20.4.2025 | 00:25
Æskupáskaminningar
Ég hitti mömmu í gær (laugardag) og við ræddum páskana á æskuóðalinu að Digranesheiði 8, og ég fékk að heyra ýmislegt um þetta áður en ég fæddist þegar hún var ung þarna á seinni hluta 20. aldarinnar.
Ég upplifði mikinn frið og kærleika hjá ömmu og afa. Þessar æskuminningar eru góðar og dýrmætar. Þær eru vin í eyðimörkinni.
Þegar ég rifjaði þetta upp með mömmu og hún sagði mér eitthvað nýtt, þá undraðist ég hversu fátæklegt þetta var á þessum tíma, um 1950 og áratugina á eftir, páskaegg voru ekki aðalmálið, og ekki öll börn fengu þau. Það var amma Ragnheiður, langamma mín, móðir ömmu, sem gaf mömmu og systkinum hennar eitt páskegg hverju fyrir sig í mörg ár, eða í um 20 ár þar til hún lézt og þar til þau stálpuðust, en önnur páskaegg fengu mamma og systkini hennar víst ekki. Hún dó 1973, og þá voru þau öll uppkomin, um það bil.
Það sem ég man eftir persónulega er svipað. Amma stjórnaði heimilinu og var í essinu sínu á páskunum, því hún sagði:"Í dag var Jesús krossfestur", "Í dag sveik Júdas frelsarann", og svo framvegis.
Hún gerði dymbilvikuna lifandi með þessu og trú hennar var mjög lifandi. Þannig hefur þetta líka verið hjá heiðnu fólki, því fyrir því eru atburðirnir hringrás sem endurtekur sig.
Mig minnir að amma hafi sagt að fólk ætti að fasta á föstudaginn langa til að þjást með frelsaranum, en samt minnir mig að matur hafi verið á borð borinn.
En seinna þegar ég varð eldri fóru páskaeggin að verða eitt aðalmálið. Það má víst segja að Mammonsdýrkunin hafi yfirtekið allar kristilegar hátíðir.
Mamma sagði mér frá því, og ég man eftir því sjálfur, að afi vann ekki á páskadag eða annan í páskum og heldur ekki á föstudaginn langa. Nema ef menn þurftu mjög nauðsynlega á viðgerð að halda, þá vann hann á laugardaginn fyrir páska eða annan í páskum eða á skírdag, en aldrei held ég á páskadag eða föstudaginn langa, enda amma mjög ströng á þessu.
Svo var það mjög algengt að ættingjar kæmu í heimsókn fyrir tíma internetsins. Ættingjar ömmu komu oft frá Snæfellsnesi og ættingjar afa frá Ströndum.
Stundum komu ættingjar og fengu að gera við bílana sína um páskana á verkstæðinu. Amma var mjög óhress með það, en svo lengi sem afi væri ekki að vinna yfir hátíðirnar sætti hún sig við það, en hneykslaðist á þessum ættingjum, jafnvel sínum eigin, og ávítti þá lítið eitt.
Ég man að mér leiddist oft um páskana.
Mamma rifjaði það upp að hún fór upp á efraloftið og las Sjómannablöðin sem afi geymdi þar.
Afi þekkti sjómenn og hafði farið lært eitthvað í stýrimennsku og slíku þegar hann menntaði sig sem vélsmiður, rennismiður og fleira. Hann hafði einnig verið eitthvað örlítið á sjónum að gera við vélar í skipum fyrstu árin fyrir sunnan, og jafnvel í Djúpuvík, á síldarárunum þegar hann var enn yngri.
En mér fannst gaman að fá þessa ættingja í heimsókn og hlusta á hvað sagt var, en ég man ekki eftir neinu af því. Það var talað um æskustöðvarnar, pólitíkina, vinnuna og fleira.
Ég man að mér fannst amma skrýtin að tala svona um Jesús eins og hann væri lifandi og í nútíð, eins og verið væri að pína hann aftur og aftur á hverju einasta ári!
En það er gott að rifja þetta upp, hvernig sannkristið fólk er og var.
Gleðilega páska.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Meistarinn og tíminn, ljóð frá 15. apríl 2017.
- Víða í miðbænum eru allar búðir með útlend heiti og útlent st...
- Smellibeitufréttir. 99% af eigum Bill Gates fara í Gates Foun...
- Ég var búinn að lofa mér annað en lýsti Arnari Þór sem merkil...
- Hægt og bítandi eru hneykslismálin að grafa undan ríkisstjórn...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.5.): 21
- Sl. sólarhring: 44
- Sl. viku: 696
- Frá upphafi: 145723
Annað
- Innlit í dag: 18
- Innlit sl. viku: 527
- Gestir í dag: 18
- IP-tölur í dag: 18
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ingólfur.
Innilegar þakkir fyrir að deila æskuminningumþínum hérna.
Allt er það dýrmæt gjöf.
Óska þér fegurðar og friðar.
Guðni Björgólfsson, 21.4.2025 kl. 19:51
Takk fyrir þetta Guðni og beztu páskakveðjur til þín.
Já þetta er eitt það mennskasta sem maður gerir. Maður finnur samkennd bæði með því að lesa og deila.
Ingólfur Sigurðsson, 21.4.2025 kl. 23:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.