1.7.2025 | 00:37
Það hleypur SNURÐA á þráðinn, Margrét Helga á Stöð 2, ekki SNUÐRA.
Það var svolítið fyndið þegar Margrét Helga á Stöð 2 mismælti sig í kvöldfréttum gærdagsins í viðtali við pólitíkusa um málþóf, og talaði um að snuðra hefði hlaupið á þráðinn en ekki snurða og ráðherfur og ráðherrar öpuðu það eftir henni, en mér heyrðist það sagt rétt stundum eins og fólk væri ekki visst í sinni sök.
Sögnin að snuðra er vissulega til í íslenzku og þýðir að þefa eitthvað uppi. En Margrét Helga talar yfirleitt góða íslenzku svo ég fyrirgef henni þetta alveg því þetta getur komið fyrir alla, þetta er bara notað í þessu eina sambandi að SNURÐA hleypur á þráðinn.
Samkvæmt orðsifjabók Ásgeirs Blöndal þá er snurða framburðarmynd af snyrða, sem er miklu eldra orð. Snúra og snæri eru skyld orð en Blöndal vildi frekar tengja snurðu og snyrðu við snúður, og r-ið hafi komið inn af aukaföllum, um það er ég ekki sammála og tel þetta komið af orðinu snúra eða snur á norsku.
Orðið að snuðra er hinsvegar skylt orðinu snudda, eitthvað sem er sett uppí munninn á ungbörnum. Færeyska orðið snodd þýðir þefskyn, til dæmis hunda. Elzta mynd orðsins kemur úr forngermönsku, sem er orðið snuþþ, hnusa, þefa. Snuden á miðháþýzku er svo að blása, hnusa, hrjóta.
En snyrða þýddi upphaflega snúningur á þræði, lykkja eða ójafna, og væntanlega orð sem konur notuðu þegar þær vefuðu á rokk klæði og ójafna eða snyrða hljóp á þráðinn, snurða varð orðið svo með tímanum. Orðið er því mörghundruð ára gamalt og mikilvægt að halda okkar máli réttu. Að hugsa um orðið snúra leiðréttir mann þegar maður er við það að mismæla sig og ruglast á þessum orðum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.7.): 25
- Sl. sólarhring: 158
- Sl. viku: 705
- Frá upphafi: 150579
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 444
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning