Bernskutengd, hverfislæg, skynræn og sjónræn upplifun sjálfstæðis

Tilfinningu mína og skynjun hvað felst í orðinu sjálfstæði fékk ég hjá ömmu og afa á Digranesveginum, fyrst númer 92, breytt svo í Digranesheiði 8 með framkvæmdum við Smáralind og þau öll hverfi 1994 og eitthvað fram yfir 2000. Það var auðvitað tilskipun frá bæjaryfirvöldum að breyta nafni götunnar, því stubburinn uppað skóla skyldi heita Digranesheiði en Digranesvegurinn ná niður að Dalveginum og að Smáralindinni.

Hún móðir mín er ágætt dæmi um það hvernig kommúníska og stalíníska skólakerfið hefur farið með fólk. Ég held að hún hafi kosið hægriflokka eins og Sjálfstæðisflokkinn oft, en kannski Kvennalistann eitthvað um tíma. En ýmis vandamál hennar má kannski rekja til þess að kvenréttindaruglið náði tökum á henni og því fór hún í andstöðu við móðurhlutverkið, feðraveldið, og fleira slíkt. Þar sem femínismi er afrakstur marxisma að sumra áliti má segja að marxískt skólakerfi eigi að minnsta kosti einhvern þátt í þeirri femínísku innrætingu sem hefur skaðað hana og fleiri.

Ef maður ber saman ömmu og mömmu, þá finnst mér ekki auðvelt að segja að mamma hafi verið sjálfstæðari en amma. Móðir mín hefur verið kennari, nú á eftirlaunum, en hefur haft fjárhagsáhyggjur því hún tamdi sér þannig lífsstíl. Þar finnst mér skorturinn á sjálfstæðinu, óraunsæi draumóra.

Báðar ömmur mínar upplifði ég sem sjálfstæðar manneskjur, mjög svo. Amma Sigga var að vísu heimavinnandi húsmóðir allt sitt líf, en hún var ákveðin í skoðunum og ræddi við viðskiptavinina yfir kaffibolla og meðlæti sem biðu eftir viðgerðum. Það mátti heyra á henni að hún studdi Sjálfstæðisflokkinn og gat rökrætt við alla, eins og bezti stjórnmálaskörungur, Sigríður Á. Andersen til dæmis minnir á hana, nafna hennar.

Amma naut sjálfstæðis að því leyti að heimilið var sjálfstætt. Hún hafði skömm á öllu tengdu ríkinu. Að hún stóð með afa allt sitt líf var ekki merki um ósjálfstæði heldur skynsemi og fallegar tilfinningar, tryggð og kærleika.

Amma Fanney tók við verzluninni Hof þegar afi minn dó árið 1968, sem ég heiti eftir. Hún þótti "nýtízkuleg" að vinna úti og sjá um þennan rekstur. Sumt annað lét hún niður falla og gat ekki séð um, eins og innflutning á bandarískum bifreiðum og annan verzlunarrekstur sem afi minn Helgi Ingólfur einnig sá um.

Ég upplifði þannig ömmu mína í föðurættinni mjög sjálfstæða líka. Skoðanir hennar og sannfæring um gildi jafnaðarstefnunnar voru eins fastmótaðar og hjá hinni ömmunni um sjálfstæðið.

En það eru fáein atriði sem mjög standa uppúr hvað varðar sjálfstæðið og hvað það þýðir, sem ég lærði hjá ömmu og afa.

Eitt sem nauðsynlegt er að minnast á, það eru skattar og gjöld. Fasteignagjöld var nokkuð sem afi og Agnar sonur hans töluðu oft um, og voru mjög ósáttir við, og amma var sammála því einnig.

Þannig ólst ég upp við þá skoðun að fasteignagjöld, erfðaskattur, og allskonar skattar væru ekki réttlát fyrirbæri.

"Maður á ekki það sem maður þarf að borga af", þessa setningu heyrði ég oft.

Þannig var mér kennt að ríkið væri að stela af almennum borgurum með fasteignagjöldum og skattheimtu margvíslegri.

Nú stækkar sá hópur fólks á Íslandi sem hefur sífellt minna um líf sitt að segja, fólk sem er háð aðstoð eða á ekki eigið húsnæði. Það er jafnvel eins og kerfisbundið hafi verið unnið að því að gera fólk að ómögum og aumingjum, eins og þetta var stundum orðað af gamla fólkinu.

Húsið okkar sem afi byggði 1946-1950 og var rifið 2021, það var orðið skemmt að utan vegna þess að það hafði ekki verið málað mjög lengi, eða frá 1974 held ég, þegar Ragnheiður systir mömmu rak á eftir slíku viðhaldi.

En engu að síður þá sá afi um allt viðhald sem var nauðsynlegt. Hann til dæmis skipti um heitavatnslagnirnar og var það hans síðasta stórvirki, sem hann lauk við að mestu 2014, árið áður en hann dó.

Þar sem fólk er háð öðrum og sér ekki sjálft um svona mál, þar eru oft verri viðhaldsvandamál en hjá afa. Konu hefði þurft á heimilið til að mála allt reglulega og sjá um garðinn, slíkt var ekki sterkasta hliðin hjá afa. Það kom yfirleitt í ljós að peningar voru til þegar á þurfti að halda, og þó var ríkidæmið ekki til staðar, en skuldlaus var afi alltaf fyrir utan þegar hann var að byggja og svo þegar vegurinn var grafinn 1993 og hann varð atvinnulaus í nokkra mánuði.

Það er merkileg saga sem ég get sagt um það þegar verið var að rífa verkstæðið og húsið í apríl og maí 2021. Þá var ætlunin að varðveita ýmis verkfæri eins og risastóra borvél sem afi hafði smíðað, og járnsög sem var í eldsmiðjunni.

Ég skipti mér ekki af þessu, en mamma var í sambandi við mennina sem voru fengnir til að rífa þetta. Hún var viðstödd og flutti okkur fréttirnar.

Síðan frétti ég það hjá henni að allt fór í klúður hjá þeim sem voru að reyna að losa þessar vélar frá. Þá varð ég áhyggjufullur um að þessum vélum hans afa yrði ekki bjargað og ég fór að hringja í þetta fólk til að leiðbeina þeim hvaða vélar væru verðmætar og sérstakar. En það tókst ekki betur en svo að enginn þóttist vita neitt og var mér bent á hinn og þennan og enginn vildi taka neina ábyrgð!

Það endaði með því að flestu var hent af þessum vélum, því þeim tókst ekki að ná þeim í sundur og þótti of mikið fyrirtæki! Það er samt engin afsökun, raunverulega ástæðan var skipulagsleysi, að réttir menn voru ekki fengnir í þetta, nízka, skipulagsleysi, metnaðarleysi!

Þetta segir ýmislegt um það hvernig hið opinbera vinnur. Þetta segir ýmislegt um það hvað samskiptin geta verið erfið, hæfileikaleysið mikið.

Í gamla daga var það þannig að menn báru ábyrgð og bentu ekki hver á annan og reglugerðir eingöngu. Þá varð að tala beint við fólk.

Ríkisvæðing er annað orð yfir stjórnleysi og klúður, samskiptaleysi og klambur. Græna gímaldið er nýtt og frægt dæmi.

Inn af eldhúsinu var svonefnt búr uppi á Digró, hjá ömmu og afa. Það var sem sagt herbergi með ristum fyrir loftræstingu við gólfið, en án ofna. Þar varð kalt á vetrum. Þetta var byggt að fyrirmynd frá sveitinni, matur var geymdur í búrum og útihúsum tilað láta hann ekki skemmast.

Mig langar að klára bókina um verkstæðið og ömmu og afa. Ég þarf bara að verða sáttur við útkomuna, hafa trú á því að slík bók verði keypt í stórum stíl og standi undir sér.

Ein sérstakasta minningin sem ég á frá þessu æskuheimili mínu, það er þegar ég horfði útum búrgluggann og á götuljósin handan brekkunnar og svo á ljósin hjá Margréti og Steindóri og þeirra börnum, fjölskyldu.

Hvað er merkilegt við svona útsýn yfir götuna?

Ja, býsna margt.

Húsið var niðurgrafið, falið í brekku ef svo má segja, og þarna horfði maður beint upp brekku, sem var manngerð, þetta var norðurhlið hússins.

Þetta gaf mjög sérstaka tilfinningu um sjálfstæði, myndi ég segja, fyrir mig, sem þarna ólst upp.

Það er að segja, að mér fannst húsið einangrað frá umheiminum. Þarna var maður í sínum eigin heimi, þessum "sjálfstæða" heimi, og maður treysti afa fullkomlega, sem konungnum í þessu konungsríki, maður vissi að hann átti þetta skuldlaust, og sá um öll mál fullkomlega.

Ótti, gremja, erjur við annað fólk, þetta eru áhrifin sem ég fann frá mömmu þegar ég heimsótti hana. Það vakti hjá mér hughrif um ósjálfstæði. Þó þykir mér vænt um mömmu og eins og pabba og fleiri, hún er góð manneskja, en svolítið meiri vandamál en hjá ömmu og afa og mín samskipti við hana ekki alveg snurðulaus.

Í búrinu í myrkrinu sá maður sem sagt bara götuljósin á staurunum og síðan ljósin í húsinu hjá nágranna okkar gegnt okkur.

Þarna var maður kominn með annan fótinn í sveitina. Maður horfði á borgina og bæinn í fjarska, langt í burtu, í köldu herberginu, og hlustaði á raddir fólks í húsinu í fjarska.

Þetta takmarkaða sjónsvið veitti einnig innri útsýn ímyndunaraflsins.

Maður sá stundum glytta í hluta af bílum á planinu, en það skipti ekki miklu máli.

Á snjóþungum vetrum var eini glugginn út alhulinn snjó.

Stundum á vetrum sást aðeins stiginn fullur af snjó. Þá var ég oft sendur út að moka snjó úr stiganum, sem mér fannst skemmtilegt, en gat verið erfitt samt og gefið harðsperrur.

Stundum var ég þó latur og þóttist ekki hafa tíma.

Víða úr þessu húsi var útsýnið mjög sérstakt. Útsýnið úr eldhúsinu var svipað og úr búrinu, maður sá brekkuna, svolítið af planinu, og síðan eitthvað af brekkunni og húsunum fyrir ofan, götuna, götuljósin.

Svipað útsýni var úr norðurgluggunum í svefnberbergi ömmu og afa. Þar var samt einnig lítill gluggi sem vísaði í austur. Þar var útsýni undir brúna, og svo að húsi Bergsveins og fjölskyldu.

Suðurhliðin veitti hinsvegar ótrúlegt útsýni. Þar sá maður langt í burtu að fjöllunum, og áður en Smárahverfin risu voru þar hesthús, birgðastöðvar, kartöflugarðar og fleira.

Maður sá jafnvel langleiðina til Hafnarfjarðar og Garðabæjar úr þeim gluggum.

En sjálfstæðið upplifði ég og skynjaði sjónrænt með nákvæmlega þessum hætti þarna á þessum stað.

Ég tók upp tónlist þegar afi var í vinnunni. Fátt heyrðist að utan yfirleitt.

Eftir að amma dó, 1985, þegar ég var 15 ára, var maður einn í húsinu þegar maður var búinn í skólanum fram á kvöld mjög oft.

En sjálfstæðið fólst í því að húsið var eins og skip á rúmsjó og afi skipstjórinn.

Sjálfstæðið fólst einnig í því að afi vildi bara vera háður viðskiptavinum sínum. Hann vildi ekki borga fasteignagjöld eða skatta, en neyddist til þess.

Rifrildi þoldi afi ekki á þessu heimili. Mamma sem átti það til að tala klukkutímum saman um sín vandamál, karla sem hún elskaði en þóttist hata, eða annað, hún var undantekningin, og afi átti erfitt með að friða hana, þagga niður í henni, en það gat hann gert gagnvart öðrum með einföldum skipunum.

Afi átti bara eitt svar til, hann fór að hvíla sig og þá gafst hún upp. Þá þóttist hann ekkert heyra og stillti stundum útvarpið hátt, lagðist undir sæng og sofnaði stundum. Hann kunni ýmislegt fyrir sér í samskiptum við erfitt fólk. Þá gafst mamma upp og fór stundum að reyna að þrasa við mig, en fór svo að lokum heim til sín.

Afi hvíldi sig á miðjum dögum þegar hann var þreyttur í bakinu, sérstaklega eftir að hann fór að eldast. Það breytti ekki dugnaðinum þegar hann var á verkstæðinu.

En eftir því sem ég eldist og fer að hugsa um þetta betur, þá óska ég öllum þeirrar gæfu að eiga sitt einbýlishús, en auðvitað eru það líka draumórar og óskhyggja.

Mér finnst bara svo eðlilegt og rétt hvernig afi og amma höfðu þetta.

Margir yngri en þau flytja líka oft, þótt fólk eigi sín hús. Það gerðu ekki afi og amma. Þau héldu bara húsinu við.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði þá stefnu að hjálpa fólki að eignast eigin hús.

Hvers vegna fær ekki Sjálfstæðisflokkurinn að minnsta kosti 40% fylgi?

Hvers vegna hefur sjálfstæðisfólk linazt í þessum áherzlum að fólk eignist sín eigin hús?

Hvers vegna fær þéttingarfasisminn að ráða þegar nóg pláss er á þessu landi og óþarfi að þétta byggðina í alvöru?

Þetta er ekki bara spurning um að kjósa flokka heldur spurning um lífssýn.

Þetta er spurning um að styðja bændur og sjómenn.

Þetta er spurning um að styðja innflutta framleiðslu og fleira slíkt.

Þetta er spurning um bein samskipti og milliliðalaus, og vinskap í anda þessara gömlu kynslóða, tryggð og nánd.

Ég var alltaf að bíða eftir því að pabbi kæmi heim þegar ég var um það bil 3 ára. Hann kom bara aldrei og það er hluti af því hvers vegna mín ábyrgðarkennd þróaðist aðeins að hluta til, ekki gagnvart því að fá mér vinnu og sjá um mína framtíð og mitt nám. Mér fannst alltaf að ég væri barn, og geymdur hjá ömmu og afa því mamma og pabbi væru ófær um að sjá um sín mál.

Jón afi var nútímalegur að ýmsu leyti. Til dæmis leit hann þannig á að hver hefði sinn persónuleika og að börnin yrðu að fá rými til að vera þau sjálf. Pabbi hinsvegar trúði á rassskellingar og refsingar og ég fékk að minnsta kosti stundum ofbeldi frá honum þegar ég fór til hans, andlegt að minnsta kosti, í formi skamma og fyrirlitningar á mömmu og mér.

Amma reyndi að láta mig vinna. Hún kom mér í unglingavinnuna mörgum sinnum. Vandinn var sá að ég taldi mig vera orðinn listamann í fullu starfi þegar hún dó, hluti af minni klikkun.

En það er aðeins ríkt eða nokkuð vel stætt fólk í dag sem býr eins og afi og amma, og því fer fækkandi, nema þeir einstaklingar verða ríkari og ríkari samkvæmt ýmsum fréttum um misskiptingu auðs á þessu landi okkar.

Millistéttin held ég að fari rýrnandi hér á landi. Mamma er kannski ágætt dæmi um þannig manneskju, á kennaralaunum.

En börnin eru líka alltaf á námskeiðum nú til dags og í tómstundaiðju. Það er orðið miklu dýrara að lifa en þá, miklu harðari kröfur.

Sjálfstæðið ætti ekki að vera háð efnahag.

Mamma hefur til dæmis alltaf talað um sjálfstæðið. Hún kaus Frjálslynda flokkinn á sínum tíma og svo Íslenzku þjóðfylkinguna.

Uppeldið til sveita bjó til sjálfstæða og duglega einstaklinga. Strax þegar snjallsímar og tölvuleikir taka við uppeldinu þá glatast gömul gildi.

Síðan er það íslenzkan. Það er hryllilegt að heyra fólk tala í sumum fréttatímum, þar sem viðtengingarhátturinn víkur og fer forgörðum og orðaforðinn er fátæklegur hjá fólki.

Íslenzkan lifði í gegnum aldirnar vegna þess að langömmur, langafar, ömmur og afar bjuggu oft inni á heimilunum, og töluðu við börnin.

Margt af því sem fólk heldur eða telur sig hafa skoðanir á, það er byggt á uppeldi fjölmiðla og skóla eða margmiðlunar, nokkuð sem ristir ekki djúpt, nokkuð sem ömmur og afar gætu umbylt.

Þessi gömlu og góðu gildi geta komið aftur, ef viljinn er fyrir hendi.


mbl.is Framboðið ekki í takt við eftirspurn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 16
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 369
  • Frá upphafi: 152276

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 272
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband