Afabróðir minn sem sagði mér sögur um það þegar skáldin voru einskonar spámenn á 19. öldinni og fyrr á öldum

Þegar amma og afi voru að alast upp snemma á 20. öldinni voru bækur sjaldgæfar og dýrmætar. Á okkar tímum er til slík ofgnótt lélegra bóka að þeim er fleygt og aðrar keyptar í staðinn.

Ég hlustaði á eldhúsdagsumræðurnar í gær. Þær voru hefðbundnar og ekkert meira um þær að segja. Nema þetta, að einhver minntist á Jónas frá Hriflu og áherzlur hans á þjóðerniskennd og menntun, og á Samvinnuskólann, eða samvinnu almennt.

Ég bloggaði um Ingvar Agnarsson afabróður minn nýlega. Hann lærði í Samvinnuskólanum, og tók þaðan með sér ýmsar hugsjónir góðar og merkilegar sem veganesti í lífið - ef hann lærði þær ekki annarsstaðar líka.

Hann kunni sögur frá föður sínum og afa og hvernig það var þegar íslenzka þjóðin var að berjast fyrir sjálfstæði. Hann kenndi mér að yrkja hefðbundið eins og ég hef áður skrifað um.

En hann gaf mér líka tilfinningu fyrir liðnum tíma, hvernig það var að alast upp snemma á 20. öldinni, og svo seint á þeirri 19. í gegnum minningar og frásagnir eldra fólks sem hann þekkti.

Við Ingvar frændi áttum náið vináttusamband þrátt fyrir aldursmuninn. Kannski vegna þess að ég lærði Nýalsfræðin hjá honum betur en nokkurt barnabarn sem hann átti sjálfur, en samt veit ég að hann kenndi þeim líka, en ég varð mikill vinur afabróður míns, því báðir höfðum við mikinn áhuga á skáldskap og heimspeki og fleiri málum.

Eitt af því sem var sérkennandi fyrir Ingvar Agnarsson frænda minn var hversu mikla virðingu hann bar fyrir kvæðum. Hann orti sjálfur, en fór ekki að yrkja fyrr en hann var kominn yfir miðjan aldur, nema fáeinar vísur sem strákur, eins og hann sagði mér frá.

Hann sagði mér að eitt sinn var þetta þannig að kvæði höfðu gríðarleg áhrif á fólk og landsmenn lærðu vísur og kvæði utanað, og þau bárust í munnlegri geymd landshornanna á milli! Hann fæddist 1914 þannig að þetta hefur verið fram að 1924 og ábyggilega lengur.

Ingvar frændi kenndi mér að góð kvæði um þjóðerniskennd og frelsi væri eitt af stóru atriðunum til að gera stjórnmál góð og til að almenningur í landinu hefði áhuga og tilfinningu fyrir sjálfstæði!

Ég drakk þetta í mig, þessa sannfæringu hans fyrir gildi kvæðanna, að þau væru meira frelsandi fyrir fólk heldur en laust mál sem myndi gleymast meira.

Þetta er því miður nokkuð sem okkar íslenzka þjóð virðist alveg hafa gleymt og týnt niður fyrir utan örfáa sem kunna að yrkja og sem kunna AÐ META hvað kveðskapur er og hvað hann er ERFIÐUR, að setja saman góðan kveðskap!

Hann minntist á Hannes Hafstein og Jónas Hallgrímsson. Fólkið í landinu lærði vísur og ljóð eftir þessa menn eins og þeir væru ROKKARAR eða POPPSTJÖRNUR þess tíma!

Þegar Davíð Stefánsson gaf út bækur voru þær geymdar undir koddanum!

Hugsið ykkur, fólkið í torfbæjunum og torfkofunum hafði brennandi áhuga á menntun og fréttum að utan! Fólkið í torfbæjunum sem var bláfátækt á Íslandi, það drakk í sig bækur og fróðleik, og það stefndi beint uppávið og framávið!

Ég vil draga þetta fram til að benda á andstæður.

Þær eru kannski mest æpandi í Bandaríkjunum.

Sagt er að fólk í Bandaríkjunum í fátækrahverfum og jafnvel á millistéttarsvæðum eða úr ríkum fjölskyldum viti ekki hvar Ísland er eða hvað það er, og viti næstum ekkert.

Ég er ekki að segja þetta til að halda því fram að Bandaríkin skeri sig úr hvað menntunarskort varðar. Bandaríkin eru bara á undan á svo mörgum sviðum.

Ég er að segja að sama þróun er að verða á Íslandi og víðar.

Mér skilst að á Ströndum hafi ættingjar afa búið mann fram af manni, allavega í nokkur hundruð ár. Þetta var heimur þessa fólks, að lifa af landsins gæðum og sækja kirkjur og prestar komu og fermdu börnin og komu með bækur sem voru lánaðar í Bókafélagi, og fólk lærði þær næstum utanað!

Engu að síður er mjög langt frá því að segja að þetta hafi verið ómenntað fólk.

Langafi minn kunni að leggja klósett og útikamra fyrir nágranna sína, hann fór á hákarlaveiðar, hann veiddi fisk, var með kindur og kú, og hann kunni sitthvað í eðlisfræði og stærðfræði, íslenzku og fleiri greinum.

Auk þess var hann með örlitla smiðju við bæinn sinn Hraun, sem fór í eyði og hrundi loks, eða var rifinn. Þetta var timburbær, sem voru sjaldgæfir á þeim tíma. Eitt timburskýli var þessi smiðja og verkfærin voru handborvél, fótstiginn rennibekkur og annað slíkt. Já, fólkið kunni að bjarga sér á þessum tíma.

En að segja að fólkið í torfbæjunum hafi verið menntunarsnautt það er fjarri öllu lagi!

Ég hef stundum birt kvæði hér á blogginu. Það er hætt að valda mér vonbrigðum hvað þau fá lítinn lestur, en það er hneykslanlegt, og það sem meira er, það ber vott um að þjóð okkar hefur farið aftur.

Mér skildist á Ingvari frænda að pabbi hans og fyrri kynslóðir voru á þeirri skoðun að bundið mál væri æðra en það lausa.

Einnig lærðu þessar kynslóðir að ákall í kvæðum væri sterkara en í lausu máli og því bæri frekar að hlýða.

Þar af leiðandi, frelsishvöt og sjálfstæðishvöt Einars Benediktssonar, Hannesar Hafstein, Jónasar Hallgrímssonar og fleiri, hún hafði gríðarleg áhrif á þjóðarsálina. Síðan komu lög við sum þessara ljóða og þá hreinlega brenndu þau sig inní þjóðarsálina og urðu samofin henni.

Við lifum í heimi þar sem ofgnótt er til staðar á öllum sviðum.

Þá þarf að greina kjarnann frá hisminu.

Kvæði eru góð leið til þess. Þau eru oftast fremur stutt og hnitmiðuð.

Allskonar fólk vill hafa áhrif á mann. Jafnvel vélvit og gervigreind, gott er nýyrðið hjá Birni Bjarnasyni, að tala um vélvit í þessu sambandi.

Sérhver manneskja þarf að stíga til baka og taka eigin ákvörðun.

Ég er ekki dómbær á eigin kveðskap. Það sem mér finnst gott einusinni finnst mér kannski ekki gott seinna. Mér finnst þetta eins og að skrifa dagbækur að búa til ljóð og söngtexta. Mér finnst bara skemmtilegra að glíma við þrautir eins og rímið, skemmtilegra að það sé áskorun þannig og erfiðara.

En ég veit með 100% vissu að það voru betri tímar þegar allir Íslendingar elskuðu kveðskap og hlustuðu eftir kveðskap með ákafa og brennandi áhuga.

Já, sá tími þarf að koma aftur, þegar fólk ræðir saman um hversu góð kvæði eru sem koma fram og hvort vit sé í þeim, og jafnvel eitthvað sem getur hjálpað fólki í daglega lífinu, hvatt áfram ef þjóðerniskennd og frelsisvitund skortir, til dæmis, sem skáldin veita og bjóða.

 


mbl.is Hagræðingu skortir í „hrúgu“ þingmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingólfur.

Áður en ég kem mér að erindinu, þá veit ég það fyrir víst að gildi kvæða fer eftir að einhver hafi ort þau, mig til dæmis minnir að enginn, eða næstu því enginn því einhver, og líklegast var hann einn, hafi lesið kvæði Kristjáns Fjallaskálds, hann bjó af því að þessi næstum því enginn skrifaði þau niður, og seinna voru þau birt, og lifðu síðan verðskuldað.

Að baki þessari hetjusögu, það er lestur kvæða Fjallaskáldsins, eru ótal margar aðrar sögur, sem fengu ekki flug, en ljóðin lifa engu að síður, eiga sitt líf í alheimi sem er handan okkar skilnings.

Erindið var samt að þakka fyrir þennan góða pistil þinn Ingólfur, hann er hafinn yfir allt sem snýr að þér persónulega, mér eða öðrum.

Hann segir svo margt, er svo sannur.

Þegar við töpum orðinu, þá er svo stutt að við töpum hugsun okkar og skynjun.

Hættum að verða menn, hættum að vera fólk, hættum að vera hinn vitiborni maður.

Ég held hins vegar að mannsandinn muni alltaf snúast gegn þessari afmennsku mennskunnar, og það andóf sé út um allt.

Þar á meðal í þessum góða pistli þínum Ingólfur.

Hafðu þökk fyrir hann.

Með kveðju að austan. 

Ómar Geirsson, 13.6.2025 kl. 17:52

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina Ómar.

Það er þetta með samfelluna. Mér fannst eftir að hafa horft á eldhúsdagsumræðurnar að allir vildu upphefja sjálfa sig og konurnar mest en gleyma fyrri kynslóðum og hefðum.

Alltaf finnst mér vænt um þegar fólk er ánægð með persónulega pistla mína um ættingja og liðna tíð. Magnús hefur oft séð um það og þú líka komið skemmtilega á óvart með  þannig góðar athugasemdir.

Já þetta með að tapa orðinu er svo satt og vel orðað. 

Þetta er svona eins og með að tapa sér í nútímanum og gleyma til dæmis fyrirgefningu Krists. 

Vandinn við Katrínarstjórnina fyrir utan ráðherra og ráðherfur sem ekki voru vaxin starfi sínu var sjálfhverfan, að þykjast ætla að bæta lög landsins með róttækum breytingum, sem síðan reyndust hálfgerð hryðjuverk, eins og að gefa rekstur leigubíla frjálsan, og auka leyfi til fóstureyðinga þegar fæðingum fer fækkandi og þveröfuga löggjöf þarf til að sinna kalli tímans.

Þakka þér kærlega fyrir gott hrós, það er gott að fá það frá manni sem hefur verið einn af mest lesnu bloggurunum lengi og pistlar þínir hafa virkileg áhrif, og maður ber virðingu fyrir því, og mér finnst pistlar þínir auk þess miklu hressilegri en hjá mörgum og komast beint að efninu, sem er gott.

Já þetta með gildi kvæða er býsna rétt hjá þér líka. Það er fyrst þegar margir fara að uppgötva þjóðskáldin sem þau verða þjóðskáld en ekki bara berklaveikir manngarmar sem draga fram lífið í fátækt og eymd.

Já það tekur tíma fyrir ungar konur að fá þá stjórnvizku sem þroskaðir og eldri ráðherrar hafa.

Beztu kveðjur.

Ingólfur Sigurðsson, 14.6.2025 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 38
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 754
  • Frá upphafi: 151308

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 500
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband