Um Bakkynjur, Esusardýrkun og siðspillingu í Róm til forna, í kringum Krists burð, fyrir rúmlega 2000 árum

Ég fékk góðar einkunnir í sögu í Menntaskólanum í Kópavogi. Ég hafði gaman af því fagi og nennti því stundum að lesa eða rifja upp glósur.

Bók um guðinn Esus myndi kannski vekja mikla athygli eftir mig ef hún kæmi út. Sú bók er mjög metnaðarfull af minni hálfu þar sem fátæklegar heimildir eru fyrir hendi, og margir vilja vita meira um hann.

Ég rakst á bók sem ég keypti fyrir mörgum árum í Góða hirðinum sem heitir "Neró keisari", eftir Arthur Weigall, sem var Egyptalandsfræðingur með meiru og af vel metnum ættum í hinu victoríanska-brezka samfélagi á fyrri hluta 20. aldarinnar.

Þetta er hreint frábær sagnfræðibók sem lýsir lífi rómverska keisarans í smáatriðum og vandlega, liggur greinilega mikil heimildavinna til grundvallar.

Bókin kom út á íslenzku árið 1938 af Ísafoldarprentsmiðju, áður en seinni heimsstyrjöldin brauzt út, en 1933 á frummálinu.

Eins og fram kemur í upphafi bókarinnar þá var tilgangur Weigalls að athuga hvort hægt væri að finna eitthvað jákvætt um Neró, af sagnfræðilegri vandvirkni, því hann væri jú einn af þessum Rómarkeisurum sem kallaðir voru snarklikkaðir og geðveikir ofstopamenn, en sannir sagnfræðingar vilja efast um söguskýringar þær sem viðteknar eru og athuga hvað er hæft í þeim.

Þetta finnst mér höfundinum hafa tekizt.

Það sem vakti athygli mína var tímabilið og nálægðin við Esusartrúna, ég vildi forvitnast um það hvort ég fyndi þarna fróðleik og heimildir í mína eigin bók um guðinn Esus og aðra gaulverska, keltneska guði. Jú, ég varð ekki fyrir vonbrigðum.

Samkvæmt mínum rannsóknum þá telja fræðimenn að gaulversk, heiðin trúarbrögð hafi að minnsta kosti lifað fram á 7. eða 8. öld eftir Krist í Gallíu, Frakklandi, kannski víðar.

Til er ein heimild sem staðfestir þetta.

Hún er þannig, að klausa er til í bók sem rituð var í klaustri um þetta leyti, þar sem því er lýst að með drápum og með því að brenna heiðin skurðgoð hafi kirkjunnar menn verið að kveða niður villutrú á svæðinu. Var því lýst að prestur einn, sem talaði latínu alla jafna, hefði mælt á djöflatunguna gaulversku og farið með heiðnar bölbænir eða einhverskonar fræði af því tagi.

Þetta er staðfesting á því að latínan var ekki búin að útrýma gaulverskunni um þetta leyti, frumtungumáli Frakka, og heldur ekki þeirra upprunalegu trúarbrögðum. En svo mikil var fyrirlitning Rómverja og Frakka sjálfra á eigin tungumáli og eigin trúarbrögðum að þeim datt hvorki í hug að skrifa neitt á sínu móðurmáli né neitt um sín eigin upprunalegu, heiðnu trúarbrögð.

Þetta sýnir nú betur en nokkuð annað hvað sjálfsfyrirlitningin getur verið mikið hjá sigruðum þjóðum og hvernig þjóðir, tungumál og trúarbrögð hafa horfið í tímans straum án þess að hafa skilið neitt eftir sig, eða eitthvað örlítið stundum.

Þjóðir eins og Grikkir og Rómverjar eru undantekningin. Langflestar germanskar þjóðir skildu ekkert ritmál eftir sig, en áttu þó blómlega og stórmerkilega menningu og tungumál.

Þetta minnir fólk á hversu dýrmæt hin rómantíska þjóðernisvakning var á 19. öldinni og þeirri 20., eða í upphafi þeirrar 20., en ekki eins mikið seinni hlutann. Þetta minnir á hvernig fólk hefur misst niður það sem hafði áunnizt þá.

Fyrr á öldum var talið eðlilegt að drepa fólk sem hafði ekki réttar skoðanir, á þeim forsendum að það aðhylltist villutrú.

Neró keisari fæddist árið 37 eftir Krist. Hann var kallaður djöfull í mannsmynd, og tengdur við Dýrið í Opinberunarbók Jóhannesar.

Weigall tekst að draga upp mynd af Neró sem vekur samúð og skilning með lesandanum.

Það sem vakti athygli mína við þessa bók er sifjaspellin, til dæmis. Kalígúla elskaði systur sína Drúsillu og það var ekki einsdæmi, í bókinni er sagt frá fleiri slíkum atvikum og endurteknum kynlífsathöfnum systkina eða hjónabandi og barneignum systkinna eða annarra náskyldra ættingja.

Þetta afsakaði hann með því að þetta væri leyfilegt í Egyptalandi og hefði verið lengi.

Í þessari bók kemur ýmislegt fram sem maður finnur ekki í yfirborðsumfjöllun um Neró eða fólkið á þessum tíma.

Þessir rómversku keisarar sem kallaðir voru geðveikir og voru það kannski, voru þó með rænu og vit stundum. Hegðun þeirra var einkennileg, en er þó skýrð með rökum í þessari bók.

Í bókinni kemur fram að þótt fólkið hafi hrættðzt rómversku keisarana og hlýtt þeim, þá voru önnur öfl að verki einnig í þjóðfélaginu, íhaldssöm öfl, sem börðust gegn siðspillingunni sem hin íhaldssömu öfl nefndu svo, og kæmi að utan, frá austurlöndum ekki sízt.

Hér er ég einmitt kominn að því atriði sem mér finnst heimild í bók mína um gaulverska og keltneska guðinn Esus.

Það er mín skoðun að keltnesku og gaulversku guðirnir hafi verið nær okkar norrænu guðum sem nefndir eru Vanir og Vanynjur en þeim norrænu guðum sem við eigum og nefndir eru Æsir og Ásynjur.

Hef ég séð að til eru fræðimenn sem eru mér sammála um þetta, en þetta er eitt þeirra fjölmörgu atriða sem er þó deilt um.

Eitt af atriðunum sem eru sérkennandi fyrir Vani og Vanynjur er að þar giltu svipaðar reglur og meðal Egypta til forna, að systkini eignuðust börn, til að hinn guðdómlegi kynstofn Vana spilltist ekki, og það voru kölluð sifjaspell ef Vanir eignuðust ekki afkvæmi með systkinum sínum, því það spillti hinum dýrmætu genum þeirra.

Vanir eru þó guðir og Vanynjurnar gyðjur, og því er ekki hægt að dæma slíkar goðsagnaverur á sama mælikvarða og dauðlega menn. Þannig að slíkt getur gengið upp ef um guðdómlegar verur er að ræða, en þannig erum við mennirnir vissulega ekki.

Heimildir eru mjög fátæklegar um guði og gyðjur drúíða. Í fáeinum tilfellum eru þó guðir og gyðjur með svipuð heiti, en með latneskum endingum oft.

Belisama og Belenos eru goð frá þessum tíma. Þau voru hjón og sennilega systkin líka. Nöfn þeirra eru af sama stofni eins og nöfnin Freyr og Freyja og Njörður og Njörð.

Þetta styður kenningu mína og margra annarra um að Vanagoðin séu eldri en Ásagoðin, og að Vanagoðin hafi verið dýrkuð sem drúízk goð meðal Gaulverja, í bland við önnur goð sem mætti túlka á annan hátt.

En af þessu má draga ýmsar ályktanir, eins og til dæmis það sem augljóst er, að þetta hafði áhrif á Rómverja og Kelta um langt skeið og á siðferðisvitund þeirra og einkalíf, kynhneigð og slíkt.

Í bókinni um Neró keisara er varla minnzt á Kelta og ekki á þeirra trúarbrögð, og þó má draga ályktanir og lesa ýmislegt á milli línanna, ef maður hefur fróðleik sér til stuðnings sem fenginn er annarsstaðar frá.

Á þessum tíma var Egyptaland rómverskt skattland og nýlenda þeirra, hérað í rómverska heimsveldinu, eins og Trump vill að sem flest landsvæði verði. Egypzk menning flæddi til Rómar og ástarsaga Júlíusar Sesars og Kleópötru er til dæmis heimsfræg og hefur orðið efniviður margra skáldsagna og bíómynda.

Í bókinni nota rómverskir keisarar egypzka menningu sem afsökun fyrir því að girnast systur sínar eða eignast önnur afkvæmi og ástarævintýri sem eldri Rómverjum og íhaldssamari geðjaðist ekki að, og kölluðu úrkynjun.

Stór og mikil þögn ríkir í mannkynssögunni um keltneska menningu og trúarbrögð eða áhrif á Rómverja og aðra.

Þetta byggist til dæmis á því að sagan er eins og hleðsla. Það er byggt ofaná það sem fyrir er. Ef samtímaheimildir þegja um eitthvað þá heldur sú þögn einatt áfram, nema endurskoðun fari fram, eins og ég er að reyna að koma með hér.

Þótt ekki sé hægt að sanna eitthvað um trúarbrögð sem heimildir skortir um í smáatriðum, þá er hægt að leiða líkum að einhverju.

Kalígúla keisari var sem sagt ekki brjálaðri en svo að hann var hluti af wók-hreyfingu þess tíma skömmu eftir Krists burð í Rómarveldi, en sú wók-hreyfing rómverska átti sér fylgjendur meðal margra.

Þessi wók-hreyfing var hluti að siðleysinu sem átti þátt í að rómverska heimsveldið féll. Þetta er mitt orðalag, ég er að útskýra þetta með vísan í okkar samtíma, því þarna eru augljósar hliðstæður eins og bókin leiðir í ljós um Neró keisara.

Hér eru setningar úr bókinni, þar sem Kalígúlu er lýst:

"Allir þjónarnir í höllinni voru egypzkir."

"Hann skipaði svo fyrir, að egypzka gyðjan Ísis skyldi tilbeðin opinberlega og ákvað einn helgidag á ári henni til heiðurs."

"Patrisíarnir og áhangendur hinna fornu siða í Róm hneyksluðust mjög á þessum erlendu siðum og venjum, og Agrippína og maður hennar urðu forsvarsmenn hinna rómversku erfikenninga og hugsunarháttar, sem lagði ríka áherzlu á siðferðið, hófsemi og þegnskap gagnvart lýðveldinu."

Margir Íslendingar vita það að Kalígúla fékk þann dóm í sögunni að hann væri einn hinna vitskertu keisara í Róm, sem vegna úrkynjunar eða geðveiki eða spillingar hefði stjórnað hörmulega og komið á lausung og sundrungu.

Þetta kalla ég wók-hreyfingu þess tíma í Róm, sagan endurtekur sig, baráttan á milli hefða og upplausnar og erlendra áhrifa er einnig langt aftur í fortíðinni, í þessu tilfelli 2000 ár aftur í tímanum um það bil.

En Kalígúla var ekki einn um þessar skoðanir. Þetta var tízkubylgja í Róm meðal unga fólksins, eða nokkurs hluta þess, og einhvers hluta elítunnar.

Kalígúla var sannur lýðskrumari. Hann lét halda íburðarmiklar skemmtanir fyrir lýðinn, og þó var hann umdeildur og ekki vinsæll af öllum, og vinsældir hans fóru minnkandi, sem sýnir að hinum íhaldssömu hefur farið fjölgandi og þeim sem hneyksluðust á honum og hjörðinni sem fylgdi honum að máli og var sammála honum.

Ég hef í öðrum pistlum haldið því fram að trúin á Esus hafi verið undanfari kristninnar, að konur hafi gert Esusardýrkunina vinsæla meðal almennings.

Nú vill svo til að sumt sem stendur í bókinni um Neró keisara getur stutt þetta.

Frjálslynda hreyfingin í kringum Kalígúlu og aðra keisara á þessum tíma, hún gæti átt sér aðrar og fjölbreytilegri skýringar en menn hafa vitað um fram að þessu.

Í bókinni eftir Arthur Weigall er því haldið fram að klikkun keisaranna hafi verið ástæðan fyrir þessu og svo einnig áhrifin af utan, frá menningunni egypzku, þar sem faraóarnir létu dýrka sig sem guði og eignuðust afkvæmi með nánum ættingjum.

Ég er alveg sannfærður um það að Esusartrúin var alþýðumenning þess tíma, sem náði inn fyrir veggi rómverskra heimila og jafnvel inn fyrir veggi elítunnar í Róm.

Hluti af þessari Esusardýrkun hefur verið lausung og frelsi í ástarmálum, og öðrum menningarefnum.

Minnumst Bakkynjanna í Grikklandi til forna, en það voru konur sem fylltust af kynferðislegum losta í ölæði og sem ekki aðeins misnotuðu karla kynferðislega heldur drápu þá jafnvel, samkvæmt lýsingum, eða dýr sem tengdust Bakkusi að minnsta kosti.

Rómverjar voru siðspilltir að þessu leytinu til einnig og Gaulverjar ekki síður. Því má slá því föstu að Gaulverjar áttu guði eins og Bakkus eða gyðjur af því tagi.

Esus gæti hafa verið slíkur guð, og söfnuður hans af þessu tagi.

Þegar eitthvað verður að tízkubylgju, eins og þessi lausung í Róm á tíma þessara keisara, þá er ástæðan oft ekki bara utanaðkomandi áhrif frá landi býsna fjarri eins og frá Egyptalandi, heldur getur ástæðan einnig verið utanaðkomandi áhrif frá Gallíu, sem var í næsta nágrenni við Róm og Rómverja, en Keltar og Rómverjar töluðu svo líkt tungumál að þeir skildu hverjir aðra.

Það er mín skoðun að trúarbrögð drúíða og Kelta hafi haft áhrif á unga Rómverja þess tíma og komið af stað wók-hreyfingu af þessu tagi í Róm í kringum Krists burð áætlaðan.

Ef Esusardýrkunin varð að tízkufyrirbæri meðal alþýðunnar, þá verður þetta allt miklu skiljanlegra, þar er kominn þrýstingur að neðan, frá almúganum, sem gerir byltingar og breytingar alltaf skiljanlegri en þrýstingur og breytingar ofanfrá, sem sé frá elítunni sjálfri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingólfur.

Áhugaverður pistill sem vakti margar hugrenningar.  Ég byrjaði að lesa hann vegna þeirra orða þinna að þú hefðir haft áhuga á sögu í menntaskóla, það sama hér, söguáfangarnir sem boðið var uppá að nafninu til var ástæða þess að ég ákvað að fara suður í Hamrahlíðina með tveimur félögum mínum, sagan var þar reyndar í flugulíki, en ég náði að fá kennslu hjá Brodda Broddasyni.

En það var bara eins og enginn hefði áhuga á sögu, og því kærkomið núna 45 árum seinna að lesa pistil um sögu, og pælingar um hana.  Skemmtileg tilvísun þín í meint vók Rómverja, algjörlega sammála þér að þarna eru líkindi á milli, og þú rökstyður það vel.

Ég gúglaði aðeins til upprifjunar, hafði aldrei veitt athygli til dæmis muninn á Ásum og Vönum, auðvita þróast guðirnir með nýju fólki ásamt því að það eldra seiglast við.  En ég næ þessu ekki alveg með Esus, vissi reyndar ekki að hann hefði verið til, og Gúgli frændi vísaði mér á pistil eftir þig um þennan keltneska guð.

Málið er að kristin trú þróaðist í hinum grískumælandi heimi Mið-Austurlanda, og sem slík barst hún til Rómar.  En Rómverjar sem slíkir lögðu fátt til málanna annað en að eigna sér Pétur postula, hvað svo sem er hæft í þeirri sögn. En menningarheimur Mið-Austurlanda tengdist Keltum ekki á nokkurn hátt og margur heldur því fram að kristnu frumfeðurnir hefðu sótt bæði í rit gyðinga sem og Egypta, margt í helgisögunum um Krist á sér til dæmis skýr dæmi frá egypskum sögnum, frá Isis að mig minnir, nenni ekki að fletta uppá því, en til dæmis hlustaði ég á viðtal við Þórhall Heimisson sem fjallaði um þessar tengingar.  Skrifaði reyndar bók um það sem ég hef ekki lesið, ég þarf ekki helgisögur til að trúa, mér nægir að vita, það er um tilvist almættisins.

En þetta er aukaatriði, sá sem hugsar og pælir, hann heldur umræðunni lifandi, hjálpar þar með mannsandanum að þróast, eða jafnvel viðhalda honum núna á tímum tómhyggju og innihaldslausrar froðu.

Hafðu mikla þökk fyrir að deila Ingólfur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.2.2025 kl. 09:46

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Sæll Ómar, gott að þú ert orðinn virkur aftur, áhugaverðir þínir pistlar og góðir oft. Ég hafði grun um að þetta vekti áhuga þinn, þú hefur fjallað um Rómverja í þínum pistlum. Saga Bandaríkjanna endurspeglast í þeim.

En það fer eftir kennurum og vefsíðum hvort maður geti tekið undir það að menningarheimur Mið-Austurlanda hafi ekki tengzt Keltum neitt. Alla vega eftir því sem ég kafa dýpra í þessi mál þá finnst mér öll vötn streyma frá Mið-Austurlöndum, Babýlon og Súmer alveg sérstaklega, og kristnin ásamt Gyðingdómi fá sína guði (Guð, Jahve í því tilfelli) þaðan og svo önnur trúarbrögð. 

Já ég fór á námskeið sem Þórhallur Heimisson hélt í Hafnarfjarðarkirkju fyrir nokkrum árum og skrifaði mikið af glósum niður. Þau námskeið voru um uppruna kristninnar og tengsl við heiðin trúarbrögð og svo einnig um Kelta, norræna menn og fleiri. Ég lærði þar ýmislegt. Það var um það leyti sem kreppan var og Hrunið 2010.

Ja það er þannig þótt kennslan hafi verið í flugulíki í Hamrahlíð hjá þér, þá er maður að læra þetta alla ævi ef maður hefur áhuga. Gott nám í skóla vekur þorsta á að fræðast meira.

Í fyrstunni voru gyðinglegar hefðir sennilega áhrifamestar í þróun kristninnar. Síðan líður þessi tími áður en kristnin verður að ríkistrú í Róm 380 samkvæmt skipun Þeódósíusar. Á þeim tíma, tæplega 400 árum getur verið að áhrif hafi komið úr keltneskri og rómverskri menningu. 

Allavega þar það þannig að það sem vakti áhuga minn á að skrifa þessa bók sem enn er í smíðum, það voru Youtubemyndbönd þar sem menn líktu saman Esusi og Kristi. 

Sérstaklega eru það gyðingar sem eru duglegir við þetta og segja sumir að Yashua sé hið rétta nafn Krists og að Jesús sé samsláttur við guðinn Esus, það vakti áhuga minn, og þótt ég hafi hafnað þessari kenningu fyrst, þá fannst mér þetta mögulegt þegar ég fór að skoða þetta betur.

Þetta getur passað ef maður gerir ráð fyrir því að Esus hafi verið vinsæll guð meðal almennings á þessum tíma í Róm. 

Við þekkjum það einmitt úr pólitíkinni hér á Íslandi og um allan heim, að ríkisstjórnir eru myndaðar vegna þrýstings frá almenningi.

Því er oft haldið fram að kristnin hafi verið gerð að ríkistrú í Róm vegna þess að það hentaði stjórnmálamönnum þar.

Ég er að halda því fram að ástæðurnar geti verið flóknari, þrýstingur frá almenningi, og að nafnið Jesús beri þess merki.

Eins og rabbínarnir voru að fjalla um í þessum Youtubemyndböndum þá var engin ástæða til að nota ekki gyðinglega nafnið Yashua yfir Jesús. Af hverju að kalla hann Iesus, eins og þetta var ritað á latínu? Af hverju ekki Yashua Christos?

En þakka þér fyrir að sýna þessu áhuga, þú hefur sannan söguáhuga eins og ég.

Beztu kveðjur að sunnan.

Ingólfur Sigurðsson, 13.2.2025 kl. 15:06

3 Smámynd: Arnar Sverrisson

Sæll Ingólfur! Þakka áhugaverðan pistil. Í Kanada eru tveir sagnfræðingar, sem hafa mikinn áhuga á áhrifum Austurlandaguða á rómverska menningu og rómverska arfleifð Vesturlanda. Þeir eru: Matthew Ehret og Cynthia Chung. Bæði skrifa á Substack og hafa heimasíður. Merkileg sagnfræðirit liggja eftir þau hjónin. Taumleysisguðir hafa áreiðanlega verið víða til, hugsanlega alls staðar. Sigmundur Freud skrifaði m.a. um "Ok menningarinnar." Því fékk/fær fólk "leyfi" til að varpa af sér á sérstaökum hátíðum eins t.d. blótum í grískri og norrænni menningu. Samanburður þinn á hnignun rómverskrar menningar og samtímamenningu Vesturlanda er skemmtilega áhugaverður. Keltar voru dreifðir um alla Evrópu, svo það má ganga úr frá því sem vísu, að snertifletir við austræna og rómverska menningu hafi verið margir. Það verður fróðlegt að lesa bók þína. Bestu kveðjur. Arnar 

Arnar Sverrisson, 13.2.2025 kl. 16:33

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingólfur.

Það er alltaf gaman þegar einhver leggur á sig að hugsa og pæla í sögunni, það er svo margt sem við vitum ekki.  Mér fannst áhugavert að þú skulir hafa verið á fyrirlestrum Þórhalls, ef fjarlægð hefði ekki verið á milli landshluta, þá hefði ég örugglega mætt, og þá hefðu kannski okkar kynni hafist með augnliti en ekki lestur skrifa hvors annars.

Smá svona uppfylling með sögukennsluna í MH, það var valmöguleikinn sem glapti mig, svo komst ég að því að hið meinta val var aðeins sýndin ein.  En Broddi var góður, en hreinlega að drepast úr leiðindum, hann skyldi ekki hvað megnið að krökkunum var að gera í tímum hans, áhuginn var enginn. Ekki að ég feimni sveitastrákurinn hefði mikið tjáð mig, meira svona að ég skyldi þjáningar hans.  Hins vegar tók ég annan söguáfanga utanskóla til að vinna gegn mínuseiningunni sem ég fékk fyrir að fara austur um páskana, mátti ekki við henni því ég ætlaði að klára skólann á þremur og hálfu ári, skýring þess að við sveitalúðarnir komust ekki inn fyrr en um áramótin þegar við sóttum um skólavist á öðru ári, en fyrsta árið tókum við heima.

Kröfurnar voru að utanskóla nemendur skrifuðu ritgerðir tvöfalt, og Broddi kallaði mig á fund, þar sem hann hrósaði einni ritgerð minni, en spurði mig af hverju ég hefði haft hana svona langa. Þetta var sko á tímum vélritunar, ein villa og blaðsíðan var vélrituð uppá nýtt.  Þá útskýrði ég fyrir honum reglurnar, sem honum var ekki kunnugt um.  En hann var ánægður með að hitta loksins nemanda sem hafði áhuga á sögu, líkt og hann sjálfur.  Að mig minnir, þá gerðist Broddi svo flóttamaður úr MH, skil hann vel, hvílík sýnd án innihalds, og réði sig á fréttastofu Rúv, þar sem hann stóð sig afburðavel.

Sem sagt kennsla hans var ekki í flugulíki, en allt annað var það.

Mér er alveg sama hvað Jesú er kallaður, hann sagði tvennt sem ekki má finna í eldri trúarbrögðum.  Að ást á náunganum sé forsenda þinnar eigin velferðar og að þú skulir gæta þíns minnsta bróður.  Já og kannski vildi hann svo leyfa börnunum að koma til sín, eða þannig.

Orð í tíma töluð sem við höfum haft um 2.000 ár til að skilja, og skiljum samt ekki.  Þess vegna er Ögurstund mennskunnar runnin upp.  En almættið reyndi þó, og það er ekki því að kenna þó það hafi ekki haft árangur sem erfiði, forsenda þessa alls er jú hinn frjálsi vilji.

Ég hygg að Esus, Isis, eða hvað allt þetta lið þarna hét árþúsundum áður, hafi ekki haft þennan tæra boðskap, þó þeir sem skráðu, og skildu ekki, hafi leitað fangað í eldri helgisögum.

Sá merki sjáandi Edgar Cayce rakti hins vegar vel þessa þróun mannsandans, og þá í tengslum við hvernig þroski og viska flyst milli kynslóða með endurkomu viturra sálna, sem bæta við sig þekkingu og visku við hverja endurfæðingu, og hann rakti sál Jesú til vitringa sem höfðu þroskað Kínversku þjóðina aldir þar á undan.

Jamm og jæja hugsaði ég, að ætt Viðfirðinga sem veit vissulega að margt er skrýtið í kýrhausnum en bý að jarðbundinni visku kynslóðanna um að gleypa ekki við hverju sem er, allavega ekki þessa heims, en svo sagði Casey frá hinni raunverulegu bæn sem Jesús kenndi hlustendum sínum, og loksins skyldi ég hvað viska bjó að baki Faðirvorinu, og fattaði afskræmingu hins Grísk/Rómverska rétttrúnaðar fjórðu aldar þar sem meint rétt nálgun þess rétttrúnaðar varð opinber kristni.

Hefur þú einhvern tímann spáð í það Ingólfur, af hverju Jesú sagði hlustendum sínum að biðja guð um að leiða þá ekki í freistni??  Svona í ljósi þess að í 40 daga föstunni á Síonfjalli var það freistarinn sem bauð honum Ný-frjálshyggjuna, sbr. að allt þetta (heimsins auð og völd) gef ég þér ef þú fellur á kné og tilbiður mig.  Skítt með að gæta bróður þíns eða elska náungann, það er þinn valkostur en ekki skylda.

Og þar með var kjarni græðginnar, Nýfrjálshyggjunnar orðaður, andstæða boðskapar Krists, þar með augljóslega Anti-krists, því anti þýðir aðeins andstæða.

Já í tæp 2.000 ár biðja menn guð um að haga sér ekki eins og Satan, ekki eins og freistarinn, sem leiðir fólk í freistni.

Casey var gegnheill kaþólikki, trúðu öllum kennisetningum kirkjunnar bókstaflega, hann var í trans þegar hann skrifaði niður réttu útgáfuna af bæn Jesú.

Fyrir utan að benda á rökvilluna að maður sem hefur snætt sinn málsverð í dag, biður um brauð morgundagsins, þá er tilbeiðslunni á Satan kippt út, segi svo menn að hann, það er Satan, viti ekki sínu viti í að vefa ranghugmyndir og rangfærslur inní vitund mannsins, eða hefur þú ekki heyrt um hin ótalmörgu kyn Ingólfur, og nettri leiðréttingu komið að.

"Vertu oss leiðarljós á tímum ólgu, erfiðleika og freistinga, - leið oss á veg réttlætisins, - Í þínu nafni, - Amen".

Engin mannleg viska hefði getað sagt þessi orð, nema sá sem sagði þau á sínum tíma.  Allra síst kaþólikki eins og Edgar Casey.

Þetta skiljum við Viðfirðingar því við vitum á eigin skinni að margt er skrýtið í kýrhausnum, og raunveruleikinn er eitt, og sú hula á milli hans og tilveru okkar, er annað.

Þetta er skýring þess Ingólfur að mér er sama hvaðan gott kom eða kemur.

Það kom gott, okkur bar ekki gæfu til að skilja það í tíma, og þá á ég við mannkynið.

Það er bara svo og ekki dauðlegra að breyta því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.2.2025 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 44
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 517
  • Frá upphafi: 142751

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 412
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband