23.4.2025 | 00:45
Maður minnist páfans og ömmu
Vissulega er páfinn umdeildur, ekki allir sammála um hann, en amma var ekki umdeild. Hún var elskuð og vel liðin af öllum sem þekktu hana.
Amma mín Sigríður Tómasdóttir fæddist þennan dag árið 1915, og því 110 ár liðin frá fæðingu hennar. Henni þótti gaman að sjá um ungbarnið mig fram að 5 ára aldri, ásamt mömmu, og svo fluttist ég aftur til hennar og afa 10 ára. Það var því erfitt að missa hana þegar ég var 15 ára og mikil sorg fyrir mig og aðra í fjölskyldunni.
En hún var þessum kostum búin sem gerir hana ævinlega minnisstæða. Hún þjónaði fjölskyldunni og vann ekki úti og gerði það á þann hátt að maður hlýtur að vera henni ævinlega þakklátur.
Ég hef stundum tengt það við trúna, kristnina, hvað hún var góð og kærleiksrík kona, en auðvitað fer það eftir persónuleikum líka og kannski mest.
Hún setti alltaf fjölskylduna og aðra í fyrsta sætið. Ég man líka eftir systrum hennar mörgum, bara misvel, og bróðurnum. Oft var farið í heimsókn til ættingja á þeim árum.
En af gaulversku guðunum er það Cernunnos sem mest hefur þessa eiginleika, en útlit hans bendir ekki til þess samkvæmt kristninni, því hann er hyrndur, en kærleiksríkur guð er hann samt.
Ég man eftir því að ég fór á Passíusálmatónleikana með Megasi um páskana 1985. Ég tók þá upp á lítið segulband og spilaði heima. Mamma fór með mér á þessa tónleika og skemmti sér vel eins og ég, hélt að einhver fullorðinn yrði að vera með mér.
Ég á skemmtilega minningu um ömmu þegar ég spilaði upptöku frá tónleikunum á Crown græjunum sem ég hafði fengið í fermingargjöf árið áður. Þá tók maður upp á spólur, kassettur.
Hún hafði ekki verið hrifin af söng Megasar áður eða textum hans, en þegar hún heyrði hann syngja Passíusálmana kom hún í gættina til mín og hlustaði í forundran, og settist á rúmið sem ég fékk í fermingargjöf.
Hún sagði að þetta væru ekki rétt lög hjá honum, en sagði samt að þetta væri nokkuð gott eða eitthvað slíkt, og ég sá það á svipnum á henni að henni mislíkaði þetta ekki og fannst þetta gott hjá honum. Hún var uppnumin á svipnum og hissa að heyra þetta í þessari útgáfu og með nýju lagi.
Sérstaklega þegar hún heyrði 4. Passíusálminn. Þegar laginu lauk þá söng hún hann með réttu "kirkjulagi", "Bænin má aldrei bresta þig".
Þetta er mjög góð minning. Þarna fékk ég viðurkenningu frá ömmu á þeim tónlistarmanni sem var orðinn dýrðlingur eða idol fyrir mig á þessum árum.
Því miður dó amma í desember á þessu ári. Það var hjartagúlpur, og kannski var það betra hennar vegna að hún þjáðist ekki nema um nóttina og morguninn, en það var erfiðara fyrir okkur, sem eftir stóðum og misstum hana.
Aldrei söng Megas Passíusálmana betur en á tónleikunum 1985, en 2014 flutti hann þá alla í heild sinni. Það voru líka meiriháttar tónleikar. Á svona tónleikum skilur maður það hvers vegna Megas hefur margsinnis verið kallaður meistari. Hann hefur yfirburðaþekkingu á tónlist annarra, og svo á því hvernig á að uppbyggja og semja lög, eða útsetja þau. Jafnvel sem söngvari hafði hann stíl sem fáir léku eftir. Hann getur enn sungið, en ellin hefur tekið sinn toll og því má segja að óskýrari verði söngurinn.
Amma söng mjög vel. Hún talaði oft um það að hún hefði viljað læra söng.
![]() |
Mikil eftirsjá að þessum páfa, þessum góða manni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.4.): 19
- Sl. sólarhring: 104
- Sl. viku: 532
- Frá upphafi: 143067
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 412
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning