12.4.2025 | 02:08
Að samgleðjast konum með að þær eru að sigra á öllum sviðum, og að fagna, finna femínistann í sér, það er ákveðið þroskamerki þrátt fyrir allt, held ég
Ég hef nú sitthvað lært af trúarbrögðum og heimspekikenningum. Ég hef mínar eigin skoðanir og fer ekki ofanaf þeim, af því að þær byggjast á langri reynslu, þær byggjast á uppsafnaðri þekkingu og tilfinningum, en ekki tilfinningum einum saman.
Ég er stundum að tjá mínar eigin skoðanir og sennilega oftast. Með ljóðagerðinni hef ég þó lært með tímanum að hægt er að kúpla sig útúr heiminum, ef svo má segja. Þá er hægt að slökkva á eigin skoðunum og tilfinningum og leyfa innblæstrinum að ráða.
Eitt sinn bloggaði ég um það að femínistinn í mér væri ánægður með nýju ríkisstjórnina. Þannig var ég ánægður með kvennaborgarstjórnina einnig. Mér finnst þetta tímamót, að Ísland sé Í FARARBRODDI hvað varðar völd kvenna! Maður getur verið stoltur af þessu.
Ómar Geirsson, sem mjög oft bloggar mjög vel, og betur en margir aðrir, og jafnvel er sá bezti stundum, hann kom með athugasemd sem átti vel við og spurði hvort ég væri búinn að skipta um skoðun og orðinn femínisti, eða öllu heldur hvort þessi pistill (þar sem ég gladdist yfir femínísku valkyrjustjórninni) samrýmdist þeim skoðunum sem ég hef oft tjáð um að femínisminn væri satanískur og slíkt.
Ég kann vel við svona spurningar, eitthvað sem hreyfir við manni og krefur mann svara við þversögnum, og sem er jafnvel gagnrýni á mann sjálfan. Oft lærir maður mest af því. Ég man svona spurningar lengi og íhuga þær.
Þessi frétt sem ég blogga út frá er nú kannski þannig frétt að fæstir blogga út frá svona hlutum, því hún virðist fjalla um heppni tveggja kvenna og annað ekki.
Mamma hefur oft verið dugleg að kaupa lottómiða, en gleymir því oft líka. Ég hef eiginlega aldrei keypt lottómiða, en það er nokkuð sem mig hefur langað til að gera, því mamma kenndi mér að það væri sniðugt, og eitt sinn þegar ég var ársgamall vann hún eina milljón í happadrætti DAS, og lagði það inná bankabók og sagði að ég fengi það þegar ég yrði fullorðinn.
Nýlega spurði ég hana hvort hún væri til í að borga þetta, en þá sagðist hún ekki hafa efni á því. Þá kom í ljós að þegar hún skildi við sinn fyrrverandi árið 1982, þá borgaði hann henni þetta aðeins óbeint. Þannig var að þau voru að byggja einbýlishús sem var óklárað þegar þau skildu, en öll milljónin sem hún vann með mínu nafnnúmeri (og sagði að ég fengi ef vinningur kæmi) hún rann í afborganir að því sem kostaði að standa í að kaupa lóð og byggja nýtt hús. Síðan þegar þau skildu þá borgaði hann henni helminginn af þeirra sameiginlegu eigum, en milljónin (mín) hún var ekki borguð út til hennar nema sem þessir sameiginlegu skilnaðarpeningar, og bankareikningurinn hvarf, og þarna hurfu þessir peningar og koma sennilega aldrei aftur. Hún segir að sinn fyrrverandi eigi þá að borga til jafns við sig þessa milljón, því hann hafi neitað að borga henni þessa milljón aukalega, bara það sem hann varð að borga henni útaf skilnaðinum.
Mamma keypti þó íbúð fyrir þessa skilnaðarpeninga og ég hef bent henni á það, en það þýðir ekki að ræða við hana þegar hún er í þessum þrjózkuham.
En ég fjalla um heppni þessara kvenna sem dæmi um stöðuna í okkar þjóðfélagi, hvernig konur verða ríkari og valdameiri á öllum sviðum.
Hvernig á ég að tjá það sem ég vildi tjá? Hvernig get ég samrýmt það að vera femínisti, eins og ég tjái stundum, og svo hitt að vera kristinn maður og bókstafstrúar, og tala um femínisma sem Satanisma?
Þetta tvennt getur passað og gengið upp.
Í heiminum er andlegur sannleikur og trúarlegur, það er hinn endanlegi sannleikur, það er sannleikur Guðs. Svo er það hinn veraldlegi og mannlegi sannleikur, eða sannleikur Satans og heimsins.
Maður verður að vera sveigjanlegur. Maður verður að sjá kosti og galla við alla hluti, ef maður ætlar að vera heimspekilegur. Þannig er ég þrátt fyrir allt.
Ég fjalla um að heimurinn sé að fara til Fjandans þegar mér finnst nauðsynlegt að koma með þannig boðskap.
En mér finnst spennandi að fylgjast með nútímanum og mér finnst það að vissu leyti spennandi og gleðilegt að konur séu ALLSSTAÐAR komnar með völd (um það bil) á Íslandi. Maður á ekki að vera beizkur eða gamaldags, maður á að samgleðjast öðrum. Það er hluti af því að hafa félagslega færni, einnig að fyrirgefa og biðja fyrir öðrum, en ekki að fordæma. Það bara gengur misvel fyrir fólk, og stundum er ég ekki í þannig skapi eða alveg tilbúinn.
Ég hef mikla áhuga á mannkynssögunni. Ég hef sérstaklega áhuga á dularfullum þjóðum sem of lítið er vitað um. Ég hef oft fjallað um Kelta, Esus, Taranos, Teutatis og fleiri goð þeirra.
Mínóísk menning á Krít hefur einnig vakið mikinn áhuga hjá mér. Sagnfræðingar hallast að því flestir að margt bendi til að mæðraveldi hafi ríkt þar um langt skeið, og að sú menning hafi verið að einhverju leyti fyrirmynd að hinni heimsfrægu forngrísku hámenningu. Þó hrundi krítverska menningin til grunna, eða rann inní aðrar þjóðir, og ekki er búið að svara öllum spurningum um þeirra sögu og trúarbrögð, enda er ekki búið að ráða fleygrúnir og myndletur þeirra nema að litlu leyti, elztu leturgerðir þeirra og myndletur eru hulin ráðgáta, enda vantar þar steina og leturtákn til að heildarmynd fáist.
En þetta er útúrdúr. Það sem ég vildi sagt hafa er það, að við lifum spennandi tíma, og það er skemmtilegra að vera bjartsýnn og gleðjast yfir nútímanum en að horfa bara á það sem neikvætt er.
Þetta tengist raunar öðru áhugamáli mínu, sem er að fræðast um guðina Taranis, Esus og Teutates og aðra gaulverska, keltneska guði.
Þannig er að óvart hef ég þurft að fræðast um annan guð í þeirra guðafjölskyldu, en það er Cernunnos, sem nefndist Horni á íslenzku, og Hörn, er gyðjuheiti sem ég tel af sama uppruna og er í Snorra Eddu sem eitt Freyjuheiti.
Þannig er að mjög friðandi áhrif koma fra Cernunnosi, og hann er óendanlega kærleiksríkur guð, sem hefur þau áhrif á mann, að maður lætur af einstrengislegum skoðunum og fer í búddískar stellingar ef svo má segja og maður vill skoða heildarmyndina, og fallast jafnvel á skoðanir þeirra sem maður er ósammála. Hann er yndislegur guð og það vissi ég ekki áður en ég fór að fræðast um hann.
Einnig virðist hann hafa indverskar rætur, og vera mjög friðsamur á allan hátt.
Ég er farinn að komast á þá skoðun að þetta skipti ekki öllu máli, hvernig þetta fer með þessa menningu okkar eða þessa þjóð okkar. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt og þroskast.
Samt, þá er ég á þeirri skoðun, að mikilvægi þess að gagnrýna hverfi ekki. Það kenndi líka Sókrates og maður er ekki mikill heimsspekingur, ef maður hættir að gagnrýna.
![]() |
Tvær konur skiptu með sér 160 milljónum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.4.): 52
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 452
- Frá upphafi: 142389
Annað
- Innlit í dag: 41
- Innlit sl. viku: 357
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 38
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það eina sem ég veit, en efast þó um öðru hvoru, er að meðan enginn getur sannanlega farið út fyrir alheiminn, rýnt hann, og komið til baka með mælinguna, veit ég ekki hvort hann sé til, eða við yfirhöfuð, nema elítan setji lög um það.
Guðjón E. Hreinberg, 12.4.2025 kl. 18:37
Já og elítan setur lög um ruglið og vitleysuna, ómælanlega þvælu. Svo er gert grín að því að börnin trúi á jólasveininn? Trúum við á vald elítunnar? Afhverju?
Fólk getur gert uppreisn.
Beztu kveðjur.
Ingólfur Sigurðsson, 12.4.2025 kl. 20:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning