17.1.2025 | 01:30
Alþjóðlega orðið martyr - Týsdauði - að bera Tý vitni með sannleikanum og lífi sínu eða heilsu
Ástæðan fyrir því að ég fór að pæla í þessu orði er vegna þess að mér sýndist sem í því kæmu saman tveir fornir stríðsguðir - í einu og sama orðinu - sem sagt bæði Mars þeirra Rómverja og svo Týr okkar Germana.
Orðið martyr er alþjóðlegt og þýðir píslarvottur. Það er ævafornt og nær aftur til Forngrískunnar eða enn lengra aftur sennilega.
Orðsifjafræðingar viðurkenna að nokkur vafi leikur á því hvernig það er myndað upphaflega og hvernig þróun þess var í upphafi eða úr hvaða orðum það er myndað.
Þó eru ráðandi kenningar sæmilega sannfærandi, en ekki þó að öllu leyti.
Upphaflega merking orðsins er vitni, eða vottur og þá í lagalegu sambandi, til dæmis að glæp eins og morði.
Það er talið samansett úr (s)mer sem merkir að detta í hug, muna, hlúa að, hafa umhyggju fyrir og svo tuwerh, sem þýðir að þvinga, þröngva, binda, ná í, halda utanum, koma saman.
Þó skilst mér að málvísindamenn séu ekki á eitt sáttir um þetta og sérstaklega er deilt um seinni hluta orðsins.
Orðið tyranny, eða harðstjórn, það er einnig af forngrískum uppruna, og óljósum uppruna, það bendir til dýrkunar sem snérist upp í andhverfu sína, andúðar á stjórnarformi, eða þá að mannlegir einræðisherrar hafi snúið trúarbrögðum uppá dýrkun á sér, en þannig hegðun var algeng á þessum tíma, á öldunum fyrir Krists burð, og í sagnfræðilegu ljósi þekkt atriði úr sögu margra þjóða.
Þessi tvö orð verða til á svipuðum slóðum og á svipuðum tíma, bæði á sama svæði og lýðræðið myndast og svo á nokkuð svipuðum tíma, eða nálægt Grikklandi til forna, þegar fyrstu lýðræðisríkin urðu til, og tilraunir voru gerðar með slíkt.
Rómverski stríðsguðinn Mars kemur mjög við þessa sögu einnig. Nafn hans mun þýða "sá sem drepur", eða eitthvað slíkt. Nafn hans er dregið af fornindóevrópska orðinu mer, sem er sameiginlegt orð í öllum indóevrópskum tungumálum, að drepa, deyja, meiða, fara, yfirgefa, eitthvað slíkt. Íslenzka orðið morð er skylt og dregið af sömu rót.
Þrátt fyrir að málvísindamenn geri sitt bezta og nái merkilegum árangri oft, þá eru þeim takmörk sett. Takmörkin felast oftar en ekki í því að það vantar svo mörg orð uppá, þeirra starf er eins og púsluspil, að raða saman brotum samkvæmt heimildum sem eru rýrar.
Sem sé, fjölmörg tungumál varðveittust ekki og mörg orð einnig sem ekki varðveittust.
Það er mín tilgáta að orðið martyr eða martur sé kannski öðruvísi búið til.
Mermairein á grísku er að vera áhyggjufullur, hugsi, vakandi, á iði. Mermera er áhyggja, truflun, vandræði, á forngrísku.
Smarati á sanskrít er að muna. Memor á latínu, umhyggjusamur, er skylt.
Témoin á frönsku hefur verið tengt við seinni hlutann, vitni.
Það er dregið af testimonium á latínu, vitni, vitnisburður, athygli, að fylgjast með.
Það er svolítið langsótt að halda því fram að témoin verði að tyr.
Mér virðist ljóst að málvísindamenn reyna sitt bezta, en langsótt verður þetta, og augljóst að þá skortir hin raunverulegu orð sem þarna lágu til grundvallar.
Nú er það alveg vitað að guðinn Týr var dýrkaður á þessum tíma og þessum slóðum.
Á frýgísku er orðið guð Tiws.
Phrygiar er orðið á ensku. Frýgíar voru indóevrópumenn í Anatólíu, núverandi Tyrklandi.
Þeirra ríki er talið hafa verið uppi frá 1180 fyrir Krist og til 500 eftir Krist, en það er auðvitað kenning, sem studd er gögnum.
Tios er guðaheiti anatólískt, frá Biþyníu. Ég fjallaði nánar um þetta í pistli frá 26. desember 2024.
Þessi dæmi sem ég hef tekið - og er meira af þeim í pistlinum frá öðrum í jólum í fyrra - þau eiginlega staðfesta að guðinn Týr var tignaður fyrir löngu, fyrir Krists burð. Það er samkvæmt þeim kenningum sem aðrir hafa sett fram um það sama.
Þegar maður skoðar orðið martyr, þá hlýtur að vakna grunur um að guðsnafnið Týr eða Tiws, sé hluti af þessu orði.
Mín tilgáta er að það hafi upphaflega þýtt:"Dauði fyrir guð, eða brottför fyrir guð, Tý."
Hvað varðar enn eldri merkingu orðsins á forngrísku og skyldum málum, að verða vitni að, vitnisburður, þá er skýringin þessi:
Smer+Tiws varð að Martyr. S-ið féll niður og Tiws varð að tyr, en orðið er þekkt úr latínu, og þegar svona orð ferðast á milli tímaskeiða og landa breytist stafsetningin yfirleitt, eða mjög oft.
Vitni Týs er því upphafleg merking, sjónarvottur Týs. Loks verður merkingin píslarvottur Týs, sá sem deyr eða þjáist fyrir Tý, guð almáttugan.
Smer í merkingunni að láta sér ekki standa á sama um eitthvað nær merkingunni betur.
Píslarvottur þýddi því upphaflega:"Sá sem lætur sér ekki standa á sama um sannindi Guðs og ber honum vitni hvað sem tautar og raular, lætur líf og æru í sölurnar fyrir þá sannfæringu sína".
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.1.): 87
- Sl. sólarhring: 116
- Sl. viku: 558
- Frá upphafi: 132633
Annað
- Innlit í dag: 54
- Innlit sl. viku: 420
- Gestir í dag: 51
- IP-tölur í dag: 50
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning