þau skemmtilegri þegar þau virðast óleysanleg.
Afi kenndi mér að þrautreynt væri ekki fyrr en fullreynt væri og fullreynt væri seint og um síðir því flest væri hægt að reyna og eitthvað af því hlyti að ganga upp, sem það gerði einatt hjá honum að lokum, nema mjög sjaldan.
Það er mótor eða hreyfill sem notaður er til að opna og loka hólfunum sem geyma CD diskana. Er hann tengdur oftast við reimskífu, og gúmmíreim sem tengir, en tannhjól tengja reimskífuna við hólfið sem opnar og lokar fyrir diskinn.
Þessi umrædda reim á það til að verða ónýt og slök. Það tekur mislangan tíma, 5-20 ár. Sjaldgæft er að reimar endist lengur en 20 ár, en það þekkist þó. Sérstaklega í japönskum Crown segulbandstækjum. Slík tæki hef ég keypt með 40 ára gamlar reimar í fullkomnu lagi, örlítið slakar kannski.
Þetta umrædda Tdk tæki er þannig að næstum ómögulegt er að gera við drifið hægra megin, því það er lokað að öllu leyti og næstum ómögulegt að komast að skrúfum nema með sérstökum aðferðum.
Vinstra megin var búið að skipta um reim. Þar kom fyrir þetta fyndna og skemmtilega vandamál sem ég þekki en ekki þeir sem skipta um reimar í fyrsta skipti. Það er að segja, að hólfið opnaðist og lokaðist í sífellu án þess að við neitt yrði ráðið.
Ef maður hefur hvorki mikla þolinmæði né reynslu af svona dútli og viðgerðum er betra að sleppa þessu, því auðvelt er að eyðileggja þessi tæki með reynsluleysi eða klaufaskap.
Maður þarf sem sagt að hafa húmor fyrir eigin mistökum.
Ég hef yfirleitt alltaf prófað mig áfram af eigin rammleik en ekki leitað að handbókum á Netinu, nema stundum í seinni tíð.
Ég var forvitinn að komast að því hvort ég myndi eyðileggja tækið eða koma því í lag, úr því að mér virtist þetta ómögulegt og óvinnandi vegur. Slíkar áskoranir eru alltaf skemmtilegar.
Margir telja að svona spilarar séu ónýtir og svona drif þegar hólfið opnast og lokast og anzar ekki þegar ýtt er á takka, eða þegar ekki er hægt að opna hólfið fyrir diskinn. Nei, það er bara skemmtilegt vandamál til að fást við.
Þessi drif eru með skynjara og nema sem gefa til kynna hvenær hólf er opið og hvenær diskur er inni.
Þegar skipt er um reimar er algengt að skynjararnir ruglist algerlega, því allt þarf að vera í réttri stöðu. Þetta er mikil nákvæmnivinna. Oft þarf að setja svona búnað saman tvisvar til þrisvar til að ná fram réttri afstöðu allra skynjara. Þá þarf að gæta sérlega vel að leiðslum og öðru, að ekkert slitni eða brotni. Eins og ég segi, maður þarf að vera mjög nákvæmur og varfærinn við þetta.
Þessi drif minna svolítið á klukkur og úrverk, því tannhjól verða að vera á réttum stað og í réttri stöðu til að skynjarar og ljósdíóður nemi allt á réttum stað og ekki komi fyrir svona mistúlkun, þegar skúffur opnast og lokast eða ekkert virkar.
Allavega, til að gera langa sögu stutta, ég náði þessu drifi í lag. Það tók mig ekki nema rúman hálftíma. Hitt var erfiðara.
Það skal tekið fram að tækin voru framleidd í Kína 2002. Það útskýrir vonda framleiðslu og galla. Kínverjar eru þekktir fyrir léleg vinnubrögð, þótt eitthvað hafi það skánað.
Þegar skipta þarf um reim er lágmark að hægt sé að finna skrúfur til að opna drifið. Í þessu tilfelli, ómögulegt. Málmhlíf var yfir flestum skrúfum. Dæmigerð heimskuleg hönnun að hætti Kínverja, eða framleiðslugalli réttara sagt.
En í þessum tilfellum nota ég ofbeldi. Ég braut plasið með töngum og komst þannig að skrúfum. Það þýddi ljótara tæki, en ég vildi reyna á það hvort þetta gerði viðgerð mögulega.
Já mér tókst að laga tækið svona, en þurfti að setja það saman þrisvar, því erfiðlega gekk að ganga frá öllu rétt, því ég tók það í sundur í smábúta og setti sumt vitlaust saman aftur.
Það er í raun alveg fáheyrt og fáránlegt að maður þurfi að brjóta plastbúta frá til að komast að skrúfum. Annaðhvort er þetta forheimska framleiðenda eða klókindi, til að gera tækin ónýt og úrelt eftir nokkurn tíma.
En svona komst ég að skrúfum og gat rifið drifið í tætlur, og þá fyrst komst ég að reiminni og gat skipt um hana.
Til samanburðar er rétt að fjalla um Philips tækin. Þau eru auðveld og ekkert skemmist með því að laga þau, frá sama tíma.
Það felst sparnaður allavega í því að geta gert við.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.8.): 34
- Sl. sólarhring: 119
- Sl. viku: 675
- Frá upphafi: 155132
Annað
- Innlit í dag: 28
- Innlit sl. viku: 519
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 27
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning