26.7.2025 | 01:56
Hver ber ábyrgð á að kenna rétt mál, heimilin eða skólarnir?
Jens Guð minnti mig á frænda minn, Jón Guðlaugsson, sem fann upp Bláan Ópal, stofnaði fyrirtækið Ópal ásamt tveimur öðrum mönnum 1944.
En síðan eru fleiri minningar sem merkilegt er að rifja upp.
Ég fór að hugsa útí hvað margir aðilar græða á megrunariðnaðinum, hvernig þarf að gróðavæða allan fjandann, fyrst að búa til vandamál og síðan lausnir, og allir græða, nema almenningur.
Fyrir 30-60 árum var fólk nettara og grannara. Þá voru ekki fyrirtæki sem græddu á megrunarlyfjum, megrunaraðgerðum og öllum fjandanum, og svo einstaklingar, sumir moldríkir.
Þegar ég var krakki þá fengum við stóra plastpoka frá Jóni Guðlaugssyni sem voru fullir af nammi, mikið af afgöngum sem komu úr vélunum, en einnig óopnaðir pakkar.
Amma læsti þetta niður og skammtaði og gaf á mörgum mánuðum úr þessum birgðum og gat þannig sparað kvabb um að kaupa nammi úti í búð. Hún passaði að gefa ekki of mikið í einu og hún stjórnaði þessu.
Í þessu tilfelli eru það foreldrarnir sem bera alla ábyrgðina.
Í dag heyrir maður að börnin stjórni foreldrunum, hóti kennurum sínum og beiti þá jafnvel ofbeldi!
Vert er að fjalla um þetta til að sjá hvað hefur farið úrskeiðis í okkar þjóðfélagi. Án fortíðarinnar erum við varla neitt.
Það er látið í veðri vaka að með boðum og bönnum verði fólk gert grannt, og með því að breyta matvælunum, setja gerviefni í staðinn.
Enginn minnist á að uppeldið var öðruvísi áður. Enginn minnist á að foreldrar STJÓRNUÐU börnum sínum með harðri hendi!!!
Það þarf að ræða hlutina öðruvísi en eftir leiðum sem eru í tízku.
Síðan er það tungumálið, sem kallað er hinn dýrasti arfur í ræðum, en sífellt minna er hirt um í raun og veru.
Þar er sama vandamálið á ferðinni. Foreldrarnir kunna varla íslenzku, og því síður börnin - allavega sum - það er auðvitað misjafnt, og sem betur fer slatti af fólki sem hefur metnað og kann vel íslenzku.
Þegar ég er í bænum eða einhversstaðar heyri ég æ oftar vont mál. Það er ekki bara viðtengingarhátturinn sem gleymist og nafnháttur notaður í staðinn, nei, fólk þorir ekki lengur að beygja setningar eða orð eða nöfn fólks, erlend eða íslenzk!
Hvar er íslenzkukennslan í skólunum?
Hvar er íslenzkukennslan sem á að vera inni á heimilunum, að foreldrar leiðrétti börn sín?
Langamma mín og móðir Jóns afa, systir Jóns Guðlaugssonar, var Guðlaug Þorgerður. Hún hafði mikinn áhuga á að tala rétt og maður hennar, Agnar Jónsson. Þau hlustuðu á þáttinn "Íslenzkt mál" í útvarpinu var mér sagt, og flutt til Reykjavíkur. Ég man ekki eftir að þau hafi leiðrétt mig, enda hitti ég þau ekki mjög oft, annað dó þegar ég var að verða 3 ára, hitt þegar ég var orðinn 6 ára.
En þau leiðréttu sín börn og barnabörn er mér sagt, mömmu og hennar systkini.
Þau nutu aðeins kennslu hjá prestinum fyrir ferminguna held ég, og svo úr bókum með sjálfsnámi. Þó kunnu þau margt. Guðlaug langamma prjónaði og heklaði til dæmis af kappi, og það voru bæði fallegar og hlýjar flíkur, sumar úr þykkri ull, eða þá smekklegir dúkar í fallegum litum.
Lausnin á þessum breytileika, hvernig menning nútímans er ómenning, hún felst í tíðarandanum. Okkar tíðarandi er léttýðgin uppmáluð nema á sumum sviðum.
Að breyta þessu felst bara í áhuga.
Það má sjá á gömlum myndasögum sem ég gerði 1984-1987 að ég gerði villur í stafsetningu, y-villur, n-villur, beygingarvillur og fleira. Stundum reyndi ég að nota zetuna en gerði það oft og einatt ekki rétt, sumsstaðar vantaði hana eða að henni var ofaukið.
Eftir tvítugt kenndi Þorgils Hlynur mér zeturegluna, minn bezti vinur. Hana lærði ég 100% og fannst hún skítlétt og skemmtileg. Það vakti áhuga minn á að læra meira og sneiða hjá öðrum villum.
Mín aðferð var ekki erfið, það er aðferð sem allir geta tamið sér til að bæta bæði stafsetningu, orðaforða og beygingar eins og aðra málfræði.
Ég fór að efast, ég fór að íhuga hvort eitthvað væri rétt stafsett, eða mætti vera betur orðað. Með því að leita í orðabókum er hægt að finna rétta stafsetningu og svo hugtök og frasa í réttri notkun.
En ég tek það fram að ég er enn fljótfær og ég læt frá mér texta þar sem orð vantar, innsláttarvillur eru, eða þá að vitlaus orð eru. Þegar maður er syfjaður eða nývaknaðar eða eitthvað slappur þá gerir maður frekar villur. Svo gleymi ég mjög oft að fara yfir textann, og þá slæðast með villur.
En zetureglan og yfsilonreglan, þetta er nokkuð sem flestir hljóta að gera lært, til dæmis. Fyrsta skrefið er að efast um öll orðin.
Ég lærði af Megasi. Hann fór að lýsa því hvernig hann lærði tónfræði vegna þess að honum fannst nóturnar fallegar á pappír og vildi vita hvaða tón þær gæfu, lengdargildi og annað.
Hvort á að ala afkvæmin upp á stofnunum eða af foreldrunum? Hversu miklir kommúnistar erum við orðin?
Hvort eiga skyndilausnir sérfræðinga að redda öllu eða gamlar og góðar reglur frá fyrri kynslóðum?
![]() |
Reisa nýtt skólahús: Stendur mjög vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.7.): 70
- Sl. sólarhring: 118
- Sl. viku: 731
- Frá upphafi: 152991
Annað
- Innlit í dag: 49
- Innlit sl. viku: 556
- Gestir í dag: 47
- IP-tölur í dag: 47
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góður pistill Ingólfur, -það er hætt við að við séum komin fram af brúninni með íslenskuna eins og flest þjóðlegt.
Magnús Sigurðsson, 26.7.2025 kl. 08:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning