24.1.2025 | 03:45
Sigmundur Davíð yrði bezti formaður Sjálfstæðisflokksins, Snorri Másson, Jón Gunnarsson eða Brynjar Níelsson
Eins og flestir vita ætlar Þórdís Kolbrún ekki að bjóða sig fram til formanns eins og hún tilkynnti á Fésbókarsíðu sinni. Það breytir ýmsu og opnar vonandi á leiðir þeirra sem kannski standa utan flokksins til að bjóða sig fram og sigra.
Það er eðlilegast að þegar hreinsun verður í svona flokki þá verði hún víðtæk, sem þýðir að allir ráðherrarnir sem voru áberandi í þeirri stjórn sem sprakk undir lok síðasta árs láti lítið fyrir sér fara eins og Þórdís Kolbrún ætlar að gera, annaðhvort eru það hennar eigin hyggindi og hógværð, eða að hún sér ekki annað fært vegna gagnrýni annarra flokksmanna í hennar garð.
Útlærðir stjórnmálafræðingar vita það að formennska í svona flokki snýst um almannatengsl og ímyndarstjórnmál að mjög miklu leyti, en einnig um hæfileika af ýmsu tagi, leiðtogahæfileika, samvinnuhæfileika og innsýn, framtíðarsýn og sveigjanleika, en einnig stefnufestu þegar á þarf að halda og ósveigjanleika þegar hann á við.
Allt þetta þýðir að hæfileikar einir og sér koma fólki ekki alla leið.
Sá sem verður formaður í Sjálfstæðisflokknum þarf annað hvort að vera nú þegar þekktur í þjóðfélaginu, eða vera með eiginleika Kristrúnar Frostadóttur, að geta unnið sig upp bæði innan flokks og utan, og fengið stuðning og traust sem flestra í þessu þjóðfélagi okkar.
Eftir standa þrjú sem nefnd voru í síðasta Silfri af Sigurði Kára, Áslaug Arna, Guðrún Hafsteinsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson.
Það þarf hörku og snerpu til að vera formaður Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson hafði þessa eiginleika sem formaður, að geta verið harður í viðtölum en á sama tíma þokkalega réttlátur, og annars hefði hann aldrei enzt svona lengi í þessu valdamikla embætti.
Áslaug Arna, Guðrún og Guðlaugur finnst mér ekki trúverðug sem hörkutól í viðtölum og á sama tíma með þann haug af persónulegum sjarma að láta ekki flokkinn missa vinsældir í erfiðum málum sem aldrei verður hægt að sleppa undan alveg í framtíðinni frekar en áður.
Þegar maður sér fyrir sér formann Sjálfstæðisflokksins, þá þarf sérstaka hæfileika í það. Einhver sem þolir endalaust skítkast frá mörgum og er til í að leggja útí slíka baráttu og hefur tjáð sinni fjölskyldu og vinum hvað felist í að verða áberandi stjórnmálaleiðtogi.
Þá á ég við ef Sjálfstæðisflokkurinn yrði aftur 30-40% flokkur, sem hlýtur að vera markmiðið hjá fólki sem vill hag flokksins sem mestan.
Nú langar mig að rifja upp fortíðina. Persónulega er ég ekkert mikið hrifnari af Sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum, en ég ber samt fortíðartaugar til hans vegna míns uppeldis, ömmu og afa.
Húsið þeirra ömmu og afa að Digranesheiði 8 var rifið þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd í Kópavogi, og er enn, og verkstæðið hans afa og þau einstöku tæki sem hann hafði smíðað og voru þar inni.
Mín skilgreining á því er sú að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi var fyrir löngu steindauður 2021 þegar húsið okkar var rifið, og í stað dyggða voru komnar ódyggðir eins og að hlaða undir sinn eigin rass og víla og díla með spilltum framkvæmdamönnum, auðvaldinu og kommúnistum gerspilltum til jafns, eða jafnaðarfasistum og ESB fíklum.
Ég er mjög sammála Gunnari Smára Egilssyni þegar hann tjáir sig um þetta í fjölmiðlum, því hann er ómyrkur í máli og þekkir þessa sögu, gáfumenni og leiðtogi góður.
Fyrir nokkrum áratugum voru kommúnistar á Íslandi allt annar þjóðflokkur en þeir urðu með tilkomu Steingríms Jóhanns, Katrínar og liðsins í VG. Vinstri grænir breyttust í wókflokk, og þau dagaði uppi eins og tröllin, töldu að ýkt kvenréttindi væru málið á meðan vinsældir wóksins voru á undanhaldi í raun.
Myndaflokkurinn um Vigdísi forseta vakti athygli og var sæmilega vinsæll fyrir skemmstu. Mér fannst takast sérlega vel að skapa andrúmsloft þessara áratuga sem ég man eftir sem krakki, þó vissulega ekki eins langt og fyrstu þættirnir lýsa, nema í gegnum sögur mér eldra fólks.
Albert Guðmundsson var sýndur í þáttunum sem einhverskonar tákngervingur Sjálfstæðisflokksis og fyrirgreiðslupólitíkurinnar, táknmynd gamalla tíma og haftastefnu, og feðraveldisins.
Það hafa verið skrifaðar hatursfullar bækur af vinstrimönnum til að útrýma svona fortíðarpólitík. Enn er barizt gegn henni.
Fyrirgreiðslupólitík finnst mér að eigi ekki að vera neikvætt hugtak eingöngu. Að greiða fyrir einhverjum er eiginlega samheiti yfir að greiða götu einhvers og það getur virkað í báðar áttir, að almenningur kjósi pólitíkusa og þeir á móti hjálpi þeim sem kjósa þá.
Þegar Íslendingar voru færri en þeir eru nú þá virkaði þetta þannig, gagnvirknin var mikil. Stjórnmálamenn þekktu marga af kjósendum sínum persónulega, og traustið þurfti að virka í báðar áttir.
Ég get tekið sem dæmi Jón Bjarnason sem stundum hefur skrifað blogggreinar hér, að afi minn taldi hann standa sig vel í Jóhönnustjórninni, og talaði hlýlega um hann þótt hann væri í Vinstri grænum. Afi sagði að hann væri Strandamaður, ég veit ekkert hvaðan hann hafði þær upplýsingar, en það taldi hann honum til tekna og hin gamla ættfræðikunnátta leyndi sér ekki og landsbyggðastuðningur.
Jón Bjarnason reyndi líka að standa gegn ESB umsókn á sínum tíma og það mat afi mikils.
Afi mat þannig fólk eftir persónulegum kostum þess en ekki bara eftir flokksskírteinum.
Jón Bjarnason skrifaði reyndar nýlega um annan þingmann sem var þingmaður Strandamanna á tímabili, Hermann Jónsson, og gerði það vel.
En þannig er að ég man nokkuð vel eftir forsetakosningunum 1980. Ég bjóst við að Albert Guðmundsson yrði kosinn forseti, en ég hélt með Guðlaugi Þorvaldssyni samt í óþökk ömmu að minnsta kosti, en það var af ýmsum talið að Albert væri sá hæfasti í embættið.
Hvöss voru rifrildin á milli ömmu og mömmu, mamma tók þátt í Kvennafrídeginum 1975 og var komin í uppreisn gegn ömmu og studdi Vigdísi, en það fannst eldri kynslóðinni algjör fásinna og ósvífni, ekkert annað.
Ég er barn sem ólst upp við stríð á milli kynslóða vegna deilna um svona mál, hlutverk konunnar inni á heimilinu eða utan þess. Þetta hefur því alla ævi skipt mig miklu máli og ég hef sveiflazt með og á móti femínisma og fleiri atriðum.
Kannski koma þessir tímar aldrei aftur, kirkjunnar og feðraveldisins. Fólk fór í kirkju og leiðin var bein, allar línur skýrar.
Ég man að eftir að Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti þá vildi ég fá útskýringar hjá mínu fólki hvernig eitthvað gat gerzt sem var talið útilokað af þeirra hálfu, en ég fékk aldrei útskýringar frá þeim. Afi hafði alltaf lítinn áhuga á pólitík og var fáorður maður yfirleitt. Amma hinsvegar hafði skoðun á öllu, en hún vildi ekki tala um þetta og þetta var eins og sorgaratburður, að Vigdís varð forseti en ekki Albert, þetta var fyrir henni eins og heimurinn væri farinn til fjandans og allt á öfugri leið. Hún sagði mér að fara inní herbergið mitt og að ég skildi þetta ekki ef hún vildi ekki tala um eitthvað.
Ég fékk þessvegna aldrei skýringar á þessu og skildi þetta ekki fyrr en talsvert síðar, en vandist þó við Vigdísi sem forseta.
En þegar Kristján Eldjárn fyrrverandi forseti dó árið 1982 þá klippti amma minningagreinina út um hann og setti inní bók þar sem hún myndi ekki skemmast, á milli blaðsíðna. Þetta hafði mikil áhrif á mig, eins og konar leiðtogadýrkun af hennar hálfu.
Ég held að hún hafi gert þetta til að sýna enn frekari andstöðu við Vigdísi sem forseta innan heimilisins. Að vísu held ég að hún hafi aldrei sagt neitt ljótt um Vigdísi forseta, að minnsta kosti þá man ég aldrei eftir því. En ég man að hún lyfti Kristjáni Eldjárn á stall eftir að Vigdís varð forseti og fór að tala um hvað hann gerði betur en Vigdís að hennar mati þegar Vigdís forseti var í fréttum, þannig að þetta var enn frekari andstaða ömmu gegn kvenréttindum í verki.
Amma Sigríður hafði þann sið að yfirgnæfa röddina í útvarpinu þegar hún var ósammála einhverju þar. Útvarp var mikið notað á mínu heimili og það var oft hljómandi.
En þetta eru útúrdúrar, sem gefa pistli mínum dýpt og ekkert annað, - en fara kannski of langt út fyrir efnið, en það er gaman að rifja upp liðna tíð.
Eins og kemur fram í fyrirsögn pistilsins þá er ég að koma með þá hugmynd að Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn sameinist.
Mér finnst sterkustu hægrimennirnir vera í Miðflokknum, en nefna mætti aðra sterka hægrimenn eins og Guðmund Franklín Jónsson, Arnar Þór Jónsson í Lýðræðisflokknum, til dæmis.
Mér finnst í forustusveit Sjálfstæðisflokknum á þingi ekki vera margir eftir sem þora að taka slaginn, heldur einhverskonar fylgjendur en ekki leiðtogar. Er forysta Sjálfstæðisflokksins búin að vinna í því kerfisbundið að hrekja úr þeirri forystu sem er mest áberandi mestu leiðtogana, bezta fólkið? Er flokkseigendafélagið ábyrgt fyrir þessu?
Allir sem ég nefni í fyrirsögn þessa pistils finnst mér vera skínandi áberandi leiðtogar sem "þora að taka slaginn", og koma með eitthvað óvinsælt frekar en að stunda lýðskrum og hræðast öll átök.
Það væri auðvitað hægt að nefna Jón Magnússon, Jón Steinar Gunnlaugsson og fjölmarga aðra, þannig að ýmsir hafa svona leiðtogahæfileika sem þarf sem ég nefni, sem styðja flokkinn en eru ekki samt orðaðir við embættið, og sem ekki eru taldir ætla að bjóða sig fram.
Ef til dæmis Áslaug Arna verður kosin næsti formaður þá þarf hún að æfa sig í því að verða mjög rökföst og sannfærandi, en málið er að þessir hæfileikar eru meðfæddir að hluta til, ekki er hægt að kenna allt til fullnustu, eins og þetta.
Ég ítreka hér enn í þessum pistli, að til að stækka Sjálfstæðisflokkinn aftur þarf að hugsa stórt og út fyrir ýmsar línur. Þannig og aðeins þannig sameinast Viðreisn aftur Sjálfstæðisflokkurinn, og Miðflokkurinn, ef það er þá mögulegt.
Ekki hræddur við að taka að mér ábyrgðarstörf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 25
- Sl. sólarhring: 115
- Sl. viku: 697
- Frá upphafi: 133377
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 523
- Gestir í dag: 13
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning