Dyrfjöllin að Hábraut 4 í Kópavogi - í bernskuupplifun minni

Þennan pistil hef ég lengi ætlað að skrifa. Það hefur frestazt en nú langar mig til þess og hef stundum fengið hrós fyrir svona pistla um æskuminningar og umhverfislýsingar úr Kópavogi.

Magnús Sigurðsson bloggari vakti hjá mér áhugann að skrifa þennan pistil með pistlum sínum um Dyrfjöll þau sem hann dáist að, fegurð þeirra og mögulegri merkingu.

Ekki er um eiginleg Dyrfjöll að ræða sem nefnast því nafni sem ég er að fjalla um, miklu heldur um líkingu við umrædd Dyrfjöll, og það mun lesandinn skilja þegar meira er lesið af þessu.

Þannig var að þegar ég var að læra að vera skáld fór ég í heimsókn til Ingvars og Heiðu að Hábraut 4 í Kópavogi. Þessu húsi muna margir eftir, það var áberandi þegar fólk var að keyra upp brekkuna frá Reykjavík Hafnarfjarðarveginn inn í Kópavog og Hamraborgina, að benzínstöðinni, kirkjunni eða til Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Húsið var rifið 2007, því bærinn vildi reisa Molann þarna. Kreppan kom í kjölfarið og Hrunið, eins og rökrétt framhald.

En tvennar dyr voru á húsinu. Húsið númer 4 var nær kirkjunni, en húsið númer 2 nær götunni, þessi tvö hús stóðu þarna ein en Ásbrautin, blokkirnar, nokkuð neðar og gera enn.

Kirkjan var reist 1958-1962, Kópavogskirkja, uppi á Borgarholtinu, en húsið númer 4 byggði Ingvar ásamt aðstoðarmönnum, smiðum og múrurum 1946-1948, en teikninguna að þessu húsi gerði afi, Jón Agnarsson, skilst mér einn, og líka að húsinu okkar að Digranesvegi 92, sem var byggt 1946-1950,  en götuheitið breyttist síðar og varð Digranesheiði 8, þegar Smáralindin var reist í kringum aldamótin 2000. Okkar hús var rifið 2021 en húsið að Hábraut 4 2007, í maí.

Það má sjá skjölum Héraðsskjalasafns Kópavogs, færsla er á þessa leið á Netinu:"Ingvar Agnarsson: Hrafn Andrés Harðarson bæjarbókavörður Kópavogs afhenti 2. maí 2007 átta stílabækur úr húsi Ingvars Agnarssonar við Hábraut."

Frændi minn og afi mundu eftir þessu, að þeim voru afhentar þessar stílabækur, því þá voru ættingjar Ingvars og Heiðu búnir að tæma húsið fyrir niðurrifið og flytja í geymslur málverk og ritverk eftir frænda minn, en þá fundust þessar stílabækur samt í kassa í grunni hússins, og voru mjög gamlar.

Ingvar frændi átti Volvobíla oft um ævina, og var með þeim fyrstu sem eignuðust bílasíma, sem voru undanfarar farsímanna og síðar snjallsímanna. Hann fylgdist vel með tækninni.

Þegar Magnús Sigurðsson hefur skrifað um Dyrfjöll á bloggið sitt hafa þessar minningar mínar verið að vakna og löngun mín til að skrifa um þetta.

Þannig var að dyrnar til vinstri lágu inn í íbúðarhúsið en dyrnar til hægri lágu upp á efri hæð hússins þar sem Ingvar var með skrifstofu fyrir sig og vinnustofu. Þangað fórum við oft, þar var hann með ljósritunarvél.

Þannig var að ég kom með ljóðin mín vélrituð til hans og hann vildi strika yfir það sem hann vildi að ég lagfærði og breytti. Hann ljósritaði þessvegna alltaf eitt eða tvö eintök, til að strika yfir og breyta og kenna mér að yrkja betur.

Þetta gerði hann á efri hæðinni. Stigi var þangað upp. En á milli hurðanna og á milli dyranna var málverk, og það málverk var af sól, og geislarnir sýndir skærir og áberandi. Til hægri við dyrnar upp á loftið var svo önnur mynd af fjalli, og stjörnusambandsstöð skínandi þar ofaná. Til vinstri við dyrnar að íbúðarhúsinu var svo myndin stóra sem flestir sáu, af Reynisdröngum í Vík í Mýrdal.

Ingvar frændi hélt mikið upp á þjóðsögur, eins og þær sem segja að tröll hafi orðið að steinum, og drangarnir séu þannig til komnir.

Hann kunni örnefnin Háidrangur og Mjóidrangur og Steðji. Þetta reyndi hann að kenna mér þegar ég var mjög ungur. Hann var hafsjór af örnefnum hann Ingvar frændi, enda ferðuðust þau um landið hvert einasta sumar, hann og konan hans, Aðalheiður Tómasdóttir, og sonur þeirra með þeim áður en hann fluttist að heiman, Sigurður. Ingvar skrifaði ferðabækur sem eru óútgefnar og tók myndir úr þessum ferðum sem hann safnaði í albúm.

Þar af leiðandi, með þessar myndir af fjöllum og svo dyrnar upp á loftið og inn í íbúðarhúsið þá verður mér alltaf hugsað til þessa húss að Hábraut 4 og tímans þegar frændi minn kenndi mér að yrkja þegar ég les um Dyrfjöll í bloggi Magnúsar Sigurðssonar, sem eru mjög fróðleg og ánægjuleg blogg, og mannbætandi.

Ingvar Agnarsson afabróðir minn var stórmenni, og jafnvel ámóta og Sigurður málari sem hafði áhrif á byggingarlist og fleira, eða Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins.

Hann frændi minn vildi nefnilega veg Íslendinga sem mestan.  Hann trúði því sem dr. Helgi Pjeturss skrifaði, að Íslendingar ættu að verða ein merkilegasta þjóð jarðarinnar, og brautryðjendur í sambandi við íbúa annarra hnatta, með því að reisa hér á Íslandi fyrstu stjörnusambandsstöðina.

Ingvar frændi var með fleiri hugmyndir.

Til dæmis hélt hann mikið upp á ítölsku endurreisnina, og myndirnar sem hann málaði utaná húsið sitt voru innblásnar af sjálfu Vatíkaninu í Róm og Sixtínsku kapellunni þar og myndunum frægu eftir Michelangelo og fleiri.

Hann hélt því fram að allar kirkjur landsins ættu að verða stjörnusambandsstöðvar.

Stjörnusambandsstöð er ekki stjörnurannsóknarstöð.

Stjörnusambandsstöð er eiginlega mikil og stór bygging þar sem nokkurskonar miðilsfundir eru haldnir, en þeir eru kallaðir sambandsfundir af Nýalssinnum, því áherzlan er á allskonar sambönd, ekki aðeins við framliðna af jörðinni, heldur einnig þá sem fæddust á öðrum hnöttum og komu jafnvel þangað frá enn öðrum frumlífsjörðum, eins og okkar jörð er frumlífsjörð, samkvæmt kenningum dr. Helga Pjeturss.

Ingvar frændi hélt því fram að guðirnir í Valhöll hefðu veitt endurreisnarmönnunum innblástur, Michelangelo og fleirum.

En fyrir mér var þetta töfrahús að Hábraut 4 í Kópavogi, sérstaklega þegar ég var strákur. Þetta voru dyrnar inní töfraheima og annan heim.

Mamma átti alltaf fullt af bókum, en hún ræddi ekkert endilega mikið um bókmenntir, en ég grúskaði talsvert í bókunum hennar.

En á heimili ömmu og afa voru varla til bækur. Samt voru þau menningarleg og töluðu góða íslenzku, og en amma notaði þó dönskuslettur sem hún lærði í bernsku, fortó fyrir stétt, forskúffaður fyrir móðgaður og slíkt.

En Ingvar frændi kenndi mér um Ásatrú, og margt fleira. Hann sagði líka svo skemmtilega frá að það var skemmtilegra en að fara í bíó að hlusta á hann!

Hann sagði stundum frá ferðalögum sínum um landið og nefndi ótal örnefni sem ég gleymdi strax aftur því þau voru alltof mörg til að ég gæti munað þau!

Dyrfjöll hefur því alveg sérstaka merkingu fyrir mér. Alltaf fór ég innum þessar dyr, fyrst til vinstri og svo til hægri. Heiða frænka opnaði oft og tók á móti mér og bauð mig velkominn og fyrst spjallaði ég við þau hjónin um daginn og veginn og svo hófumst við frændurnir handa við skáldskapinn. Þá fórum við innum dyr númer tvö og til hægri upp á loftið.

Ófriðaralda er nú mikil í heiminum. Stórveldin hvæsa hvert á annað og ógnin af kjarnorkustyrjöld hefur aldrei verið nær.

Ingvar frændi var oft búinn að tala um það við mig að ef kenningar dr. Helga Pjeturss yrðu ekki útbreiddar um alla jörðina fyrir aldamótin 2000 myndi fara illa og helstefnan sigra endanlega, með styrjaldarátökum og drepsóttum og allskyns óáran. Mér virðist það hafa gengið eftir.

Eitt af því sem mér finnst leitt að hafa ekki gert um ævina er að ég hef ekki ferðazt mikið um landið, eða lært örnefni eins og Ingvar frændi. Hann átti líka auðvelt með að kynnast fólki og spyrja um landslagið, hvort fólk þekkti ný eða gömul örnefni og sögurnar á bakvið þau. Þannig gat hann byrjað samræður.

Unglingar í dag sem eiga kannski ömmur og afa á lífi ættu að spyrja um þetta og það er skemmtilegt. Þetta er eitt það þjóðlegasta sem hægt er að ímynda sér, að fræðast um hvað fjöllin heita, dalirnir, bæirnir, holtin og hæðirnar, drangarnir, kvosirnar, dysjarnar, og allt hitt.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 545
  • Frá upphafi: 126708

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 420
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband