Góðar fréttir að Jón Gunnarsson verði aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, og talið að það tengist því að Sjálfstæðisflokkurinn nái aftur vopnum sínum og ógildi verk Svandísar Svavarsdóttur sem fara helzt gegn grunngildunum

Mér finnst þessi frétt breyta öllu um endurreisn Sjálfstæðisflokksins. Nú get ég kannski tekið undir það að Bjarni Benediktsson sé trúverðugur í að reisa við fylgi flokksins. Þetta er þó aðeins eitt skref af mörgum.

Ef skoðuð er stjórnsýsla Svandísar Svavarsdóttur, þá er það mín skoðun að hún hafi til að bera hæfileika sem stjórnmálakona, því hún kom firna mörgu í gegn sem er andstætt stefnu Sjálfstæðisflokksins en í anda stefnu kommúnista, Vinstri grænna.

Þegar lögin hennar voru samþykkt um rýmra leyfi til fóstureyðinga, þá var það gert á miðju kjörtímabilinu og í skjóli þeirrar fullvissu að Sjálfstæðismenn væru hræddir um að hótun um stjórnarslit lægju þar til grundvallar, og að þeir yrðu að gefa þetta mál eftir til að koma sínum málum í gegn. Slíkt var stjórnkænska af Svandísi, að koma með mjög erfitt, stórt og umdeilt mál í gegnum þingið á hápunkti fyrra kjörtímabilsins, þegar allir máttu vita að þetta var þvingunaraðgerð af hennar hálfu, af sama tagi og er leyfileg í stjórnmálum, hrossakaup, að láta eitthvað af hendi fyrir eitthvað annað.

Atkvæðagreiðslan um þetta þungavigtarmálefni sem klauf flokkana án þess að úr yrðu stjórnarslit árið 2019 hún var merkileg og söguleg fyrir margra hluta sakir.  Auðvitað klauf þetta mál flokkana, því allir vissu að gremjan svoleiðis sauð í sjálfstæðismönnum að það hálfa hefði verið nóg.

Venjulegir flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum greiddu atkvæði með frumvarpi hennar, en Bjarni sjálfur, formaðurinn á móti. Það taldi Svandís bera vott um almenna samstöðu, en öllu heldur er miklu réttara að segja þannig gerast kaupinn á Eyrinni þegar hrossakaupin eru uppá sitt bezta og ljótasta!

Bjarni sýndi þarna þann styrk sem hann sýndi núna nýlega þegar hann sprengdi stjórnina. Hann sýndi þessa einstöku forystuhæfileika sem gætu nýzt honum vel til að endurbyggja og endurskipuleggja flokkinn, ef vel gengur í kosningunum í lok nóvember.

Bjarni vissi það að þetta myndi ekki sprengja stjórnina 2019, heldur sýndi þetta að hann lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Aðrir vildu ekki rugga bátnum og kusu því með, og gegn sannfæringu sinni kannski flestir.

Stjórnkænska Svandísar fólst í að hafa kjark til að vinna málið vel og að hafa vissu fyrir því að hvorki framsóknarmenn né sjálfstæðismenn myndu þora að fella þetta á þessum tímapunkti, þegar þeir vildu halda saman stjórninni, þótt í raun væri þetta gegn þeirra sannfæringu.

Ákvarðanir hennar í hvalveiðimálinu hafa verið kenndar við allt annað en stjórnkænsku, bæði klaufaskap og að hafa ekki hugsað það neitt til enda, heldur vonað að hlutirnir myndu reddast, sem varla er hægt að kalla að hafi gerzt.

Með því að fá Jón Gunnarsson sem aðstoðarmann er Bjarni Benediktsson að reyna að smala aftur hjörðinni saman, og smala saman íhaldsfylginu. Hann veit þó sennilega að fólk sem telur sig hafa fengið rýting í bakið á erfitt með að treysta þeim sem telja hafa framkvæmt slíkt.

Mér lízt ljómandi vel á þetta. Þótt ég sé umhverfisverndarsinni tel ég hvalveiðimálin föst í móðursýki Hollywoodkvikmynda og kreddukommúnisma fyrri áratuga, og nú síðast er það að frétta utan af heimi að Paul Watson gæti orðið framseldur til Japans þar sem dómur bíður hans. Grænfriðungar eru uggandi, því það setur blett á mannorð þeirra, og rétt eins og Metoomálin, þá snúast umhverfismál og flest önnur mál í pólitík núorðið um ímyndarstjórnmál, ekki sannleika eða réttlæti, nema það sé til að efla dyggðaflöggun og fá auknar vinsældir kjósenda.

Sumir halda kannski að þetta snúist bara um hvalveiðar, en það er alrangt. Þetta snýst um ímynd Sjálfstæðisflokksins, hvort hann er barinn rakki eða húsbóndi á heimilinu, sem er Ísland allt.

Ég skil nú hvílík snilld það var af Bjarna að rjúfa þingið. Hann hafði eitthvað í huga sem nú er að koma í ljós. Og kannski voru skýringar Þórdísar Kolbrúnar réttar að einhverju leyti, að ekki hafi það verið ætlunin að koma þessum ágætu mönnum úr flokknum, Jóni Gunnarssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Birgi Þórarinssyni og Brynjari Níelssyni. Kannski eru þau farin að sjá að þau njóta krafta og hæfileika þessara manna.

Stjórnmál snúast um vald á endanum, þau snúast um að hrinda stefnunni í framkvæmd, og þannig að endanlegar og verulegar breytingar verði á samfélaginu sem ekki ganga til baka.

Bæði hafa Vinstri grænir og Sjálfstæðismenn upplifað það í Katrínarstjórninni að hrossakaupin hafi verið afleikur, þótt sitthvað hafi fengizt hafi meira tapazt.

Flokkar stækka þegar sannfæringargrundvöllurinn á bakvið þá eflist og verkin tala sínu máli sem liggja eftir pólitíkusana, og ef sá vitnisburður er ekki of umdeildur. Sá sannfæringargrundvöllur eflist þegar fram koma leiðtogar sem með hæfileikum ná stjórn á atburðarásinni.

Ég keypti bók á nytjamarkaði fyrir nokkrum dögum, vegna þess að ég þekkti höfund hennar, E.J. Stardal. Bókin heitir "Byssur og skotfimi" og kom út á vegum bókaútgáfu Guðjóns Ó. 1969, árið áður en ég fæddist.

Auðvitað var Egill mér fyrirmynd, eins og Ingvar bróðir hans afa og fleiri góðir menn. En af því að þessi bók fjallar um málefni sem hafa fallið í skuggann hin síðari ár á Íslandi vegna mikilla áhrifa kommúnista, femínista og slíkra, þá finnst mér rétt að fjalla um hana í þessum pistli sem fjallar um svipuð mál.

Egill Stardal var höfðingi heim að sækja, og einn af þessum mönnum sem í minni barnæsku voru glæsimenni og fjölfróðir, og hann var eins og Ingvar Agnarsson bróðir hans afa, rithöfundur og með fjölbreytta hæfileika, fróður um svo margt, og maður hlustaði af andakt þegar hann talaði, en barnæskan geymir svona minningar sem móta persónleikann hjá manni, þótt maður hafi ekki þekkt hann nema sem fjarlægan mann í föðurfjölskyldunni, en áberandi samt, með sterkan persónuleika.

Sjálfstæðisflokkurinn var breiðfylking og stærsti flokkur landsins þegar svona menn blómstruðu. Sjálfstæðisflokkurinn verður að mínu mati aldrei aftur stærsti flokkur landsins, nema hann endurreisi þessa gömlu og góðu tíma, hvorki meira né minna.

Gárungarnir segja að með þessu sé Sjálfstæðisflokkurinn einsmálsflokkur, Hvalveiðiflokkurinn!

Nei, það er auðvitað einföldun. Rétt eins og fóstureyðingamálið hennar Svandísar ruddi brautina fyrir áhrifum Vinstri grænna og yfirgangi þeirra, þannig er þetta hvalveiðimál að opna á þann möguleika að almennt styrkist sjálfstæðisstefnan og það er nú svo margt sem fylgir henni.

 


mbl.is Jón Gunnarsson kominn í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.10.): 15
  • Sl. sólarhring: 137
  • Sl. viku: 827
  • Frá upphafi: 124226

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 639
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband