Hvernig verður næsta ár?

Þetta ár hefur verið óvenju tíðindaríkt í pólitíkinni. Ætli það sé ekki hægt að búast við vinsældum þessarar ríkisstjórnar næsta árið? Og þó. Eins og ÓG skrifaði um, Inga Sæland og Eyjólfur Ármannson byrja ekki vel með að gefa afslátt af sínum hugsjónum.

Ég get skilið Ingu Sæland, hún ber ábyrgð á því að gera flokkinn "stjórntækann" og mynda traust á honum með því að vera samvinnufús í upphafi, og kannski er rétt að gefa henni séns í 1-2 ár, hvort hún fái þá meira framgengt af kröfunum. Ef ekki, þá er hún orðin of lin.

Það hefur verið fróðlegt að lesa hvernig Ómar Geirsson og Guðmundur Ásgeirsson lýsa sínum túlkunum á bókun 35. Guðmundur er með þeim mönnum sem þekkja stjórnarskrána vel og ýmis lög hygg ég, en ég er samt sammála Ómari, að betra er að sleppa við að samþykkja bókun 35, ef það er hægt. Nú ef hún er hluti af EES eins og Guðmundur heldur fram, þá er það dapurlegt og kannski verður hún þá samþykkt. En eins má spyrja sig hvort ekki sé vilji að fara út úr EES og jafnvel Schengen.

Mér finnst erfitt að skilja rökræður um bókun 35. Það er sagt að hún gangi út á að ESB lög gildi meira en íslenzk lög, þó skrifar Guðmundur að svo sé ekki.

"EES lög gilda nema skýrt sé tekið fram af Alþingi að svo sé ekki", er styzta tilvitnunin í það sem menn hafa á móti bókun 35. Maður hlýtur að vera á móti þessu.

En hinsvegar treysti ég þekkingu Guðmundar á lögum og að þetta sé innleiðingaratriði á EES samningnum.

En Eyjólfur Ármansson og hans "samningalipurð" eru ekki til að auka traust manns á Flokki fólksins. Þetta virðist dæmigert fyrir pólitíkusa sem vilja völd og peninga. Þó samkvæmt meðfylgjandi frétt er hann sömu skoðunar, en ætlar að láta þetta yfir sig ganga.

Að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og Eyjólfur ræðir um í þessari frétt að sér hugnist vel er sennilega það rétta. Gott að hann taki fram að hann telji þetta enn stjórnarskrárbrot og að hann hafi ekki skipt um skoðun. En hvenær skal slíta ríkisstjórn og hvenær ekki? Er það ekki rétt ef manni finnst sjálfstæði þjóðarinnar í hættu?

Verst er að Flokkur fólksins er í þessum afleita félagsskap.

Ef Flokkur fólksins hefði myndað stjórn með Miðflokknum og Sjálfstæðisflokknum, þá væri ekki svona þrýst á fólkið í honum að svíkja sínar hugsjónir.

Annars óska ég öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir samskiptin hér á blogginu.


mbl.is Bókun 35 enn stjórnarskrárbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll og takk fyrir að sýna þessu áhuga. Það er alveg rétt að þetta er bara tæknilegt innleiðingaratriði á EES samningnum sem var ekki nógu vel úr garði gert þegar hann var lögfestur fyrir 30 árum og úr því þarf að bæta til að virða þann samning.

Það sem mér hefur fundist dapurlegast við umræðuna um þetta mál er að hún hefur aðallega verið borin uppi af fólki sem virðist ekki hafa kynnt sér efnislegar staðreyndir málsins eða lætur að minnsta kosti þannig og hefur tilhneigingu til að ala á tortryggni og ótta fremur en að styðja málflutning sinn góðum rökum. Hvers vegna nánast engir svokallaðir "aðildarsinnar" (fylgjendur ESB aðildar) hafa gert sig gildandi í þeirri umræðu er mér hulin ráðgáta en mér er svo sem alveg sama því ég er ekki í þeirra liði hvort sem er.

Algengasti misskilningurinn um málið birtist í orðunum "ESB lög" og að þau eigi að gilda "meira" en íslensk lög. Hið rétta er að það er ekkert til sem heitir "ESB lög" á Íslandi, aðeins íslensk lög sem Alþingi setur gilda hér og engin önnur. Það er bundið í stjórnarskrá og er meira að segja áréttað sérstaklega í bókun 35 með orðum sem vísa til þess að með EES samningnum hafi aðildarríki hans ekki framselt löggjafarvald sitt til stofnana ESB. Slíkt myndi aftur á móti gerast með fullri aðild að ESB og það heimilar stjórnarskráin ekki.

Þegar reynt er að fletta ofan af misskilningi, ranghugmyndum og hræðsluáróðri um málið kemur oftast í ljós að þar er um að ræða órökréttan ótta við að ESB geti sótt sér eitthvað meira vald í gegnum EES samninginn en það gæti nú þegar. En þá væri líka heiðarlegra og myndi þjóna upplýstri umræðu betur að koma bara hreint út með það og segjast vera á móti EES samningnum ef það er afstaðan. Þá má hugga sig við að Ísland getur hvenær sem er sagt sig frá þeim samningi en ég hef þó ekki orðið var við að margir vilji það raunverulega.

Samkvæmt EES samningnum eiga íslensk lög að vera í samræmi við reglur innri markaðs aðildarríkjanna á þeim sviðum sem hann nær til. Þess vegna á Ísland ekki að setja einhver önnur lög sem segja eitthvað alltaf annað og stangast á við þessar samræmdu reglur. Þannig hefur það verið í 30 ár og um það snýst málið en ekkert annað. Enginn getur samt réttilega sett lögin nema Alþingi eins og stjórnarskráin kveður skýrt á um. Ef það er ekki gert rétt getur það verið samningsbrot sem getur haft afleiðingar en ef meirihluti Alþingis vill taka slíka áhættu er ekkert sem hindrar það í sjálfu sér. Hluti af því að vera fullveðja og sjálfráða er að mega gera samninga, ef þú gerist t.d. áskrifandi að Mogganum þarftu að greiða fyrir hana og ef þú gerir það ekki hefur það líklega afleiðingar, en þú getur líka sagt henni upp.

Með óskum um gleðilegt nýtt ár.

Guðmundur Ásgeirsson, 31.12.2024 kl. 03:04

2 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Ingólfur.

Þú kemst venju samkvæmt kurteislega að orði, en öðru gegnir um leyni ESB sinnan sem kemur að venju með hefðbundin rök og samlíkingar hans fyrir ágæti frekari Evrópu-tengsla.

Þar sem okkur Guðmundi ber fyrst og fremst á milli, er sú skoðun mín að EES samningurinn og nú síðast bókun 35, sé einungis frekara skref í átt að formlegri inngöngu og afsali fullveldisréttar okkar, á móti þeirri bjargföstu skoðun hans í þá veru að stjórnvöld í Brüssel myndu ætíð virða meðfæddan og ríkulegan fæðingarrétt okkar Íslendinga fram fyrir rétt allra annara fátækra Evrópu búa.

Persónuleg skoðun mín er að eina vitræna skrefið fyrir lýðveldið Ísland sé að byrja á að sækja um aðild að blómstrandi BRIKS sambandinu og sjá síðan til hvort við segjum okkur úr NATO og jafnvel EES, ef veður skipast þannig í framhaldinu.

Jónatan Karlsson, 31.12.2024 kl. 10:22

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Jónatan.

Ef þú ert að kalla mig einhvern "leyni ESB sinna" verð ég að afneita því enda má sjá af skrifum mínum langt aftur í tímann að ég er andvígur fullri aðild að ESB sem stjórnarskráin heimilar ekki.

Viljir þú ekki fylgja EES samningnum og jafnvel að Ísland segi sig frá honum þá er það hér með komið fram ásamt tortryggni þinni um að stjórnarskrá okkar haldi og þá afstöðu má virða sem slíka.

Gleðilegt nýtt ár.

Guðmundur Ásgeirsson, 31.12.2024 kl. 15:05

4 Smámynd: Jónatan Karlsson

Afsakaðu orðavalið Guðmundur og þá auðvitað tilhæfulausar aðdróttanir.

Gleðilegt 2025 félagar mínir báðir.

Jónatan Karlsson, 31.12.2024 kl. 15:58

5 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þakka ykkur báðum fyrir góðar skýringar á ykkar afstöðu, og gleðilegt nýtt ár!

Ingólfur Sigurðsson, 1.1.2025 kl. 04:03

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 147
  • Sl. viku: 780
  • Frá upphafi: 131357

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 575
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband